föstudagur, mars 24, 2006

Óbermið í mér

bærir oft á sér. Í gær var ég að halda erindi á virðulegu endurhæfingarþingi. Um parkinsonsveiki. Til að brjóta upp fyrirlesturinn sýndi ég myndir úr starfinu á endurhæfingarstofnun þeirri sem er vinnustaður minn. Svo fór ég að tala um teymið sem ég starfa í, parkinsonsteymið. Sagði vinnuandann góðan og oft glatt á hjalla á teymisfundum.
Að við værum prúð og frjálsleg í fasi.
Að þessi hefði verið tekin í lautarferð í Öskjuhlíð.


Í kaffihléi rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar kollegi minn, eldri maður sem má ekki vamm sitt vita, kom til mín og sagði, "jaaá, voruð þið í ... svona paintball í Öskjuhlíðinni?"

Ég hafði bara ekki brjóst í mér að segja honum að við værum oftast í fötum á teymisfundum. Að í teyminu væru engir af asískum og afrískum uppruna, bara fölir Íslendingar. Að við værum yfirleitt óvopnuð í vinnunni. Að ég hefði bara laumað einhverjum gúgglu-myndum hér og hvar inn í grafalvarlegt erindi mitt af kvikindisskap.

Yfirmaður minn var á þessu þingi. Býst við uppsagnarbréfi á mánudaginn.

Engin ummæli: