laugardagur, desember 31, 2005

Elskulegu vinir,

bloggvinir og vandamenn. Megið þið blómstra á nýju ári og finna það sem hjartað leitar. Þakka ykkur öllum fyrir hlýjar kveðjur og stuðning á erfiðum tímum.

Á morgun nýtt ár, nýtt líf. Það líf mun ég hefja alein í kotinu mínu, sem sagt í góðum félagsskap;) Ætla að efla mitt nýfengna og dýrkeypta sjálfstæði. Kannski ég reyni að festa upp nokkra snaga...bora í vegg, sparsla og mála, næg eru verkefnin.

Efinn sem nagað hefur mig undanfarið er að víkja burt. Yndislegi táningurinn minn með skakka húmorinn sagði við mömmu sína, sem hann sá að var eitthvað rislág í gær: Mamma, þú ert búin að vera svo rosalega dugleg. Vertu bara stolt!

Og það er ég.

föstudagur, desember 30, 2005

Efi.

Efast um allt núna. Hugsa óvenju mikið um framtíðina, hef áhyggjur. Ekki mér líkt. Hugarástandið minnir á lag Stuðmanna, "vill einhver elska 49 ára gamlan mann, sem er fráskilinn og safnar þjóðbúningadúkkum". Hvar er þessi maður í dag? Fann hann ástina? Vill hann kannski elska mig?

Ég spyr út í loftið. Full af efa. Ætla að semja lag um efann. Efast um að það verði gott.

miðvikudagur, desember 28, 2005

Áramótaheit

1. Efla æðruleysið
2. Hætta að æpa á annað fólk í umferðinni
3. Reyna að vera þolinmóð
4. Bölva minna (þetta heit er í áskrift hjá mér um hver áramót)
5. Hætta að ergja mig yfir smámunum
6. Læra eitthvað nýtt, t.d. ítölsku eða á skíði (ef ég finn góða kennara)

Er ekki komin lengra, get kannski fengið ábendingar um fleiri?

þriðjudagur, desember 27, 2005

Lífsgleði

Á einu jólakortinu sem ég fékk stóð einfaldlega: Nýtt ár, nýtt líf.

Er að spá í áramótaheitin. Ætla að rækta með mér æðruleysi, jafnvel leti (ég er víst svo ofvirk), þakklæti og kjark. Af lífsgleði á ég nóg.

Í dag er ég að næra letipúkann - gef honum nóg að éta og svo fær hann mikla hvíld. Og ég reyni að horfa framhjá öllum verkefnunum og bara svífa um í fullkomnu iðjuleysi. Skrítið en dásamlegt.

mánudagur, desember 26, 2005

Gjafir eru okkur gefnar.

Í jólagjöf fékk ég:

- geggjað flotta ljósaseríu
- kaffi
- vekjaraklukku
- ljóðabók
- gullkross
- lítinn rauðan fugl
- sokka með bimbólegri ljóskumynd og þessari áletrun "single and loving it" (frá táningnum sem virðist hafa erft skakkan húmor mömmu sinnar)
- eldhúsklukku
- vandaða bók um jólin (sem Hjalti bjó til sjálfur)

Besta gjöfin var samt yndislegt aðfangadagskvöld með börnunum og mínum ágæta fyrrverandi. Við spiluðum fjárhættuspil frameftir kvöldi - veit að amma mín hefði ekki verið ánægð með það, því á jólum mátti hvorki spila né dansa. Enda er ég með smá samviskubit - en ég sleppti því þó að dansa.

Í gær jólaboð hjá mömmu og pabba og allri fjölskyldunni - átum hangiket og svo mikið nammi að mig svimar við tilhugsunina.

Í dag var Pétur með börnin og ég brá mér austur fyrir fjall og var í besta yfirlæti hjá vinum mínum Ara og Rúnu, þau eru höfðingjar og heiðurshjón. Þetta spakmæli minnir mig á þau:

True friends are those who really know you but love you anyway (Edna Buchanan)

Það er svo gott að borða og gaman að vera til.

föstudagur, desember 23, 2005

Gleðileg jól,


elsku vinir og vandamenn nær og fjær. Hjartans þökk fyrir allt gamalt og gott.

Beta og börnin

fimmtudagur, desember 22, 2005

Naglalakk og læknistær.

Í morgunkaffinu kom samstarfskona mín með naglalakk, hún hafði lakkað á sér neglurnar á heimleið í gær í strætó og þar sem niðamyrkur var og hristingur í vagninum hafði henni ekki tekist upp sem skyldi.

Þegar hún var búin að lakka á sér neglurnar í morgun rétti hún mér glasið og ég sagði bara já, takk, og lakkaði mínar neglur. Bleikar. Lekkert. Svo rétti ég konunni við hliðina á mér, ágætum sálfræðingi, naglalakkið og hún málaði sínar neglur líka.

Svo gekk naglalakkið til næsta manns, sem var læknir - dáldið frjálslega vaxinn og hress karl á besta aldri. Hann tók við glasinu, snaraði sér úr öðrum sokknum (lagði hann ofaná kaffibolla kollega síns), vippaði loðnum fætinum upp á borð með dynk og byrjaði að lakka á sér risavaxnar táneglurnar. Bleikar.

Spurður hvað konan hans myndi nú segja við þessu í kvöld játaði hann að hafa meiri áhyggjur af því hvað karlarnir í ræktinni héldu um hann í sturtu.

Að kunna að lesa.

Hafið þið tekið eftir því hvernig sumt fólk er alltaf tilbúið að mistúlka og misskilja allt? Það beinlínis hoppar á að leggja texta út á versta veg og lesa heilu kaflana á milli línanna. Þekki konu sem var næstum rekin úr vinnu fyrir "tóninn" í tölvupósti sem hún sendi yfirmanni sínum. Efnislega var ekkert athugavert við bréfið - kallinn var bara ofurviðkvæmur, eða í vondu skapi, eða nýbúinn að rífast við konuna sína, eða hvað veit ég.

Mál er vandmeðfarið. Sérstaklega ritmál. Hin íslenska tunga á það til að ulla á mann og annan á prenti - án samráðs við þann sem textann semur.

Bræður og systur - munið að hugsa áður en þið ætlið bréfriturum og öðrum textasmiðum illar hugsanir og fyrirætlanir. Passið ykkur á paranojunni.

Legg ekki meira á ykkur.

miðvikudagur, desember 21, 2005

Ég er vín.

wine
You taste like wine. You have a bittersweet
sophistication. Your fine sensibilities and
delicate flavors intoxicate those around you.


How do you taste?
brought to you by Quizilla

mánudagur, desember 19, 2005

Gullskór.

Ég á gullskó. Keypti þá í Glamúr. Ég er glamúrgella í gullskóm.

Keypti mér líka kjól á þúsund kall hjá Rauðakrossinum. Ýkt flottan.

Nú vantar mig bara að komast á ball.

sunnudagur, desember 18, 2005

Eivör Pálsdóttir...

er ekki jarðnesk. Hún er guðdómleg á sviði - maður bara starir opinmynntur og bíður spenntur eftir hverjum tóni sem frá henni hljómar. Áfram Færeyjar!

Ég er ekki frá því að örlítið jólaskap hafi lætt sér inn í vitund mína á frábærum tónleikum með Langholtskirkjukórnum í kvöld.

laugardagur, desember 17, 2005

Í jólagjöf...

langar mig í svona risastóra kló sem nuddar á manni hausinn. Sá hana auglýsta í einhverju blaði undir slagorðinu: hátíð nudds og friðar.

þriðjudagur, desember 13, 2005

Á leiðinni heim...

úr vinnunni, í Ártúnsbrekkunni, tók ég allt í einu eftir öllum ljósunum. Öðrum megin hvít perlufesti og hinum megin rauð - endalausar raðir iðandi ljósa. Og öll þessi hús, upplýst. Fór að hugsa um fólkið í húsunum og bílunum. Allir svo uppteknir af sjálfum sér og eigin vandamálum. Eins og ég. Hversdagslífið gleypir mann, svei mér þá, og spýtir manni svo beint í kistuna. Búmm. Og maður hamast alla leið. Mér finnst ég stundum lifa á ósköp litlu svæði, næstum eins og Randi dverghamstur (sem þið þekkið öll og elskið). Hann býr í litlu búri með bláum botni, þar er skál með vatni, önnur með mat, sag á gólfi, lítið svefnhús og hjól til að hlaupa í. Auk þess er heimur Randa gul plastkúla. Þar hleypur hann um eins og vitleysingur og er nú óðum að kynnast nýja heimilinu, aðallega með því að reka sig á. Svoleiðis lærir maður (hamstur) auðvitað best.

mánudagur, desember 12, 2005

Spennufall...

er yfirvofandi. Og rafvirkinn getur ekki mætt fyrr en eftir áramót. Hvað gerir maður við upphlaðið stress, brjálaðar tilfinningar, bilaða álagsvinnu og nokkrar afgangs spýtur? Reyndar búin leysa spýtnavandamálið, búin að koma þeim flestum í fóstur á góð heimili - en get ég lokað augunum fyrir því að síðustu spýturnar sem ég lét frá mér fóru austur fyrir fjall þar sem þeirra bíður svangur arinn? Nei, ég held ekki.

Vorum áðan í móttöku á vegum menntamálaráðherra í Þjóðmenningarhúsi. Flott hús og prýðileg athöfn þar sem mönnum mæltist vel. Þetta var síðbúin heiðrun skáksveitar Laugalækjarskóla, en þeir urðu Norðurlandameistarar í haust. Var bara sallafínt. Matti stendur nú frammi fyrir snúnu vandamáli: á hvoru heimilinu skal geyma allar medalíurnar og bikarana? Það getur verið flókið að eiga tvö heimili, en þetta glíma börnin mín við í dag. Þau munu leysa það mál með glans, enda er þeim ekki fisjað saman. Litlu hetjurnar mínar.

laugardagur, desember 10, 2005

Og klarínettan, klarínettan...

syngur dúa dúa dúa dátt og glatt. Sungum við saman í gamla daga Rúna vinkona og tónelsku systurnar hennar. Við vorum flottar en af einhverjum ástæðum fékk ég alltaf sama hlutverkið (sungið allt á sama tóninum)

og hornið blæs og hvílir sig og hornið blæs og hvílir sig...

Ásta mín brilleraði á tónleikunum í gær. Ég var að rifna úr stolti. Hef reyndar alla tíð verið stolt af stúlkunni, enda er hún einstök mannvera. Ég hef mýmarga galla (t.d. er ég geimvera) en hún hefur bara einn galla.

Mér leið pínulítið eins og gaurnum í Lottó auglýsingunni í gærkvöld þegar ég kom heim af tónleikunum. Þá fékk ég mér hvítvínsglas og afgang af humarrétti sem ég hafði keypt í Fylgifiskum fyrr um daginn. Ef satt skal segja varð ég harkalega og akút leið á útrunnum Campbells súpum, en á þeim hefi ég lifað síðan ég flutti - keypti dobíu af þeim fyrir 39 krónur dósina. Sem betur fer á ég bara eina eftir. Tómatsúpu.

föstudagur, desember 09, 2005

Bráðum...

koma blessuð jólin, en ég ætla sko ekki að tala um það.

Bráðum verður allt eins og hjá fólki heima hjá mér. Smiðirnir tóku saman tólin sín seint í gærkvöldi og hreinlega yfirgáfu mig. Fóru bara. Skildu eftir sig sag-sjó á gólfi og óteljandi spýtur af öllum stærðum og gerðum. Hvað á ég að gera við allar þessar spýtur? Ætlaði að stinga einhverjum í geymsluna, en brá í brún þegar þangað kom. Í geymslunni minni er nebbla risavaxin sláttuvél og mýgrútur garðáhalda (íbúar hússins nota geymsluna mína þannig - það er hefð fyrir því). Að auki streymdi þar úr lofti foss einn mikill og kröftugur, enda hefur rignt ótæpilega undanfarið. Innanhússfoss. Vatnsfall þetta túlkaði ég - spýtnaeigandinn - sem óheilsusamlegt kompaní fyrir viðinn. Og þó. Vatn plús spýtur. Kannski ég smíði mér örk.

Fór í Sorpu með bílinn svo úttroðinn að ég hefði ekki komið einum tannstöngli inn í viðbót, var vigtuð inn og vigtuð út (þ.e. tojan og ég) - og fyrir mismun þyngdarinnar, 110 kg, greiddi ég rúmar 1000 krónur. Merkilegt sistem. Datt í hug að hægt væri að brúka viðlíka kerfi á veitingastöðum, þar sem maður væri vigtaður inn og út og greiddi ákveðið kílóverð fyrir mismuninn. Þá mundi gilda að fara á klósettið áður en maður væri vigtaður út. Að sjálfsögðu.

Er að fara á tónleika í kvöld þar sem dóttir mín firnafagra ætlar að spila á klarinettið sitt - hlakka óskaplega mikið til að hlýða á góða tónlist. Fátt skemmtilegra en það.

miðvikudagur, desember 07, 2005

Uppáhalds setningin mín...

er:

ÞETTA REDDAST

Næst vinsælust:

ÞETTA LAGAST


Legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, desember 05, 2005

Testing, testing, one-two-three

Síðan síðast er ég búin að:

- garga af óþolinmæði yfir Ikea gardínum, oft
- drekka einn bjór, bora í vegg og hengja upp snaga (í þessari röð og já, snaginn er skakkur)
- taka kringlótt aldargamalt borð úr íbenholti í fóstur
- ákveða að ég ætla aldrei (eða næstum örugglega aldrei) aftur í sambúð með karlmanni
- næstum bræða úr bílnum
- sjá að fyrrverandi var ofsa duglegur að gera allt sem ég nennti ekki að gera, t.d. lesa leiðbeiningar, gera við hluti, hugsa um fjármálin og skilja allt tæknilegt á heimilinu

sunnudagur, desember 04, 2005

Ótímabær andlátsfregn.

