sunnudagur, júní 26, 2005

HanSolo,

gefðu þig fram. Hver ertu? Ég er svo hræðilega forvitin.

Annars er það helst að frétta að ég er að fara til London með strákunum mínum. Hlakka til, en finnst voða leiðinlegt að pakka.

Lifið lengi og blómstrið.

föstudagur, júní 24, 2005

Fann í mér...

karlmanninn í fyrradag. Var uppi á þaki og negldi niður þakpappa, taktföst hamarshöggin vöktu í mér testesterónið. Kallbeyglan mundaði gildan gasbrennara, lét logana sleikja (og steikja) bikið, lagði svo pappann á þakið og ég negldi. Við vorum helvíti flott par.

þriðjudagur, júní 21, 2005

Kann einhver...

japönsku? Bloggerinn minn er allur á japönsku. Við eigum í samskiptaerfiðleikum. Hjálp! Svo eru alltaf að birtast litlir tíglar með spurningamerki inní og ryðja burt íslenskum stöfum. Mikil og lítt gefandi handavinna að laga það. Þetta er eitt stórt samsæri - made in Japan.

sunnudagur, júní 19, 2005

Ég þoli ekki...

jólahandklæði. Að þurrka sér um hendurnar á jólatré í júní er ömurlegt. Jólahandklæði eru með verstu uppfinningum mannsins. Þau stinga í stúf (haha, ekki jólasveininn) nær allt árið, innan um heiðvirð handklæði, en ættu bara að dirfast að láta sjá sig í desember. Fatta jólahandklæðin það? Nei. Jólahandklæði eru eins og sumt fólk. Aldrei með á nótunum, aldrei í takt við umhverfið.

Ég ætla að henda þessum tveimur jólahandklæðum sem til eru á heimilinu. Skítt með það þótt tengdamamma verði fúl.

laugardagur, júní 18, 2005

Kallinn minn...

á afmæli í dag. Hann er hálf fimmtugur, eins og það heitir víst. Skulum bara túlka það eins og unga fólkið gerir og segja að hann sé töttögofimm. Til hamingju Pétur:)

föstudagur, júní 17, 2005

Aftur með ...

timburmenn. Og það á sjálfan 17.júní. Fjandakornið, nú ætla ég að taka heilbrigða rispu í líferni. Vorum í brúðkaupi í gær og það var mikið fjör. Giftingin fór fram í gærkvöldi í Dómkirkjunni og svo var dansað fram á rauða nótt. Æði margar súlur eru í kirkjunni, en þær fengu að standa óáreittar fyrir mér. Voru bara fyrir mér. Síðan má þakka forsjóninni fyrir að Iðnó er súlulaust svæði. Í dag er ég ekki beint með móral. Bara hausverk. Og afskaplega sárfætt eftir háhæluðu bandaskóna.
Björn Jörundur, Stefán Hilmarsson og Eyjólfur Kristjánsson voru allir meðal boðsgesta og hápunktur kvöldsins fyrir mér var þegar Eyvi og Stebbi tóku Nínu uppi á sviði (úff hvað þetta hljómar eins og þýsk klámmynd, en þið vitið alveg að ég er að tala um lagið). Svo söng Björn líka nokkur lög og hann er einfaldlega ofurtöffari. Það getur verið misgaman þegar gestir rífa hljóðnemann og koma með framlag í veislu en í öllum þessum tilfellum var það megaflott. Og brúðhjónin voru glæsileg og gegn-hamingjusöm að sjá. Þetta var skemmtilegt brúðkaup.

þriðjudagur, júní 14, 2005

Hann á afmæli í dag...

hann á afmæli í dag, hann á afmæli hann Matti, hann á afmæli í dag. 14 ára og kominn í unglingavinnuna að reyta arfa. Það finnst honum leiðinlegt (og arfanum ábyggilega enn leiðinlegra).

Ef ég væri atvinnulaus væri ég 230 kíló. Lágmark. Geri varla annað en að þjóna munni og maga í fríinu. Það er svo gaman að elda, baka og borða. Kjams kjams. Og drekka. Glogg glogg.

Þessu tengt: fór til Inga tannlæknis í dag. Var í ævintýralegu skapi og ákvað að þiggja ekki deyfingu, en tannlæknirinn þurfti að bora út gamla fyllingu. Hef alltaf látið deyfa mig áður, alveg undantekningalaust í boriboristandi. En, þetta var bara eins og þreytandi húsasmiðjuauglýsing - EKKERT MÁL. Var ég ekki dugleg?

mánudagur, júní 13, 2005

Sat á kaffihúsi...

áðan, alein með fartölvuna og var að skrifa grein út af rannsókninni minni. Fannst ég últra kosmópólítan, saup á mínu kappútsjínói en skrifaði lítið af viti. Sem er aukaatriði.

Kallinn stynur mikið þessa dagana af því að hann er að undirbúa byggingu 9 fermetra skúrs útí garði. Þetta er mikið verk og það þarf að spekúlera í því óskaplega djúpt. Ekki ana að neinu. Guði sé lof fyrir hvað kallinn minn á gott með að hugsa.

sunnudagur, júní 12, 2005

Æ,æ og ó ó...

það eru litlir kallar að smíða og saga í hausnum á mér og svo er klaufalegur handlangari oní maganum mínum eitthvað að brölta. Ósköp á ég bágt í dag. Fór í partí í Garðabæinn í gær og skemmti mér alveg svakalega vel. "Svona fá þeir syndagjöldin sem eru að göltrast úti á kvöldin." Sagði amma. En nú ætla ég að líta á björtu hliðarnar. Þær eru þessar:

1. Ég gubbaði ekki í blómapott.
2. Ég reyndi ekki við tvítugan son húsráðenda.
3. Ég datt ekki á rassinn í súludansatriðinu mínu.

laugardagur, júní 11, 2005

Fimbulfambi...

komst að kjarna baunarinnar er honum varð að orði:

Með gæðablóðið gengur hér
og gefur ekki neinum.
Í dulargervi dömu er,
dirty harry í leynum.

Þetta er hárrétt hjá Fimbulfamba. Því:

Í mér býr heitasta hörkutól
með háðslegt skítaglott
þetta´ er hið argasta andstyggðarfól
sem ætti að hunskast á brott.

Bæ-ðe-vei þá ætla ég að taka alteregóið með mér í partí í kvöld - við harrí skemmtum okkur ábyggilega vel (eða illa).

Síðan ein tilvitnun í goðið fyrir harðgera lesendur:

Opinions are like assholes. Everybody´s got them.

föstudagur, júní 10, 2005

Hér er afar merkilegt...

próf fyrir ráðvillta (fann þetta á bloggsíðu hjá vinkonu dóttur minnar - ungt fólk er leitandi).


miðvikudagur, júní 08, 2005

Já, það eru ekki margir...

sem koma inn í banka og ætla sér að leggja inn en eru reknir út. Þessari bitru reynslu varð ég þó fyrir, eins og ég hef áður deilt með ykkur. Viðbrögð vina minna og vandamanna hafa verið sem smyrsl á sárin - hafið þökk fyrir samhygðina (sérstaklega Ærir og félagar, sem oft gauka góðu að manni á erfiðum stundum).

Ætlaði mér að leggja´inn eitthvað gott
í einstaklega þarfan bankasjóð
harkalega var þá hent á brott
- húsið vildi ekki gæðablóð.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Ég var rekin...

úr bankanum. Alveg satt. Þetta gerðist, nánar tiltekið, í blóðbankanum - mér var sagt að ég þyrfti EKKI að koma aftur og var síðan strikuð út af gjafalistanum. Ég er víst ekki nógu góður blóðgjafi af því að í mér leynist leggur af aðalsmær. Ég fell í yfirlið af minnsta tilefni og hef verið svona frá blautu barnsbeini. Er voða sorrí og meyr yfir þessu, játa það. Mig langar nebbla svo óskaplega að vera hörkutól sem situr í ruggustól með úfið hár, haglabyssu í kjöltunni, viskí í annarri og vindil í hinni. Maður getur bara látið sig dreyma...

mánudagur, júní 06, 2005

Aaahhhh...

búið að ferma eldri soninn. Og dagurinn var yndislegur, veðrið fínt, gestirnir æðislegir og fermingardrengurinn frábær. Nú get ég slappað af, loksins, loksins...

fimmtudagur, júní 02, 2005

Fórum ...

á fermingaræfingu í gær í kirkjunni. Sýndist ekki veita af, börnin þurfa að raðast rétt þegar þau ganga inn, setjast, standa upp, ganga út. Stelpur (þrjár talsins) öðrum megin og strákar (8 stykki) hinum megin. Svo lét presturinn börnin æfa sig að krjúpa við gráturnar. Strákagreyin áttu afskaplega erfitt með að krjúpa og enn erfiðara með að standa upp aftur - flestir stóðu þeir upp jafnfætis, ríghéldu í handriðið og rykktu sér upp þannig að brakaði hátt í viðnum. Sérann sýndi börnunum réttan limaburð, hvernig átti að krjúpa og standa upp virðulega og hátíðlega. Hann kenndi þeim líka rétt viðbrögð ef þau skyldu óvart hafa með sér sálmabókina upp að altarinu. Ákaflega vönduð vinna hjá prestinum.

Ég er svooo lúin - búin að hamast við gluggaþvott, bakstur og þrif í allan dag. Var siðan að henda kjúlla og grænmeti í pottinum eina inn í ofn. Hugmynd að matreiðslu kjúllans fékk ég við að horfa á Queer eye for the straight guy - alveg einstaklega skemmtilegir þættir verð ég að segja. Ætli hommar séu skemmtilegri en streitarar? Hef ekki hugmynd. Þekki bara einn og hann er reyndar alveg ágætur.