laugardagur, desember 31, 2005

Elskulegu vinir,

bloggvinir og vandamenn. Megið þið blómstra á nýju ári og finna það sem hjartað leitar. Þakka ykkur öllum fyrir hlýjar kveðjur og stuðning á erfiðum tímum.

Á morgun nýtt ár, nýtt líf. Það líf mun ég hefja alein í kotinu mínu, sem sagt í góðum félagsskap;) Ætla að efla mitt nýfengna og dýrkeypta sjálfstæði. Kannski ég reyni að festa upp nokkra snaga...bora í vegg, sparsla og mála, næg eru verkefnin.

Efinn sem nagað hefur mig undanfarið er að víkja burt. Yndislegi táningurinn minn með skakka húmorinn sagði við mömmu sína, sem hann sá að var eitthvað rislág í gær: Mamma, þú ert búin að vera svo rosalega dugleg. Vertu bara stolt!

Og það er ég.

föstudagur, desember 30, 2005

Efi.

Efast um allt núna. Hugsa óvenju mikið um framtíðina, hef áhyggjur. Ekki mér líkt. Hugarástandið minnir á lag Stuðmanna, "vill einhver elska 49 ára gamlan mann, sem er fráskilinn og safnar þjóðbúningadúkkum". Hvar er þessi maður í dag? Fann hann ástina? Vill hann kannski elska mig?

Ég spyr út í loftið. Full af efa. Ætla að semja lag um efann. Efast um að það verði gott.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Áramótaheit

1. Efla æðruleysið
2. Hætta að æpa á annað fólk í umferðinni
3. Reyna að vera þolinmóð
4. Bölva minna (þetta heit er í áskrift hjá mér um hver áramót)
5. Hætta að ergja mig yfir smámunum
6. Læra eitthvað nýtt, t.d. ítölsku eða á skíði (ef ég finn góða kennara)

Er ekki komin lengra, get kannski fengið ábendingar um fleiri?

þriðjudagur, desember 27, 2005

Lífsgleði

Á einu jólakortinu sem ég fékk stóð einfaldlega: Nýtt ár, nýtt líf.

Er að spá í áramótaheitin. Ætla að rækta með mér æðruleysi, jafnvel leti (ég er víst svo ofvirk), þakklæti og kjark. Af lífsgleði á ég nóg.

Í dag er ég að næra letipúkann - gef honum nóg að éta og svo fær hann mikla hvíld. Og ég reyni að horfa framhjá öllum verkefnunum og bara svífa um í fullkomnu iðjuleysi. Skrítið en dásamlegt.

mánudagur, desember 26, 2005

Gjafir eru okkur gefnar.

Í jólagjöf fékk ég:

- geggjað flotta ljósaseríu
- kaffi
- vekjaraklukku
- ljóðabók
- gullkross
- lítinn rauðan fugl
- sokka með bimbólegri ljóskumynd og þessari áletrun "single and loving it" (frá táningnum sem virðist hafa erft skakkan húmor mömmu sinnar)
- eldhúsklukku
- vandaða bók um jólin (sem Hjalti bjó til sjálfur)

Besta gjöfin var samt yndislegt aðfangadagskvöld með börnunum og mínum ágæta fyrrverandi. Við spiluðum fjárhættuspil frameftir kvöldi - veit að amma mín hefði ekki verið ánægð með það, því á jólum mátti hvorki spila né dansa. Enda er ég með smá samviskubit - en ég sleppti því þó að dansa.

Í gær jólaboð hjá mömmu og pabba og allri fjölskyldunni - átum hangiket og svo mikið nammi að mig svimar við tilhugsunina.

Í dag var Pétur með börnin og ég brá mér austur fyrir fjall og var í besta yfirlæti hjá vinum mínum Ara og Rúnu, þau eru höfðingjar og heiðurshjón. Þetta spakmæli minnir mig á þau:

True friends are those who really know you but love you anyway (Edna Buchanan)

Það er svo gott að borða og gaman að vera til.

föstudagur, desember 23, 2005

Gleðileg jól,


elsku vinir og vandamenn nær og fjær. Hjartans þökk fyrir allt gamalt og gott.

Beta og börnin

fimmtudagur, desember 22, 2005

Naglalakk og læknistær.

Í morgunkaffinu kom samstarfskona mín með naglalakk, hún hafði lakkað á sér neglurnar á heimleið í gær í strætó og þar sem niðamyrkur var og hristingur í vagninum hafði henni ekki tekist upp sem skyldi.

Þegar hún var búin að lakka á sér neglurnar í morgun rétti hún mér glasið og ég sagði bara já, takk, og lakkaði mínar neglur. Bleikar. Lekkert. Svo rétti ég konunni við hliðina á mér, ágætum sálfræðingi, naglalakkið og hún málaði sínar neglur líka.

Svo gekk naglalakkið til næsta manns, sem var læknir - dáldið frjálslega vaxinn og hress karl á besta aldri. Hann tók við glasinu, snaraði sér úr öðrum sokknum (lagði hann ofaná kaffibolla kollega síns), vippaði loðnum fætinum upp á borð með dynk og byrjaði að lakka á sér risavaxnar táneglurnar. Bleikar.

Spurður hvað konan hans myndi nú segja við þessu í kvöld játaði hann að hafa meiri áhyggjur af því hvað karlarnir í ræktinni héldu um hann í sturtu.

Að kunna að lesa.

Hafið þið tekið eftir því hvernig sumt fólk er alltaf tilbúið að mistúlka og misskilja allt? Það beinlínis hoppar á að leggja texta út á versta veg og lesa heilu kaflana á milli línanna. Þekki konu sem var næstum rekin úr vinnu fyrir "tóninn" í tölvupósti sem hún sendi yfirmanni sínum. Efnislega var ekkert athugavert við bréfið - kallinn var bara ofurviðkvæmur, eða í vondu skapi, eða nýbúinn að rífast við konuna sína, eða hvað veit ég.

Mál er vandmeðfarið. Sérstaklega ritmál. Hin íslenska tunga á það til að ulla á mann og annan á prenti - án samráðs við þann sem textann semur.

Bræður og systur - munið að hugsa áður en þið ætlið bréfriturum og öðrum textasmiðum illar hugsanir og fyrirætlanir. Passið ykkur á paranojunni.

Legg ekki meira á ykkur.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Ég er vín.

wine
You taste like wine. You have a bittersweet
sophistication. Your fine sensibilities and
delicate flavors intoxicate those around you.


How do you taste?
brought to you by Quizilla

mánudagur, desember 19, 2005

Gullskór.

Ég á gullskó. Keypti þá í Glamúr. Ég er glamúrgella í gullskóm.

Keypti mér líka kjól á þúsund kall hjá Rauðakrossinum. Ýkt flottan.

Nú vantar mig bara að komast á ball.

sunnudagur, desember 18, 2005

Eivör Pálsdóttir...

er ekki jarðnesk. Hún er guðdómleg á sviði - maður bara starir opinmynntur og bíður spenntur eftir hverjum tóni sem frá henni hljómar. Áfram Færeyjar!

Ég er ekki frá því að örlítið jólaskap hafi lætt sér inn í vitund mína á frábærum tónleikum með Langholtskirkjukórnum í kvöld.

laugardagur, desember 17, 2005

Í jólagjöf...

langar mig í svona risastóra kló sem nuddar á manni hausinn. Sá hana auglýsta í einhverju blaði undir slagorðinu: hátíð nudds og friðar.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Á leiðinni heim...

úr vinnunni, í Ártúnsbrekkunni, tók ég allt í einu eftir öllum ljósunum. Öðrum megin hvít perlufesti og hinum megin rauð - endalausar raðir iðandi ljósa. Og öll þessi hús, upplýst. Fór að hugsa um fólkið í húsunum og bílunum. Allir svo uppteknir af sjálfum sér og eigin vandamálum. Eins og ég. Hversdagslífið gleypir mann, svei mér þá, og spýtir manni svo beint í kistuna. Búmm. Og maður hamast alla leið. Mér finnst ég stundum lifa á ósköp litlu svæði, næstum eins og Randi dverghamstur (sem þið þekkið öll og elskið). Hann býr í litlu búri með bláum botni, þar er skál með vatni, önnur með mat, sag á gólfi, lítið svefnhús og hjól til að hlaupa í. Auk þess er heimur Randa gul plastkúla. Þar hleypur hann um eins og vitleysingur og er nú óðum að kynnast nýja heimilinu, aðallega með því að reka sig á. Svoleiðis lærir maður (hamstur) auðvitað best.

mánudagur, desember 12, 2005

Spennufall...

er yfirvofandi. Og rafvirkinn getur ekki mætt fyrr en eftir áramót. Hvað gerir maður við upphlaðið stress, brjálaðar tilfinningar, bilaða álagsvinnu og nokkrar afgangs spýtur? Reyndar búin leysa spýtnavandamálið, búin að koma þeim flestum í fóstur á góð heimili - en get ég lokað augunum fyrir því að síðustu spýturnar sem ég lét frá mér fóru austur fyrir fjall þar sem þeirra bíður svangur arinn? Nei, ég held ekki.

Vorum áðan í móttöku á vegum menntamálaráðherra í Þjóðmenningarhúsi. Flott hús og prýðileg athöfn þar sem mönnum mæltist vel. Þetta var síðbúin heiðrun skáksveitar Laugalækjarskóla, en þeir urðu Norðurlandameistarar í haust. Var bara sallafínt. Matti stendur nú frammi fyrir snúnu vandamáli: á hvoru heimilinu skal geyma allar medalíurnar og bikarana? Það getur verið flókið að eiga tvö heimili, en þetta glíma börnin mín við í dag. Þau munu leysa það mál með glans, enda er þeim ekki fisjað saman. Litlu hetjurnar mínar.

laugardagur, desember 10, 2005

Og klarínettan, klarínettan...

syngur dúa dúa dúa dátt og glatt. Sungum við saman í gamla daga Rúna vinkona og tónelsku systurnar hennar. Við vorum flottar en af einhverjum ástæðum fékk ég alltaf sama hlutverkið (sungið allt á sama tóninum)

og hornið blæs og hvílir sig og hornið blæs og hvílir sig...

Ásta mín brilleraði á tónleikunum í gær. Ég var að rifna úr stolti. Hef reyndar alla tíð verið stolt af stúlkunni, enda er hún einstök mannvera. Ég hef mýmarga galla (t.d. er ég geimvera) en hún hefur bara einn galla.

Mér leið pínulítið eins og gaurnum í Lottó auglýsingunni í gærkvöld þegar ég kom heim af tónleikunum. Þá fékk ég mér hvítvínsglas og afgang af humarrétti sem ég hafði keypt í Fylgifiskum fyrr um daginn. Ef satt skal segja varð ég harkalega og akút leið á útrunnum Campbells súpum, en á þeim hefi ég lifað síðan ég flutti - keypti dobíu af þeim fyrir 39 krónur dósina. Sem betur fer á ég bara eina eftir. Tómatsúpu.

föstudagur, desember 09, 2005

Bráðum...

koma blessuð jólin, en ég ætla sko ekki að tala um það.

Bráðum verður allt eins og hjá fólki heima hjá mér. Smiðirnir tóku saman tólin sín seint í gærkvöldi og hreinlega yfirgáfu mig. Fóru bara. Skildu eftir sig sag-sjó á gólfi og óteljandi spýtur af öllum stærðum og gerðum. Hvað á ég að gera við allar þessar spýtur? Ætlaði að stinga einhverjum í geymsluna, en brá í brún þegar þangað kom. Í geymslunni minni er nebbla risavaxin sláttuvél og mýgrútur garðáhalda (íbúar hússins nota geymsluna mína þannig - það er hefð fyrir því). Að auki streymdi þar úr lofti foss einn mikill og kröftugur, enda hefur rignt ótæpilega undanfarið. Innanhússfoss. Vatnsfall þetta túlkaði ég - spýtnaeigandinn - sem óheilsusamlegt kompaní fyrir viðinn. Og þó. Vatn plús spýtur. Kannski ég smíði mér örk.

Fór í Sorpu með bílinn svo úttroðinn að ég hefði ekki komið einum tannstöngli inn í viðbót, var vigtuð inn og vigtuð út (þ.e. tojan og ég) - og fyrir mismun þyngdarinnar, 110 kg, greiddi ég rúmar 1000 krónur. Merkilegt sistem. Datt í hug að hægt væri að brúka viðlíka kerfi á veitingastöðum, þar sem maður væri vigtaður inn og út og greiddi ákveðið kílóverð fyrir mismuninn. Þá mundi gilda að fara á klósettið áður en maður væri vigtaður út. Að sjálfsögðu.

Er að fara á tónleika í kvöld þar sem dóttir mín firnafagra ætlar að spila á klarinettið sitt - hlakka óskaplega mikið til að hlýða á góða tónlist. Fátt skemmtilegra en það.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Uppáhalds setningin mín...

er:

ÞETTA REDDAST

Næst vinsælust:

ÞETTA LAGAST


Legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, desember 05, 2005

Testing, testing, one-two-three

Síðan síðast er ég búin að:

- garga af óþolinmæði yfir Ikea gardínum, oft
- drekka einn bjór, bora í vegg og hengja upp snaga (í þessari röð og já, snaginn er skakkur)
- taka kringlótt aldargamalt borð úr íbenholti í fóstur
- ákveða að ég ætla aldrei (eða næstum örugglega aldrei) aftur í sambúð með karlmanni
- næstum bræða úr bílnum
- sjá að fyrrverandi var ofsa duglegur að gera allt sem ég nennti ekki að gera, t.d. lesa leiðbeiningar, gera við hluti, hugsa um fjármálin og skilja allt tæknilegt á heimilinu

sunnudagur, desember 04, 2005

Ótímabær andlátsfregn.

Ofnasagan heldur áfram. Á föstudaginn ræddi ég við tjónamann hjá VÍS. Hann benti mér á að tala við pípara sem byggi í næsta húsi við mig, "hann er fínn og vinnur stundum fyrir okkur". Tjónamaðurinn sagði að ég gæti hringt í þennan pípara hvenær sem er. Gott og vel, ég hringdi í manninn og fann strax að þetta var óvenjulegur karakter, hann vildi t.d. miklu frekar ræða við mig um heilsufar fyrri íbúa hússins en ástand ofnsins míns. Einnig virtist hann nokkuð vel að sér um ættfræði.

Píparinn mætti á tilsettum tíma og var við aldur, eins og mig grunaði. Hann var með mikið og úfið hár, þungur á brún, talaði með grófum róm og var eins líkur sjóræningja og nokkur maður getur verið án páfagauks á öxl. Hann dragnaðist draghaltur upp tröppurnar og stóð svo á stofugólfinu mínu og mændi ástúðlega á ofninn.
Því næst kom löng ræða um hvað svona ofnar væru nú góðir og entust í 200 ár, en væru þó ótrúlega viðkvæmir - ef menn ýttu t.d. við þeim þegar þeir væru að leggja parket (blimskakkaði augum reiðilega á smiðina mína sem stóðu hnípnir hjá).

Síðan lýsti hann ofninn minn látinn. Og löngum og flóknum aðgerðum til að fyrst soga vatnið af ofninum (með sérstakri sugu) og síðan losa mig við líkið (sem hann sagði a.m.k. 150 kg) og svo redda mér nýjum ofni (þeir eru örugglega ekki til) og svo pípara til að tengja ofninn (vonlaust). Aðgerðir Forn-Egypta við að varðveita lík og bygging píramídanna – leikur einn miðað við það að losa sig við þennan ofn og fá nýjan. Píparinn bauðst ekki til að aðstoða við eitt eða neitt. Kom því að fimm sinnum að vera ekkert að blanda tryggingunum inní þetta, sjálfsábyrgðin væri svo há - "það borgar sig ekkert fyrir þig".

"Athyglisverður nágranni" hugsaði ég með mér þegar sjóræninginn/píparinn skakklappaðist niður tröppurnar tautandi, "það borgar sig ekkert að vera að flækja Þeim í þetta".

En...smiðirnir mínir knáu hafa ráð undir rifi hverju. Þeir kölluðu til aðra pípara sem kíktu á ofninn minn. Þeirra lausn var önnur. Láta renna á fullu í ofninn, kynda hann í botn og sjá til hvort lekinn (sem var örlítill) lagaðist af sjálfu sér. Þetta erum við nú að prófa og það hefur ekki komið dropi úr ofninum. 7,9,13.

Nú bíð ég spennt og vona að ofninn haldi í sér í 100 ár í viðbót.

föstudagur, desember 02, 2005

Heimurinn...

er kominn heim til mín. Loksins er nettengingin í höfn.


Smiðirnir mættir, pípari og rafvirki á leiðinni. Iðnaðarmenn eru mínir menn. Alveg til sóma.

AAAARRRRRGGGG!

Gamli virðulegi ofninn minn í stofunni undir unaðsfagra glugganum tók upp á því að LEKA í gærkvöld. Eftir að smiðirnir höfðu verið tvö kvöld að smíða snilldarlegt stykki undir hann, sem er eins og risa greiða í laginu. Nú fer ég endanlega á hausinn. Er reyndar að verða undarlega kærulaus í fjármálum, er á kúpunni hvort sem er. Var það ekki einmitt Joplin sem sagði:

Freedom´s just another word for nothing left to loose.

Þarna eru fjármál mín í hnotskurn. En gallinn er bara sá að maður getur haldið áfram að tapa þótt maður eigi ekki neitt - maður tekur bara nýtt lán. Jibbí, sniðugt á Íslandi.

Ein vinkona mín benti mér um daginn á að venja komur mínar í heita pottinn og reyna að næla mér í aldraðan og ríkan mann þar (veit ekki af hverju hún heldur að þeir séu þar í bunkum). Ég hló hátt að þessari hugmynd þá, en núna...hmmm....

fimmtudagur, desember 01, 2005

Viska dagsins.

Stundum er betra að athuga málið í staðinn fyrir að gera ráð fyrir að hlutirnir séu eins og þú heldur að þeir séu.

Fáir, ef nokkrir, gátu orðað þetta betur en Bertrand Russell:

Aristotle maintained that women have fewer teeth than men; although he was twice married, it never occurred to him to verify this statement by examining his wives´ mouths.

þriðjudagur, nóvember 29, 2005

Fékk áðan að gjöf...

fallegasta blómapott sem ég hef augum litið. Þennan gamla pott færði Ingibjörg vinnufélagi minn mér, en potturinn ku vera úr búi foreldra hennar. Á pottinum eru tveir svanir og gylltar krúsíndúllur í kring - svo ótrúlega rómantískt að maður kemst í upphafið ástand, svei mér þá. Vinnufélagar mínir hafa heldur betur komið sterkir inn, eins og það heitir á íþróttamáli, í því veseni og vandræðagangi sem yfir mig dynur þessa dagana. Ég hef fengið marga góða hluti í búið og haft aðgang að bæði eyrum sem hlusta og öxlum sem taka við saltri vætu. Góð ráð hef ég fengið í bunkum.

Vona að ég sé ekki of væmin (æ, mér er annars skítsama), en ég er hreinlega klökk yfir því að eiga svona góða vini og fjölskyldu. Þegar maður er í basli þá finnur maður sterkt fyrir því hverjir standa með manni. Takk elskurnar mínar:)

Ég er búin að ákveða að halda "sjálfstæðisfagnað" í nýju íbúðinni þegar allt er orðið fínt - þá býð ég öllum sem hafa stutt mig með ráðum og dáð. Ég hlakka óskaplega mikið til:)

mánudagur, nóvember 28, 2005

Ótrúlega...

viðburðarík helgi. Allt að koma í framkvæmdum og ég var umkringd smiðum, vinum og ættingjum alla helgina. Hafði góða hjálp í mýmörgum verkefnum og yndislegar vinkonur mínar hlustuðu á mig röfla um málefni hjartans - það er mikið á þær lagt.

Mamma mín, sem var í liðskiptaaðgerð á mjöðm fyrir stuttu, hökti meira að segja á hækjunum upp allar þessar tröppur í heimsókn. Hún ber sig vel hún móðir mín, og er kona sem getur allt. Fyrsta fjallið sem hún gekk á var Esjan, en mamma var þá sextug og hafði einsett sér að ganga á Esjuna "í afmælisgjöf". Upp á topp komst hún, á helberri þrjóskunni. Hefur reyndar ekki gengið á fjall síðan. Gerir það væntanlega þegar hún verður sjötug...

Íbúðin mín er full af lífi - strákarnir eru hjá mér þessa viku. Ég held ég komi til með að ofdekra þá - ég er svo glöð að hafa þá. Verð að passa mig og læra á nýja lífið...

föstudagur, nóvember 25, 2005

Í dag...

líður mér ekki sem best. Veit þó að það kemur dagur eftir þennan dag. Veit að ég á eftir að rétta úr kútnum. Veit að ég á eftir að blómstra í mínu nýja lífi.

En ég er orðin þreytt á gegndarlausri vinnu, ferðum í Húsasmiðjuna, sparsli, því að berjast við eldgamalt dúkalím og tilfinningar sem ég ræð ekki við. Þreytt á að bresta í grát af minnsta tilefni.

En...ég hef líka svo margt að hlakka til. Lífið er fallegt.

Svo ein tilvitnun í mann sem vissi lengra nefi sínu:

To fear love is to fear life, and those who fear life are already three parts dead.
Bertrand Russell (1872-1970).

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Ég sakna...

barnanna minna alveg óskaplega. Sakna hávaðans, rifrildanna, nöldursins, hlátraskallanna; sakna þess að hlýða Hjalta yfir ljóð, sakna hröðu klarinettskalanna og píanóspils. Sakna langra símtala seint á kvöldin um skák milli Matta og Torfa liðsstjóra. Sakna braksins sem fylgir eilífu snakk- og poppáti strákanna minna með sjónvarpsglápinu. Sakna óhreinna sokka djúpt oní sófa og undir borði í mylsnu og ló. Sakna frásagna barnanna af afrekum dagsins. Sakna stóru knúsanna hans Hjalta míns. Sakna þess að reka strákana í bað. Sakna panik-kasta yfir týndum sundskýlum í argabítið.

Ég hlakka til að sjá krílin mín aftur og fá að ragast í þeim í heila viku.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Iðnaðarmenn..

í blíðu og stríðu. Smiðir og rafvirkjar. Sem spurðu mig ósköp pent um daginn: þekkir þú ekki einhvern málara? Ég var nebbla að sparsla og mála og lenti í smá slag við svona akrílkíttí-útkreisti-græju, sem var með attitjúdd. Það endaði með hvítu blóðbaði - klístur útumallt, sérstaklega á minni persónu (og minnst fór í kverkina þar sem það átti að lenda).

Svo tókst mér að sauma utan um tvo púða, en ekki áfallalaust. Ég og saumavélar dönsum ekki í takt. Voðalega virðist ég hafa lítið verksvit.

Hæfileikar mínir liggja á öðrum sviðum.

laugardagur, nóvember 19, 2005

Brjálæði...

að rífa dúk og teppi og mála og sparsla og henda 10 tonnum í Sorpu (sem sýnir vanþakklæti sitt með því að rukka mann, þegar maður kemur færandi hendi).

Ég á bestu bræður í heimi - og litli bróðir minn er ótrúlegur vinnuþjarkur. Hann reif dúkinn og teppið af eins og það væri smjörpappír. Og stóri bróðir var öflugur í Sorpuferðum.

Já, og nú er ég í mat hjá mínum fyrrverandi.

Það er svo gott fólk í kringum mig. Undravert er það nú.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Í borðstofu minni...

og stofu kúrir línóleum dúkur undir hlýju og blettóttu gólfteppi. Hann er búinn að vera þarna mun lengur en ég, eða u.þ.b. hálfa öld, og er ekkert á því að yfirgefa svæðið. Þessu komst ég að í gærkvöldi, þegar ég reif og togaði og bisaði og másaði og blés. Hálfrar aldar gamalt dúkalím er líka soldið spes. Við Rúna vinkona, sem er best í heimi, helltum vatni yfir grásvart límið og þá losnaði það upp með umtalsverðri ólykt. Við mokuðum því svo í marga ruslapoka og restin fór upp í nefið á mér og er þar enn. Snýti svörtu örugglega í nokkra mánuði.

Ó, það er svo gaman að eiga íbúð. It´s mine, my own, my precious....

Auk þess legg ég til að ég vinni í happdrætti bráðum, ella mun ég enda í rólegri vist á Kvíabryggju - eða mega konur kannski ekki fara þangað í afplánun? Afplánun hljómar reyndar ekki sem verst, soldið eins og hvíld. Hvað er þá plánun?

mánudagur, nóvember 14, 2005

Helgin.

Ætla að leyfa ykkur að njóta nokkurra atburða helgarinnar með mér:

- fékk magnþrungið stresskast yfir notuðu borði sem ég ætlaði að kaupa en missti af vegna þess að hraðbankinn neitaði að láta mig fá peninga
- það var keyrt aftan á mig á bílastæði (á meðan ég var í stresskastinu), bílstjórinn andaði "fyrirgefðu" á mig með brennivínslykt og stakk svo af
- ráðleggingasúpa um framkvæmdir á nýja heimilinu frá elskulegum vinum mínum fyllti hausinn á mér af steinull
- samsetning Ikea húsgagna er ERFIÐ
- fótbrotinn vinur minn setti upp reykskynjara fyrir mig
- þunnur bróðir minn skrúfaði nýja sturtu á sinn stað
- ég bar 10 tonn af smíðaefni og parketi og bætti 35 marblettum í safnið, líkami minn er litfagurt listaverk
- Rúna og Pétur hjálpuðu mér að bera parketið og þessir fyrrum sambýlingar mínir eru hetjur og hreystimenni
- kom í ljós að ég þarf að rífa aldargamlan dúk af gólfum og skafa gamalt lím áður en parketið verður lagt
- ég er búin að fá uppí kok af ferðum í Húsasmiðjuna
- dregngirnir mínir fluttu inn á laugardaginn og sváfu eins og englar
- ég á bestu vini í heimi

föstudagur, nóvember 11, 2005

Ólykt úr vaski...

böggar mig í nýju íbúðinni. Hringdi í nokkra pípara og fékk þær upplýsingar að þeir hefðu of mikið að gera til að sinna svona ómerkilegu vandamáli. Einn hjálplegur ritari sagði mér að láta renna lengi í vaskinn og kaupa mér svo lyktareyðandi efni. Vera ekki að þessu væli. Hvað er ég líka að kvarta yfir smotteríi eins og holræsalykt?

Annars er allt að fara á fullt í framkvæmdum. Búin að kaupa parket, grindarefni, reknagla, þiljugrip, tréskrúfur o.fl. óskiljanlegar smíðavörur. Er gul, blá og marin eftir að burðast með dót inn í íbúðina. Held ég sé að breytast í kellingu sem spýtir í lófa, glottir við tönn og bölvar eins og sjóræningi. Og borar í vegg. Hei, annars, ég hef alltaf verið solleis.

En ég á samt ennþá eftir að læra á dvd spilarann.

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Kæru lesendur,

nær og fjær. Ég er enn á lífi. Flutti inn á nýja heimilið á laugardaginn og þar er undursamlegt að vera. Búin að vera á kafi í að bera veraldlegar eigur mínar upp margar tröppur og held ég hafi grennst um nokkur kíló við öll þessi hlaup, en líka bætt á mig massa upphandleggsvöðvum. Svo er ég búin að kaupa mér alls kyns heimilistæki og húsgögn. Og bera þau. Upp tröppurnar. Hefði sennilega verið sniðugra að fá sér íbúð á fyrstu hæð...nei, auðvitað ekki. Íbúðin mín er best í heimi.

Mig vantar tölvu og nettengingu í nýju íbúðina. Er að vinna í því, en þetta þýðir auðvitað að bloggstundir mínar eru voða fáar um þessar mundir. Á einhver tölvu til að selja mér á spottprís?

Legg ekki meira á ykkur að sinni.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Hrekkjusvín.

Hún dóttir mín er hreinræktað hrekkjusvín. Allt þetta tungumálaflakk á bloggernum - hann hefur talað japönsku, ítölsku, frönsku, spænsku, kóreösku o.fl. - ER HENNI AÐ KENNA! Hún er búin að vera að dunda sér við að breyta viðmóti bloggersins svo vikum skiptir og skemmta sér yfir því þegar við aldraðir foreldrar hennar kvörtum yfir þessum óstöðugleika (sem við héldum að færi eftir órannsakanlegum vegum í rafeindaheimi). Ég er mjög sár. Og svo er mér líka skemmt yfir því hvað hún getur verið mikið kvikindi. Blessuð stúlkan. Lík mömmu sinni? Nei, varla.

þriðjudagur, nóvember 01, 2005

Ég dansa tangó...

og ræl og jafnvel kósínus-sínus dansinn í dag. Var að eignast íbúð á frábærum stað í bænum. Stórkostleg tilfinning og nú er ég alveg að verða mín eigin kona. Jibbí!!!! Búin að redda mér láni sem ég klára að borga 85 ára gömul og ég lofa ykkur því að daginn sem ég greiði síðustu afborgunina dansa ég villtan dans til minningar um stundina þegar ég eignaðist mína eigin íbúð (þótt það verði bara línudans).

Já, og bloggerinn minn talar kóreösku í dag.

sunnudagur, október 30, 2005

Ásta...

dóttir mín er útsjónarsöm og snjöll. Hún fann þýðingarforrit á netinu, sem þýðir ýmis mál yfir á íslensku. Ég prófaði forritið og það svínvirkar, samanber:

Today is frostiness river Fróni
frýs into æðum blood
regards coolly
Kári into giant
over laxalóni
liggur í augum uppi gobble
hlær accustom blizzard
hammer

Það fer ekki framhjá glöggum lesendum að hér er á ferð fyrsta erindið í Þorraþrælnum. Þetta forrit er bara snilld. Og fyrst ég er farin að tala um tungumál, þá langar mig að deila með ykkur þessu: bloggerinn minn talar frönsku í dag. Enregistrer en mode Broullion. Publier le message. Legg ekki meira á ykkur að sinni elskurnar.

föstudagur, október 28, 2005

Ég er alveg...

að verða fullorðin. Var að bjóða í íbúð í fyrsta sinn á ævinni (þ.e. ég ein og óstudd). Seljandinn tók reyndar ekki tilboðinu, en ég á von á gagntilboði síðdegis, samkvæmt fasteignasalanum. Fasteignasalinn minn er ungur maður að árum en með ákaflega sorgmædd og gömul augu. Spes. Skrítin tilfinning að prútta um íbúð. Maður er að gambla með þvílíkar fjárupphæðir og setja sig á skuldaklafa fram á grafarbakkann (og lengur). Hrollur. En ég hlakka til að verða sjálfstæð kona í eigin íbúð og standa á mínum eigin fótum. Og læra á dvd spilara og svoleiðis.

