miðvikudagur, desember 31, 2008

Góðar gæftir

Mikið vona ég að síldin jafni sig.

Ótalmargt fleira gáfulegt gæti ég sagt, en þessi kona er búin að því öllu og ef hún fer í pólitík þá hef ég eitthvað að kjósa.

Megi árið 2009 færa okkur miklar og góðar breytingar, minna rugl og meira réttlæti.

mánudagur, desember 29, 2008

Glyðruleg óþægindi á uppsprengdu verði

Í dag fór ég í búð á Laugaveginum að skipta mjög fallegum undirfötum sem ég fékk í jólagjöf, en hlýrar brjóstahaldarans voru mjóir og svolítið óþægilegir. Í umræddri búðarholu gaf að líta nærklæðnað, ilmvötn, blúnduverk, sjiffonsloppa, titrara og ágætt úrval fjaðraskrauts á geirvörtur en ekki eina einustu flík sem flokkast gæti sem ærleg brók. Engin brjóstahöld voru þarna undir 13 þúsund krónum og náttkjólgopa einn sá ég á 54 þúsund. Afgreiðslukonan var kuldaleg í framkomu, tattóveruð og þvengmjó. Hún leit á mig fyrirlitningaraugum þegar ég spurði hvort hún ætti ekki einhver "þægileg" undirföt. Djöfull leið mér eins og mest púkó konu í heimi.

Mig langaði að benda þessari hortugu horrenglu á að ekki væri gaddavír sem skerst inn í holdið hugmynd allra kvenna um góð undirföt, en mat aðstæður svo að það hefði ekki skilað neinu í þjóðarbúið.

Ef þessi okurbúlla verður ekki farin á hausinn eftir mánuð, þá skal ég hundur heita og éta köttinn minn í kaupbæti.

sunnudagur, desember 28, 2008

Gullbrúðkaup og jólaamstur

Vaðið hef ek fjölskylduboð upp í handarkrika þessi jól, varla getað litið í bók fyrir annríki. Er að kynnast ættingjum Hjálmars, þar er vænn meiður, en allflókinn. Mér finnst gaman í svona samkomum að stúdera ættarsvip, bera saman nef, rödd, vaxtarlag, augabrúnir og eyru. En auðvitað ætti ég frekar að fókusera á að læra nöfnin.

Í mínu tré bar það helst til tíðinda á annan í jólum að pabbi og mamma fögnuðu gullbrúðkaupi. Fimmtíu ár eru ærinn tími í ektaskap. Foreldrar mínir eru býsna sprækir, eiga 16 beina afkomendur, fjölmörg viðhengi og einn kött. Haldin var stórveisla í tilefni dagsins, þar sem boðið var upp á sauðalæri af Barðaströndinni og forláta marsipantertu í eftirmat. Brúðkaupsmyndin var "prentuð" á tertuna miðja, en þótt afi og amma séu góð vildi enginn borða þau. Eða, jú, forvitna litla systir mín beit aðeins í myndina og kom þá í ljós að hún var óæt. Tertan var að öðru leyti gómsæt, get heilshugar mælt með Mosfellsbakarí. Og mér finnst brúðkaupsmyndin af mömmu og pabba falleg, enda eru þau vandaðar manneskjur.

En nú ætla ég að lesa um morð og löggur mér til andlegrar upplyftingar.

fimmtudagur, desember 25, 2008

Börnin, bækur og hlýjar tær, best í heimi

Börn eru stórmerkileg og undurgóð fyrirbæri. Bara ef þið skylduð ekki vita það.

Vænst þótti mér um gjafirnar frá afkvæmunum þessi jól. Ásta gaf mér yndislegar bækur, þar af eina um menntamann með bláar tilfinningar. Matti gaf mér Engar smá sögur og Hjalti minn gaf mér skóna sína. Bókstaflega. Hann bjó til þæfða lopainniskó í vetur og hafði ég dáðst ákaflega að þessum skæðum, enda vönduð og hlý smíð. Haldiði að þeir hafi svo ekki dúkkað upp í jólapakkanum til mín?

Auk þess fékk ég stórskemmtilega myndasyrpu af systkinunum í jólagjöf, sem tengdadóttirin, hún María Anna, tók fyrir skömmu.

Meira hvað ég er stolt af þessum krökkum. Meira hvað ég er heppin.

mánudagur, desember 22, 2008

Kærleikskveðjan

319.733 Íslendingar voru svo óheppnir að fá ekki jólakort frá mér í ár. Skil að þeir séu sárir. Ég er sjálf í þessum hópi og finn höfnunina hlaðast upp.

En...öllu vænu og góðviljuðu fólki óska ég gleðilegra jóla. Hinir mega eiga sig, t.d. skítalabbinn sem keyrði á stórum jeppa á fantahraða framhjá mér í dag og skvetti yfir mig flóðbylgju af drullu, krapi og bleytu þannig að ég stóð gegndrepa á gangstéttinni, sótbölvandi.

Borðum, drekkum og gleðjumst... þó ekki sé nema yfir því að þetta skítaár er að verða búið. Næsta ár verður vafalaust verra, men den tid, den sorg.

Friður, ást, feitir ostar og réttlæti!

fimmtudagur, desember 18, 2008

Sól, jól, kjól, ról, ból, skjól, fól

Ég er farin að hlakka svolítið til jólanna. Keypti þrjú kíló af makkintosi, margar jólagjafir og pezkall. Líka pipp, púkahlaup og pepsí og við Hjalti erum í kósí fílíngi að horfa á frekjudolluna House.

Snjórinn er fallegur og ég ætla að vera góð stúlka út árið.

þriðjudagur, desember 16, 2008

Skröggsbaun

Piparkökurnar eru eins og þær eru. Aldrei fyrr hefur jólaskapið verið skreytendum fjær, svo nærri jólum.

Hér gefur að líta skapvonda offitusjúklinga, sundursagaðan auðmann, bankafulltrúa illskunnar, fjölmiðlavesaling, anarkistakellingu, Svölu Bjö (veit ekki af hverju hún kom, sénsinn að ég nenni að skilja það), afhausaðan kalkún, jólasvein sem heyrir raddir, gallblöðru Geirs Hilmars og rassinn á Ingibjörgu Sólrúnu í g-streng. Hjalti skreytti svo eina hjartakökuna með stóru, feitu dollaramerki og sagði að það væri tákn jólanna. Gat skeð að barninu dytti ekki fokkings IKR í hug.

Ég er ekki búin að kaupa eina einustu jólagjöf, ekki skrifa á eitt einasta jólakort, ekki extra einn einasta skáp (ég er svo fyndin), ekki kaupa eitt einasta jólatré og ekki finna fyrir einni einustu furunál af hátíðarspenningi.

Annars er það helst að frétta að ég á einstaklega góða að og fyrir það skal ég vera þakklát og hleypa örlítilli birtu inn í brjóstholið. Skárra væri það nú.

mánudagur, desember 15, 2008

Horst allur


Nei, fyrirsögnin er ekki horstallur (efrivör?). Horst Tappert er dáinn, aðeins 85 ára gamall. Í huga mér ómar Aus der Reihe Derrick - stefið ástsæla, í moll.


Allar myndir sem ég fann af stórmenninu voru litlar. Því setti ég fjórar inn og á einni sést Klein, hliðardúddinn skondni, tilberi Tapperts.

Ó, að heimurinn væri uppskrúfaður, stífur, velmegandi og fyrirsjáanlegur eins og Derrick þáttur. Ó, að hetjan næði alltaf vondu köllunum og réttlætið sigraði. Ó, að tásíðir augnpokar kæmust aftur í tísku.

Ó, að mér liði ekki eins og Horst Tappert leit út.

laugardagur, desember 13, 2008

Þögn er sama og þykkjuþung

Á leiðinni á mótmælin mættum við nokkrum glaðlegum manneskjum. Þær voru allar útlendingar. Með troðfulla innkaupapoka. Djöfulsins skítaland, hugsaði ég og arkaði snjóinn þung á brún. Svo þögðum við Hjálmar í 17 mínútur og störðum á Alþingishúsið. Mér fannst þetta snotur hugmynd, en ekki gátu allir þagað. Nokkrir sauðdrukknir vesalingar öskruðu nær stanslaust eitthvað um að þeir ætluðu sko ekki að borga meira og ýmislegt annað ekki sérlega áheyrilegt. Rónarnir eru sjálfsagt orðnir leiðir á að leggja til samfélagsins.

Fyrir framan okkur stóð ungur maður í úlpu og svaraði í farsímann hátt og snjallt: "Nei, nei, ég er bara hérna á þöglum mótmælafundi."

Get ég gefist upp á þjóðinni minni? Held að það sé ekki í boði.

þriðjudagur, desember 09, 2008

Hrokapína, siðblinda, spillingarverkur og dáðleysisdofi

Frá blautu barnsbeini hef ég undrast stórum hvers vegna fólk borgar hvítuna úr augunum fyrir vanlíðan steypta í postulín, einhverjar Bing og Crosby* snobbstyttur af ómálga börnum sem engjast um af sársauka. Verkin um verkinn bera dúlluleg nöfn: tannpína, magapína, höfuðverkur, eyrnaverkur. Já, hver hefur ekki lent í því að hlæja góðlátlega að eyrnaverk barnsins síns?

Væri sjálf spenntari fyrir svona styttum af ráðherralufsum, auðmannavesalingum og teinóttum smjörkúkum.
















*jájájá, ég veit alveg að þetta er ekki Bing og Crosby, heldur Bang & Olufsen, eða var það Hviss & Bæng?

mánudagur, desember 08, 2008

Boys and their ljós

Minn elskulegi sambýlismaður kom með fremur fátt veraldlegra muna í búið; skrifborð, allnokkurt bókasafn, gamalt útvarp og magnað safn sækadelískra dúka og sængurfata. Nú nýlega dró hann úr pússi sínu grip sem vakið hefur ómælda aðdáun hjá öllum áhugamönnum um jólaskreytingar: ljósaseríu með átta, ég endurtek ÁTTA stillingar- og blikkmöguleikum. Dýrðin, dýrðin.

laugardagur, desember 06, 2008

Fallegar konur. Vont land.

Enn færri mættu í dag á mótmælin, ekki er hægt að kenna kuldanum um í þetta sinn. Fólk er trúlega farið að finna fyrir tilgangsleysi allra hluta, yfir okkur er valtað án þess við getum rönd við reist. Enginn tekur eftir því þótt heyrist lítið kvein. Hryllilega er þetta vond tilfinning. Held að engin þjóð eigi jafn þumbaralega, skilningsvana og ráðþrota ráðamenn og við. Hvert er andheiti orðsins næmur?

Ólygin sagði mér að Davíð Oddsson ætlaði framvegis að lesa fréttirnar á RÚV. Þið heyrðuð það fyrst hér.

föstudagur, desember 05, 2008

Hangilopasteypa

Hangi læri á að gera stinningaræfingar frá nára og niður. Hangi frampartur er upplagt að leita á náðir lífstykkja. Hangi kjöt má ráðfæra sig við lækni. Hangi stjórnin áfram ber að gera byltingu.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Uppgögvun

Í dag spjallaði ég við hálfníræðan kall sem hafði frá mörgum "uppgögvunum" að segja. Í miðri setningu reif hann út úr sér tennurnar og hló hásum róm. Svo blikkaði hann mig.

Ég hef uppgögvað að gamalt fólk getur verið afar spaugsamt.

miðvikudagur, desember 03, 2008

Riðuveikt fé

Eitt andartak hélt ég að hér væri á ferð enn ein fréttin um krónuna sem riðar til falls.

Tryggingarnar mínar hækka um 45 þúsund kall milli ára, er það eðlilegt? Er eitthvert tryggingafélag öðru betra - á ég að tala við elisabet.is, hefur einhver reynslu af því? Hvaða banki er minnst djöfullegur? Á maður að reyna að láta Íbúðalánasjóð yfirtaka helvítis bankalánið?

Legg til að einhverjir af þessum teinóttu, vatnsgreiddu (atvinnulausu) bankamönnum og peningaundrabörnum setji upp fjármálaráðgjöf fyrir sauði eins og mig. Fjárhirðarnir mega mín vegna vera í gulum bol, hvítum íþróttasokkum og grænum apaskinnsbuxum við vinnuna. Svona er ég umburðarlynd.

En að skrimta á þessu skítaskeri verður ekki auðveld skemmtun á næstunni. Vitna mér til hugarhægðar í Þórdísi: Fokk, fokk, fokk.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Menning klapp klapp klapp

Menningin ríður ekki við einteyming um þessar mundir, Hjálmar bauð mér í jólahlaðborð á föstudaginn, í Hagkaup um miðnætti á laugardaginn, í leikhús á sunnudaginn að sjá Skugga Svein í skemmtilegri uppfærslu Leikfélags Kópavogs, og svo röltum við á útgáfutónleika kórs Áskirkju áðan. Eitt skildi ég ekki, það var ekkert klappað fyrr en í lokin, mig langaði svo að klappa, en sat á mér. Kór Áskirkju er firnaflottur. Og þótt það hefði verið asnalegt að ég klappaði ein, þá hefði það ekki náð bjánaskapnum þegar Nokia-hringing dauðans ómaði hjá einum sauð í salnum, eða þegar eirðarlaus kjánakall marghnoðaði skránni sinni saman. Skrjáf getur verið ærandi. Og það ætti að banna þessa diririri-diririri-diririri-ding hringingu.

Merkilegt með Skugga Svein, mér skilst að ekkert leikverk hafi verið sett jafnoft á svið hér á landi, en samt hefur mér einhvern veginn tekist að lifa næstum fimm áratugi án þess sjá það. Eða...reyndar rámar mig í einhverja svart-hvíta Grasa Guddu í sjónvarpinu þegar ég var lítil. En það er ekkert að marka minnið, það man ekki neitt og svo er líka óralangt síðan ég var lítil.

Áfram á menningarlegu nótunum, á ég að hringja í RÚV og kvarta út af bindinu sem fréttaþulurinn er með um hálsinn? Það er allt of bleikt við þessa skyrtu.

mánudagur, desember 01, 2008

Þjóðin sem úti frýs

Á ó-óskalistanum mínum er bókin Saga af forseta. Gefðu mér hana og ég veit að þú hatar mig.

Ég er svo pirruð á forréttindapakki þessa lands að mig langar að öskra. Stóð í skítakulda á Arnarhóli áðan og hlustaði enn eina ferðina á fínar ræður en það breytist ekki neitt, gerist ekki neitt, stjórnvöld hlusta ekki á þjóðina, þeim er sama um þjóðina. Valdhafar sitja í hlýjunni á meðan við frjósum og gölum á útifundum sem engu skila.

Á meðan Kvennalistinn var og hét kaus ég hann, það var áður en Ingibjörg Sólrún breyttist á skuggalegan hátt í Davíð. Nú eygi ég þá lausn að við fáum neyðarstjórn kvenna. Er vit í öðru?

Ég verð að trúa á eitthvað.

sunnudagur, nóvember 30, 2008

Hromparaleg hippiló

Tilkynningar á gufunni vekja mér hljóðlátan fögnuð. Púng-tur-is læðist þar títt fram á varir ógoglumæltra þula.

Hér er gáta. Hvað þýðir sögnin að dabba?
a. dóla sér
b. óhreinka
c. punkta niður

En dabbía?
a. sukk
b. hellingur
c. orða

Og getið nú!

laugardagur, nóvember 29, 2008

Upphróparar og spyrjarar

Mótmæli enn einn laugardaginn og ekkert bólar á viðbrögðum stjórnvalda, valdhafar bifast ekki. Solla og Geiri slepptu m.a.s. blaðamannafundi í gær. Finn fyrir höfnun að þau skuli ekki einu sinni nenna að dingla framan í okkur snuði og hálfsannleika.

Takið eftir skiltum upphrópana og spurningarmerkja, afar töff - og táknræn.

Öllum mótmælum fylgja hversdagsleg verk.Fórum í Kolaportið til að hlýja okkur og þar var margt fólk og mikið fjör. Ég keypti gagnslausa hluti: platta, bolla og blómavasa. Veit ekki hvað kemur yfir mig þegar ég gramsa í gömlu dóti, það er einhver kelling sem kaupir í gegnum mig.
Keyptum líka harðfisk, saltfisk og skötusel. Mig langaði í signa grásleppu en sleppti henni.
Í Kolaportinu er ævinlega margt eigulegra muna. Þessi hýra bangsastelpa dillaði sér og söng All kinds of everything. Eða ég held það, hljómgæðin voru takmörkuð.

föstudagur, nóvember 28, 2008

Í fælni sérhvers manns

Var að komast að því að í útlöndum er hefð fyrir ljótpeysuteitum (ugly sweater parties). Kannast hlustendur við það?

Það er föstudagur og því kjörið að viðra eitt stykki fóbíu. Trúðar eru illir og ég skelfist þá meira en bæði rótar- og verðbólgu.

Peysumst á morgun, það verður kalt á Austurvelli.

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Ís er betri en hagfræði

Til að halda kúlinu fórum við í Fen og keyptum ís handa öllu liðinu. Þar voru furðu margir í sömu erindagjörðum.

Ásta kenndi mér að láta skeið tolla á nefinu. Ég er náttúrutalent á því sviði, rétt eins og enginn tekur mér fram í kátínuhoppi á góðum degi.

Épplendingar

Fékk andlegt kláðakast áðan við að heyra norska fósturgeirvísinn tala í sjónvarpi allra landsmanna. Til að slá á kláðann bruddi ég fjórðung úr blómavasa og japlaði á danfosskrana með.

Ætli ég sé ekki búin að fá mig fullsadda af jakkafataklæddum éppalúðum með margar milljónir í mánaðarlaun, jafnvel þótt þeir éti brúnost.

Talandi um veðrið, mér fannst nákvæmlega ekkert krúttlegt við að sjá Pál lesa fréttirnar í kvöld.

mánudagur, nóvember 24, 2008

Grjótið á vefnum

Það er svo margt að berjast um í kollinum á mér, sjaldan verið jafn lifandi. Nýkomin af borgarafundi í Háskólabíó, þar var mögnuð stemning. Ef einhver hefði sagt við mig fyrir tveimur mánuðum að ég fengi brennandi áhuga á þjóðmálaumræðu og legði á mig, svona kvöldsvæf baun sem ég er, að fara á pólitíska kvöldfundi af einskærum áhuga, þá hefði ég sagt við hann: Kanntannan?

Svo var ég að horfa á Evu í Kastljósinu, sá hana taka lögguræfilinn í bakaríið. Ef hugrekki og heiðarleiki komast einhvern tímann í tísku, þá verður Eva svölust, hún verður Coco Sorcière.

Í gær var ég döpur og miður mín, hreinlega dofin, vegna þess óhroða sem fólk bar á borð í kommentakerfi Önnu.is. Það er ofar mínum skilningi að fólk skuli geta lesið um hrikalegar þjáningar barns og fundið sig knúið til að drulla yfir áhyggjufulla móður, með fordæmingu, ásökunum og illgirni. Þætti fróðlegt að vita hvort þetta óuppdregna lið sem spúði eitrinu yfir Önnu, viti alltaf nákvæmlega hvar unglingar þess eru og hvað þeir eru að gera. Dóttir Önnu vann sér það eitt til saka að taka afstöðu, mótmæla ranglæti, og hvorki hún né Anna fóru um með ofbeldi. Það gerðu reyndar fæstir sem staddir voru við lögreglustöðina þetta kvöld.

Og má ég nú heldur biðja um einn ungling með réttlætiskennd, en tíu sinnulausar gelgjur sem hugsa bara um að vera krútt.

Landsbjörg

Eins og mér hefur verið tíðrætt um, eða allavega tvírætt um, er íslenska geitin í bráðri útrýmingarhættu. Því gladdi það mig óskaplega að sjá að fólk megi vera að því að bjarga geitinni, á þessum síðustu og verstu. Geitin á allt gott skilið og geitaostur er vitaskuld hnossgæti.

En þótt yfirvöld keppist við að sannfæra mig um að verið sé að bjarga mér og heimilli mínu, ríkisstjórnin standi í aðgerð upp fyrir olnboga og það megi ekki trufla hana með röfli og þreytandi spurningum, er ég vondauf um árangur af þeim björgunarstörfum. Ef Ingibjörg Sólrún og Geir Hilmar klæddust appelsínugulum stökkum og væru soldið meira á svipinn eins og þau vissu eitthvað í sinn haus, bæru jafnvel gps tæki og pískrandi talstöðvar í beltinu, þá, já, kannski þá, fengi ég örlitla von í hjartað.

laugardagur, nóvember 22, 2008

Jóna Sigurðardóttir mótmælir öll

Katrín Oddsdóttir laganemi var langbesti ræðumaðurinn á fundinum í dag, það er kraftur í þessari ungu konu.
Er annars orðin leið á eilífu smjörklíputali. Hvaðan er þetta orðtak runnið? Frá Osta- og smjörsölunni?
Hverfisgötumótmælin voru hörð, reiðin áþreifanleg.

"Réttvísin" að störfum?

Finnst ykkur þetta í lagi? Geðþóttaákvarðanir og valdníðsla. Þurfum við að hætta að vera svona fyrirsjáanleg og auðsveip? Er mark tekið á kurteisum mótmælum? Ég er farin að efast um það.

Svo er verið að henda í okkur einhverjum sýndarlagfæringum á eftirlaunafrumvarpi og óljóst talað um sameiningu FME og SÍ, eins og það leysi allan vanda. Húbloddíkers? Við eigum við alvöru vandamál að glíma. Það þarf að taka á stóru málunum sem varða almenning, svara spurningum sem brenna á vörum þegna sem yfirvöld ýmist hunsa eða ljúga að, sem samviskulausir auðmenn hafa valtað yfir af grimmd og skeytingarleysi, sem bankarnir (fari þeir bölvaðir) hafa haft að fífli. Við þurfum nýtt fólk í forystu. Hugrakkt og heiðarlegt fólk með siðferðiskennd ofar krókódílum.

Og almenningur á að hætta að vera svona almennilegur.

