laugardagur, júní 30, 2007

Þessi færsla er tileinkuð Diönu Krall og öllu fólki sem lifir

í kirkjugarði

örfínir þræðir
iðin köngurló
líf sitt vefur og
tengir hljóðlega
tvo legsteina
hlið við hlið

í grænu ljósi
feta ég þennan stíg
vefur spora minna
sendir skilaboð
um líf

aldrei
hefur Besame Mucho
hljómað betur


Elísabet Arnardóttir, allur réttur áskilinn höfundi

föstudagur, júní 29, 2007

Afsakið sól

Það er ekki hægt annað en vera í góðu skapi í svona veðri. Fæ líka strákana mína heim á morgun eftir þriggja vikna fjarveru og hlakka ómælt til að knúsa þá.

(Fyrirgefið jákvæðnina, hún blossar upp í sólskini)

Í gær fór ég í hópgöngu í Laugardalnum og fannst allir líta svo vel út, svona útiteknir og hraustlegir. Leit á mína eigin leggi og undraðist hvað ég væri orðin fallega tönuð. Fattaði þá að ég var með sólgleraugu á nefinu - ábyggilega heilsusamlegasta brúnkumeðferð í heimi.


Tilvitnanaþjónusta baunar fyrir þá sem vilja mikið fyrir lítið og nenna ekki að lesa bækur:

Life is a sexually transmitted disease.
R. D. Laing

A life spent making mistakes is not only more honorable, but more useful than a life spent doing nothing.
George Bernard Shaw (1856 - 1950)

Nobody will ever win the Battle of the Sexes. There's just too much fraternizing with the enemy.
Henry Kissinger

If I had to live my life again, I'd make the same mistakes, only sooner.

Tallulah Bankhead (1903 - 1968)

Life can only be understood backwards; but it must be lived forwards.
Soren Kierkegaard (1813 - 1855)

Þungur knífur.
Hrafn Gunnlaugsson

miðvikudagur, júní 27, 2007

Enn fleiri samhengislausar fregnir - skák, ekta konur og klifur


Jæja, þrátt fyrir hæga byrjun höfðu þeir það strákarnir í skáksveit Laugalækjarskóla, urðu í öðru sæti á Evrópumótinu. Til hamingju Ísland! Og Matti minn fékk 5,5 vinninga af 6, ekki slakur árangur það. Um afrek sveitarinnar og ævintýri má lesa á síðu Péturs. Og ef þið hafið einhvern tímann efast um að Mogginn ljúgi þá má sjá það svart á hvítu í dag - í skákfréttum Morgunblaðsins segir að Laugalækjarskóli sé í neðsta sæti á mótinu. Pfiff!

Langar líka að vekja athygli á frábæru bloggi, það er hún Sigga sem fær aðdáun mína þessa vikuna fyrir færslu sína. Svona eiga konur að vera.

Sprikl dagsins er klifur. Með dóttur minni. Hlakka til.

þriðjudagur, júní 26, 2007

Sundurlausar fréttir af kveinandi heimilistækjum og ólekkerum íþróttum

Þegar ég ræsi tölvuna mína þá hvín í henni eins og þvottavél í vindingu. Skyldi það vera slæmt merki?

Er á leið í stafgöngu þótt hallærisstuðull þeirrar íþróttar nálgist körling og golf samanlagt. Set upp sólgleraugu og læt mig hafa það.

Á annars ljóð dagsins á ljóð.is. Maður er svo frjór. Og svo á hún mamma afmæli í dag, til hamingju mamma mín:)

Legg ekki meira á ykkur í þessu yndislega veðri. Lifið og blómstrið.

sunnudagur, júní 24, 2007

Grænmetisóður (bloggari)

Rímar furðu fátt við skúrka
fjandi getur verið tregt,
í mér situr andleg gúrka
enda er lífið dásamlegt.

föstudagur, júní 22, 2007

Afsakið hlé

Veriði stillt. Ég er að fara í fjallgöngu. Lífið er svooo skemmtilegt:D

laugardagur, júní 16, 2007

Stjúpur, mold og leiði


Í dag fór ég með móður minni í tvo kirkjugarða. Gróðursettum blóm og snyrtum nokkur leiði.

Mikið er hann fallegur kirkjugarðurinn við Suðurgötu, ætla þangað aftur fljótlega og ráfa um. Stefnulaust. Yndislegur staður.
Akkúrat núna leiðist mér svo átakanlega að ég var að enda við að gera 30 armbeygjur og 60 magaæfingar. Langar út að hlaupa.
Kannski röltið í dag innan um dáið fólk hafi fyllt mig eirðarleysi.

föstudagur, júní 15, 2007

Vansungnir fjölskyldumeðlimir

Maður getur verið svo tillitslaus. Hér hef ég verið að hampa börnum mínum lon og don, en algerlega gleymt honum Putta.

Putti er skjólstæðingur Hjalta sonar míns, sem gerir mig skálægt að ömmu hamstursins.

Ég er natin og góð amma, les fyrir Putta sögur um vonda ketti og gef honum kínakál.

Ætla út á lífið í kvöld. Vantar pössun fyrir Putta.

fimmtudagur, júní 14, 2007

Til hamingju Matti

Þessi sólargeisli á afmæli í dag. Hann er 16 ára og já, þetta er gömul mynd af honum:)

Skáksnillingurinn er í Póllandi að tefla á afmælisdaginn, fyrir höndum er ferðalag á annað mót í Búlgaríu og móttaka í sendiráðinu í Berlín.

Í ágúst ólympíumót í Singapore og í haust Norðurlandamót í Finnlandi.

Skák er töff.

mánudagur, júní 11, 2007

Hagfræði fyrir byrjendur

Heyrði hagfræðikenningu í gær, sem jafnvel ég get skilið. Hún er svona:

Peningar eru best geymdir hjá ríka fólkinu, það kann með þá að fara. Láttu fátækling fá pening og hvað gerist? Hann eyðir honum.

sunnudagur, júní 10, 2007

Esjan og letin

Helgin, helgin....mikið fín.

Á föstudaginn kvaddi ég strákana mína, en þeir eru lagðir upp í langferð með föður sínum. Til allrar hamingju átti ég stefnumót um kvöldið við Hugskot. Dugði það dável til að bægja frá mér óyndi, enda er Hugskotið skemmtileg manneskja. Drukkum freyðivín, fórum út að borða og síðan á Ölstofuna, þar sem stóðu 75 manns fyrir utan að reykja, og inni sátu 5 hræður. Huggulegt. Stúderuðum veggteppi og aðra skrautmuni, einnig fulla skáldkonu. Hjá okkur settust þrír menn og einn þeirra átti EFNALAUG. Það átti víst að fá okkur til að gapa af aðdáun.

Laugardagurinn var letilegur þar til ég reif mig upp og þrammaði alein á Esjuna. Keyrði síðan í sveitina til Rúnu vinkonu. Hjá henni er alltaf gott að vera. Borðuðum framúrskarandi mat, drukkum rauðvín og fórum í miðnæturfrisbí, í stafalogni og undir vökulum augum tveggja hrossa. Hlaut ég við sveifluna allnokkur íþróttameiðsl, brotna nögl og rispað naglalakk.

Í dag er annar í leti. Bráðum kemur bróðir minn í heimsókn. Ætla að gefa honum kanilsnúða.

Legg ekki meira á ykkur.

föstudagur, júní 08, 2007

Að gefnu tilefni

Ég er ekki að fara í fangelsi.

þriðjudagur, júní 05, 2007

Segðu mér Darwin, lifa hinir fyndnustu af?

Í háskólanámi ytra skrifaði ég lærða ritgerð um skopskyn og skerta möguleika fólks í öðru málsamfélagi á að taka eðlilegan þátt í samskiptum við "innfædda" vegna máltengdrar húmorsröskunar. Húmor er nefnilega margslungið kvikindi. Húmor þróast, bæði í sögulegu samhengi og ekki síður frá vöggu til grafar. Húmor er spegill á samfélag og lifnaðarhætti, viðhorf og fordóma. Húmor byggist á sameiginlegum bakgrunni skopgjafa og skopþega. Húmor á það til að vera sorglega einstaklingsbundinn.

Sjálf kann ég aðeins tvo brandara, annan langan og hinn stuttan.

Fyrir framan mig liggur bók, Íslenskar þjóðsögur og sagnir, gefin út árið 1958. Í þessu riti hefur verið safnað saman hinu og þessu, þar til gerðum rímum fyrir "eldri menn, verur og dýr", þulum um "guðrækni og góðsemd", "háðsögum og gráu gamni" svo fátt eitt sé nefnt. Það sem vekur sérstaka athygli mína eru gátur sem vafalaust hafa þótt bæði drepfyndnar og snjallar árið sem olían fraus. Þær eru settar upp þannig að fyrst kemur svarið og svo gátan, svolítið eins og spurningaþátturinn Jeopardy sem ég kynntist í landi Bush-manna. Hér kemur smá sýnishorn:

Kirkja séð af hestbaki
Hvenær sástu kirkjuna alsetna af hestsbeinum?

Karl og Fjara kerling
Karl kom inn að morgni og mælti: "Nú er flóð, Fjara."

Svo ætla ég að sýna ykkur eina enn, en geyma lausnina þar til síðar. Giskið nú:

Hvort viltu heldur það sem loðið er, eða það sem snoðið er?

Íslensk fyndni eins og hún gerist best.

sunnudagur, júní 03, 2007

Bananahryðjuverkamaður í þrifnaðarkasti

Búin að vera svo dugleg um helgina að ég ætla að klappa fyrir sjálfri mér *klapp klapp klapp*. Smá sýnishorn af afrekum mínum:

  • Prófarkarlas heilt blað
  • Ryksugaði, skúraði, þurrkaði af og þreif eins og stormsveipur í kjánalega döbbaðri auglýsingu
  • Skokkaði og gekk stóran hring í Laugardalnum með Matta mínum
  • Þvoði þrjú tonn af þvotti
  • Fór í hjólatúr, skoðaði furðufiska og borðaði grillaðan skelfisk á hafnarbakkanum
  • Aflaði vikubirgða af mat hjá bleika grísnum, vann skemmdarverk á einum banana (reif óvart hluta hýðisins af þegar ég skipti klasa). "Æ, Jóhannes verður bara að blæða", tautaði ég og lagði bananann lymskulega frá mér, en þegar ég gekk frá heima uppúr gulu pokunum sá ég að Bónusfeðgar höfðu náð fram grimmilegum hefndum, því eitt egg var brotið. Dæmigert að sitja með sárt ennið eins og hver annar Sullenberger. Og nú vitum við Björn betur en að messa við auðmenn
  • Borðaði heilan kassa af guðdómlegu piparmyntusúkkulaði - Bendikct´s bittermints. Keypti það úti en ef einhver veit hvort það fæst á skerinu, þá plís segja baun
  • Talaði við syfjaða dóttur mína í síma, en hún er að læra spænsku í Salamanca. Um ævintýri hennar má lesa hér

föstudagur, júní 01, 2007

Fnykur


Hreysiköttur í ísskápnum. Bannsett kvikindið beit mig í höndina. Hvernig losnar maður við svona skaðræðisskepnu?


Vil ekki að fasteignaverð lækki í Teigunum.