Auk þess þetta: bloggerinn minn fór á ítölskunámskeið og segir núna m.a. salva come bozza og pubblica post.

laugardagur, október 22, 2005

Já, takk,

ég hef það skítt. Og þess á milli hef ég það þokkalegt. Má segja að ég hafi það þokkalega skítt. Það er skrítið að skilja við mann sem hefur verið besti vinur minn í ríflega tvo áratugi. Við erum að semsagt að skilja hjónin. Og það er flókið ferli og snýr upp á allar skrokksins taugar, í öllum mögulegum kombínasjónum. Ætla að vitna mér til hughreystingar í nokkur þekkt gáfumenni:
Afi minn sagði: Það er ekki ljótara en það.
Gloría Gaynor sagði: I will survive.
Tímon og Púmba sögðu: Hakúnamatata.

miðvikudagur, október 19, 2005

Nueve entrada

og nú er bloggerinn aftur kominn með máltruflanir. Fyrst talaði hann japönsku, svo þýsku og nú spænsku. Maður lærir svo mikið á þessu öllu saman. Ég þarf t.d. ayuda til að skilja guardar como borrador. En þetta er allt saman ljómandi skemmtilegt. Eins og að vera í útlöndum.

Volver al escritorio (hljómar eins og blessun kaþólsks prests). Og nú ætla ég að smella á publicar entrada. Legg ekki meira á ykkur að sinni.

laugardagur, október 15, 2005

Húsmæðraorlof.

Í dag fer ég í húsmæðraorlof. Við tökum okkur slíkt orlof einu sinni á ári nokkrar gamlar skólasystur úr menntaskóla. Förum venjulega í sumarbústað, göngum hressilega, eldum, drekkum og spjöllum fram á nótt. Í ár förum við í Kópavoginn, sem sagt út á land að venju. Ein okkar á nebbla hús og heitan pott í þessu ágæta bæjarfélagi þar sem er "gott að búa". Ég hlakka til að hitta vinkonur mínar. Við breytumst allar í flissandi skólastúlkur þegar við komum saman og eiginlega erum við langt frá því húsmæðralegar á svona samkundum, fjarri öllum köllum og krökkum. Erum bara stelpur.

fimmtudagur, október 13, 2005

Angurværð og hamstrar.

Einn af íbúunum í litla húsinu okkar heitir Randi. Randi er orðinn gráhærður fyrir allnokkru og mér finnst endilega að hann hljóti að fara að gefa upp öndina (hvað á hamstur sossum að gera við önd). Fyrir dverghamstra eru 2 ár nefnilega eins og 90 mannsár og Randi er búinn að vera gæludýrið hans Hjalta míns alla vega 1 1/2 ár. En Randi er bara svo obboslega hress. Ekki minnkaði krafturinn í Randa við það að vinnufélagi minn einn, sálfræðingur sem hafði gefist upp á sínu gæludýri, gaf mér gula kúlu sem Randi hleypur inni í af ógnarkrafti. Hann skýst hér út um allt eins og gul elding. Ég hef margoft gengið harkalega á hann (óvart) og við það hefur hann skotist 5 metra út í vegg og maður skyldi ætla að það væri slæm bylta fyrir lítinn hamstur inni í gulri plastkúlu. En nei, hann bara byrjar að hlaupa aftur eins og andsetinn. Furðulegt. Ótrúlega hress hamstur hann Randi. Enda í fínu formi og búinn að fá svo oft höfuðhögg að hann fattar ekki hvað hann er orðinn gamall.

Fann þetta spakmæli. Finnst það viðeigandi hér:

There is no reciprocity. Men love women, women love children, children love hamsters.
Alice Thomas Ellis

Síðan eitt spakmæli vegna angurværðar sem umlykur mig í kvöld (maður getur ekki alltaf verið jafn rífandi hress og Randi):

Of all forms of caution, caution in love is perhaps the most fatal to true happiness.
Bertrand Russell ,Conquest of Happiness (1930) ch. 12
British author, mathematician, & philosopher (1872 - 1970)

þriðjudagur, október 11, 2005

Spakmæli dagsins.

You cannot discover new oceans unless you have the courage to lose sight of the shore.

laugardagur, október 08, 2005

Hrós hrós...

fær maðurinn minn fyrir hetjudáð á föstudaginn. Þegar ég kom heim úr vinnunni var kallinn með svuntu og gúmmíhanska. Hann var á kafi í ísskápsþrifum (sem er ekki uppáhaldsverkið mitt). Var búinn að skúbba út öllum líffræðitilraununum og henda öllum "unidentified life forms" sem voru á sveimi. Yndislega fallegt af honum. Hrós, hrós Pétur.

Var annars að koma úr langri göngu, sem var svona passlega skemmtileg. Örnefni flæða út úr eyrunum á mér og ég ætla bara að leyfa þeim að leka út. Jónatan Garðarsson, sem var fararstjóri, er svo fróður að það hálfa væri nóg. Ég hætti að taka við örnefnum eftir ca. 250 stykki. Legg ekki meira á ykkur að sinni. Er að fara í partí.

Sigga sæta..

er ákaflega fyndinn bloggari, sérstaklega núna þegar hún er fótbrotin. Bendi ykkur á að lesa síðuna hennar. Hún er reyndar systir Kevins vinar míns. Mig langar svo að hitta foreldra þeirra - ætli þau séu svona fyndin? Annars getur maður alveg eignast rauðhært barn, þótt maður og maðurinn manns sé ekki rauðhærður (er þetta tæk setning?).

Er annars að fara í göngu á Reykjanesi - og svo er partí í kvöld þar sem á að kveðja Loga skjágengil. Baldvin (rauðhærður fréttamaður) ætlar að smyrja nesti oní göngufólkið, 25 manns. Það verður áhugavert. Læt ykkur vita hvað ég gekk mörg skref og hvernig samlokurnar voru (og hvort ég fann rautt hár í þeim).

fimmtudagur, október 06, 2005

Sá þetta svalheita próf...

hjá Geira frænda mínum (sem er minni nörd en ég og aðeins kúlli).


I am 16% loser. What about you? Click here to find out!


Óhjákvæmileg niðurstaða: ég er bæði kúl og nörd (kúlnördakerla).

mánudagur, október 03, 2005

Jass...

er tónlist sem ég hlusta frekar lítið á, en kallinn hefur mikinn áhuga á jasstónlist. Hann vann það afrek í gærkvöldi að fá mig með á tónleika á Kaffi Reykjavík, jasstónleika. Þarna var um að ræða Ragnheiði Gröndal með einvalaliði, Sigga Flosa, Jóel Páls, Hauk Gröndal o.fl. dúndurgóða hljóðfæraleikara. Mikið af lúðrum. Mikið gaman. Flest lögin fjölluðu um ástina. Asskoti fjalla margir góðir blússöngvar um ástina. Enda er ástin ekkert venjulegt afl í lífinu og allt í lagi að henda saman nokkrum angurværum nótum um ást og heitar tilfinningar.

Þessir tónleikar voru sumsé frábærir og ég skemmti mér konunglega (eða drottningarlega?).

sunnudagur, október 02, 2005

Kvikmyndagerð..

stendur með miklum blóma á heimilinu. Hjalti og nokkrir vinir hans eru upprennnandi dírektörar og listaspírur. Fékk að sjá eina mjög skemmtilega mynd í gær - hún fjallar um gamlan mann (Hjalti í leisíboj með pappírsskegg, brostna rödd og sólgleraugu) sem segir barnabarni sínu söguna af Rauðhettu. Svo hefst útgáfa af þessu klassíska ævintýri sem víkur örlítið frá þeirri sem við þekkjum, enda þrír 10 ára guttar sem leika, stjórna og kvikmynda. Stofa heimilisins breytist í skóg, inniskórinn minn í körfu og sófaræfillinn í rúm ömmu gömlu. Púðum troðið inná peysur (magafylli af ömmu). Minni drengjanna eitthvað götótt á hefðbundinn söguþráð (amma, af hverju ertu með svona mikið hor?). Fliss. Mikill atgangur þegar verið er að frelsa ömmu og Rauðhettu úr iðrum úlfsins (kúl bardagaatriði). Og allt fer vel að lokum, eins og í ævintýrinu. Nema fyrir úlfinum auðvitað. Síðan víkur sögunni aftur til afa gamla í leisíboj og litla drengsins við fótskör hans. Þá er drengurinn sofnaður (leikrænar hrotur) og höfuð afa sígur með hryglum niður á bringu (ég túlkaði endinn þannig að afinn hefði drepist af áreynslunni við að færa vanþakklátu barnabarni sínu arfleifð genginna kynslóða). Endir.

þriðjudagur, september 27, 2005

Dóttir mín,

sem er bara best, er 21 árs í dag. Og það vill svo skemmtilega til að akkúrat í dag spurðu nokkrar gelgjur í Laugalækjarskóla hana þessarar spurningar: "ertu í níunda eða tíunda bekk?" Um þennan magnþrungna atburð má lesa á heimasíðu heimasætunnar, fyrir áhugasama um unglegt fólk.

Til hamingju Ásta Heiðrún Elísabet með afmælið:)

mánudagur, september 26, 2005

Livet er ikke..

det værste man har...það eru orð að sönnu. Sit hér við tölvuna og hlusta á son minn lesa úr bókinni Pípuhattur galdrakarlsins (Múmínálfarnir, að sjálfsögðu). Hann á reyndar að fara að sofa kl. 10 en stundum vill teygjast úr háttatímanum, mér finnst hann t.d. bursta tennurnar af makalausri vandvirkni á kvöldin. Þá gengur hann um, með tannburstann uppi í sér, og spjallar við heimilisfólkið. Missir stundum út úr sér hvítar tannkrems-slummur. Og það vill togna úr háttatímanum. En aldrei óhóflega lengi þó. Hann er vænsti piltur hann Hjalti. Og er ekki lífið dásamlegt? Það finnst mér að minnsta kosti.

laugardagur, september 24, 2005

Nú er ég lasin...

og á óskaplega bágt. Hálsbólga, hausverkur og kvef. Dóttirin að halda upp á afmælið sitt í kvöld og stóð víst til að reka okkur öll að heiman, en ég kemst varla fram úr rúmi þ.a. Pétur ætlar með strákana í bíó í kvöld. Svo var ég dregin volandi fram úr áðan til að búa til karamellupopp fyrir 11 gesti! Meðferðin á veikum konum á þessu heimili. Held það hljóti að vera tímabært að fara að kenna stelpunni að halda á sleif. Legg ekki meira á ykkur að sinni.

miðvikudagur, september 21, 2005

Ég er snortin...

nördisma. Ef ég vissi eitthvað um tölvur, væri ég trúlega töluverður nörd, skv. þessari áreiðanlegu könnun sem nálgast má hér:

I am nerdier than 53% of all people. Are you nerdier? Click here to find out!

Ég vildi nebbla tékka á þessu þar sem ég var aldrei spurð hvort ég væri þjálfari á skákmótinu úti.

þriðjudagur, september 20, 2005

Það var gott..

að koma heim í sitt eigið ból, en ég er hálf lúin og það bíður mín allt of mikil vinna hér heima. Og ég er eitthvað svo annars hugar og vitlaus þessa dagana. Hætt að hlusta á fréttir og dægurþras, hlusta bara á tónlist. Hlýtur að vera enn eitt einkenni miðlífskrísunnar sem er víst voða mikið tekin núna.

En mikið svakalega var annars gaman að strákarnir mínir í Laugalækjarskóla skyldu rúlla upp Norðurlandameistaratitlinum. Danirnir og Norsararnir voru grútspældir, þeir höfðu nefnilega ætlað sér að vinna og norski liðsstjórinn húðskammaði sína menn eftir eina viðureiginina í votta viðurvist. Ekki alveg nógu góð þjálfaratækni kannski. Ég held annars að við Sigríður, mamma Daða á fyrsta borði, höfum verið góð lukkudýr fyrir liðið. Segjum það bara. Svo við eigum nú eitthvað í þessu. Eitt vakti athygli mína. Sigríður var spurð tvisvar sinnum hvort hún væri einn af þjálfurunum en ég aldrei. Dreg þá ályktun af þessu að hún sé mun gáfulegri en ég.

sunnudagur, september 18, 2005

Hér fylgir pistill Torfa

Leóssonar, snillings, af http://skak.hornid.com/

Ekkert er rotið í Danaveldi.

Laugalækjarskóli hefur rétt í þessu tryggt sér Norðurlandameistaratitilinn í skákkeppni grunnskólasveita.

Sveitin hafði 2,5 vinnings forskot fyrir síðust umferð, en í humátt á eftir voru 2 sveitir og svo Danmörk I hálfum vinning neðar.

Við mættum einmitt Danmörku I í þessari umferð og lagt var upp með að fá a.m.k. 1,5 vinning til að tryggja sér sigurinn.

Daði Ómarsson gaf tóninn eftir rétt rúman hálftíma, er hann vann Peter Grove, tvöfaldan Danmerkurmeistara í sínum aldursflokki, og eina helstu vonarstjörnu Dana hér, í aðeins 20 leikjum í Drekanum.

Einar Sigurðsson vann síðan mann og skákina fljótlega.

Nú bíðum við bara eftir að Vilhjálmur og Matthías klári, en það er engin hætta á öðru en að það taki minnst 2,5 tíma í viðbót því Íslendingarnir hafa verið afar þrautseigir og þaulsetnir við borðið og ávallt klárað síðast.

MH er síðan búið að tryggja sér silfrið í skákkeppni framhaldsskóla og fyrir stuttu síðan tók Rimaskóli bronzið í barnaskóla mótinu, þannig að ég held að Íslendingar geti verið ánægðir með sína krakka einmitt nú.

kveðja frá Danmörku,
Torfi

http://www.skoleskak.dk/nm2005/index.htm

Fjórar búnar,

og nú tefla strákarnir fimmtu og síðustu umferð. Þeir eru enn í efsta sæti og dugir 1 1/2 vinningur til sigurs, en allt getur gerst, ekkert í höfn. Maður er hreinlega að drepast hér úr spenningi, Danir eru einbeittir og ætla sér að reyna að vinna, enda á heimavelli. Búin að heyra orðið "Ísland" oft muldrað hér í súrum tón, þegar "vores Nordiske venner" spá og spekúlera í úrslit. Mótshaldarar eru annars afar vingjarnlegir og fyrir utan þessa aðsjálni í mat, þá er allt hér þeim til sóma.

Strákarnir hafa á milli skáka farið í fótbolta (rústuðu Svíum þar) og veitt krabba niður við höfn. Mér til skelfingar komst ég að því að þeir hafa drepið þá sér til skemmtunar (þ.e. krabbana, ekki Svíana). Litlu sadistarnir mínir. Ég hef reynt að malda í móinn, en það er ekki mikið hlustað á svoleiðis mömmuvæl. Blessaðir litlu básúnuenglarnir. Annars var ég að frétta að Ísland væri hér með yngsta liðið í grunnskólakeppninni, enda sér maður á hinum að þar eru langoftast á ferð stórir og lubbalegir 10.bekkingar.

Jæja, ég ætla að halda áfram að kveljast úr spennu og rækta kvíðasjúklinginn í mér. Hann er alltaf svangur.

laugardagur, september 17, 2005

Jibbí...

Matti vann sína skák:) Nú eru strákarnir mínir í 1.sæti eftir 3 umferðir. Tvær umferðir eftir og allt opið og æsispennandi - Ísland með 8 vinninga og á hæla þeirra koma A og B sveitir Dana með 7 vinninga.

Áðan hvatti mótshaldari keppendur til að fá sér meiri kjúkling og við þau orð varð ég svo hissa að ég missti út úr mér dýrmæta tuggu. Það vill nefnilega svo til að Ólafur (roskni maðurinn sem borgar morðfjár fyrir hvert mjólkurglas) stóð upp á einhverjum leiðtogafundi mótsins í dag, sagðist hafa verið í þessum bransa í ríflega 30 ár og að aldrei fyrr hefði hann séð annan eins grútarhátt í viðurgjörningi. Kannski þeir taki sig á Danirnir eftir fyrirlestur þennan? Eða fara þeir kannski að lauma möðkuðu méli í matinn?

Tíu fríkadellur.

Skákmótið er æsispennandi, Ísland í 1.-2.sæti eftir tvær umferðir og sem ég skrifa þetta eru mínir menn að tefla við Dani (sterk sveit). Komið er eitt tap, einn vinningur og eitt jafntefli og maður nagar bara neglurnar upp í kviku. Matti minn er einn eftir eins og í gærkvöldi, en þá lenti hann í að tefla 5 tíma skák, sem hann svo tapaði á tíma. Hrikalegt álag á þessum strákum, maður skilur ekki hvernig þeir halda þetta út. Tvær skákir á dag sem geta tekið 5 tíma hvor! MH ingar hafa líka staðið sig vel og eru í 2.sæti eftir þrjár umferðir.

Eins og ég sagði áður er aðstaða hér öll í góðu lagi. Eitt er þó rotið í ríki Dana og hefði ég aldrei trúað því upp á frændur okkar að þeir ættu þetta til. Þeir eru svo nískir á matinn, að maður á bara ekki orð. Þvílíkt og annað eins. Í gærkvöldi var messað yfir svöngum skákgörpum í biðröð eftir matnum að enginn mætti taka sér meira en "et stykke köd". Var þetta svo endurtekið síðar í ströngum tón, yfir ærandi garnagaul keppenda, því einhver hafði greinilega stolist til að fá sér tvær sneiðar (og svo sá ég eina detta í gólfið, það hefur sett allan útreikning Dana úr jafnvægi). Ólafur H. Ólafsson, liðsstjóri MHinganna, bað þetta kvöld um mjólk með matnum (hann er roskinn maður, slæmur í maga og þarf að eigin sögn að drekka mjólk með mat). Komið var með mjólkurglas til Ólafs og hann umsvifalaust rukkaður um 20 kr. danskar fyrir. Eitt mjólkurglas á ríflega 200 ísl. krónur! Þeir gefa bara blávatn hér með matnum og stórsjá örugglega eftir því oní okkar háls. Við hádegisverð í dag var haldinn fyrirlestur yfir keppendum af því að einhverjir tóku sér fleiri en þrjár kjötbollur. Hélt mótshaldarinn því fram með lítt dulinni vandlætingu að einhver hefði fengið sér tíu fríkadellur á diskinn. Hvernig áttu menn að vita að það mætti bara taka þrjár kjötbollur? Er það náttúrulögmál að þrjár litlar kjötbollur dugi öllum, stórum sem smáum, feitum sem mjóum? Svöngum táningum? Keppendur voru sumsé skammaðir fyrir græðgi og sagt að einhverjir aftast í röðinni hefðu komið að tómum kjötfötum. Ekki nóg með það heldur kvarta mótshaldarar yfir matgræðgi keppenda á heimasíðu mótsins! Sjá kvart og kvein á: skoleskak.dk/nm2005
Maður er bara galhneykslaður, svei attan.

Annars hvet ég alla skákáhugamenn sem lesa bloggið mitt að fylgjast með úrslitum á skák.is eða skoleskak.dk

föstudagur, september 16, 2005

Lille Danmark

Sólin skín í "Kalövig sejl- og kursuscenter" en þar er ég stödd akkúrat núna (rétt hjá Árósum). Er hér á móti sem þið getið lesið um: www.skoleskak.dk/nm2005

Hér er gaman. Veðrið frábært, aðstaðan fín. Erum 8 í íslenska hópnum; tvær mömmur, fimm skákstrákar og einn leiðtogi (Torfi Leósson, snillingur). Erum í huggulegu húsi þar sem eru fjögur tveggja manna herbergi og tvö baðherbergi. Hér er stór smábátahöfn (hmm...já, það eru til stórir dvergar og litlir risar). Það er svo fallegt hér og Danirnir eru vinalegir og ég er svo spennt.

Ferðin gekk vel. Eftir flugið tók við ríflega þriggja tíma lestarferð. Leiðtoginn sat allan tímann með lopahúfu yfir augunum og lék blindskák/fjöltefli við liðið. Úrslit urðu þessi: Torfi vann þrjár skákir (Villa, Einar og Aron) en tapaði fyrir Daða og Matta. Reyndar kláruðust ekki alveg skákirnar við Aron og Matta (við þurftum að stíga út úr lestinni) en Matti var með unna stöðu og Aron tapaða þegar við pökkuðum saman. Lestarferðin var sérstök. Návígi við fimm 14 ára drengi er bráðskemmtilegt, en hefur einn óskost. Skal gefa ykkur eina vísbendingu: smells like teen spirit. Ég kann ekki við að reka aðra en minn í bað.

Við komu á mótsstað vildi enginn kannast við okkur. Enginn vissi neitt og allir héldu að við værum Færeyingar (getur verið að danskan mín hljómi ekki eins og hjá Dana??). Danskur heimilisfaðir á sokkaleistunum, gekk út úr sínu litla rauða húsi og fann fyrir okkur mann sem vissi eitthvað um mótið. Heimilisfaðirinn var vinalegur náungi (sem þarf örugglega að fá sér nýja sokka).

Hér er líka lið frá MH, því Norðurlandamót í framhaldsskólaskák fer fram samtímis grunnskólamótinu. Þegar ég sat til borðs í gærkvöldi með MHingunum, sá ég í anda strákana mína (alla fimm) eftir svona 3-4 ár. Menntskælingarnir ætluðu sko að kíkja í bæinn eftir matinn, þótt leiðtogi þeirra, allnokkuð við aldur, tæki með þreytulegu andvarpi undir slíkar hugmyndir. Enda fór hann snemma í rúmið kallanginn og lið MH mætti ekki kl. 8 í morgunmatinn.

Annars var ég klukkuð af hrekkjusvíninu Ástu. Verð því að segja 5 hluti um sjálfa mig.

1. Er dreymin og sérvitur
2. Nota skó nr.37
3. Finnst gott að láta klóra mér á bakinu
4. Hef aldrei bragðað Fisherman´s Friend snafs
5. Á þrjú frábærustu börn í heimi

Ég klukka Jenný frænku, Pétur, Geir frænda og Æri.

miðvikudagur, september 14, 2005

Jæja,

við Matti skundum í argabítið á skákþing í Árósum og kallinn staddur í Noregi og þessi fjölskylda er þá orðin í meira lagi dreifð. Kannski tekst mér að blogga í ríki Dana, ef ég skyldi finna heitan reit á kaffihúsi þar. Stefni á það. Sit hér annars með félaga mínum Tuborg til að geta heilsað Dönum þannig að þeir finni strax fyrir andlegum skyldleika við mig. Þetta var afsökun. Ég er bara svona gefin fyrir sopann. Einmitt.

þriðjudagur, september 13, 2005

Kræklingar, vellingar og aðrir ingar.

Kona frá Sauðárkróki er Sauðkræklingur, íbúi Eskifjarðar er Eskfirðingur, gaur frá Hvolsvelli er Hvolsvellingur, maður frá Hellu er... Hellingur. Kunnið þið fleiri svona?

mánudagur, september 12, 2005

Turn around...

every now and then I get a little bit lonely...every now and then I fall apart....and if you only hold me tight, we´ll be holding out forever...I don´t know what to do...every now and then I get a little bit terrified but then I see the look in your eyes...I really need you tonight...forever´s gonna start tonight.

"Total eclipse of the heart" með Bonnie Tyler, gjöriðisvovel. Annað uppáhaldslagið mitt um þessar mundir. Tek hástöfum undir með Bonnie, angurværðin uppmáluð við uppvaskið. Sonum mínum finnst ég hlusta fulloft og fullhátt á þetta lag í eldhúsinu. Hljómar e.t.v. pínu kúnstugt en drengirnir mínir æpa oft: æ, lækkaðu þetta mamma!

Hitt uppáhaldslagið mitt: "Smells like teen spirit" með Nirvana. Eitt albesta lag sem samið hefur verið. Ever. Hlusta á það í bílnum og syng svo hátt og rokka með að það er bara ábyggilega ferlegt að sjá. Mér er slétt sama. Á það reyndar til að klemma saman augun (sem er óheppilegt í akstri) í dúndurfílíngi.

Þriðja uppáhaldslagið mitt (já, auðvitað eru þau miklu fleiri en tvö): When a man loves a woman.
Fjórða uppáhaldslagið mitt: I can´t help falling in love with you (með Brian Adams að sjálfsögðu).
Fimmta uppáhaldslagið mitt: Had to say I love you in a song...með Jim Croce. Þrjú síðastnefndu afar rómantísk og þá dreymir mig um heitan vangadans í stíl. Fátt yndislegra (ef ég man rétt).

Jamms. Þannig er það nú. Kallbeyglan á leið til Noregs í fyrramálið. Og við Matti leggjum land undir fót á fimmtudaginn. Nú er það Norðurlandamótið í skólaskák, haldið í Árósum. Er eitthvað hægt að gera í Árósum? Vona að ég drepist ekki úr leiðindum.

laugardagur, september 10, 2005

Sipp og snúsnú mont.

Uppgötvaði dulda hæfileika í dag. Fór í sipp og snúsnú með Hjalta og Ástu. Hef ekki stundað þessa íþrótt síðan ég var ca. 10 ára en viti menn, ég hef engu gleymt. Svei mér þá. Hjalti bað mig að hoppa afturábak á öðrum fæti sippandi í kross og með augun lokuð og ég sagði bara: ekkert mál. Og gerði það. Svo sippaði ég í einni bunu mest 134 sinnum. Og sló börnunum mínum rækilega við. HA! En mikið rosalega verður maður þreyttur á að sippa - þetta hlýtur að vera býsna góð æfing fyrir hjartað. Held það bara. Ætla sumsé að taka upp sipp og snúsnú, verð bara að fá mér steypustyrktan brjóstahaldara fyrst.

föstudagur, september 09, 2005

Kynleg kvein.

Vill svo til að ég vinn með nokkrum miðaldra karlmönnum. Þetta eru upp til hópa ágætisgrey, sumir ágætari en aðrir en þeir eiga eitt sameiginlegt. Þeir kvarta. Kvarta yfir því hvað það sé nú erfitt að vera karlmaður. Kvarta yfir því að þeir skuli þurfa að elda, þrífa klósett og ég tala nú ekki um strauja. Þeir kvarta yfir því að þeir séu varla karlmenn lengur, séu að verða að kellingum. Einn viðurkenndi m.a.s. feimnislega um daginn að hann hefði haft skoðanir á gardínum og þá erum við nú að tala um næstabævið geldingu (í þeirra augum). Þetta er vont mál. Arfavont. Enda dæsa þeir daprir í bragði og hengja haus og við það mæta augu þeirra velmegunarístrunni. Andvarpa þeir þá enn sárar og segjast jafnvel orðnir náttúrulausir. Mér rennur til rifja þetta ástand minna góðu vina og félaga. Hvað getur maður gert? Er til stuðningshópur fyrir karlmenn sem eru ráfandi og týndir í kynjahlutverkinu? Æ, annars, stuðningshópar eru örugglega kellingaleg hugmynd. Er hægt að senda þessa karla í karlmennskubúðir (og þá er ég ekki að tala um búðir eins og í Kringlunni, guðhjálpimér). Ég vildi að ég gæti veitt samstarfsfélögum mínum lið en hef engin ráð. Það sem verra er, mér skilst á þeim að þetta sé allt konum að kenna, heimtufrekjunni í okkur. Ykkur að segja er óþægilegt að hafa á samviskunni að hafa rústað þessum fyrrum spræka stofni - íslenskum karlmönnum. Illt ef satt reynist.

Karlarnir breima og bágindi sýna
bugaðir menn.
Eru þeir búnir tólinu´ að týna
eða tollir það enn?

Sjálf hef ég aldrei velkst í vafa um kynhlutverk mitt. Frá því ég man eftir mér hefur mér þótt gott að vera kvenkyns. Það er bara nákvæmlega það sem ég vil vera. Kona. Man reyndar eftir örstuttu tímabili í bernsku þar sem ég pældi svolítið í því hvernig það væri að vera strákur, en þá var ég 5-6 ára gömul. Mér þótti rosalega flott hvernig strákar pissuðu, hvernig þeir stóðu við postulínið og bunan sprautaðist út um allt. Þetta var eftirsóknarvert að mínu mati. Þetta vildi ég prófa. Fór því einn daginn í nátttreyjuna mína þannig að ég tróð fæti í aðra ermina, stóð ofaná klósettinu og bjó til tippi úr hinni erminni. Svo sprændi ég. Bunan sprautaðist ekki mikilfenglega út úr erminni (eins og til stóð), heldur lak bara í blárósótt flúnelið og allt varð rennandi blautt. Svoleiðis fór það nú. Málið afgreitt. Been there, done that. Betra að vera stelpa.

miðvikudagur, september 07, 2005

Langalangalangamma mín...

hét Guðný Jónsdóttir, betur þekkt sem Guðný frá Klömbrum. Hún fæddist í Hörgárdal árið 1804 og lést á Raufarhöfn árið 1836. Banamein hennar var ást.

Maður Guðnýjar var séra Sveinn Níelsson. Hann yfirgaf Guðnýju eftir átta ára hjónaband og olli skilnaðurinn henni slíkum harmi að hún veslaðist upp og dó.

Sveini var lýst svo: "Sveinn var með afbrigðum glæsilegur maður, hár, herðibreiður og svipmikill. Hann var skapstór, stilltur, en þykkjuþungur. Nokkuð þótti hann viðkvæmur fyrir sjálfum sér og jafnvel hégómagjarn." Guðnýju var lýst svo: "Guðný var smávaxin og fínbyggð og meira hneigð til söngs, ljóðagerðar og bóklesturs en búsýslu.... Hún var annáluð fyrir góðsemi sína og hjartahlýju." Um samskipti þeirra hjóna segir svo: "Ekki munu hjónin hafa verið skaplík, og sagnir eru til um árekstra í hjónabandi þeirra. Bera þær sagnir það með sér, að þrátt fyrir gáfur og menntun séra Sveins hafi Guðný verið honum snjallari á ýmsum sviðum....Bæði hjónin ortu ljóð og vísur, en ekki lék á tveim tungum, hvort þeirra var snjallara á því sviði. Viðkvæmni Sveins vegna andlegra yfirburða konu hans verður aðeins skilin sem afleiðing af stolti hans og óvenjulegri tilfinningasemi fyrir sjálfum sér." (Guðnýjarkver, 1951)

"Sit ég og syrgi" eftir Guðnýju frá Klömbrum.

Sit ég og syrgi mér horfinn
sárt þreyða vininn,
er lifir í laufgræna dalnum
þótt látin sé ástin.
Fjöll eru og firnindi vestra
hann felst þeim að baki.
Gott er að sjá þig nú sælan,
þá sigrar mig dauðinn.

Heldur var hart þér í brjósti,
að hót ei nam klökkna,
er sviptir mig samvist og yndi,
mér svall það um hjarta.
Horfið var mál það af harmi,
er hlaut þig að kveðja,
sárt réð þig gráta úr garði,
eg græt þig til dauða.

Leiðast mér langvinnir dagar,
en lengri þó nætur,
heims er því horfin öll kæti,
til himna vill sálin.
Sorgin mér syrtir í augum,
ég sé ekki að ganga,
en veit að fá eru fetin,
unz fæ að sjá ljósið.

Leizt mig títt ljúfur í hjarta,
ég leit þig á móti.
Leiðstu mig illa, er áttir,
en eg leit þig kæran.
Lýttir mig sök fyrir litla,
því líða má harma.
Þú lítur mig loksins á hæðum,
en lýtir þá ekki.

Mér hefur alltaf þótt vænt um formóður mína, hana Guðnýju frá Klömbrum.

mánudagur, september 05, 2005

Hei gaur!

Eitt sinn var Ómar Ragnarsson staddur á Ingólfstorgi í guðveithvaða erindagjörðum. Renndi sér þá snögglega upp að honum hjólabrettatöffari nokkur, otaði fingri að hinum landsfræga fréttamanni og sagði: "Hei gaur. Ýkt bæld stöð sem þú vinnur hjá."

Þessi saga kemur ekki nokkrum sköpuðum hrærandi hlut við.

sunnudagur, september 04, 2005

Friðarlíkur?

Var að hjálpa 10 ára syni mínum með heimavinnuna fyrir kristinfræði. Verkefnið fólst m.a. í því að teikna kort af svæðinu við botn Miðjarðahafs eins og það leit út þegar Móses arkaði með þjóð sína á leið til fyrirheitna landsins. Vel gekk að teikna þetta kort, enda skýr mynd af því í bókinni Brauð lífsins fyrir grunnskólanema. Síðan átti hann að teikna kort af svæðinu eins og það er í dag. Þá vandaðist heldur málið. Kortabók heimilisins er forngripur mikill að vöxtum, Brittanica Atlas, stúdentsgjöf til mín frá gömlum kærasta (já, ég veit, rómantísk gjöf). Ég fletti upp á Ísrael í 2000 blaðsíðna indexinum og rýndi í kortið. Fyrir fáfróðan eyjaskeggja eru landamæri Ísraels æði flókin en ég þóttist þó greina útlínur fyrirheitna landsins og önnur svæði eins og Gasa og Vesturbakkann (en hvað af þessu var nákvæmlega Ísrael?). Kallaður var til vitringur heimilisins, Pétur. Jukust þá vandræðin um allan helming, því hann fór að röfla um Jomm Kippúr stríðið og 6 daga stríðið og við þetta snarminnkaði skilningur okkar Hjalta á máli málanna - hvar er Ísrael á kortinu? Skemmst er frá því að segja að ég varð ofboðslega pirruð út í kallinn og hann varð ákaflega pirraður á móti. Deilur við við botn Faxaflóans stigmögnuðust og litli grunnskólaneminn varð fórnarlamb þessa stríðs og veit ekki enn hvar Ísrael er á kortinu, en situr uppi með beyglað verkefnablað, þar sem foreldrar hans í stríðsham strikuðu og strokuðu út á víxl útlínur fyrirheitna landsins.

Ein spurningin sem Hjalti átti að svara var svona: Af hverju lesum við þessar sögur aftur og aftur? Góð spurning. Gamla testamentið er klassík.

föstudagur, september 02, 2005

Sínu máli talan talar...

og ekki alltaf þannig að við dauðlegir menn skiljum. Var heima í gær að vinna í rannsókninni minni, enda með allt á hælunum í sambandi við skrif og frágang niðurstaðna. Þar sem ég rýndi í einn bunkann (þar sem voru þeir sem stóðu sig verst í lestrarprófinu) rakst ég á einstakling sem mér fannst nú ekki svo slæmur...hmmm...hugsaði ég, þetta er skrítið, af hverju er þessi náungi í 10% verstu? Sendi aðferðafræðingi mínum póst og gekk svo á með sendingum þar sem ég lét mig ekki þótt hún teldi að ég væri að verða vitlaus (að efast um tölur sem spýttust út úr spss forritinu hennar). Hún féllst að lokum á að kíkja á þetta, með semingi og andvarpi. Hringdi stuttu seinna í mig og það fyrsta sem hún sagði var: hvað voruð þið búin að birta? ARG, skelfing. Sem betur fer höfðum við aðeins birt niðurstöður um lestrarvenjur, en ekki prófið. Allar tölur út úr prófinu voru nefnilega meira eða minna vitlausar. Ég sat því sveitt við í gær og hún líka og milli okkar gengu 20 símtöl og 40 tölvupóstar. Hún skildi hvorki upp né niður í því hvernig þetta hafði gerst en líklegasta skýringin er að excel og spss forritin hafi lent í tungumálaerfiðleikum. Mjög stressandi dagur.

Skrítið að vinna svona heima. Hér mætti, as per júsúal, heill haugur af frískum drengjum eftir skóla. Ákvað að slá tvær flugur í einu höggi, baka pönnsur og gefa á garðann og gleðja líka kallinn sem væntanlegur var frá Amsterdam síðdegis. Bakaði heila Hallgrímskirkju af pönnsum, kallaði í drengina og sneri mér að því að laga kaffi. Leit við og Hallgrímskirkja var horfin. Drengirnir gleyptu í sig háan staflann á 2 mínútum, og þegar kallinn kom heim fékk hann bara ilminn af pönnsunum.

Títtnefnd talnavandræði minna mig, ekki spyrja af hverju, á vísu eftir snillinginn Þuru í Garði sem ég hef alltaf haldið mikið upp á:

Morgungolan svala svalar
syndugum hugsunum
sínu máli talan talar
talan úr buxunum.

þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Konur í jöfnu.

Karlar dá stærðfræðilega nákvæmni. Sá þessa skotheldu rökleiðslu á ágætri heimasíðu vísindamanns:




Þá vitum við það. Að minnsta kosti helmingur mannkynsins er til vandræða.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Nammi namm.

Sólkoli er snilldarfiskur. Keypti slíkan furðufisk hjá Fylgifiskum, steikti eftir leiðbeiningum brosmilds afgreiðslumanns; bakaði Betubrauð og bar þetta fram með hrísgrjónum og salati (beint frá bóndanum á Reykjum). Toppmáltíð. Mér fannst roðið best....stökkt og gómsætt. Börnin mín átu þetta m.a.s. með þokkalegri lyst, en þau eru svo matgrönn að mér hefur stundum dottið í hug að þau ljóstillífi. Sumsé. Prófið sólkola og fáið uppskrift að Betubaunabrauði hjá mér. Bara nefna það elsku vinir og vandamenn nær og fjær.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Í nótt...

var ég vændiskona í bleikum kjól með japönsku sniði að aftan og eitís-lúkki að framan og í svörtum, mjög hælaháum skóm. Nýja djobbið lagðist bara vel í mig og ég gekk glöð til verka. Í draumnum.

Ef einhver segir við mig að hann eigi sjálfshjálparbók einmitt fyrir fólk með þessi einkenni og að þau séu típísk birting miðlífskrísu ("middle-aged women who dream of dressing in pink and wearing high heels while contemplating bold carrier moves") þá set ég viðkomandi út af sakramentinu. Ég þoli ekki sjálfshjálparbækur.

laugardagur, ágúst 27, 2005

Bee Gees og japönsk háttvísi.

Er að elda gúllas (sem sonum mínum finnst svo gott), dreypi á rauðvíni, unaðslegur matarilmur í nösunum og til að fullkomna stundina dúkka Bee Gees upp á Rás 2. Og mér líður bara dæmalaust dægilega.

Hins vegar voru strákarnir mínir elskulegir að leika sér í stofunni áðan með sínum venjulega hamagangi og í látunum brutu þeir glas sem ég keypti í París þegar ég var um tvítugt. Man svo glöggt þegar ég keypti þessi litlu, litríku staup og afgreiðslumaðurinn, lítill og sveittur, útskýrði fyrir mér með miklu handapati og fransk-ensku blandimáli, hvernig karlastaupin og kvenstaupin væru frábrugðin. Kvenstaupin eru þannig að þegar konan drekkur þá heyrist flaut (hún á að vera að lokka til sína karlinn). Karlastaupin eru þannig að þegar glærum vökva (Sakí) er hellt í þau þá birtist á botni staupsins allsber kona (uppúr þurru, nei ég meina blautu) sem pósar glyðrulega en þó af háttvísi. Ætli karlinn eigi þá að hugsa um aðrar konur en þá sem hann er með? Eða eru þetta staup fyrir piparsveina og jómfrúr? Hreinlega veit það ekki en....mér fannst þetta allt ákaflega merkilegt í denn og keypti 6 staup, þrjú fyrir konur og þrjú fyrir karla. Hef nú lítið brúkað þau og aldrei á hefðbundinn japanskan hátt, verð að játa það. En ég held að strákarnir mínir séu komnir á þann aldur að þykja svona lagað voða fyndið og forvitnilegt. Nema hvað.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Leðurstígvél.

Hamingja konunnar liggur í nýjum leðurstígvélum. Hvaða konu spyrjið þið? Auðvitað baunakonunnar. Rándýr svört leðurstígvél. Það var nú allt og sumt sem ég þurfti til að brosa út að eyrum. Hugsanlega hefði ég fengið meira út úr því að fara á Mímisbar og pikka upp kallræfil, mér til skemmtunar (og útrásar fyrir feita púkann), en ný leðurstígvél duga. Duga bara skrambi vel. Maður er soddan gangandi klisjukvendi og kaupir sér til kæti. En kommon, há svört leðurstígvél, oohhh...

Gæti náttla farið í þeim á barinn. Einmitt.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Ætla ekki...

í göngu um helgina. Ætla að vera heima og gera sem minnst. Kannski ég drekki mig fulla og fari á bar og pikki upp einhverja karluglu. Æ, mér líður bara þannig.

Var að keyra áðan í myrku skapi er ég sá 3-4 ára gutta í megaflottum súperman búningi standa kotroskinn á gangstétt. Hann var ljóshærður og andlitið litla var svo uppfullt af gleði og prakkaraskap að ég brosti til hans og veifaði. Við það tókst hann næstum á flug af gleði, enda flaksaði rauða skikkjan kröftuglega í köldum norðanvindinum. Þetta bætti obbulítið verkinn í hjartanu mínu. Af hverju hættum við að gera það sem okkur langar til þegar við verðum fullorðin?

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Ég var nú aldeilis hlessa...

þegar mér var boðið í tveggja daga gönguferð í Kerlingarfjöllum um helgina. Mig dreplangar með, en er hægt að bjóða fjölskyldunni upp á svona sígaunamömmu sem er á stöðugu flakki? Svei mér þá, ég veit það ekki. Hef ekki verið heima margar helgar í röð og ryklagið í stofunni er orðið hnausþykkt og myndarlegt. Ef manni verður á að hnerra þá þyrlast upp gráhvít ský og liðast um stofuna (á þokkafullan hátt). Jamm, ég ætla að hugsa málið.

Vorum að koma fjölskyldan úr gönguferð á Þorbjörn (rétt hjá Grindavík) með vinnufélögunum. Alveg frábær gönguleið, fjölbreytt og skemmtileg. Sáum kalkúna, úlfalda og risaeðlusteina. Og svo hellirigndi alls staðar í heiminum nema á okkur. Hjá okkur var glaðasólskin. Ég legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Veit ekki...

hvar ég á að byrja. Það var svo gaman í fjórumsinnumfjórir-ferðinni. Hálendið er bara óviðjafnanlegt og mig langar að berja alla þá í hausinn sem vilja skemma það. Það bara má ekki. Geta þessir andskotar sem vilja sökkva hálendinu til að útvega Pólverjum og Kínverjum vinnu ekki fundið sér eitthvað annað til dundurs? Ég meina það. Hvers virði er hálendið? Hvers virði er ónumið land í þessum brjálaða heimi sem við lifum í? Eiga börnin okkar skilið að fá landið sitt í hendur í tætlum, sundurklippt og virkjað í hel?

Svo vil ég bara segja eitt. Gott fólk - hættið að kjósa þennan vitleysingaflokk sem nefnist Framsóknarflokkurinn. Þeir ráða allt of miklu og hafa gert of lengi. Þið megið kjósa hvaða fávita sem er, bara ef það er ekki Framsókn.


Þessi undragóði kamar stendur við fjallið Klakk (undir Hofsjökli).

föstudagur, ágúst 19, 2005

Óbyggðirnar...

kalla. Er farin í hálendisreisu með fjórumsinnumfjórum klúbbnum. Keyrum yfir Kerlingarfjöll, undir þau, gegnum, til hliðar við þau eða hvað það nú heitir. Verðum síðan í Setrinu undir Hofsjökli í tvær nætur. Hlakka mikið til, vona að í þessum klúbbi séu ekki tómir aular og kúkalabbar. Kemur í ljós. Við (Hjalti, Pétur og ég) förum með vinum okkar Auði og Hauki, ásamt dóttur þeirra Völu (öndvegisfólk, ekki kúkalabbar). Svo bið ég ykkur að hafa engar áhyggjur af mér og mínum - Auður er dýralæknir. Adíós amígós.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Er komin með Firefox...

og ætla af því tilefni að fara á smá myndafyllerí. Hér má sjá nokkrar myndir úr Fimmvörðuhálsgöngunni góðu þar sem fæddist ástríðufull löngun mín í jeppa. Sú löngun hefur þegar leitt af sér ákafa leit að heppilegum fjórhjóladrifnum farkosti og ýmis plön eru að gerjast. Svo var okkur bara boðið í hálendisferð með 4x4 klúbbnum, sama dag og ég viðraði nýfæddan jeppaáhuga minn við vinnufélagana (er þetta tákn af himnum ofan eða hvað?). Vinnufélagarnir voru ákaflega hjálplegir og einn góður Land Cruiser eigandi leyfði mér m.a.s. að prófa eðalbifreið sína (það æsti enn frekar upp í mér jeppasótthitann). Aðrir vinnufélagar vildu óðir og uppvægir selja mér jeppana sína. Ætla að spá í þetta og gaumgæfa málið, ígrunda það og spökulera djúpt.






mánudagur, ágúst 15, 2005

Karlmennska.

Nú er tími játninga (viðkvæmir haldi fyrir augun). Í óbyggðaferðum bæra á sér ýmsar kenndir sem giftri konu væri sæmst að bæla. En...hér er listi yfir það sem mér finnst karlmannlegt:

1. Sterklegir (og berir) kálfavöðvar upp úr gönguskóm, helst vel hærðir.
2. Skeggbroddar.
3. Karlar sem keyra á öflugum jeppum út í beljandi stórfljót (úúúaaaahhh-þessi er bara killer).
4. Karlmenn sem sýna börnum umhyggju án þess að gera sér upp gervilegt "barnafas".
5. Karlmenn sem horfa í augun á manni á alveg sérstakan hátt.

Og nú langar mig í fyrsta sinn á ævinni í jeppa. Grái fiðringurinn? Erfitt að segja.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Ætla bara...


að láta ykkur vita að ég er dauðuppgefin. Var að koma úr Þórsmörk. Búin að vera tvær nætur í tjaldi; fyrst í Skógum, svo inni í Mörk. Labbaði 5-vörðuháls á laugardaginn með góðu fólki og það var rosa gaman. En nú er ég þreytt og búin og lúin. Hjalti minn var eina barnið í ferðinni og stóð sig frábærlega. Gekk þessa tæpu 23 km einbeittur og glaður, ekkert vesen eða kvartanir. Hann er svo duglegur og ég er svoooo montin af litla fjallagarpinum mínum. Síðhærða undrið á myndinni er einmitt Hjalti í smá pásu.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Gengum saman nokkrir vinnufélagar...

á Nesjavöllum í gær, frá Nesbúð að Nesbúð í hring sem merktur er með dökkgrænum stikum. Mæli innilega með
þessari gönguleið, þetta er tveggja tíma labb og maður sér fjölbreytt landslag og alla heimsins liti (m.a. blá bláber). Mér tókst að draga drengina mína tvo með í gönguna, gegn loforði um Mcdonalds hamborgara að leiðarlokum (þessi uppeldisaðferð (mútur) hefur reynst bauninni afar vel í áranna rás).

Okkur göngugörpum var sagt eitt og annað um virkjunina og það var nú býsna fróðlegt en ég er búin að gleyma því næstum öllu af því að tæknilega heilastöðin í mér er teflon-húðuð.

Í dag borða ég mikið grænmeti af því að það er svo gott. Keypti nýuppteknar gulrætur og alls kyns kálmeti hjá bóndanum á Reykjum, en þar er grænmetið selt svo glænýtt og gott að maður á ekki orð (af því að maður étur bara stanslaust).

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Ég er ekki með veiðidellu.

En, það var rosa gaman í veiðiferð með fjölskyldunni. Gamla settið bauð okkur systkinunum einn dag í Stóru Laxá í Hreppum, með öllu okkar hyski og viðhengjum. Veðrið lék við okkur en laxinn lét lítið sjá sig. Pétur veiddi reyndar einn og kom honum á land en laxinn ákvað að skella sér aftur út í, sleit línuna og tók spúninn með sér. Nú er hann svalasti pönkarinn í ánni, með svartan tóbí í munnvikinu. Ég sá einn vænan lax stökkva upp úr ánni (hann beit á hjá Pétri en slapp) og það var næstum nóg til að ég fengi veiðidellu. Ég ræktaði frummanninn í mér á fleiri vígstöðvum, gróf holu og moð-grillaði þrjú væn læri. Maturinn var óviðjafnanlegur mmmm..smjatt og við skemmtum okkur öll frábærlega, börn og fullorðnir. Og ég sem hélt að fjölskyldan mín væri ekkert svo skemmtileg. En hún er það bara. Kannski við ættum alltaf að vera í veiðiferð.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Er að fara í ...

veiðiferð. Eina sem ég hef hingað til veitt á ævinni eru flugur sem hafa álpast uppí mig þegar ég hjóla. Þá er ég náttla meira fiskurinn í jöfnunni. Kannski dæmið snúist við um helgina, læt ykkur vita.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Mér finnst mjög dularfullt...

já, bara algerlega óskiljanlegt, að strákarnir mínir skuli ekki nenna að taka til. Það sést ekki í gólf í herbergjunum þeirra fyrir drasli (dóttir mín er reyndar líka svona en ég er löngu hætt að býsnast yfir því). Dæmigerð samtöl á heimilinu er svona:

Baun: Matti minn, taktu nú til í herberginu þínu.
Matti: Æ, ég nenni því ekki núna.
Baun: Jú, þú veist að þú þarft að gera það hvort sem er.
Matti: Ég geri það kannski á morgun.

Baun: Hjalti minn, taktu nú til í herberginu þínu.
Hjalti: Nei.

Ég hef komist að því að "núna" er aldrei rétti tíminn til að taka til. Eins er því farið þegar ég rek drengina í bað. Þá er "á morgun" alltaf heppilegri tímasetning. Merkilegt. Ætla að finna lausn á þessu athyglisverða vandamáli. Á morgun.

föstudagur, júlí 29, 2005

Lenti í ...

athyglisverðu ferðalagi í gær. Fór í strætó með hjólið í vinnuna og ætlaði síðan að hjóla heim. Var búin að fá ÍTARLEGAR leiðbeiningar um leiðina heim eftir hjólastígum meðfram strandlengjunni. Var leiðbeint af tveimur vinnufélögum sem sögðu að það væri nú ekkert mál að hjóla þetta og enn minna mál að rata. Það að annað þeirra gekk á Kilimansjaró í fyrra (ekkert mál) og hitt þrammaði fyrir stuttu yfir Vatnajökul í brjáluðu veðri með Haraldi pólfara (ekkert mál) hefði nú átt að vera ákveðin vísbending. Svo má ekki gleyma því að ég er þannig af guði gjörð að leiðbeiningar rugla mig í höfðinu og þar að auki rata ég varla um húsið mitt. Enda endaði ég fljótlega í skurði og síðan úti í móa með hinum fuglunum og þurfti að hálf bera hjólið mitt yfir holt og hæðir þar til ég rakst á kraftalegan gröfubílstjóra sem benti mér á moldarslóða sem ég gæti farið þar til að stíg kæmi. Maðurinn gerði sitt besta til að fela glottið en sú tilraun mistókst. Ég skæklaðist áfram grófan moldarslóðann og fann loks vænlegan stíg. Villtist fjórum sinnum enn og þá verst inni í Rimahverfi en þar spurði ég góðlega konu til vegar. Hún var á ferð með barnavagn og mjósleginn hund í bandi (eða rottu, er ekki viss). Þegar ég síðan hjólaði framhjá Sorpu og Ingvari Helgasyni þurfti ég að beita sjálfa mig hugrænni atferlismeðferð til að koma í veg fyrir að ég hlypi inn og keypti mér bíl til að komast heim.

Ferðin tók klukkutíma og 40 mínútur - þetta eru líka, segi og skrifa, 25 km. Og jamm og já.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Orð dagsins...

er nöldur. Prófið bara að segja upphátt nöldra, nöldra, nöldra, nöldra... Pælið annars í því hvað þetta er líkt: nöldra, röfla, mögla. Tilviljun? Nei, ég held ekki.

Heyrði nokkur frábær nöfn á Rás 2 í gær, Ævar Eiður, Borgar Búi, Mist Eik, Egill Daði (fara til Egils Daða) og Lind Ýr. Kunnið þið fleiri?

sunnudagur, júlí 24, 2005

Oft er fólk í viðtali...

spurt "hvaða dýr vildir þú helst vera"? Margir svara "ég vildi vera fugl". Ég get sossum tekið undir að vissulega væri hipp og kúl að geta flogið og svifið. Um daginn var ég hins vegar að labba í London með fjölskyldunni er við gengum fram á ælupoll einn mikinn (með bitum og næs). Ógeðstilfinning okkar magnaðist verulega þegar við sáum dúfur hópast að og gogga í sig gubbið með áfergju. Er nema von að átakasamt sé í heimi þar sem dúfa er tákn friðarins?

Ég er þunn í dag. Lít ekki á það sem vandamál, heldur verkefni.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Var að mygla...

fyrir framan skjáinn í vinnunni, stóð upp smástund og fór út á svalir (já, ég er með einkasvalir, já, ég er afar mikilvæg persóna). Er á annarri hæð og varð vitni að eftirfarandi á stéttinni beint fyrir neðan.

Ung aðstoðarstúlka í skærgulum bol ýtir gráhærðum manni í hjólastól á undan sér í veðurblíðunni. Það er létt yfir þeim, þau spjalla saman og hlæja. Þetta litla brot heyri ég úr samtalinu:

Ung stúlka: Hvernig var hárið á þér á litinn?
Maður í hjólastól: Ég var alveg dökkhærður, nema skeggið á mér var eldrautt. Og punghárin.
Ung stúlka: Já, var það?

Þau eru komin úr heyrnarfæri á þessu stigi, ég greini ekki orðaskil lengur. Það verður að segja stúlkunni til hróss að hún hélt alveg kúlinu, enda þeim ekki fisjað saman sem vinna á hælinu í Mosó.

miðvikudagur, júlí 20, 2005

Harðsperrur...

harðsperrur, harðsperrur. Áááiiii. Vont. Ég hreyfi mig eins og illa smurt vélmenni. Fór á Esjuna í fyrradag og þetta eru þakkirnar!

Vont veður og ég í fríi. Gott veður og ég að vinna. Eitthvað fleira í fréttum? Nei, varla.

laugardagur, júlí 16, 2005

Harry Potter...

seiddi til sín börnin mín í nótt. Þau voru númer 71 (og 72 og 73) í röðinni. Við vorum reyndar búin að panta bókina á Amazon, en Ásta gat bara ekki beðið í viku eftir að fá hana. Því eigum við væntanlega tvö eintök bráðum. Ætli við seljum ekki Potter á uppsprengdu verði - vill einhver bjóða í bókina? Það er biðröð.

Fór út að hjóla áðan í mígandi rigningu og brunaði mér til skemmtunar í gegnum gusuna af gosbrunninum í Tjörninni (rokið ýrði vatninu svo skemmtilega yfir göngustíginn). Það sér ekki á fjólubláu, ég var hvort eð er orðin rennvot. Mér finnst gaman að hjóla eins og brjálæðingur í roki og rigningu.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Byrjuð að vinna...

aftur, fríið búið, búhúúú...

Keypti mér í London lítinn fugl til að hafa á tölvunni í vinnunni, svona ogguponkuponsu krúttlegt grey sem tístir ef maður ýtir við því. Veit ekki hvort ég klikkast einn daginn og skýt föglinn í bræðiskasti, en það verður alla vega ekki strax. Er slööök og fiiíín eftir goooott frí. Ekkert getur haggað mér og ef einhver reynir það þá tísti ég bara.

mánudagur, júlí 11, 2005

Sendi síðhærðan..

10 ára son minn í klippingu í morgun, með tvöþúsund kall í vasanum. Sagði að hann réði alveg sjálfur hvernig hann léti klippa sig, mætti koma til baka með hanakamb mín vegna.

Peyinn sneri við skömmu síðar með bros á vör og nákvæmlega eins hár og þegar hann lagði af stað - en 1800 krónum fátækari. Kom í ljós að hann var bara ánægður með síða hárið eins og það var, en lét þó klipparann "aðeins snyrta endana". Ég rýndi í hárlubbann og fannst ég hafa fengið soldið lítið fyrir peninginn en hreyfði engum andmælum. Mér er nær að aðhyllast svona losaralega uppeldisstefnu.

sunnudagur, júlí 10, 2005

Loksins lét ég verða af því...

að fara í fjallgöngu (fellgöngu) í sumar. Við Hjalti röltum á Mosfellið áðan, það var fín ganga. Settumst í mosabreiðu, borðuðum nesti og virtum fyrir okkur grösuga dali, ár og fjöll. Alveg eins og við værum úti í sveit. Yndislegt.

Ásta fór í útilegu í Þjórsárdalinn. Æ, við verðum að drífa okkur með strákana í útilegu í sumar. Sjálfri finnst mér leiðinlegt að sofa í tjaldi, sef varla dúr. En er það ekki partur af uppeldi íslenskra barna að fara með þau út í náttúruna og sofa með þessa þunnu skel milli sjálfsins og heimsins? Held það bara. Líka svo margt skemmtilegt vesen í kringum útilegur, prímusar, lugtir, svefnpokar, plastáhöld, brúsar og svoleiðis. Verðum bara að drífa í þessu. Set það á dagskrá.

föstudagur, júlí 08, 2005

Gleymi aldrei...

svipnum á dóttur minni þegar hún opnaði ísskápinn með leikrænum tilþrifum og sýndi okkur inn í hann. Forsaga málsins er sú að hún var skilin ein eftir á heimilinu í níu daga. Alein, með enga matarpeninga. Og stúlkan ekki nema rétt rúmlega tvítug (já, ég veit, við erum vondir foreldrar). En sumsé, þegar við komum heim, þá dró hún okkkur að ísskápnum.

Í ísskápnum voru níu dollur af 10% sýrðum rjóma sem hún hafði raðað upp í best-fyrir-fyrir-löngu-röð (þær sem voru mest útrunnar lengst til vinstri og svo framvegis). Fyrir utan sýrða rjómann var ekkert ætilegt á stangli, jú, smá sulta og hálfnagað harðfiskroð. Var þetta ásökun í svipnum á dóttur minni? Jú, ég er ekki frá því. Hún var skilin eftir ALEIN með níu dollum af sýrðum rjóma. Í níu daga.

Pétur var fljótur að koma sökinni yfir á mig og sagðist aldrei kaupa 10% sýrðan rjóma, bara 18%. Týpískt. Innkaupafíaskóið dæmist því sjálfkrafa á mig (kemur það aldrei fyrir ykkur að grípa sömu vöru trekk í trekk, hugsunarlaust)? Og nú, sem ég skrifa þetta, er ég að baka brauð (með ríflegum skammti af útrunnum sýrðum rjóma). Nammi namm.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Skuggi yfir...

heimilinu í dag. Komum úr frábærri ferð til London um miðnættið og vöknuðum við fregnir um hryðjuverk. Og mest mannfall í stöðinni sem við fórum um mörgum sinnum á dag, King´s Cross. Hótelið okkar var í 200 m fjarlægð frá þessari fjölförnu stöð. "Hið illa er óskiljanlegt" stendur víst einhvers staðar. Eitthvað til í því.

Mikið er gott að vera komin heil heim með strákana mína. Þegar við stigum út úr Leifsstöð þá fannst okkur kuldinn hér heima miklu betri en kuldinn úti í London. Kuldinn hér er hlýrri, sagði Pétur. Jamm og já.

sunnudagur, júní 26, 2005

HanSolo,

gefðu þig fram. Hver ertu? Ég er svo hræðilega forvitin.

Annars er það helst að frétta að ég er að fara til London með strákunum mínum. Hlakka til, en finnst voða leiðinlegt að pakka.

Lifið lengi og blómstrið.

föstudagur, júní 24, 2005

Fann í mér...

karlmanninn í fyrradag. Var uppi á þaki og negldi niður þakpappa, taktföst hamarshöggin vöktu í mér testesterónið. Kallbeyglan mundaði gildan gasbrennara, lét logana sleikja (og steikja) bikið, lagði svo pappann á þakið og ég negldi. Við vorum helvíti flott par.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Kann einhver...

japönsku? Bloggerinn minn er allur á japönsku. Við eigum í samskiptaerfiðleikum. Hjálp! Svo eru alltaf að birtast litlir tíglar með spurningamerki inní og ryðja burt íslenskum stöfum. Mikil og lítt gefandi handavinna að laga það. Þetta er eitt stórt samsæri - made in Japan.

sunnudagur, júní 19, 2005

Ég þoli ekki...

jólahandklæði. Að þurrka sér um hendurnar á jólatré í júní er ömurlegt. Jólahandklæði eru með verstu uppfinningum mannsins. Þau stinga í stúf (haha, ekki jólasveininn) nær allt árið, innan um heiðvirð handklæði, en ættu bara að dirfast að láta sjá sig í desember. Fatta jólahandklæðin það? Nei. Jólahandklæði eru eins og sumt fólk. Aldrei með á nótunum, aldrei í takt við umhverfið.

Ég ætla að henda þessum tveimur jólahandklæðum sem til eru á heimilinu. Skítt með það þótt tengdamamma verði fúl.

laugardagur, júní 18, 2005

Kallinn minn...

á afmæli í dag. Hann er hálf fimmtugur, eins og það heitir víst. Skulum bara túlka það eins og unga fólkið gerir og segja að hann sé töttögofimm. Til hamingju Pétur:)

föstudagur, júní 17, 2005

Aftur með ...

timburmenn. Og það á sjálfan 17.júní. Fjandakornið, nú ætla ég að taka heilbrigða rispu í líferni. Vorum í brúðkaupi í gær og það var mikið fjör. Giftingin fór fram í gærkvöldi í Dómkirkjunni og svo var dansað fram á rauða nótt. Æði margar súlur eru í kirkjunni, en þær fengu að standa óáreittar fyrir mér. Voru bara fyrir mér. Síðan má þakka forsjóninni fyrir að Iðnó er súlulaust svæði. Í dag er ég ekki beint með móral. Bara hausverk. Og afskaplega sárfætt eftir háhæluðu bandaskóna.
Björn Jörundur, Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson voru allir meðal boðsgesta og hápunktur kvöldsins fyrir mér var þegar Eyvi og Stebbi tóku Nínu uppi á sviði (úff hvað þetta hljómar eins og þýsk klámmynd, en þið vitið alveg að ég er að tala um lagið). Svo söng Björn líka nokkur lög og hann er einfaldlega ofurtöffari. Það getur verið misgaman þegar gestir rífa hljóðnemann og koma með framlag í veislu en í öllum þessum tilfellum var það megaflott. Og brúðhjónin voru glæsileg og gegn-hamingjusöm að sjá. Þetta var skemmtilegt brúðkaup.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Hann á afmæli í dag...

hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Matti, hann á afmæli í dag. 14 ára og kominn í unglingavinnuna að reyta arfa. Það finnst honum leiðinlegt (og arfanum ábyggilega enn leiðinlegra).

Ef ég væri atvinnulaus væri ég 230 kíló. Lágmark. Geri varla annað en að þjóna munni og maga í fríinu. Það er svo gaman að elda, baka og borða. Kjams kjams. Og drekka. Glogg glogg.

Þessu tengt: fór til Inga tannlæknis í dag. Var í ævintýralegu skapi og ákvað að þiggja ekki deyfingu, en tannlæknirinn þurfti að bora út gamla fyllingu. Hef alltaf látið deyfa mig áður, alveg undantekningalaust í boriboristandi. En, þetta var bara eins og þreytandi húsasmiðjuauglýsing - EKKERT MÁL. Var ég ekki dugleg?

mánudagur, júní 13, 2005

Sat á kaffihúsi...

áðan, alein með fartölvuna og var að skrifa grein út af rannsókninni minni. Fannst ég últra kosmópólítan, saup á mínu kappútsjínói en skrifaði lítið af viti. Sem er aukaatriði.

Kallinn stynur mikið þessa dagana af því að hann er að undirbúa byggingu 9 fermetra skúrs útí garði. Þetta er mikið verk og það þarf að spekúlera í því óskaplega djúpt. Ekki ana að neinu. Guði sé lof fyrir hvað kallinn minn á gott með að hugsa.

sunnudagur, júní 12, 2005

Æ,æ og ó ó...

það eru litlir kallar að smíða og saga í hausnum á mér og svo er klaufalegur handlangari oní maganum mínum eitthvað að brölta. Ósköp á ég bágt í dag. Fór í partí í Garðabæinn í gær og skemmti mér alveg svakalega vel. "Svona fá þeir syndagjöldin sem eru að göltrast úti á kvöldin." Sagði amma. En nú ætla ég að líta á björtu hliðarnar. Þær eru þessar:

1. Ég gubbaði ekki í blómapott.
2. Ég reyndi ekki við tvítugan son húsráðenda.
3. Ég datt ekki á rassinn í súludansatriðinu mínu.

laugardagur, júní 11, 2005

Fimbulfambi...

komst að kjarna baunarinnar er honum varð að orði:

Með gæðablóðið gengur hér
og gefur ekki neinum.
Í dulargervi dömu er,
dirty harry í leynum.

Þetta er hárrétt hjá Fimbulfamba. Því:

Í mér býr heitasta hörkutól
með háðslegt skítaglott
þetta´ er hið argasta andstyggðarfól
sem ætti að hunskast á brott.

Bæ-ðe-vei þá ætla ég að taka alteregóið með mér í partí í kvöld - við harrí skemmtum okkur ábyggilega vel (eða illa).

Síðan ein tilvitnun í goðið fyrir harðgera lesendur:

Opinions are like assholes. Everybody´s got them.

föstudagur, júní 10, 2005

Hér er afar merkilegt...

próf fyrir ráðvillta (fann þetta á bloggsíðu hjá vinkonu dóttur minnar - ungt fólk er leitandi).


miðvikudagur, júní 08, 2005

Já, það eru ekki margir...

sem koma inn í banka og ætla sér að leggja inn en eru reknir út. Þessari bitru reynslu varð ég þó fyrir, eins og ég hef áður deilt með ykkur. Viðbrögð vina minna og vandamanna hafa verið sem smyrsl á sárin - hafið þökk fyrir samhygðina (sérstaklega Ærir og félagar, sem oft gauka góðu að manni á erfiðum stundum).

Ætlaði mér að leggja´inn eitthvað gott
í einstaklega þarfan bankasjóð
harkalega var þá hent á brott
- húsið vildi ekki gæðablóð.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Ég var rekin...

úr bankanum. Alveg satt. Þetta gerðist, nánar tiltekið, í blóðbankanum - mér var sagt að ég þyrfti EKKI að koma aftur og var síðan strikuð út af gjafalistanum. Ég er víst ekki nógu góður blóðgjafi af því að í mér leynist leggur af aðalsmær. Ég fell í yfirlið af minnsta tilefni og hef verið svona frá blautu barnsbeini. Er voða sorrí og meyr yfir þessu, játa það. Mig langar nebbla svo óskaplega að vera hörkutól sem situr í ruggustól með úfið hár, haglabyssu í kjöltunni, viskí í annarri og vindil í hinni. Maður getur bara látið sig dreyma...

mánudagur, júní 06, 2005

Aaahhhh...

búið að ferma eldri soninn. Og dagurinn var yndislegur, veðrið fínt, gestirnir æðislegir og fermingardrengurinn frábær. Nú get ég slappað af, loksins, loksins...

fimmtudagur, júní 02, 2005

Fórum ...

á fermingaræfingu í gær í kirkjunni. Sýndist ekki veita af, börnin þurfa að raðast rétt þegar þau ganga inn, setjast, standa upp, ganga út. Stelpur (þrjár talsins) öðrum megin og strákar (8 stykki) hinum megin. Svo lét presturinn börnin æfa sig að krjúpa við gráturnar. Strákagreyin áttu afskaplega erfitt með að krjúpa og enn erfiðara með að standa upp aftur - flestir stóðu þeir upp jafnfætis, ríghéldu í handriðið og rykktu sér upp þannig að brakaði hátt í viðnum. Sérann sýndi börnunum réttan limaburð, hvernig átti að krjúpa og standa upp virðulega og hátíðlega. Hann kenndi þeim líka rétt viðbrögð ef þau skyldu óvart hafa með sér sálmabókina upp að altarinu. Ákaflega vönduð vinna hjá prestinum.

Ég er svooo lúin - búin að hamast við gluggaþvott, bakstur og þrif í allan dag. Var siðan að henda kjúlla og grænmeti í pottinum eina inn í ofn. Hugmynd að matreiðslu kjúllans fékk ég við að horfa á Queer eye for the straight guy - alveg einstaklega skemmtilegir þættir verð ég að segja. Ætli hommar séu skemmtilegri en streitarar? Hef ekki hugmynd. Þekki bara einn og hann er reyndar alveg ágætur.

þriðjudagur, maí 31, 2005

Ég er komin í...

sumarfrí, hí, hí, hí.

mánudagur, maí 30, 2005

Ég er ekki að segja..

að við höfum gengið of langt í "þrifnaðaráætlun ferming", en... Í vinnunni í morgun blikkaði félagsráðgjafinn mig (ekki efnafræðingurinn, heldur góðleg kona á sextugsaldri) og dró mig afsíðis. "Ég er með stöffið", sagði hún, og rétti mér eiturgrænan dunk sem gutlaði í. Þegar ég kom heim, með fiðring í maganum, bar ég efnið á baðkerið, sem er í ýmsum litatónum eftir langa og dygga þjónustu. Eftir örskamma stund þurftum við að grípa til "viðbúnaðarstigs appelsínugulur" sem felst í því að allir flýja heimilið, hratt og fumlaust í einbreiðri röð. Dverghamstur og stofublóm urðu eftir (þetta var svokölluð forgangsröð). Núna, sem ég skrifa þetta, eru allar dyr og allir gluggar upp á gátt og ég þori varla að gá hvort baðkerið er enn á sínum stað.

sunnudagur, maí 29, 2005

Búin að skrifa lista...

og afhenda kallinum. Hann er kominn í sumarfrí þessi elska. Lætur sig dreyma um að slappa af á morgnana með kaffibolla, fara í ræktina, koma svo heim og slappa af yfir kaffibolla og tölvugrúski. Ég sossum skil hann vel. Sjáum hvað setur.

Eitt af því sem er á listanum ógurlega er að koma drengjunum okkar í klippingu. Það er ekki auðvelt verk. En hann er seigur kallinn. Galdurinn í öllu uppeldi er að vera aðeins þrjóskari en afkvæmin.

laugardagur, maí 28, 2005

Hvílík sæla...

að potast í mold - var ég kannski ánamaðkur í fyrra lífi? Búin að kaupa helling af blómum og gróðursetja í allan dag. Það er svoooo gaman. Ótrúlegt að sjá þennan kraft og seiglu í gróðrinum, ár eftir ár. Lífið er undravert:-)

föstudagur, maí 27, 2005

Ertu forvitin/n?

Ertu hnýsin/n? Ertu með nefið oní hvers manns koppi? Ef svo er þá hefur þú vafalaust kíkt í skúffurnar...kanntu ekki að skammast þín?

miðvikudagur, maí 25, 2005

Mætti halda...

að ég væri alltaf að þrífa miðað við mörg bloggin hér. Þetta er misskilningur, ég hneigist því miður lítt til skúringa. Napur sannleikurinn er sá að ég er komin með fermingarveikina. Það er ekki ljótara en það (eins og afi minn sagði alltaf).

þriðjudagur, maí 24, 2005

101 húsráð...

fékk ég á kaffistofunni í dag þegar ég reifaði misheppnaðar tilraunir mínar um helgina við að ná stálvaski hreinum og glansandi. Samstarfsfólk mitt er fádæma ráðagott og leysir hvers manns vanda. Félagsráðgjafinn breyttist í efnafræðing á svipstundu og taldi upp ótal efni til að pússa stál þannig að það glitraði sem demantur á eftir. Efni þau sem hann nefndi eru til á hverju heimili. Ekki kæmi mér á óvart þótt félagsráðgjafi þessi gæti búið til sprengju úr púðursykri, kertavaxi og gúmmíhanska.

laugardagur, maí 21, 2005

Það var alveg frábær..

þáttur á Rás 1 í morgun, afar fróðlegur. Þátturinn hét "það er leikur að ...lesa". Margt spaklegt þar á ferð (þið getið heyrt hann á netinu).

Hélt með Ísrael í Júróvisjón. Fannst stúlkan sú syngja fádæma vel, vera geðug og barmafull af list. Aðrir í fjölskyldunni héldu með Noregi. Fannst Grikkland ekkert með sérstakt lag - hef greinilega ekki rétt vit á mússíkk. Amman frá Moldóvíu var næst sætust í keppninni og lagið sem ég fékk á heilann var frá Rúmeníu (let me try, let me try..).

Þá vitið þið það og segið svo bara að ég segi ykkur aldrei neitt merkilegt.

föstudagur, maí 20, 2005

Hrmphff...

spæling. Þið vitið alveg hvað ég er að tala um. Örugglega rauða náttgallanum að kenna.

Sumt fólk er yndislegra en annað. Var að tala við samverkamann minn í rannsókn einni ágætri sem fjallar um lestrarvenjur fullorðins fólks. Kom til hans tætt og með heilan herðakistil fullan af samviskubiti og annarri lífsins steypu. Samverkamaður minn losaði gætilega hvert lagið af öðru utan af mér (andleg lög skiljiði, ekki fá neinar hugmyndir) og eftir klukkutíma fund með honum var ég næstum laus við herðakistilinn. Mister G. er bara dásamlegur maður - það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að hann hafi kvenmannsvit, svei mér þá.

miðvikudagur, maí 18, 2005

Með axlirnar í eyrunum...

öran hjartslátt, voða gleymin, ýmist sljó eða æst og eitthvað ómöguleg. Halló, þetta er ég. Stressbúnt. Vinnan er að buga mig. Einhver góð ráð? Svo er kallinn alltaf að vinna og lítið gagn í honum heima við. Skrambinn sjálfur. Hjálp!

sunnudagur, maí 15, 2005

Vorverkin.

Á hverju vori læri ég þessa lexíu: maður á ekki að hjóla með opinn munn.

laugardagur, maí 14, 2005

Sorpa...

er himneskur staður, staðgengill skriftastóls í kaþólsku. Maður kemur í Sorpu drekkhlaðinn dóti, þungstígur, samviskubitinn, álútur. Svo er bara - halelúja - gámur fyrir hvert item - allt þetta drasl sem lengi vel nartaði í sálu þína. Staður fyrir góðar fyrirætlanir sem runnu út í sandinn - sá þreytulegan mann hefja þrekhjól upp fyrir ístruna og kasta því í Rauða kross gám. Voru þetta brosviprur á andliti hans eða áreynslugretta? Er ekki viss. Í Sorpu er staður fyrir hjól sem ryðguðu úti í vetur, af því að eigendurnir nenntu ekki að fara með þau inn í skúr, og hver lítill ryðblettur hlóðst utan á samviskuna og þyngdi. Uppþvottavélin ruddist með látum ofan í ginnungagap, að fengnu leyfi hjá mildilegum staðarhaldaranum sem var ekki í hempu, heldur skítugum bláum samfestingi. Fernur í litla gáminn, skór í tunnu; 10 tonn af dagblöðum - sprilljón orð - hurfu í risavaxinn bláan kjaft. Og 15 tonn af fötum. Veit ekki hversu mikinn greiða maður gerir þriðja heiminum með því að sturta á hann öllu þessu gamla flísi. Föt fyrir fátæka fólkið eru léttvæg yfirbót þegar maður er dauðfeginn að losna við þau. En hver veit, kannski á við hálfa Maríubæn?

Svo sest maður upp í bílinn. Léttur, hress, búinn að losa. Tilbúinn að takast á við þaulæft hlutverk neytandans á ný - og fylla allt af nauðsynjum og sjálfsögðum hlutum.

föstudagur, maí 13, 2005

Föstudagar...

eru súkkulaði, snúningar, gæðakaffi, búðaráp, jarðarber, eðalvín og allt gott. Mér er alveg sama þótt það sé 13. í dag. Föstudagar eru góðir dagar. Og laugardagar líka. Ahh...helgin framundan.

miðvikudagur, maí 11, 2005

Hjalti sonur minn...

segir mér oft brandara. Ætla að deila með ykkur tveimur.

Vantrúaður viðskiptavinur: Er satt að hárið vaxi hraðar ef þetta meðal er notað?
Sölumaður: Já, því máttu trúa! Í gær missti konan mín nokkra dropa af því á varalitinn sinn og í morgun gat hún burstað í sér tennurnar með honum.

Hefurðu heyrt um vitleysinginn sem gengur um allt og segir nei?
Nei.
Nú, ert það þú?

þriðjudagur, maí 10, 2005

Betty Crocker..

er ekki mamma Joe Cockers. Algengur misskilningur.

mánudagur, maí 09, 2005

Jakkaföt...

og fermingaraldurinn, hmmm...veit ekki alveg hversu góð fjárfesting jakkaföt á fermingardreng megi teljast. Ein sölukonan reyndi að pranga inn á mig jakkafötum sem kostuðu á fimmta tuginn, m.a. með því að benda á að þau væru "úr svo sterku og góðu efni". Held nú að flestir fermingardrengir vaxi svo hratt upp úr sínum jakkafötum að þau endist varla út vikuna.

Mæli með myndinni Hitchhiker´s guide to the Galaxy. Fórum í gærkvöldi með drengina í Háskólabíó - skemmtum okkur öll konunglega enda stendur myndin vel undir væntingum. Verð að fá að nöldra aðeins yfir bíógestum sem tala rosalega hátt, eins og allir í húsinu þurfi að ná hverju einasta orði. Og fólk sem svarar hátt og snjallt í farsímann sinn, í miðri mynd, er nú bara ekki í lagi. Af hverju haga sumir sér eins og fávitar?

laugardagur, maí 07, 2005

6.B

hélt upp á 30 ára útskriftarafmæli sitt úr barnaskóla, reyndar ári á eftir áætlun. Undarlegt var að sjá andlitin aftur, sum hafði ég ekki séð í 30 ár. Þekkti samt alla, nema Guðmund, sem var ekki Guðmundur heldur einhver Finni sem prakkari bekkjarins hafði smyglað inn á samkunduna. Ég fattaði ekki að þarna væri maður að villa á sér heimildir fyrr en hann stóð upp (allir áttu að kynna sig) og söng lítið lag á finnsku.

Kópavogsskóli virðist þarna hafa alið af sér óvenju venjulegt fólk. Enginn hefur skarað fram úr, orðið frægur, lent á forsíðu DV eða í fangelsi; enginn hommi, enginn rosa feitur og engin lesbía. Allir ósköp indælir og litu bara vel út. Flestir eiga 2-3 börn og hafa haldið sig við sama makann í um 20 ár. Tveir eða þrír höfðu lent í baráttu við Bakkus og voru á snúrunni og má segja að það hafi verið það æsilegasta (fyrir utan gaurinn sem var útfararstjóri, smá stíll yfir því). Einhver gæti ímyndað sér að þetta hafi verið fremur dauf samkoma. Það er skoðun út af fyrir sig. Ég held reyndar að heimurinn væri síst verri þótt í honum væru fleiri 6.Bjéar. Alla vega fæ ég ekki séð að aðalvandi heimsins stafi af offjölgun indælisfólks.

fimmtudagur, maí 05, 2005

Vorum að fá okkur..

nýja vinnukonu. Hún er þénug, hljóðlát, vaskar upp og möglar ei. Fyrirmyndar uppþvottavél.

Í gær fór ég í vorferð með vinnufélögum mínum. Vinn með hreint ótrúlega skemmtilegu fólki og ekki hægt að láta sér leiðast með því. Gamalt þúfnagöngulag tók sig upp í kargaþýfi og mýri. Vakti upp í mér tröllskessuna, sem aldrei sefur fast þegar ég fer út í náttúruna - hlæ framan í vindinn, arka stórstíg og finnst ég geta allt. Náttúran er máttug og gerir stundum lítið úr okkur krílunum en hún gefur okkur líka kraft, þor og seiglu. Náttúran er undursamleg. Þeir sem hafa látið malbika í sér sálina komast kannski hratt en hvert eru þeir að fara? Held að lífið snúist frekar um njóta ferðalagsins.

þriðjudagur, maí 03, 2005

Vaðandi snilld.

Kannski er þetta grái fiðringurinn. Ég er algerlega dottin í Clint Eastwood - maðurinn er óviðjafnanlegur sem Dirty Harry, svei mér þá, mmjaáá... Fyrir ykkur, kæru lesendur, fleiri tilvitnanir í goðið:

I tried being reasonable. I didn't like it.

If you want a guarantee, buy a toaster.

Go ahead, make my day.

mánudagur, maí 02, 2005

Ég les...

oft blogg hjá gamalmenni sem gengur undir mörgum nöfnum, þ.m.t. "vísnaglaði vinnufélaginn". Hann er dularfull persóna, eða persónur, skyldi maður segja. Vinnufélagi þessi er haldinn sjaldgæfri persónuröskun sem nefnist "multiple personality disorder" (skv. áreiðanlegri greiningu löggilts talmeinafræðings). Röskun þessi brýst fram í ritstörfum mannsins og er á tíðum sérkennilegt að lesa hugverk hans. Þau eru gríðarmikil að umfangi (enda í raun margir höfundar sem stýra þessum líffræðilega tíu fingrum) og margvísleg að innihaldi, en það stafar af því að hann er margbrotinn persónuleiki. Ein persóna hans, og sú geðþekkasta verð ég að segja, heitir Skammkell. Skammkell er notaleg týpa, en það virðist fara eitthvað í taugarnar á nokkrum hinna karakteranna sem í manninum búa (trúlega öfund). Ég tek því hér upp hanskann fyrir Skammkel og bið hann vel að lifa. Hann er velkominn með sinn fagurgala á mitt blogg.

Einlægni er ofmetin
uni best við hrós
skilur þetta Skammkellinn
skjallar hverja drós.

Síðan set ég hér inn tilvitnun fyrir son minn, hinn viðkvæma frímerkjasafnara, píanóleikara, skákmeistara og fyrrum skylmingamann, Matthías. Það þarf varla að taka fram að fyrirmynd okkar beggja í lífinu er Clint Eastwood i gervi hins ofursvala Dirty Harry:

I know what you're thinking, punk. You're thinking, did he fire six shots or only five? Well to tell you the truth, I forgot myself in all this excitement. But being as this is a .44 Magnum, the most powerful handgun in the world and will blow your head clean off, you've got to ask yourself a question: do I feel lucky? Well do ya, punk?

sunnudagur, maí 01, 2005

Kaffi..

er magnaður drykkur - og gott kaffi er gott (vont kaffi er vont). Mæli með Selebes baunum frá Kaffitári, malið sjálf og hellið uppá. Ahhh...dásamlegt. Bræður mínir og systur: hættið að drekka náskol - drekkið bara gott kaffi, sterkt og hressandi. Setjið gæði ofar magni. Og gleðilegan baráttudag verkalýðsins.

laugardagur, apríl 30, 2005

Fegurð...

er afstæð og enginn getur skilgreint hana. Fegurð er þó vissulega eiginleiki sem liggur misvel fyrir fólki. Yngri systkini mín tvö hafa nokkrum sinnum verið beðin um að sitja fyrir í auglýsingum og reyndar mamma min líka. Enda eru þau öll fallegar og frábærar manneskjur. En nú kemur sorglegur kafli, viðkvæmir taki upp vasaklút: enginn, já ég endurtek - enginn - hefur beðið mig eða eldri bróður minn að leika í auglýsingu. Við Gunnar bróðir (og kannski pabbi líka) finnum fyrir höfnun af þessum sökum. Við erum litlu andarungarnir sem uxu úr grasi og - VOILA! - urðu bara endur.

föstudagur, apríl 29, 2005

Þið eruð heppin...

því í dag kvarta ég ekkert yfir rækallans kvefinu, sem ætlar mig lifandi að drepa.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Kvefið...

kvelur mig og plagar. Er búin að snýta af mér kvarthluta nefsins, augun sokkin og heyri ekki hálfa heyrn. Svo tala ég með hljóm sem á fagmáli kallast "lokað nefmæli". Alltaf gaman að þessu.

Sem ég rita þessar línur æfir sonur minn sig á píanóið. Hann er að fara að taka 3.stigið og Ásta 6.stigið (á klarínettið). Mikill dugnaður í blessuðum börnunum og býsna öflug hljóðagerð á þessu heimili. Hugsa stundum til þess hversu undarlegt það verður þegar ungarnir eru flognir úr hreiðrinu - ætli maður umberi þögnina? Kannski syngjum við Pétur bara dúett þegar við erum farin að skrölta í skinnavirkjunum, í takt við ískrið í leisíbojunum...AARRRGH! Þarna var tilhugsun sem fékk hárin til að rísa á höfðinu.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Svakalegt...

að vera með sandpappír í hálsinum (milligrófan) og hausverk. Langt síðan ég hef verið heima veik, sem betur fer. Búin að lesa öll dagblöðin (alveg ný upplifun) og ætti eiginlega að sinna einhverjum rólegum húsverkum. Húsverk - hausverk, þar liggur snurðan.

Veðrið er yndislegt og köngulærnar úti á verönd aldeilis komnar í ham. Um daginn stóð ég á veröndinni í 5 mínútur og talaði við mömmu í símann, svo þegar ég ætlaði inn aftur, þá gat ég varla hreyft mig fyrir næfurfínum þráðum sem festu mig við handriðið. Köngulærnar okkar eru undur verandar.

mánudagur, apríl 25, 2005

Ég er heima...

með hálsbólgu og hausverk. Fór í vinnuna í morgun, en varð frá að hverfa vegna lasleika. Ætla að reyna að hrista þetta af mér í dag, má ekki við því að liggja í pest.

Hjalti minn las upp úr myndasögu áðan þessa ágætu setningu: ef maður hefur engin rök, talar maður bara hærra. Ég ætla að lúra á þessari tilvitnun og nota hana í uppeldisskyni síðar meir. Grunar að þess verði ekki langt að bíða. Bræðurnir á heimilinu lenda nefnilega oft í réttnefndum hávaðarifrildum. Og enn hef ég ekki rekist á það fyrirbæri í heiminum sem drengirnir mínir geta ekki rifist um. Ekkert er of smátt eða ómerkilegt - allt getur orðið þeim að þrætuepli. Þeir leggja mikið upp úr því að hafa rétt fyrir sér, blessaðir englarnir mínir. Skemmtilegt hvað þeir eru líkir pabba sínum.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Jæja, þá eru Matti...

minn og félagar hans í skáksveit Laugalækjarskóla bæði Reykjavíkur- og Íslandsmeistarar grunnskóla. Æsispennandi einvígi var háð milli Rima- og Laugalækjarskóla í dag, til að skera úr um hvor skólinn hreppti Íslandsmeistaratitilinn. Í húfi var ferð til Danmerkur á Norðurlandamótið í haust. Matti og hinir fræknu félagar hans báru sigur úr býtum og hafa nú sankað að sér mörgum dollum, sem geymdar verða í Laugalækjarskóla um aldur og ævi. Frábært hjá strákunum og það þarf vart að taka fram að ég er afar stolt af syni mínum.

Svo þarf maður víst að fara að huga að fermingarundirbúningi - ég hef varla leitt hugann að bráðnauðsynlegum hlutum eins og servíettum, dúkum, veisluföngum, gestum, ljósmyndara o.fl. En við hjónin afrekuðum þó að kaupa garðhúsgögn í dag. Voða fín. Æ, þetta kemur allt með kalda vatninu.

laugardagur, apríl 23, 2005

Gíraði smáborgaraháttinn...

upp í góða veðrinu og fór í Smáralind. Í staðinn fyrir að gera eitthvað skynsamlegt, eins og t.d. að fara í fjallgöngu. En það er náttúrlega sígild skemmtun að troða sér í leppa í skelfilega þröngum mátunarklefum.

Í gærkvöldi þegar ég var að ganga frá eftir matinn hlustaði ég á gamla uppáhaldshljómsveit, Santana. Meistararnir í Santana eiga tvö af bestu lögum sem heyrst hafa, Black Magic Woman og Europa. Þetta eru gömul keleríslög frá mínum sokkabandsárum og koma mér alltaf í stuð, já, jafnvel stuð til að hamast við eldhússtörfin. Þið ættuð bara að sjá eldavélina núna - hún glóir og glitrar og skín og brosir.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Sumardagurinn fyrsti...

og ég var einmitt úti í garði að grófhreinsa beð. Grýtti allmörgum þriggja metra risamjaðjurtarstönglum frá því í fyrra í safnhauginn. Tekur svona 10 ár fyrir þessi fyrirbæri að verða að mold. Ég bíð bara róleg.

miðvikudagur, apríl 20, 2005

Takk fyrir...

veturinn:) og gleðilegt sumar, elskulegu lesendur nær og fjær.

Snemma gýtur góður vetur kálfi.

þriðjudagur, apríl 19, 2005

Framlag Hússtjórnarskólans...

í Hallormsstað í söngkeppni framhaldsskólanna 2005 er frumsamið (lag og texti) af tveimur nemendum og er svona:

Vefnaðarkennarinn

Ég var ástfangin
í fyrsta sinn
en maðurinn
var kennari.

Ég var í vefnaði
er hann kom til mín
og sagði mér
"ég er lofaður".

Í vefnaði
sem ég hataði
ég vildi drepa mig
- vefnaðarkennarinn.

Hér sit ég ein
með bandinu
ef ég fæ hann ei
fær enginn mig

í myrkrinu
allt er ömurlegt
ó kenndu mér
í vefnaði

ég vef bandinu
um hálsinn minn
ég vil fara burt
úr lífinu

a-úúúú..
o-úúú..

Af hverju vill kennarinn mig ekki?
Hann á bara eftir að uppgötva að hann elskar mig
hvað með það þó hann eigi konu
það er engin hindrun
það er bara töf.

Í vefnaði
sem ég hataði
ég vildi drepa mig
- vefnaðarkennarinn.

Kennarinn
kom hlaupandi
að losa mig
hann elskar mig
Sigfinnur
þú ert kennarinn minn
taktu mig
heim með þér.

Í Mónópólí spilinu
ég skemmti mér
með Sigfinni.

Í spilinu
ég skemmti mér
með Sigfinni.

Vefnaðarkennarinn.

mánudagur, apríl 18, 2005

Orðagetraun dagsins.

1.Bittinú.
2.Karnaður.
3.Vobeiða.
4.Martagl.

Kannast lesendur við þessi orð? Ég opnaði orðabók tilviljunarkennt á fjórum stöðum og renndi puttanum niður dálk þar til ég fann áhugavert orð á hverri opnu. Hvað þýða þessi orð? Gettu nú.

a)kynmök
b)ský
c)vera sem boðar óhamingju
d)lýsir gleðiblandinni undrun