mánudagur, nóvember 28, 2005

Ótrúlega...

viðburðarík helgi. Allt að koma í framkvæmdum og ég var umkringd smiðum, vinum og ættingjum alla helgina. Hafði góða hjálp í mýmörgum verkefnum og yndislegar vinkonur mínar hlustuðu á mig röfla um málefni hjartans - það er mikið á þær lagt.

Mamma mín, sem var í liðskiptaaðgerð á mjöðm fyrir stuttu, hökti meira að segja á hækjunum upp allar þessar tröppur í heimsókn. Hún ber sig vel hún móðir mín, og er kona sem getur allt. Fyrsta fjallið sem hún gekk á var Esjan, en mamma var þá sextug og hafði einsett sér að ganga á Esjuna "í afmælisgjöf". Upp á topp komst hún, á helberri þrjóskunni. Hefur reyndar ekki gengið á fjall síðan. Gerir það væntanlega þegar hún verður sjötug...

Íbúðin mín er full af lífi - strákarnir eru hjá mér þessa viku. Ég held ég komi til með að ofdekra þá - ég er svo glöð að hafa þá. Verð að passa mig og læra á nýja lífið...

Engin ummæli: