laugardagur, janúar 31, 2009

Eðlisfræði punganna

Nútímabörn eru teprur. Ásta leit skelfd á hrútspungana og sviðin, dró svo hettuna yfir höfuðið, fór með einhverja möntru* og starði einbeitt á litla rófustöppufjallið sitt. Hjalti hélt kúlinu, en borðaði ekkert nema flatbrauð. Matti sýndi karlmennskutilburði og bragðaði á hákarli (kúgaðist) og sviðum (átti bágt með að leyna viðbjóði sínum). Þorrablótið snerist upp í blót afkvæmanna: "Djöfull er þetta ógeðslegt!" "Fokk hvað þetta er krípí!"

Hjálmar bar sig mannalega og slafraði í sig auga með soghljóðum og slurpi og við það varð mér að orði: ég hef aldrei verið neitt fyrir augað. Seinna um kvöldið glopraði hann út úr sér að hann væri lítt gefinn fyrir þorramat. Hjálmar er tvímælalaust betri leikari en börnin mín.

Ójá, afmælismáltíðin lukkaðist glimrandi glæsilega, ég skemmti mér alltjént vel. Þorramatur er góður. Ég er kvikindi.


*skv. möntrunni hennar Ástu eru súrir hrútspungar "primitive cubic" (eðlisfræðilegt fyrirbæri, alls óskylt sauðfé)

fimmtudagur, janúar 29, 2009

Ekki vegan þessi baun

Á morgun fæ ég svið með rófustöppu. Líka flatbrauð, hangiket og eitthvert súrmeti. Þegar ég var lítil fékk ég einn dag á ári að ákveða hvað yrði í matinn á heimilinu og valdi ég ýmist þorramat eða kjúkling. Oftar kjúkling, því kjúklingur var exótískur matur þegar ég var barn og mér fannst hann ævintýralega góður.

Allt er svo fallegt þegar fönnin leggst yfir, mjúk og hvít. Meira að segja hálfbyggð hús eru næstum því óljót í dag.

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Meint heimsvísuhneigð

Viðurkenni fúslega að mér hefur alltaf fundist kynlíf miklu áhugaverðara en pólitík. Vissi samt ekki að það væri beinlínis hættulegt, eins og hér segir. Maður veltir fyrir sér hárri tíðni þessa sjúkdóms í sumum geirum.

Jóhanna verður "fyrsta lesbían á heimsvísu til að gegna embætti forsætisráðherra". Þannig var fréttin orðuð hjá Rúv í kvöld. Ætli ég sé gagnkynhneigð á heimsvísu, eða eru það bara stjórnmálamenn?

Auk þess langar mig í slöngulokka eins og ljóshærða þulan skartar.

mánudagur, janúar 26, 2009

Byltingarrofsórar

Getur baun lagt byltingarbúnaðnum? Hmmm...

Varla, ætla alla vega ekki að sofna aftur frónskum þegnsvefni. Ekki strax.

sunnudagur, janúar 25, 2009

Glópar, vitar og vorið

Í gær á Austurvelli og í dag í þessu yndislega veðri hef ég fundið fyrir von og gleði. Nú veit ég að það kemur vor og ég hlakka til að ganga á fjöll. Fátt veit ég skemmtilegra. Á fjöllum skiptir engu máli hvað ráðherrar heita. Mosa og skófum er slétt sama um fútsí og fjármálaeftirlit.
Sáum tvær konur rétt ná að krafla sig í land áður en féll að við Gróttu. Hvað ætli verði um strandaglópa þarna?
*Dæs* hvað ég á massa sætan og góðan kall. Munar um minna.

Vegna fjölda áskorana kemur hér stjórnmálainnlegg baunar: Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja*, mér og minni þjóð að meinalausu.

*og allir þeir sem reknir verða

laugardagur, janúar 24, 2009

Lýðurinn þéttur á Velli

Það var pakkað á Austurvelli og stórgóð stemning. Fínar ræður, sérstaklega sú sem Guðmundur Andri Thorsson flutti, að öðrum ólöstuðum.

Eftir ræðuhöldin söng svakafínn kór ættjarðarlög. Þar sá ég Huga og Hildigunni þenja raddböndin, en það var svo mikill troðningur að ég komst ekki almennilega að til að taka myndir.
Ekki kann ég skýringu á þessum bláa belg sem hékk í gálga gegnt Alþingishúsinu.
Lalli pósaði fyrir mig og JóJó söng Lælælæ...lælælælælælælæ...lælælæ..lælælælælælælælæææælæ...
Aldrei hef ég keypt mér knús. En ég græddi sumsé eitt slíkt hjá þessum hlýlega unga pilti.

Eftir fundinn bauð mamma byltingarsinni mér upp á vöfflur og kaffi á Amokka og það var harla gott.

Kreppumein

Staðfastlega blátt fólk vekur mér furðu stundum. Blá kona sagði við mig í gær, súpandi hveljur af æsingi: Guð hjálpi okkur ef Steingrímur Joð kemst til valda, þá fer allt til fjandans, hann skilar AGS láninu og við þurfum að ganga í roðskóm! Þegar ég hreyfði vesældarlegum mótbárum við þessu argúmenti, æpti hún með skelfingarsvip: Á ég að trúa því Elísabet að þú sért vinstrigræn? Ég stamaði eitthvað, lagði ekki í orðaskak við þessa raddsterku konu, og fannst býsna óþægilegt að vera gerð í einu vetfangi að heilum stjórnmálaflokki. Ég hef aldrei verið stjórnmálaflokkur, heldur stelpa og kona. Hef kosið ýmsa flokka en aldrei skilgreint sjálfa mig sem flokk. Það væri bara fitandi.

Ef ég fæ krabbamein, sem er ósköp líklegt því það er algengur sjúkdómur, langar mig að gripið verði til aðgerða til að sporna gegn því. Aðgerðaleysi mun ekki hefta útbreiðslu meinsins, heldur verð ég veikari ef það fær að grassera. Það er mín skoðun, en ef einhver spyr krabbameinið álits, segir það ábyggilega: Guð minn á himnum, það er miklu betra að leyfa mér að vaxa og dafna, alls ekki grípa til aðgerða gegn mér! Ég veit miklu betur en þú sjálf hvað er líkama þínum fyrir bestu.

Ætla á Austurvöll í dag, aðgerðaleysi er ekki kostur í stöðunni.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

Ótal aukaleikarar í þessu leikriti

Fórum í bæinn nú undir kvöld. Á Austurvelli var eldur í tveimur bálköstum að deyja út, annar hálfkulnaður (S) en í hinum engdust enn daufir logar (D).
Ég verð að gera þá játningu að hjarta mitt þyngdist óþyrmilega við að sjá Alþingishúsið svona illa út leikið.
Aðalmótmælin höfðu færst upp á Hverfisgötu, við Þjóðleikhúsið, vegna fundar Samfylkingar. Kasper, Jasper og Jónatan fylgdust með, aulalegir á svip, enda bara gamaldags ræningjar en ekki séríslensk handmötuð rándýr með teinóttan feld. Þjófarnir í Kardimommubæ stela hlutum, gömlum frænkum og kökum en ekki heilli þjóð.
Já, ég er sammála þér gamli sjóari. Við þurfum að venda kúrs.

Eitthvað hefur verið leyst úr læðingi, það líkamnaðist í eldinum. Ég horfði á það logandi hrædd og gat ekki haft augun af því.

Tímarnir brenna og mennirnir með. Og það er auðvitað svakalegt en í staðinn fyrir að sökkva sér í melankólíu eins og ég gerði eftir að við komum heim greindi Hjálmar innra eðli Geirs.

Bitlaus

Mér finnst Geir eitthvað svo óheppinn með þjóð. Hann gæti hæglega barið í pott og gargað: Vanhæf íslensk þjóð, vanhæf íslensk þjóð.

En hann er víst ekki svoleiðis.

Vangavelta dagsins

Skyldi Geir skynja núna að fólk er pínu óhresst með ríkisstjórnina?

Loksins fræg í útlöndum

Heima í dag með pestarkranga, sem betur fer er óralangt síðan það hefur gerst. Hjalti minn fékk háan hita og er grútslappur. Svei mér ef mamma gamla er ekki betri en enginn þegar maður er svona lasinn.

Rakst á þessa tilvitnun hjá dóttur minni, úr frétt á mbl: "Þannig má víða sjá að Ísland er viðmiðið þegar ekki verður neðar komist." Hljótum að geta reddað málunum með því að efla löggæslu um allan helming svo valdstjórnin fái frið til að vinna.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

Vanhæfnin á ekki eyru

Ég er útslegin og orðlaus yfir valheyrn valdhafa. Hvað þarf að öskra hátt til að þeir heyri? Halda þeir að reiði þjóðarinnar vegna aðgerðaleysis og klúðurs sé bóla sem gangi yfir á nótæm? Þrjóska getur verið kostur en þumbaragangur ráðamanna þessa lands er ekki fyndinn.

Þeir sem mæta í mótmælin eru ekki smjörkúkarnir, bankaglæponarnir, þjóðníðingarnir og landráðamennirnir sem seldu strit okkar næstu áratugi. Þeir sem mæta eru þjóðin.

Og þjóðin vill reka óhæfa úr starfi og ráða hæfa í þeirra stað. Flókið? Nei.

mánudagur, janúar 19, 2009

Grænsóknarflokkurinn

Hvað er líkt með Framsóknarflokknum og Bandaríkjunum? Ekki spyrja mig. En ég kætist yfir nýjum sópum.

Framsóknarflokkurinn er eitthvert púkalegasta apparat í heimi, grænmyglaður með hagsmunapotsfjósafýlu langar leiðir. En, það verður gaman að fylgjast með Sigmundi Davíð, hann er eldklár, með húmorinn í lagi og nennir vonandi ekki landlægu rugli og kjaftæði. Þótt fyrr frjósi í helvíti en að ég kjósi Framsókn er kosning Sigmundar gleðileg á einhvern hátt.

Er í glimrandi skapi í dag, fór í klippingu og keypti mér svo pæjulegan jakka að ég varð feimin við konuna í speglinum. Ójá.

sunnudagur, janúar 18, 2009

Júróspurt

Mér dauðbrá þegar ég sá að búið væri að klóna Unni Birnu tvöfalt og láta afritin dandalast með níðþung hljóðfæri í félagsskap uppgerðarhressilegs úkúlelespilandi Hasselhoffs.

Heimurinn stefnir óðfluga burt, en hvurt?

laugardagur, janúar 17, 2009

Eigum við að halda áfram að nenna þessu?

Ég hef sáralítið að segja. Fregnir af áframhaldandi umsvifum auðmanna í skjóli linkulegra reglna
gera ekki mikið til að auka manni bjartsýni. Helvítis glæpamennska, segi ég. Ekki lyftist geð mitt heldur við fregnir af fasískum tilburðum löggæslunnar, sjá hér og hér, en ég í fávisku minni hef alltaf litið á lögregluna jákvæðum augum, alltaf talið hana vera mér og öðrum heiðarlegum borgurum þessa lands til aðstoðar.

Lögregluþjónn, hverjum þjónar þú?

Ég heimsótti eitt sinn safn sem fékk hárin til að rísa á höfði mér af óhugnaði. Það var Stasi-safnið í Leipzig.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

Lumbra


Óttalega lumbruleg í dag og var ráðlagt að fá mér sólhatt. Gerði það.

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Baunkamp

Nú er það átakið. Stefni að 100 armbeygjum og 50 kátínuhoppum eftir sex vikna þjálfun. Grunnformið er 12 armbeygjur og 10 kátínuhopp.

Svo langar mig líka að geta hlaupið 5 km án þess að blása úr nös. Núna get ég hlaupið fram í eldhús og til baka, ónasaúrblásandi.

Það er ekki ljótara en það. Sagði afi.

Upppepp

Mér líður vel og ég vona að þér líði vel.

mánudagur, janúar 12, 2009

Stjórn og mál, hagur og fræði

Borgarafundurinn var sossum ágætur. Við sátum í miðri kös leðurklæddra og helmassaðra orgara (sem voru á orgarafundi) þannig að erfitt var að dotta undir fyrirlestrunum.

Robert Wade var skeleggur ræðumaður, og skemmtilegt hvernig hann bar nafn Péturs Blöndal fram, Petur Blunder. Í máli Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur stjórnsýslufræðings komu fram ýmsar upplýsingar um (meint) ámælisverð vinnubrögð heilbrigðisráðherra. Getur annars einhver útskýrt fyrir mér þennan margtuggna mun á "einkarekstri" og "einkavæðingu" í heilbrigðiskerfinu? Ef einkarekstur er svona gráupplagður, væri þá ekki ráð að "einkareka" t.d. lögreglu og tollgæslu líka?

Þótt ég skilji ekki hvað einkarekstur er miklu sniðugri en einkavæðing er ég samt búin að læra allt of mörg hagfræðileg hugtök gegn vilja mínum. Fne.

Fordæmi og fordæming

Mótmælaspjaldið mitt í morgun leit svona út. Ásjóna reifastrangans er mynd af barnslíki, en þessi hvítvoðungur var myrtur í Palestínu nýlega. Af fullkominni grimmd, af fullkominni hernaðarmaskínu Ísraelsmanna.

Barnslíkið lagði ég á tröppur Stjórnarráðsins. Bar þar fljótlega að ábúðarfulla miðaldra konu, smekklega til fara. Ilmvatnsský blandaðist reyk púðurkellinga. Konan klofaði yfir líkið án þess að fipast takturinn. Helför smelför.

Sýningin verður að halda áfram og ríkisstjórnin
þarf frið til að vinna, hún þarf frið fyrir okkur. Þjóðin á ekki að þvælast fyrir valdstjórninni. Þjóðin á að vinna baki brotnu og borga skuldir auðmanna og halda kjafti og vera þakklát. Okkur varðar hvorki um þjóðmál hér á landi, né um þjóðarmorð í fjarlægum löndum.

laugardagur, janúar 10, 2009

Spilling, illska, föðurland og flöskuskeyti ungu stúlkunnar

Mótmæli, mótmælaaðgerðir, borgarafundir. Fimmtudagur, föstudagur, mótmæladagur, sunnudagur, borgarafundardagur, þriðjudagur. Tilveran hefur tekið stakkaskiptum síðan í haust.

Hnátan sem hér sést á mynd klappaði ákaft með litlu lófunum sínum fyrir ræðumönnum og af og til veifaði hún flösku með einhverjum skilaboðum í. Hvað ætli hafi staðið á miðanum í flöskunni? Var þetta mótmælaspjaldið hennar?

Mér finnst gaman að skoða mótmælaspjöld. Sá þessar áletranir: Haarde faarde burt og Auðmaður á ekkert föðurland. Svo kom ég auga á eitt þar sem stóð: Davíð er dýr. Já, hann er pottþétt rándýr, gamall og geðvondur tígur.

Þorvaldur Þorvaldsson flutti ræðu, en mér fannst mun tilkomumeira þegar hann brast í söng og flutti með þrumuraust lagið Aldrei einn á ferð (You´ll never walk alone, var tjáð að þetta væri baráttusöngur Liverpoolmanna).

Lilja Mósesdóttir hélt einnig tölu á fundinum, um margt ágæta en ákaflega langa. Mig grunar að hún hafi farið út í óþarflega mörg smáatriði eins og fræðimönnum hættir til að gera.

Lárus Páll Birgisson sjúkraliði er fæddur ræðuskörungur og hrífur fólk auðveldlega með sér. Það er ekki öllum lagið.

Annars finnst mér ég hafa heyrt þetta allt áður, allt sem sagt er í þessum ræðum. Og á hverjum degi dembast yfir mann ný dæmi um spillinguna sem viðgengist hefur í þessu skítaþjóðfélagi. Er að verða æði dofin í hausnum, og óttast að ég sé hundléleg byltingarkona. Finnst ég lítil og ómáttug. Verð að muna að taka lýsi.

Eftir mótmælin stikuðum við á stuðningsfund við Palestínu í Iðnó, þar var troðfullt út úr dyrum. Karl Blöndal blaðamaður flutti vitræna samantekt á ástandinu fyrir botni Miðjarðarhafs og margt fleira var á dagskrá, m.a. tæknilegir erfiðleikar og fínar ræður.

Þetta var ágætur fundur um ógn og skelfingu sem er langt ofar skilningi mínum.

Sit nú og Júróvisjón rúllar í sjónvarpinu fyrir daufum eyrum. Ef ég á að segja eins og er þá finnst mér að það mætti flytja Ísraelsríki eitthvað annað (stakk ekki einhver upp á Utah?). Það má alveg útiloka þá úr Júróvisjón í leiðinni.

Af hverju ættum við ekki að slíta stjórnmálasambandi við þjóð sem hagar sér eins og Ísraelsmenn gera? Við höfum engu að tapa, umheimurinn álítur okkur minnipokamenn. Sem við erum, sérstaklega ef við gerum ekkert í því óréttlæti sem viðgengst hér á landi og annars staðar í heiminum.

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Minna mál

Já, hann er vinnusamur, hann Guðlaugur Þór. Munur að hafa menn í ríkisstjórn sem vinna fyrir kaupinu. Ekkert andskotans væl í honum (eins og sumum) um að sumar aðgerðir séu voðalega flóknar og "táknrænar" eitthvað. Skoðið hér hvað strákurinn er duglegur - og allar þessar breytingar eiga að taka gildi 1.mars 2009, segi og skrifa.

Getum við ekki klónað huggulega dugnaðarforkinn Guðlaug? Þá yrði þess nú ekki langt að bíða að vandamálin gufuðu upp. Velferðarkerfið er allt of dýrt, og vitanlega hægt að nota skattpeningana í svalari hluti en spítala og heilsugæslu.

Veikt fólk er líka bara leim og engan veginn nógu hresst.

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Hverjum iðrin hafna

Mörg fyrirbæri sem áður flutu sakleysislega hjá vitund minni vekja mér nú sterkan viðbjóð. Má þar nefna orð eins og víkingar, útrás, markaðurinn, Æseif, banki, greiningardeild, verð og bólga.

Það sama gildir um tiltekna menn. Innyflin í mér þola fáa aðalleikara dýrustu sýningar sem sett hefur verið upp fyrir íslenskan almenning. Og þetta er ekki að persónugera vandann, heldur að líkamsgera hann. Líkami minn reynir bókstaflega að losa sig við slétta ásjónu Bjarna Á, truflað glott Davíðs, frosin augu Jóns Ásgeirs, geðluðruviprur Geirs, hrokasvip Ingibjargar, veiklyndisbrag Árna Matt, spillt Rómarkeisarayfirbragð Björgólfsfeðga. Svo fátt eitt sé nefnt.

Fjandakornið ég þoli ekki einu sinni teinótt dýr lengur.

mánudagur, janúar 05, 2009

Glóir hann Glitnis Bjarni

"Ég er reiður út í sjálfan mig fyrir að hafa trúað á hið góða, þ.e. markaðinn." Sagði Bjarni Á. Hann ætlar að láta það duga. Að segjast vera reiður út í sjálfan sig. Veit reyndar ekki betur en "markaðurinn" hafi reynst Bjarna prýðilega, allavega mun betur en mér og öðrum almenningi.

Takk Bjarni. Þú ert svooo sætur svona reiður, langar að klípa þig í kinnarnar og rugla hárgreiðslunni.

sunnudagur, janúar 04, 2009

Söfnuður heillegrar baunar

Einu sinni trúði ég á guð. Svo hætti ég því. Held ég sé töluvert bölsýnni nú en þegar ég hélt að guð og englarnir gættu mín og barnanna minna. En það gæti líka verið ellin.

Ef til vill væri ráð að stofna ný og glaðleg trúarbrögð, bara fyrir mig og lítinn munnsöfnuð.

Ársbyrjun

Alltaf verð ég döpur þegar ég tek niður jólaskrautið og aldrei meira en núna.

föstudagur, janúar 02, 2009

Skilettekki

Á hverju eru þeir eiginlega sem litmerkja myndir í Rúv? Í gær var einhver Bourneþvæluspennumynd, rauðmerkt. Hún var ekki ljótari fyrir börn en meðal blettahreinsunarauglýsing. Núna er gulmerkt mynd í sjónvarpinu, algjörlega hryllilega viðbjóðslega ógeðsleg og heitir White Noise vibbasjó. Hún ætti að vera bönnuð innan 116 ára.

Hata myndir um drauga, geðveiki og ofbeldi (og trúða). Ég vil ævintýramyndir um bleika smáhesta, blá ský, gulan rabbabara og forvitin bollapör.

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Heimaleikir og heimaföt

Íklædd gráum velúrbuxum keyptum á árum feitrar sjálfsmyndar skrifa ég þennan fyrsta pistil ársins 2009. Veit ekki af hverju ég tek fram að ég sé að skrifa pistil, það virðist einhvern veginn óþarfi. Hver skilur konur í víðum velúrbuxum?

Fór í bráðskemmtilegt fjölskylduboð í gærkvöld, þar sem áratugahefð er fyrir "leikaleik", en hann felst í því að leika orð líkt og gert er í Útsvari. Keppendur rúlluðu upp hugtökum eins og marfló og mæðuveikigirðing á nótæm. Tímametið átti móðir Hjálmars, en hún náði að koma Bónus til skila á 5 sekúndum. Snillingar.

Og mér fannst skaupið afskaplega fyndið. Finn fyrir djúpu þakklæti til listamanna, hrikalega væri lífið leiðinlegt án skapandi fólks.