Ég ætla að mæta á Austurvöll, en fjandakornið að ég haldi endalaust áfram að vera þæg.

föstudagur, nóvember 21, 2008

Traust. Ábyrgð. Forysta. Frelsi.

Ábyrg fjármálastefna, traust ríkisstjórn. Forsætisráðherra sem leiðir þjóð sína götuna til góðs, stýrir skútunni á fengsæl mið, heldur þegnunum í vari þegar vindar blása tryllt, gætir okkar fyrir vonda kallinum. Fleiri en ég sem finna sig baðaða í öryggiskennd?

Pétur Matthíasson, minn fyrrverandi og fyrrverandi fréttamaður á RÚV, birtir á síðu sinni áhugavert myndband úr viðtali sem tekið var í janúar 2007. Þar sjást afar undarleg viðbrögð forsætisráðherra við eðlilegum spurningum fréttamanns um efnahagsmál.

Skoðið myndbandið hér. Dæmi svo hver fyrir sig.

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Upplit

miðvikudagur, nóvember 19, 2008

Borgarar og borgunarmenn

Ég er íslenskur borgari. En þú?

Við sem á skerinu húkum erum íslenskir borgarar - skulda sem aðrir steyptu okkur í. Líkt og börn ganga inn í kristnidóminn með erfðasyndina í vöggugjöf, fæðast íslenskir borgarar nú með stóra skuld á sínum litlu herðum. Við getum kosið þetta með erfðasyndina (hér ríkir einhvers konar trúfrelsi), en um skuldina er ekkert val.

Er bara fegin að eiga ekki eftir að fæðast. Nóg er nú samt.

þriðjudagur, nóvember 18, 2008

Sálfjölrænn fótapirringur

Öll þessi vandræði sem yfir þjóðina hafa dunið eru of stór fyrir litla hausinn minn. Ætla að hvíla kúpuna með því að hugsa um litlu krúttlegu ergelsin.

Yfir smáræði er baun örg:
  1. Uppvaski potta, panna og sigta.
  2. Fólki í hrókasamræðum við legsteina (gaur í gubbþættinum Everwood var að þvaðra við leiði). Gerir einhver svona í alvörunni? Talar fólk þá alla vega ekki lágt?
  3. Gangtruflunum í gamla skrjóðnum mínum.
  4. Tyggjósmellum.
  5. Samviskubiti yfir að hafa ekki hreyft mig í nokkrar vikur.
  6. Plastfilmu sem rifnar asnalega og endar í g-streng.
  7. Fáránlegri verðlagningu litahylkja í prentara.
  8. Ávöxtum sem líta vel út að utan en eru skemmdir að innan.
  9. Fíkn í Royal búðing.
  10. Fjárans ellisjón. Hrikalega pirrandi fyrirbæri.
Aaahhh. Klíptu mig í handlegginn meðan vondi kallinn rífur af mér hausinn. Allt annað líf.

Að hanga eða hanga ekki á hentistefnunni

Verðtrygging húsnæðislána er ekki náttúrulögmál. Verðtrygging er mannanna verk, rétt eins og sú holskefla klikkunar sem ríður yfir hnípna þjóð þessa dagana. Verðtrygging húsnæðislána er eignaupptaka sem fáir skilja, tengd fyrirbæri sem nefnist vísitala neysluverðs. Las þennan ágæta pistil um hvernig verðtrygging fúnkerar og stari nú spyrjandi út í loftið.

Vísitala neysluverðs er byggð upp af næstum tilviljanakenndum þáttum sem hent er saman í einn pott og svo er reiknað eftir formúlu sem einhver reikningshaus kokkaði upp í fyrndinni. Viss um að hann var bestur í bekknum í menntó, en kommon. Þetta er ruglkerfi.

Nú er kominn tími til að stokka upp allt sem við höfum hingað til látið mata okkur á sem sjálfsögðum hlut. Munum að við erum af MANNAVÖLDUM oní krukkunni með sýrðu gúrkunum. Spyrjum endalaust eins og rassálfar: Af hverju er þetta svona?

Breytum svo því sem er vont og ómanneskjulegt í þessu litla samfélagi. Við getum það vel.

mánudagur, nóvember 17, 2008

Óþarfauppboð baunar

Ég játa á mig kaup gagnslausra hluta í gróðærinu. Eigi hyggst ég gráta það öllu lengur, heldur efna til uppboðs.

Í dag býð ég þessa tvo hluti, litlu brúnu könnuna og græna ólívubátinn, í skiptum fyrir eitthvað af þínu heimili sem er að minnsta kosti jafn tilgangslaust.
Litla brúna kannan er á að giska 5 sm há, eða á hæð við tannstöngul. Tilgangur könnunnar í þessu jarðlífi er ókunnur.

Litli græni ólívubáturinn er framleiddur til ákveðins brúks, og því má segja að hann nái varla upp í að vera alger óþarfi, þótt hann reyni. Í græna ólívubátinn má raða fimm ólívum, en það er hentugt í fimm manna matarboð þar sem öllum nema þér þykja ólívur vondar.

Tilboð óskast. Minn óþarfi á móti þínum óþarfa. Þitt gagnslausa dót á móti mínu gagnslausa dóti. Sendið mér tölvupóst eða freistið mín í athugasemdakerfinu. Allt tekið til greina (nema gagnslausir eiginmenn, stjórnmálamenn og öskubakkar).

Þið eigið leik.

Sprikkjónir*

Allt þetta tal um vandamálapakka, lánapakka, aðgerðapakka, sexhundruðmilljarðapakka og sprikkjónapakka hefur slegið verulega á jólagleði mína. Samt skoðaði ég engla áðan í ritfangaverslun.

Og Guðni bara hættur að nenna að vera með í þessu leiðinlega leikriti. Mikið skil ég hann vel.


*Sprikkjónir, hikkjónir og firrjarðar eru talnaleg hugtök sem þið skiljið þegar þið verðið stór

laugardagur, nóvember 15, 2008

Mælum okkur mót til að mæla mót því sem þarf að breyta

Frábærir ræðumenn, Viðar Þorsteinsson, Kristín Helga og Andri Snær. Þungi í mótmælunum, og þótt mér leiðist svolítið foreldratuðs-tónninn í Herði (takið upp eftir ykkur draslið, ekki vera með læti), þá á hann heiður skilinn fyrir alla þá vinnu og orku sem hann leggur í að skipuleggja þessa fundi. Við verðum að sýna samstöðu, það þýðir ekki lengur að sitja og röfla hver í sínu horni. Og hvað það væri nú ljúft ef tekið yrði mark á fólkinu í landinu, svona til tilbreytingar. "Lýðræði er vesen" - sagði Kristín Helga.

Mamma og Hjálmar - skríll að mínu skapi!Unga fólkið og mótmælastörfin.
Geir er gagnslaus, stendur á þessu skilti.
Þetta sama skilti var síðan skilið eftir við dyr Stjórnarráðsins (mér fannst það öndvegis fín plassering), en þar fékk það ekki að standa lengi - ég var aðeins of sein að taka mynd, því dyrnar opnuðust og einhver kippti skiltinu inn. Rétt eins og þegar Bónusfáninn var dreginn að húni í síðustu mótmælum, hann fékk ekki að blakta lengi. Vissulega er ljómandi gott að slík árvekni og skilvirk vinnubrögð sjáist hjá stjórnvöldum, en betra væri að þau sæust víðar en í húsvarðadeildinni.
Allir að mæta næst - samstaða er það eina sem dugar, ef við viljum breytingar.

Svo mælir skríllinn

Á Íslandi hefur almenningur fáa kosti í húsnæðismálum, flestir undirgangast það form af eignaupptöku sem kallast verðtryggt lán, þ.e. þeir enda með því að greiða 4-5 falt verð fyrir húsnæði sitt. Ef þeir lifa það. Sem fáir gera. Mér skilst að í upphafi verðtryggingar, sem er séríslenskt fyrirbæri, hafi bæði laun og lán verið verðtryggð, en verðtryggingunni svo kippt af laununum. Það var nógu gott fyrir almúgann.

Nú, á tímum óðaverðbólgu og atvinnuleysis, ætla stjórnvöld að hjálpa okkur. Með því "að fresta verðbótunum", "að greiðslubyrði lækki um 10% 1. desember og allt að 20% eftir eitt ár, miðað við það sem annars hefði orðið". Hvað þýðir þetta á mannamáli? Að við verðum látin borga allt ruglið seinna, það er bara lengt í snörunni? Svo megum við leigja af bönkunum íbúðirnar okkar, þegar við missum þær. Það má vel vera að þetta sé frábær aðgerðapakki, ég er bara skríll.

Sáum í gærkvöld Bond og fannst hún vond. Breskur níðingsháttur hefur aldrei höfðað eins lítið til mín. Enginn fyndinn græjunörd, engin hlýja, enginn húmor, engin Moneypenny og varla nokkur söguþráður. Svo var djöfullinn danskur.

En í dag viðrar vel til mótmæla.

fimmtudagur, nóvember 13, 2008

Ólíkömnuð

Á heiðinni féll haustskugginn á uppþornaðan árfarveg. Veturinn verður langur, það sér hver maður.

Ég hlakka til vors.

miðvikudagur, nóvember 12, 2008

Eilífur anus fundinn, hann er í Kópavogi

Dularfullt, jafnvel yfirnáttúrlegt gat fannst við hakkaða holdgervingu auðvaldsins í brauði. Og það í Smáralind, sem ég hef kallað handarkrika míns gamla heimabæjar, en Smáralind gæti hugsanlega lækkað í tign, svona líkamspartalega séð.

Langar mig að liggja og vola
lundin þung og dauft mitt sinn.
Auðvaldið er eilíf hola
endaþarmur útrekinn.

Þessu sennilega ótengt. Horfði á forsetann í Kastljósi áðan og hugsaði: Ósköp erum við Íslendingar toppóheppin þjóð. Eigum við ekki einn einasta leiðtoga?

þriðjudagur, nóvember 11, 2008

Sá hluti af skrílnum sem er ég kann að baka brauð

Enginn banani er óhultur fyrir mér þessa dagana, á mig rennur æði sjái ég einn brúnan. Banana. Gríp hann höndum tveim og geri tilraunir. Baka bananabrauð, aldrei eins tvisvar í röð. Trúi því að ég muni á endanum uppgötva hina fullkomnu uppskrift að bananabrauði. Í dag setti ég hnetusmjör í deigið. Fjári gott. Það var í eftirmat. Í aðalrétt voru Ora fiskbollur úr dós (kr. 277).

mánudagur, nóvember 10, 2008

Enginn er annars bjarni í leik

Æ! Mikið geta blessaðir stjórnmálamennirnir verið klaufskir með "send" hnappinn. Fer að hallast að því að það sem ekki má nefna hér (klípan þiðvitið) laði fram það versta í fólki, rétt eins og skilnaður gerir hjá sumum.

Ekki nóg með að fjármálavitleysingarnir og stjórnmálagúbbarnir hagi sér eins og krakkar, bendi hver á annan og væli, heldur haga þeir sér eins og hálfgerð óbermi*. Hver man eftir Sigga í Toy story? Eða nei, svona atlaga í skjóli nafnleysis er verri en hreinn kvalalosti. Sorrí Siggi.


*Segi þetta og skrifa með fullri virðingu fyrir fullkomnu virðingarleysi mínu gagnvart áldrottningunni VS og Framsóknarflokknum.

sunnudagur, nóvember 09, 2008

Stolt

Nú er ég snortin, nýkomin af tónleikum Unglistar í Norræna húsinu. Þar mátti sjá og heyra ungt fólk leika á hljóðfærin sín og syngja. Hef alltaf dáðst að þeim sem geta staðið fyrir framan fullan sal af fólki og sungið. Söngröddin kvik, ber og viðkvæm. Afhjúpandi. Ung rauðhærð stúlka í blómapilsi söng þetta fallega ljóð Jónasar, við lag Atla Heimis.

Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley, við mættum margt
muna hvort öðru að segja frá.
Prýðið þér lengi landið það,
sem lifandi guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
allstaðar fyllir þarfir manns.

Vissi ég áður voruð þér,
vallarstjörnur um breiða grund,
fegurstu leiðarljósin mér.
Lék ég að yður marga stund.
Nú hef ég sjóinn séð um hríð
og sílalætin smá og tíð. -
Munurinn raunar enginn er,
því allt um lífið vitni ber.

Faðir og vinur alls, sem er,
annastu þennan græna reit.
Blessaðu, faðir, blómin hér,
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley, sérðu mig?
Sofðu nú vært og byrgðu þig.
Hægur er dúr á daggarnótt.
Dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

Smávinir fagrir, foldarskart,
finn ég yður öll í haganum enn.
Veitt hefur Fróni mikið og margt
miskunnar faðir. En blindir menn
meta það aldrei eins og ber,
unna því lítt, sem fagurt er,
telja sér lítinn yndisarð
að annast blómgaðan jurtagarð.


Ásta mín spilaði Khatsaturian á klarinettið með félögum sínum í tríóinu og þau gerðu það vel. Mjög vel. Ég var svo stolt.

Fór að hugsa um stolt. Alltaf verið stolt af börnunum mínum og aldrei dregið fjöður yfir það. Og þegar ég heyrði ungu stúlkuna syngja úr Hulduljóðum og Dalvísu fann ég fyrir annars konar stolti, þjóðarstolti. Jafnframt örlaði á samviskubiti. Er lítt höll undir þjóðrembu, en er þjóðarstolt slæmt? Hef haft það á tilfinningunni að þjóðarstolt sé "pólitískt ókorrekt", en er það endilega svo? Hef verið svo örg út í landið mitt, eða réttara sagt þá sem hér hafa ráðið ferðinni, fjárglæframenn og hryggleysingjar í ríkisstjórn. Hef skammast mín fyrir að vera Íslendingur. Skammaðist mín fyrir hroka og oflæti fámennrar forréttindastéttar. Skammaðist mín fyrir gildismat sem byggðist á sýndarmennsku og bruðli. Skammaðist mín fyrir óréttlætið, misréttið, peningadýrkunina.

En það má ekki missa sjónar af því sem er gott. Má ekki gleyma þeim sem erfa landið. Má ekki gleyma mosa, hrauni, fossum, heiðum, jöklum, sjávarangan, svörtum sandi og lóukvaki. Má ekki láta frjálshyggjuriddarana halda áfram að prédika um hagvöxt og segja að nú verði að virkja öll óbeisluð fallvötn, annars...já, annars hvað? Höfum í huga "gagnið" sem það hefur gert þjóðinni að hlusta á falskan frjálshyggjusönginn.

Ég vil ekki beisla vötnin, heldur markaðinn og græðgina. Ég vil tilheyra þjóð sem á skilið að búa í þessu óendanlega fallega landi. Og ég vil vera stolt.

Valið vald og falið

Ég hef verið alveg bit yfir fjölmiðlaumfjöllun um mótmælin á Austurvelli. Hef mætt þarna alla laugardaga (utan einn, missti af Arnþrúði K, búhú). Trekk í trekk undrast ég fálæti fjölmiðla og skrumskælingu á því sem þarna er að gerast. Er það ekki fréttnæmt að mörg þúsund manns safnist saman á Austurvelli, hlýði á ræður og sýni samstöðu? Að þúsundir almennra borgara mótmæli aðgerðum og aðgerðaleysi stjórnvalda? Sjónvarpsfréttir RÚV í gærkvöld voru mér sár vonbrigði. Einblínt var á örlítinn hóp fólks sem henti eggjum í Alþingishúsið. Hvað með það þótt örvinglan, reiði og tilfinningahiti brjótist út á svona tímum? Er það eina fréttin hér?

Í athugasemdakerfi míns ágæta fyrrverandi lýsti ég undrun yfir fréttaflutningi af mótmælunum, og fékk afar gott komment frá Lönu Kolbrúnu Eddudóttur og leyfi ég mér að birta það hér (þekki Lönu ekkert og veit ekki einu sinni hvort ég má þetta):
Gravatar „Baun” var fljót að finna fréttapunkt dagsins. Fálæti fjölmiðla hvað varðar þátt hins almenna borgara í mótmælunum.

Hvers vegna taka meira að segja RÚV-arar þátt í að gera lélegar og misvísandi fréttir af fundinum á Austurvelli í dag, sem var STÓRFRÉTT.

Hvar eru t.d. hljóð- og mynd-upptökurnar af því þegar mannfjöldinn blístrar og æpir, æ ofaní æ, og hristir mótmælaspjöld sín til samþykkis orðum Sigurbjargar og Einars Más (dj. er hann góður). Hvar eru bútarnir úr ræðum dagsins og viðtölin við venjulega fólkið sem mætti þarna í hrönnum?

Hvar eru myndskeiðin þar sem panað er almennilega yfir mannfjöldann, til að áhorfendur fái tilfinningu fyrir mætingunni og stemningunni - og hverjir voru þarna. Bara einblínt á unga fólkið og anarkistana, egg og reykspól, að ógleymdum Geir Jóni sem var nú bara í vinnunni... sorrí, en ekki var hann að mótmæla.
Fjölmiðlarnir eiga að endurspegla samtímann og þarna bregðast þeir, líka krosstrén. Fer að halda að einu raunverulegu umræðuna sé að finna á netinu, þótt þar séu æði misjafnir flugfiskar á sveimi. Reyndar eru undantekningar á dugleysinu, því Víðsjá er vissulega fínn þáttur og oft beittur. Og svo er þessi fjölmiðill ferskur, lesið hann!

laugardagur, nóvember 08, 2008

Reykjavik tea party in the land of Bonus

Jón Lárus og Hildigunnur gera grein fyrir mótmælum hinum minni. Lesa má nánar um það mál hér. Óþarfi að taka níðingshætti bresku stjórnarinnar og yfirgangi þegjandi. Svei Bretum!
Málbeinið sturtar tei í Reykjavíkurhöfn.
Læt myndirnar af Austurvelli tala sínu máli. Þarna voru mörg þúsund manns og hiti í fólki. Ef til vill er þjóðin að vakna, hver veit..

Helkjarkaður ungur maður dró Bónusfána að hún uppi á þaki Alþingis. Sá guli sómdi sér óþægilega vel þarna.

Mikið vona ég að við sem þjóð förum að læra að eina leiðin út úr ógöngunum er að standa saman og láta okkur varða hvernig landinu er stjórnað.

föstudagur, nóvember 07, 2008

Í dag er ég tilvera

Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að deila því með ykkur að ég hef ákveðið að skrifa a.m.k. fimm færslur án þess að minnast á klípuna. Mun heldur ekki ræða klemmuna.

Helgin framundan, börnin hjá mér, eldhúsframkvæmdir potast, heil vinnuvika liðin á nýja staðnum. Hoppsasa, nú ætla ég að hendast upp úr stólnum og elda lasanjettu.

fimmtudagur, nóvember 06, 2008

Veik kind um af

Var að spá hvort við gætum ekki sparað helling með því að leggja niður, með haus og hala:

a) Utanríkisráðuneytið.
b) Forsetaembættið.
c) Þjóðkirkjuna.
d) Greiningardeildina hans Björns B.

Einhver reikningshaus má reikna út hvursu margar krónur þetta mundi spara okkur skattborgurunum. Svo vil ég að ríkið GERI EITTHVAÐ í þessum FÁRÁNLEGU ÖMURLEGU VERÐTRYGGÐU HÚSNÆÐISLÁNUM. Áður en við sýkjumst öll af umgangspestinni neikvæð eignastaða og gjaldþrotasótt. Kann ríkisstjórnin eitthvað annað en að ljúga að okkur?

Svo langar mig að greina frá því að nýja vinnan mín er ágæt og aldeilis nóg að gera. Sé ekki að fólk hætti að vera veikt þó að það hafi ekki efni á því og megi sennilega ekki vera að því heldur.

þriðjudagur, nóvember 04, 2008

Það er líka flauel á kryppunni*

Mamma vinkonu minnar er á elliheimi og þar hafa verið mikil og viðvarandi vandræði með að fá starfsfólk. Nú ber hins vegar svo við að ekkert mál er að manna allar stöður, og gamla fólkið fær vonandi betri umönnun fyrir vikið.

Maður getur ekki annað en velt fyrir sér hvort Hrafnista og Grund séu um þessar mundir að fyllast af viðskiptafræðingum á moppunni, deildarstjórum greiningardeilda í býtibúrinu og verðbréfamiðlurum á skolinu.

Vona samt að þetta endi ekki í Grund group og Hrexista holding.


Italic
*af óviðráðanlegum orsökum get ég ekki kallað kr***una kre**u heldur bara kryppu. afsakið.

mánudagur, nóvember 03, 2008

Óreiða og vondi skyndimolinn

Meira vesenið sem fylgir framkvæmdum, jafnvel þótt litlar séu. Erum að gera upp gamla eldhúsinnréttingu, mála og setja nýja borðplötu og þessu fylgir þvílíkt sagryk og rót og lakkblettótt læri og terpentínufnykur og DRASL, að það hálfa væri hellingur. Takið eftir þykku ryklaginu, þetta er mikið á minn mælikvarða og er ég þó ekkert tuskudýr.
Svo flæða rýmin hvert inn í annað og hvergi skjól að finna. Mikið sem ég hlakka til að sjá fyrir endann á þessu brasi.

Að öðru. Fór í fiskbúð, sársvöng eftir vinnu. Sé hvar opinn konfektkassi liggur eggjandi á afgreiðsluborðinu. Spyr fisksalann hvort ég megi fá einn mola, hann segir gjörðu svo vel. Hefði auðvitað frekar átt að spyrja af hverju fiskbúð væri að selja súkkulaði, en það hugkvæmdist mér ekki. Molarnir í kassanum voru á stærð við kindaskít. Ég greip einn, stakk upp í mig og uppgötvaði að hann var úr gegnheilu brúnmáluðu smjörlíki. Búðin var full af fólki, engin undankomuleið. Ég varð að kyngja þessu helvíti. Þegar ég labbaði heim með fiskinn sá ég mest eftir að hafa bætt á mig 7000 kalóríum í einum bita. Agalegt skúffelsi að fitna af vondu súkkulaði.