laugardagur, ágúst 30, 2008

Er málið að fúnna?

Íssslendingur yfir brúnna
arga teymdi mjólkurkúnna
gasprandi um guðatrúnna
gæti verið dauður núnna.


Ragmana ykkur að koma með fleiri vísur sem endurspegla þróun málsins. Keppt verður í eftirfarandi baunlympíugreinum:
 • þágufallsþraut
 • slettukasti
 • þolmyndarhlaupi
 • nafnháttarlyftingum
 • beygingarstökki
Verðlaun í boði, móttöku á Arnarhóli heitið.

Út úr kú

Voðaleg hroðvirkni er þetta, hver skaut alla prófarkalesarana?

Veit ekki hvort þið getið lesið fréttina, en þarna stendur m.a.: "Kú í Englandi var frelsuð úr prísund sinni nýlega en hún hafði fest höfuð sitt inni í þvottavéla trommunni. Gangandi vegfarandi kom auga á kúnna þar sem hún var orðin mjög pirruð..."

Hér er kýr
um kú
frá kú
til kýr.

Já, já, ég veit að þetta er tuð. En þetta kemur á prófinu.

fimmtudagur, ágúst 28, 2008

Júró sé lof og prís

Yfirleitt fer ég ekki í búðir mér til dægrastyttingar. Ein er þó verslun hér í bæ sem seiðir mig til sín, líkt og sírena úr kafdjúpu hafi mammons. Júróprís. Í Júróprís reika ég um, opinmynnt og dáleidd innan um aðskiljanlegan varning. Kex, plastblóm, flugur, kúbein, sulta, gúmmíbátur, garn, veiðistöng, blómavasi, hnífur, dósamatur, sokkar, málning, sápa, hamar, nammi, vaðstígvél, sjónvarp, skófla. Og um daginn rakst ég á....skó. Strigaskó af fínustu sort.

Nú þarf ég bara að læra að ráða sudoku.

miðvikudagur, ágúst 27, 2008

Silfursýning og sjóböð

Fruntalega var gaman að hitta nýsjóbaðaða Parísardömuna í Alþjóðahúsi. Eitthvað svo kosmópólitanskt (kosmópólitískt? nei, fjandakornið). Og mexíkóska (mexíkanska? nei, fjandakornið) kjúklingasalatið var lostæti, þótt biðin eftir því hafi stappað nærri mannsævi.

Verð að viðurkenna að mér fannst móttakan á Arnarhóli vandræðaleg. Rembingsleg kátína og uppgerðarléttleiki er ófyndinn. Og hvað voru þessir pólitíkusar (pólítíkansar? já, fjandakornið) að stilla sér upp þarna hjá landsliðinu? Veit einhver hvað "tæknimaður" gerir í handbolta?

Segið mér líka af hverju íslenskur almenningur á að borga ferðir fyrir efnafólk og embættismenn þegar þá langar að horfa á boltaleiki í Kína. Tvisvar.

Heigull er ekki kryddtegund

Litla raggeitin hló hátt og tilgerðarlega. "Ég vann", hugsaði hún og leit hróðug á verkfærin sín. Dró gauðslitna uppgerðarauðmýkt úr hrokabelg og bar vandlega á hana júgursmyrsl. Renndi holdugum fingri eftir sljórri egg smjaðursins. Afneitun fékk fægingu, enda mesta þarfaþing. Eftirlætisverkfæri sitt bar bleyðan upp að vörum, hvíslaði blíðlega, ó, elsku lygin mín, hvað þú skerpist við notkun.

Litla raggeitin lærði aldrei á spegil.

þriðjudagur, ágúst 26, 2008

Dagsatt

Ég get ekki mælt með skynsemi í málefnum hjartans.

mánudagur, ágúst 25, 2008

sunnudagur, ágúst 24, 2008

Menning spenning

Opnaði dauðsyfjuð annað augað til að vera með, horfa á boltann. Mér hefur liðið eins og föðurlandssvikara, en hvað gerir stúlka sem engan áhuga hefur á íþróttum? Nú hún sofnar bara aftur.

Vorum á þvílíkum menningarbuxum í gær, að það hálfa hefði nægt í nóbel og óskar. Eftir að hafa úðað í okkur fiskisúpu, Pippi, Lindubuffi og engiferöli, brugðum við okkur á ljóðaupplestur í Friðarhúsi, mjög notaleg stund og friðsæl. Hugskotið var flott. Svo beint að hlusta á örlítið meira voljúm, brýnin úr gömlu eldiskvínni minni (Kópavogi), Fræbblana. Þeir eru merkilegt band, batna með árunum. Sem ég litaðist um meðal áhorfenda stakk mig hvað jafnaldrar mínir eru að jafnaði orðnir aldraðir. Getur þetta staðist?

Sáum þessu næst Megas með Súkkatsöngvarann ágæta sér við hlið bera fram orð í söng. Býsna skemmtilegt að heyra í þeim. Mér gekk betur að skilja annan en hinn.

Bærinn var fullur af fólki og flugeldasýningin var búmm, hviss, vííííí!

Og silfur er fallegt.

laugardagur, ágúst 23, 2008

Hjólatúrinn og kúltúrinn

Í dag hafa kúltúrstraumar runnið niður andlitið á mér í bland við regnið. Hluti menningarinnar fór innfyrir augnlokin og hluti rigningarinnar gerði mig rassblauta á hjólinu.

 • Rákumst á þennan risavaxna pappírsmann í húsasundi. Eldri kona, sem sagðist vera móðir ljóðskálds, bar á hann lím af miklum dugnaði en vildi ekki leyfa mér að taka mynd af sér.
 • Fórum á Prikið og fengum okkur franskar með tómatsósu. Fyrir ofan barinn hékk miði sem á stóð: Herbert Guðmundsson skuldar.
 • Sáum þrjár mótorhjólalöggur háma í sig nammi og hlæja dátt.
 • Hittum vinkonu mína ljóðskáldið í bakgarði við Ingólfsstræti. Þar fékk ég í hendur eintak af nýútkominni bók hennar, Uppsveifla/Niðursveifla. Hlakka óstjórnlega til að hreiðra um mig á uppáhaldsstaðnum og lesa bókina. Til hamingju Hugskot! Mig langar að verða eins og þú þegar ég verð stór (lesist fimmtug).
 • Skipulagður göngutúr í Hólavallargarði var bæði fróðlegur og skemmtilegur. Ég sá draug, svartklædda konu, sem starði illilega á mig. Kannski það hafi verið hún sem hrinti mér um daginn. Ég elska þennan kirkjugarð.
Nú ætlum við að fá okkur fiskisúpu, svo förum við aftur á stúfana og drekkum í okkur enn meiri menningu, allt þar til himinninn springur út yfir sjónum.

fimmtudagur, ágúst 21, 2008

Raunverur í rafi

Hún Unnur María benti mér á þennan stórgóða texta. Síðan er á ensku og dálítið asnalega upp sett, en endilega plægið í gegnum þetta. Vekur mann til umhugsunar og þið sem lesið blogg (en skrifið ekki sjálf) - þetta kemur ykkur við líka.

Bara að hægt væri að kenna fólki eðlilega umgengni um netið. En það er víst jafn líklegt að sumt fólk fari eftir netreglunum eins og að það fari eftir umferðarreglunum.

Set þennan hér til að létta stemninguna, en aðeins þið sem lásuð bláa textann megið skoða.

Legg ekki meira á ykkur.

miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Drjúg þrjú orð

"Röskun varðar refsingu." Hefur alltaf þótt vænt um þessa meitluðu setningu á landmælingastöplum. Stundum þegar ég sit á löngum fundum, flýgur mér í hug þessi hnitmiðun sem segir allt sem segja þarf. Í þremur orðum.
Fátt raskar okkur.

Mikið var gaman að ganga á Helgafell í kvöld. Móbergsskúlptúrar, þeyttur lakkrísrjómi, sólblettastiklur í hrauni, blá fjöll, rauð fjöll, gul fjöll, mosi, lyng, hvönn, logn.

Er hlynnt nýrri stefnu þegar kemur að ósnortinni náttúru Íslands: Röskun varðar refsingu.

þriðjudagur, ágúst 19, 2008

Svona er hún inní

Svona er hún inn við beinið, bilaða tölvan. Frómt frá sagt hef ég aldrei ígrundað innviði þessa fyrirbæris, sem orðið er algengara á heimilum landsmanna en heimasími. Eins og glöggir menn sjá gat Hjálmar bjargað af harða diskinum öllum gögnum sem gagn gera. Svo ætlar þetta annálaða snyrtimenni að strauja líka. Tölvuna altso.
Á ég að vera afbrýðisöm? Sjáið hversu blíðlega hann horfir á hana. Þessa druslu.

Hjálmar útskýrði margt fyrir mér um tölvur. Það er hægt að vita heilan helling um þetta mál. Mér finnst móðurborð t.d. afar fallegt orð. Örgjörvi rausnarlegt. Skjákort skondið. Tengikví geimvísindalegt. Og kæliplata minnir mig á tyggjó.

Ég sver við efri vör Huggýjar að ég tók eftir öllu sem hann sagði.

mánudagur, ágúst 18, 2008

Bið bloggvini mína velvirðingar á þessari færslu, hún er ekki fyrir hvern sem er

Nú ætla ég að skrifa einfalt mál. Fyrir þig sem telur þig vera að horfa á raun-veru-leika-sjónvarp. Þú sem heldur að þú vitir allt um mig og mitt líf. Reyndu að ná þessu: Blogg er tómstunda-gaman*. Ég skrifa það sem mér sýnist. Ég ýki. Ég skálda eða sný hlutunum á haus. Gæti t.d.**** sagt að allt væri í himna-lagi, þótt mér liði ekkert sérstaklega vel. Þannig tekst ég á við leiðinlega hluti. Stundum. Þegar þannig liggur á mér.

Oft er ég glöð og skrifa gleðileg blogg. Mörgum þykja súr blogg skemmti-legri en sæt blogg. Það skil ég vel. Hver veit nema ég reyni að skrifa nokkur harm-þrungin***** blogg á næstunni. Þá líður þér ábyggi-lega betur.
*tómstunda-gaman er eitthvað sem maður gerir sér til dægra-styttingar**
**dægra-stytting er eitthvað sem maður gerir sér til dundurs***
***dundur getur þýtt föndur í þessu samhengi, eða slór
****t.d. er algeng skamm-stöfun og stendur fyrir orðin "til dæmis"
*****sorg-leg

sunnudagur, ágúst 17, 2008

Nýjar kartöflur og aldnir snillingar

Buðum fóstru Hjálmars í mat í gærkvöld. Hún er mikil skvísa, eldklár í kollinum, snögg í tilsvörum og kvik í hreyfingum. Þar að auki er hún 91 árs. Þegar fóstra mætti í partíið settist hún við píanóið og spilaði forleik úr La Travíata. Mikið dáist ég að svona konum.

Við gáfum fóstru nýveiddan lax með glænýjum kartöflum og ís með berjasírópi í eftirmat. Hún var sátt við kostinn.
Nýuppteknu kartöflurnar frá bóndanum í Mosó voru svo mikið lostæti að ég tímdi ekki að henda afganginum (af þeim soðnu). Við borðuðum þær í morgunmat, sneiddar ofan á ristað brauð með nýmöluðum pipar og salti. Yndislegur árbítur.

Erum annars búin að stússast í mat, þvotti, tölvuviðgerðum, tiltekt, leti, leggja í krækiberjalíkjör, búa til berjahlaup og saft og bulla um ropapeysur.

Svona helgar eru bestar.

föstudagur, ágúst 15, 2008

Kindagötubarnaleikur

Ég er hjólbeinótt. Minn fyrrverandi er kiðfættur og útskeifur. Er nema von að ég hafi haldið að við myndum eignast beinfætt börn? Smávægilegur misskilningur af minni hálfu, en rétt að taka fram að þetta átti engan þátt í skilnaði okkar Péturs. Börnin líkjast föður sínum uppúr og niðrúr og er það vel. Bráðmyndarleg og vel lukkuð börn öll þrjú.
Um daginn fór ég í fjallgöngu, seig í sinum og fótviss, og þá var mér bent á ótvíræðan kost þess að vera hjólbeinóttur. Sem kætti mig ógurlega.

Það er barnaleikur fyrir hjólbeinótta að ganga kindagötur.

fimmtudagur, ágúst 14, 2008

Borgin sem sefur

Samstarfið við Ólaf var "farsælt", samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknar eftir kosningar var "traust". Sagði Hanna Birna. Minnir óþægilega á aðgerðina sem lukkaðist vel þótt sjúklingurinn dræpist.

Og Hanna Birna er "sæl" með endurtekið samstarf við bændaflokkinn og Óskar er "bjartsýnn". Þau ætla að leggja áherslu á efnahagsmál (virkjanir). Svo sætt.

Nú getum við öll sofið róleg. Ekki vekja mig næst.

miðvikudagur, ágúst 13, 2008

Bilerí og óskiljanlegur skortur á súpukjöti

Eldaði kjötsúpu í fyrradag og bakaði fjallagrasabrauð og var því vel tekið af fjölskyldunni, enda börnin mest fyrir "heimilislegan" mat (sem minnst kryddaðan og helst soðinn). Komst að því að súpukjöt er ófáanlegt úr kjötborðum matvöruverslana og neyddist til að kaupa rándýrar sneiðar úr framhrygg í súpuna. Mér finnst að maður eigi að geta fengið bæði súpukjöt og smásteik úr kjötborðum, hvert stefnir heimurinn eiginlega?

Annars gengur einhver óáran yfir heimilið þessa daga. Sem dæmi má nefna tíðar bilanir:
 • Flugnaspaðinn minn rafmagnaði eyðilagðist, nú þegar geitungar eru sem mest að ofsækja okkur. Hata þessi kvikindi.
 • Klósettkassinn var sprunginn, það var alltaf vatn á gólfinu og versnaði stöðugt. Við fundum loks upptök lekans með því að beita kungfu brögðum og grænum matarlit. Unnustinn (ljómandi handlaginn) setti upp nýjan kassa í gær sem við keyptum í Byko fyrir ærið fé.
 • Sótti bílinn úr viðgerð í gær, það fór í honum háspennukefli og fleira. Bifvélavirkinn spurði hvort ég vildi eiga gamla keflið en ég afþakkaði og sagði að það yrði í besta falli ljótur blómavasi.
 • Heimilistölvan hrundi í fyrradag, harði diskurinn er trúlega ónýtur og þar fóru myndir og annað persónulegt stöff fyrir lítið. Ég átti bakköpp af flestum skjölunum, en ekki myndunum.
 • Góða skapið er búið að vera brokkgengt en ég held að það hafi hrokkið í þýðan gang í kvöld, því við örkuðum á Skálafell í sérlega fallegu veðri.
Auk þess legg ég til að hallóskan verði lögð í eyði, meira bileríið á þeim bænum alltaf.

sunnudagur, ágúst 10, 2008

Ber og kroppHelgin er búin að vera unaðsrík, hér kemur obbolítið nasahorn með sýnissjóninni. Og nei, ég horfi ekkert á Ólympíuleikana, mér leiðast skipulagðar íþróttir.
 • Gekk á Geitafell í Þrengslum með góðum vinum. Í Geitafelli var krökkt af aðalbláberjum og krækiberjum (sbr. myndir hér að ofan)
 • Nennti ekki að drekka rauðvín að gagni því mér leiðist þynnka heil reiðinnar býsn
 • Ræddi um múmínálfana, Bob Moran, Legíonerinn, manninn með stálhnefana, Lilla, Basil fursta og fleiri risa bókmenntanna við vini mína
 • Fann bleika burnirót (sjá mynd)
 • Tíndi fjallagrös handa vinkonu minni sem bakar grasabrauð
 • Var ekki í bænum í gær og missti af Gleðigöngunni
 • Frétti að það væri afar slæm hugmynd að vera í hvítum buxum og borða Nóakropp í bíó
 • Borðaði steinbít og aðalbláber að norðan, en mamma og pabbi færðu okkur björg í bú, nýkomin úr matarkistunni Dalvík. Berin þaðan eru langbest
 • Bjó til berjasíróp, vanillusíróp og fiskbollur
Má engu muna að ég taki slátur, dansi skottís, baki soðbrauð og strokki smér, allt er svo búsældarlegt hér á Kirkjuteignum.

laugardagur, ágúst 09, 2008

Aulatal

Á forsíðu Moggans gefur að líta ljóshærða stúlku tala í farsíma, sem væri ekki í frásögur færandi nema af því að hún er íslenskur keppandi á Ólympíuleikunum og gengur með samlöndum sínum í viðhafnarrófu þegar myndin er tekin. Vona að íþróttamennirnir taki símana ekki með sér þegar þeir keppa, alla vega ekki í sundi.
Er afar ósátt við "sparnaðarráð" á baksíðu Moggans. Auratal hefst á þessum orðum: "Þótt námsmann vanti ekki peninga í vetur kann það engu að síður að vera sterkur leikur hjá honum að taka námslán hjá LÍN og leggja til hliðar..." Svo er útlistað hvernig námsmaðurinn slyngi, sem á nægan pening fyrir, getur tekið námslán, lagt það til hliðar og ávaxtað á námsárunum. Hvað næst? Ábendingar frá Mogganum um hvernig hægt sé að fá atvinnuleysisbætur þótt maður vinni svart, feika veikindi og kría út örorkubætur og "leggja til hliðar"? Síðan hvenær hefur það verið hlutverk LÍN að hjálpa ríkum krökkum að koma sér upp "varasjóði"? Held að þessi blaðamaður Moggans ætti að kynna sér hlutverk Lánasjóðs íslenskra námsmanna og skammast sín, ef hann er fær um það.

Peningahyggjan er heimsk og blind.

föstudagur, ágúst 08, 2008

Sældin ein

Fórum í veiðitúr í Hlíðarvatn, Selvogi. Hef aldrei á ævinni veitt neitt, nema þegar ég fór í sjóstangveiði og dró ufsaslytti og þorskgrey úr Reykjavíkurhöfn. Hjálmar er mikill veiðikall og mig langar að læra þessa fornu matarlist. Hann er þolinmóðari en fjöllin þannig að e.t.v. á ég smá von.

Ég reyndist ekki ýkja fiskin, en Hjalti sonur minn veiddi tvær fallegar bleikjur í þessari fyrstu alvöru veiðiferð sinni. Hefur þetta í sér pilturinn.

Ég lagðist í náttúruskoðun og berjatínslu. Tíndi hrútaber, krækiber og bláber og hlakka til að búa til berjasíróp út á pönnukökur.

Sáum móbrúnan yrðling á vappi við vatnið. Einnig sáum við fálka sem virtist hafa töluverðan áhuga á yrðlingnum og stakk sér niður að honum. Hef aldrei fyrr séð tófu úti í náttúrunni og heldur ekki fálka. Reyndi að taka myndir, en þær komu ekki nógu vel út, enda á ég bara imbakameru.
Rákumst á þennan torfkofa úti í vatninu, en þarna virðist leki í kjallara hafa farið verulega úr böndunum. Starf pípara verður seint ofmetið.

Legg ekki meira á ykkur, enda þreytt og sæl, rjóð í kinnum og í maga mínum er smjörsteikt bleikja með kartöflum. *DÆS*

miðvikudagur, ágúst 06, 2008

Afneitun á flösku

Álpaðist til að kaupa gosdrykkinn Mix um daginn og fannst hann heldur verri en vant er. Skoðaði flöskuna og svo virtist sem ég hefði keypt eitthvert dæet-drasl í ógáti, ef ekki bara ölæði. Gaumgæfði miðann og sjá: Mix drykkurinn er sykurlaus en það er sykur í honum.

Ekki ætla ég að deila við Egil Skallagrímsson, hann er víst svo skapvondur.

þriðjudagur, ágúst 05, 2008

Þvottaráð óskast

Yngri sonur minn hefur dálæti á hvítum fötum. Það veldur aldraðri móður hans ýmsum erfiðleikum í þvottalegu tilliti. Varla er hægt að hengja hvíta spjör út á snúru án þess að fá í hana grátt klemmufar, pöddugubb eða malbikshnerra.

Lenti í því að fá blátt naglalakk í falleg drifhvít sængurföt (það mál er ótengt syni mínum). Hvernig næ ég naglalakki úr líni? Á ég að þora að nudda það upp úr asetoni, kámast ekki allt út?

Að öðru. Í dag leið mér eins og aula. Fór með úrið mitt til úrsmiðs til að fá nýja rafhlöðu og þegar ég sótti það var mér sagt að rafhlaðan væri í fínu lagi. Úrið hafði stoppað af því að takkinn var útdreginn. Úrsmiðurinn hefði hæglega getað ýtt takkanum inn og rukkað mig um nýtt batterí. En hann gerði það ekki. Sætt af honum.

Jæja, ætla að tölta út í búð og kaupa fisk. Þið getið sveiað ykkur upp á að það verður hvorki ýsa né plokkfiskur.

Góðar stundir.

mánudagur, ágúst 04, 2008

Gagn, orð, skraut

Herra tré gefðu mér súrefni. Herra staur gefðu mér ljós. Herra brunahani gefðu mér vatn.

"Búa hér í frjálsu samfélagi...blabla...nýtum náttúruna á skynsaman hátt....blabla....þessar ferðir eru yfirleitt mjög erfiðar vinnuferðir...blabla...við Íslendingar...blabla...í fyrsta lagi bauð íþróttasambandið forsetanum að fara...allir þjóðhöfðingar Norðurlanda fara...blabla...rektor kínversks háskóla sagði við mig, "við viljum læra af Íslendingum"...það er nú ekki gert ráð fyrir ræðuhöldum...blabla.."

Herra Ólafur Ragnar hefði átt að vera með eyrnalokka í stíl við hálsfestina. Jóhanna Vigdís var hins vegar afar smekklega til fara.

föstudagur, ágúst 01, 2008

Ölbölsupprifjun hin minni

Verslunarmannahelgin er undarlegt tilveruhopp. Þegar ég var táningur fór ég tvisvar á Rauðhettu og veltist sauðdrukkin um einhverjar koppagrundir. Man eftir leiðindaveðri, skítakömrum (of fáum) og aulalegum viðreynslum (of mörgum). Rámar í ótrúlega útsmognar aðferðir við að smygla brennivíni inn á svæðið, t.d. bora gat á niðursuðudósir, sprauta í appelsínur og vindsængur, grafa í jörðu og gvuðveithvað. Og hvað það var nú indælt að vera veikur af víndrykkju, röflandi og ælandi. Sannarlega eftirsóknarvert.

Við gamla og glaðlega fólkið óskum landsmönnum öllum sem mestrar gleði og minnstrar ógleði um helgina. Farið varlega elskurnar, það er bara eitt líf á mann.