Ofnasagan heldur áfram. Á föstudaginn ræddi ég við tjónamann hjá VÍS. Hann benti mér á að tala við pípara sem byggi í næsta húsi við mig, "hann er fínn og vinnur stundum fyrir okkur". Tjónamaðurinn sagði að ég gæti hringt í þennan pípara hvenær sem er. Gott og vel, ég hringdi í manninn og fann strax að þetta var óvenjulegur karakter, hann vildi t.d. miklu frekar ræða við mig um heilsufar fyrri íbúa hússins en ástand ofnsins míns. Einnig virtist hann nokkuð vel að sér um ættfræði.

Píparinn mætti á tilsettum tíma og var við aldur, eins og mig grunaði. Hann var með mikið og úfið hár, þungur á brún, talaði með grófum róm og var eins líkur sjóræningja og nokkur maður getur verið án páfagauks á öxl. Hann dragnaðist draghaltur upp tröppurnar og stóð svo á stofugólfinu mínu og mændi ástúðlega á ofninn.
Því næst kom löng ræða um hvað svona ofnar væru nú góðir og entust í 200 ár, en væru þó ótrúlega viðkvæmir - ef menn ýttu t.d. við þeim þegar þeir væru að leggja parket (blimskakkaði augum reiðilega á smiðina mína sem stóðu hnípnir hjá).

Síðan lýsti hann ofninn minn látinn. Og löngum og flóknum aðgerðum til að fyrst soga vatnið af ofninum (með sérstakri sugu) og síðan losa mig við líkið (sem hann sagði a.m.k. 150 kg) og svo redda mér nýjum ofni (þeir eru örugglega ekki til) og svo pípara til að tengja ofninn (vonlaust). Aðgerðir Forn-Egypta við að varðveita lík og bygging píramídanna – leikur einn miðað við það að losa sig við þennan ofn og fá nýjan. Píparinn bauðst ekki til að aðstoða við eitt eða neitt. Kom því að fimm sinnum að vera ekkert að blanda tryggingunum inní þetta, sjálfsábyrgðin væri svo há - "það borgar sig ekkert fyrir þig".

"Athyglisverður nágranni" hugsaði ég með mér þegar sjóræninginn/píparinn skakklappaðist niður tröppurnar tautandi, "það borgar sig ekkert að vera að flækja Þeim í þetta".

En...smiðirnir mínir knáu hafa ráð undir rifi hverju. Þeir kölluðu til aðra pípara sem kíktu á ofninn minn. Þeirra lausn var önnur. Láta renna á fullu í ofninn, kynda hann í botn og sjá til hvort lekinn (sem var örlítill) lagaðist af sjálfu sér. Þetta erum við nú að prófa og það hefur ekki komið dropi úr ofninum. 7,9,13.

Nú bíð ég spennt og vona að ofninn haldi í sér í 100 ár í viðbót.

föstudagur, desember 02, 2005

Heimurinn...

er kominn heim til mín. Loksins er nettengingin í höfn.


Smiðirnir mættir, pípari og rafvirki á leiðinni. Iðnaðarmenn eru mínir menn. Alveg til sóma.

AAAARRRRRGGGG!

Gamli virðulegi ofninn minn í stofunni undir unaðsfagra glugganum tók upp á því að LEKA í gærkvöld. Eftir að smiðirnir höfðu verið tvö kvöld að smíða snilldarlegt stykki undir hann, sem er eins og risa greiða í laginu. Nú fer ég endanlega á hausinn. Er reyndar að verða undarlega kærulaus í fjármálum, er á kúpunni hvort sem er. Var það ekki einmitt Joplin sem sagði:

Freedom´s just another word for nothing left to loose.

Þarna eru fjármál mín í hnotskurn. En gallinn er bara sá að maður getur haldið áfram að tapa þótt maður eigi ekki neitt - maður tekur bara nýtt lán. Jibbí, sniðugt á Íslandi.

Ein vinkona mín benti mér um daginn á að venja komur mínar í heita pottinn og reyna að næla mér í aldraðan og ríkan mann þar (veit ekki af hverju hún heldur að þeir séu þar í bunkum). Ég hló hátt að þessari hugmynd þá, en núna...hmmm....

fimmtudagur, desember 01, 2005

Viska dagsins.

Stundum er betra að athuga málið í staðinn fyrir að gera ráð fyrir að hlutirnir séu eins og þú heldur að þeir séu.

Fáir, ef nokkrir, gátu orðað þetta betur en Bertrand Russell:

Aristotle maintained that women have fewer teeth than men; although he was twice married, it never occurred to him to verify this statement by examining his wives´ mouths.