föstudagur, mars 31, 2006

Löngun og döngun

Það þarf vilja og kjark til að breyta.

Það þarf vilja og kjark til að lifa.

Það þarf vilja og kjark til að treysta.

Það þarf vilja og kjark til að elska.


Albert hafði rangt fyrir sér, enda sjálfstæðismaður. Vilji er ekki allt sem þarf.

fimmtudagur, mars 30, 2006

In-suck

Kannast hlustendur við að aðrar þjóðir tali á innsoginu? Var spurð að þessu af sætum samstarfsmanni, algengt að fólk haldi að ég viti allan skrambann. Hann sagði að útlenskum körlum þætti sexí þegar íslenskar konur töluðu svona. "Er það?", spurði ég (á innsoginu).

Hvernig segir maður "að tala á innsoginu" á ensku? Speaking on the choke?

Svör óskast.

Stal prófi

frá anarkista. And here are the results from the Jungian jury:
ESFP - "Entertainer". Radiates attractive warmth and optimism. Smooth, witty, charming, clever. Fun to be with. Very generous. 8.5% of the total population.
Free Jung Personality Test (similar to Myers-Briggs/MBTI)

miðvikudagur, mars 29, 2006

Maulaði

samloku með róstbíffi og remúlaði og hlustaði samtímis á fyrirlestur geðlæknis um tengslamyndun hvítvoðunga við mæður sínar. Eftir því sem leið á fyrirlesturinn og saxaðist á samlokuna seig ég dýpra og dýpra niður í sæti mitt. Þema fyrirlestursins var að allt sem aflaga getur farið hjá einstaklingi sé móðurinni að kenna. Þungmelt fræði og fæði.

Og ég sem lét yngsta minn gráta sig í svefn til að kenna honum að sofna einn. Og hann grét og grét af einbeittri þrjósku (úr föðurættinnni). Enda kýs hann gjarnan að ganga um berfættur á öðrum fæti (sokkur á hinum) og myndar sín bestu tengsl við Randa. Sem er dverghamstur.

þriðjudagur, mars 28, 2006

Um leið og

dóttir mín sænaði inn á msn datt mér í hug að bjóða henni til útlanda. Og það gerði ég. Förum til Parísar mæðgurnar í ferð sem er ekki einu sinni á tilboði. Svona er ég farin að lifa á ystu nöf.

sunnudagur, mars 26, 2006

Mikið rosalega hlýtur mér að leiðast, fyrst ég skrifa blóðþyrsta færslu eins og þessa hérna

Í gær truflaði feit og pattaraleg húsfluga húsfrið minn. Ég eltist við hana um allt hús með undirfatabækling að vopni. Sló fast og ákveðið, þannig að íturvaxin fyrirsætan á forsíðunni klauf loftið trekk í trekk með "hæjaha!!!" (svona karatehljóð sem kom reyndar úr mínum barka).

Nú nú. Loks settist flugan lafmóð á gluggapóstinn í eldhúsinu. Lagði ég þá til hennar leiftursnöggt. Féll hún niður örend og það sem meira er, hauslaus. Hvar er hausinn?, hugsaði ég með mér og sá hann þá límdan í heilu lagi á gluggapóstinn. Hausinn hékk þar en búkurinn lá í dauðakippunum í glugganum. Er flugan úr sögu þessari.

Triumph!

laugardagur, mars 25, 2006

Stóri bróðir

The wages of sin are death, but by the time taxes are taken out, it's just sort of a tired feeling.
(Paula Poundstone)

Nótur. Snifsi. Launamiðar. Pirringur. Engin grið gefin hjá Stóra bróður. Fyrsta skipti á ævinni þarf ég að hugsa um að gera skattskýrslu. Virðist hafa verið andleg ljóska í þessu blessaða hjónabandi mínu. Ljóskulíki. Já, ég veit, þetta er ófyrirgefanlega óbríetískt af mér. En satt.

Skatturinn kennir skilinni konu að spinna.

Á morgun er ég búin að bjóða stóra bróður mínum og börnunum hans í heimsókn. Mun gefa þeim þykkar pönnsur löðrandi í sírópi. Með sterku pepperóníi (namminamm). Brósi ætlar að hjálpa litlu systur sinni í gegnum talnafrumskóg og nótustafla. Að sjálfsögðu læri ég þetta í leiðinni. Og geri skýrsluna mína sjálf næst. Upp á æru og trú.

föstudagur, mars 24, 2006

Óbermið í mér

bærir oft á sér. Í gær var ég að halda erindi á virðulegu endurhæfingarþingi. Um parkinsonsveiki. Til að brjóta upp fyrirlesturinn sýndi ég myndir úr starfinu á endurhæfingarstofnun þeirri sem er vinnustaður minn. Svo fór ég að tala um teymið sem ég starfa í, parkinsonsteymið. Sagði vinnuandann góðan og oft glatt á hjalla á teymisfundum.
Að við værum prúð og frjálsleg í fasi.
Að þessi hefði verið tekin í lautarferð í Öskjuhlíð.


Í kaffihléi rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar kollegi minn, eldri maður sem má ekki vamm sitt vita, kom til mín og sagði, "jaaá, voruð þið í ... svona paintball í Öskjuhlíðinni?"

Ég hafði bara ekki brjóst í mér að segja honum að við værum oftast í fötum á teymisfundum. Að í teyminu væru engir af asískum og afrískum uppruna, bara fölir Íslendingar. Að við værum yfirleitt óvopnuð í vinnunni. Að ég hefði bara laumað einhverjum gúgglu-myndum hér og hvar inn í grafalvarlegt erindi mitt af kvikindisskap.

Yfirmaður minn var á þessu þingi. Býst við uppsagnarbréfi á mánudaginn.

miðvikudagur, mars 22, 2006

Ég, frelsisstyttan

Á mánudaginn fór ég á fyrirlestur Andra Snæs Magnasonar og hitti tvær kollegur mínar. Sat á milli þeirra og krumpaðist af innri sælu og fögnuði yfir mælsku og leiftrandi greind Andra.

Stallsystir mín önnur skondraði á mig augum og sagði að ég liti svo rosalega vel út. "Það er frelsisljómi yfir þér." Hún hélt því fram að það væri vegna þess að ég væri fráskilin. Ég var svolítið hissa en tók hólinu af alkunnri hógværð. Er einfaldlega lang lang lang lang hógværasta manneskja sem ég þekki, og þótt víðar væri leitað.

Fór áðan að hugsa um meintan frelsisljóma. Það er nú ekki eins og ég hafi verið gift einhverjum axarmorðingja í 22 ár, hann Pétur minn er sennilega besti maður sem ég á eftir að kynnast á lífsleiðinni. En ég þráði að standa á eigin fótum. Svona er ég skrítin kona.

Og hér stend ég í dag. Bauna-frelsisstyttan. Fyrrverandi var mitt Frakkland. Og ég í mynni New York hafnar. Manhattan steinsnar í burtu. En af hverju er ég með þetta teina-fyrirbæri á höfðinu? Getur einhver sagt mér það? Eru þetta geislar? Doldið pönkaralegur höfuðbúnaður, jafnvel hættulegur ef maður vill eiga í nánum samskiptum við annað fólk. En kyrtillinn er ósköp þægilegur.

Nú er bara að læra að halda á kyndlinum og brenna sig og aðra sem minnst.

þriðjudagur, mars 21, 2006

Ég á afmæli í dag,

er eins árs gömul bloggstúlka. Það er sumsé ár síðan ég byrjaði að bauna á heiminn. Þetta hefur verið viðburðaríkt ár. Með eindæmum.

Fékk ótrúlega sendingu í gær frá Símanum.

Þannig var að ADSL tengingin virkaði ekki hjá mér, þegar hún var tiltölulega nýkomin upp. Hringdi í þjónustulínu Símans, sem er náttúrlega bara gaman. Í kjölfar þessa símtals kom bólugrafinn muldrandi fermingardrengur heim til mín. Hann ólundaðist eitthvað í 5 mínútur. Og sendingin sem ég er að tala um er reikningur. Upp á kr. 7.402,- Verklýsingin fyrir afrekið er svona, orðrétt:

"Yfir fór tengilinn og fékk hann til að virkar.
Prufaði svo hvort heimasíminn og nerið virkuðu líka og nú er allt komð í lag."

mánudagur, mars 20, 2006

Andaktug

er ég. Var að koma frá því að hlýða á Andra Snæ Magnason í Borgarleikhúsinu. Andri var að kynna bók sína "Draumalandið - sjálfshjálparbók handa hræddri þjóð" og hugmyndir sínar um raunveruleikann.

Andri Snær mælti af leiftrandi snilld. Ég er agndofa.

Dóttir mínfór á árshátíð stærðfræði- og efnafræðinema í HÍ um helgina. Í kjól af ömmu sinni. Mér finnst Ásta flottur nörd. Hvað finnst ykkur?

sunnudagur, mars 19, 2006

Aí karamba

hvað ég get verið vitlaus. Getur verið að maður gleypi við lygum þegar maður vill ekki meðtaka sannleikann?

Í Hjaltabókunum sagði Bjössi, vinur Hjalta litla, gjarnan (þegar hann hafði gert einhvern skrambann af sér): "Veistu Hjalti, það búa nefnilega í mér tveir menn."

Þetta fannst mér sniðug skýring. Þegar ég var 10 ára.

Pabbi minn

kom og lagaði sófann. Fór létt með það sá gamli.

Nú er það bara hjartað. Það er margbrotið. Eins og ég.
Margbrotin og djúp. Hæfileikarík, ekkert landsbyggðafrík. Óútfylltur tékki í gleðibankanum.

Kannski ég ætti að hvíla mig á júróvisjón lögunum í bili.

laugardagur, mars 18, 2006

Uppáhaldslagið mitt

akkúrat núna er með snillingnum Eivöru Pálsdóttur. Júróvisjónlag sem aldrei fór utan. Þessi unga söngkona fékk guðdómlega hæfileika í vöggugjöf. Flauel og silki. Kraftur og túlkun. Og færeyski framburðurinn ómótstæðilegur.

Í nótt deyr mín ást til þín
í nótt meðan máninn skín
sú von sem vakti ein með mér
núvirði einskis lengur er.

Í nótt hverfur öll mín þrá
í nótt allt sem trúði ég á.
Ókunnar hendur elska mig
og eyða minningunni um þig.

Í nótt er mitt hjarta kalt
og hver sem er má eiga það, eiga það allt.

Í nótt á ég engan að
í nótt engan samastað.
Þú varst mitt líf, mitt heita blóð
mín óskastjarna og eina ástarljóð.

Í nótt er mitt hjarta kalt
og hver sem er má eiga það, eiga það allt.

Lag: Ingvi Þór Kormáksson
Texti: Friðrik Erlingsson

Þið bara verðið

að lesa Yosoy eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Ótrúlega skemmtileg bók.

Fólkið í húsinu er að gera mig brjálaða. Þau byrjuðu kl. hálf níu í morgun að brjóta og bora og banka. Ég er að spá í að hlaupa út æpandi...í nýja íþróttagallanum. Fyrirsögn DV á morgun: Smekklega klædd kona braut niður þrjú hávaxin grenitré í Laugardalnum með berum höndum.

föstudagur, mars 17, 2006

Baun í erindum

Púff. Ég vorkenni sjálfri mér þegar ég vorkenni sjálfri mér. Nú er ég hætt. Vorkunn hjálpar engum. Allra síst manni sjálfum. Hvað gerir döpur baun? Hún tekur sér frí úr vinnu og fer í Smáralind. Mí tæm. Bauninni finnst gott að svífa innan um straum fólks, sem virðist hafa brýnum erindum að sinna. Ekki er mögulegt að sitja og vola, þá maður er umkringdur einbeittum kaupvilja. Baun festi kaup á þremur bolum og einum íþróttagalla. Var það vel.

Sá einkanúmer sem er svona: ME Hvað haldið þið að hafi vakað fyrir greiðanda númersins?
a) ME hljóðgervingur um jarm sauðfjár
b) ME eins og ég/mig í ensku
c) ME eins og fangamark, t.d. Már Einarsson
d) ME skammstöfun fyrir Menntaskólann á Egilsstöðum

Það er yndislegt að vera til. Og ég er ekki eins og sumir - sem líður best illa. Mér líður best vel.

fimmtudagur, mars 16, 2006

Í gærmorgun..

var ég glöð.

Í gærkvöld var ég ráðvillt og döpur.

Í gær brotnaði sófinn minn.

Í dag er ég ráðvillt og döpur.

Í dag á ég brotinn sófa.

Í dag á ég brotið og dapurt hjarta.

Á morgun ætla ég að verða betri.

miðvikudagur, mars 15, 2006

Eins og vatnið

Held því fram að ég skilji umræðu um vatnalög fullkomlega. Hef af því tilefni ort djúpt og kalt ljóð um þau.

Vatnalög

gutl gutl
niður

ýrist
gárast

splass
foss
úði

tíminn vatnið
fram streymir
endalaust

lekur
seytlar

gufar upp
í andhvolfið

mánudagur, mars 13, 2006

Blús og bömmer

Eftir að hristast alla helgina vegna framkvæmdagleði nágrannanna mætti ég í vinnu vongóð um betri vist þar og smá næði. En þá fyrst tók steininn úr. Vinnufélagar mínir voru næstum allir í arfavondu skapi. Þusuðu um yfirvofandi kreppu, fuglaflensu, verðbólgu, gyllinæð, heimska stjórnmálamenn, óþarfar nafnabreytingar á bönkum - og svo er að sjálfsögðu allt fjölmiðlunum að kenna. Svo var volað yfir skilum á skattaskýrslu og ársskýrslu. Og þar lenti ég í súpunni, því ég er svo óheppin að vera í sk. ársskýrslunefnd og þarf að moða þessu plaggi saman. Og er þar að auki í vefsíðunefnd. Yfir mig dynja aðfinnslur og kvartanir og enginn segir neitt þegar vel er gert. Hrmpf! Held ég geti allt eins fengið mér vinnu hjá skattinum. Eða orðið stöðumælavörður. Eða múrbrotsmaður. Mörg þessi vanþakklátu störf.

Ofboðslega hafa menn yfirdrifna nöldurþörf suma daga.

Aaaahhhh, en nú líður mér betur fyrst ég er búin að tuða í ykkur. Takk elskurnar:D

sunnudagur, mars 12, 2006

Á Kirkjuteigi

er athvarf ofvirkra. Vissi ekki þegar ég keypti íbúðina, að þetta væri yfirlýst skjól fólks með athyglisbrest og ofvirkni. Fyrir ofan mig er ólétt par að rífa niður baðherbergi og brjóta upp gólf. Þau eru að til kl. 11 á kvöldin virka daga, og byrja í argabítið um helgar að brjóta og bora.

Fólkið fyrir neðan mig er að brjóta sína íbúð í spað. Þau mölva burðarveggi í massavís. Réðu til sín múr-brots-mafíu. Þessir ungu mafíósar, dökkir á brún og brá, koma gvuð-veit-hvaðan og skilja ekki orð í íslensku. Eða kannski eru þeir allir heyrnarlausir. Þeir skapa þvílíkan hávaða að ekkert orð í íslensku nær yfir þau ósköp. Hreinlega eins og allir íbúar Eistlands, Lettlands og Litháen séru hver með sína loftpressu að hamast á einum haus. Mínum.

Nú ætla ég að kaupa tréklossa á mig og börnin og svo steppum við saman alla morgna kl. 7:15. Á kvöldin sippum við í klossunum.

miðvikudagur, mars 08, 2006

Móðir-faðir-vor

Móðir góðrar vinkonu minnar heitir Þura. Eitt sinn hlustaði hún á Auði Eir byrja "faðirvorið" á þessum orðum: móðir-faðir-vor. Þá varð til hjá Þuru þessi staka:

Geturðu hugsað þér guð þinn nú
og gjört þína bæn á meðan,
með brjóstin stinn sem bústin frú
og besefann að neðan.

Kannski bara best að hefja faðirvorið á orðum saklauss barns, sem hóf bænagjörðina á að segja "það er vor".

mánudagur, mars 06, 2006

Litli fuglinn

minn, grænn með rauðan haus, valt til og frá kl. 14:32 í dag og ég fann titring þar sem ég sat við vinnu mína (í Mosó). Ég hljóp fram og spurði tvo félagsráðgjafa (sem stóðu þar): Funduði jarðskjálftann? Ha? spurðu þeir í forundran. Ég spurði marga aðra og enginn hafði fundið neitt. Menn gerðu góðlátlegt grín að mér, en því er ég vön. Hef oft fundið jarðskjálfta og heyrt hvininn á undan þeim, án þess að aðrir hafi orðið nokkurs varir.

Og þetta var jarðskjálfti - með upptök annars staðar en í hausnum á mér.

Ætla að fá mér vinnu sem jarðskjálftamælir. Þægilegt innidjobb.

sunnudagur, mars 05, 2006

Kuldi og fálæti

Fór í bíó að sjá Blóðbönd. Frábær mynd. Fjallar um karlmann sem getur ekki tjáð vanlíðan sína og flýr erfiðleika. Karlmann sem vill hafa allt slétt og fellt á yfirborðinu, drekkur og heldur framhjá í stað þess að horfast í augu við vandamálin. Reyndar fannst mér hegðun eiginkonunnar ekkert skárri. En aðalsöguhetja myndarinnar lætur sínar sálarkrumpur bitna á blásaklausu barni. Ótrúlega tjáningarheft fólk. Mig langaði að berja það allt með teppabankara.

Það versta sem þú getur gert nákominni manneskju er að láta eins og hún sé ekki til. Skilaboðin eru: mér er sama um þig og hvernig þér líður.

föstudagur, mars 03, 2006

Heimskulegar spurningar

Ég er með tremma fallegar tær, nettar og vel skapaðar. Þær eru einstakar (ekki samvaxnar). Ákvað að bjóða tánum og helstu fylgihlutum upp á fótsnyrtingu um daginn. Það er svo gott að láta dekra við tásurnar. Ég reyndi að halda uppi smá spjalli við ungu, fallegu snyrtistúlkuna sem vann verk sitt af alúð. Spurði hana hvort siggið mundi halda áfram að vaxa endalaust ef maður léti ekki raspa það af. Hvort maður yrði þá hærri í loftinu og þyrfti stærra númer af skóm. Hún taldi það ekki ólíklegt. Svo spurði ég hana hvort einfættur maður fengi 50% afslátt. Hún svaraði mér grafalvarleg í bragði að hún þyrfti að spyrja yfirmann sinn að því.

Eftir snyrtinguna sveif ég léttfætt í Bónus. Keypti mér gúmmíhanska. Þegar ég kom heim og ætlaði að smella þeim gulu á mig, uppgötvaði ég að það var búið að fjarlægja hægri hanskann úr pakkanum. Að sjálfsögðu datt mér strax í hug einhentur ræningi.

Sýnir að maður á ekkert að vera að gaspra um hlutina.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Stysta persónuleikapróf sem ég hef tekið

(sá það hjá Frjálsfríði)

Your Personality Profile

You are dependable, popular, and observant.
Deep and thoughtful, you are prone to moodiness.
In fact, your emotions tend to influence everything you do.

You are unique, creative, and expressive.
You don't mind waving your freak flag every once and a while.
And lucky for you, most people find your weird ways charming!