miðvikudagur, janúar 31, 2007

Eðlilegar hægðir

eru þríbrotinn fingur, þrisvar á dag.

Sagði gömul kona úti á landi. Og habbðu það Jónína riddari stólpípunnar!



(ég veit, ég veit, bloggið mitt er farið að snúast grunsamlega mikið um losunarefni líkamans)

Bikar horsins

Langar að þakka fyrir allar góðu afmæliskveðjurnar sem ég fékk í gær. Þær yljuðu mér um hjartarætur. Svo fékk ég frábærar gjafir, m.a. disk með "Stelpunum" sem ég er búin að hlæja að, hátt og snörlandi. Hef nebbla aldrei séð þessa þætti og greinilega misst af miklu.

Ligg annars enn heima í hroðalegri kvefpest. Undrast það magn af slími sem líkaminn framleiðir og tárast yfir eyðingu skóga. Hef nú þegar snýtt mér í pappír sem nemur ræktuðu landi á stærð við Jótland. Þetta kvef er arfavont fyrir vistkerfi heimsins.

Þankarnir hætta ekki að banka á dyr þótt hausinn fyllist af hori. Datt niður á náttúruvænni lausn en tissjú. Köllum hana NASAbikarinn. NASA vekur upp traustvekjandi hugrenningatengsl um vönduð geimefni ásamt því að vísa í samnefndar holur í andlitinu. Það má einnig stefna að lúxusútgáfu, Tví-NASAbikarnum (fyrir þá sem hafa ekki tíma til að færa á milli nasa).

Hugsa mér framleiðsluna í nokkrum stærðum og sennilega húðlita, en hver veit nema unga fólkið mundi vilja glaðværa liti? Sjáið fyrir ykkur börnin í skólanum, já, eða unga hressa fólkið sem vinnur í Kaupþingi: Í nösum þeirra glittir í grænar, bleikar eða jafnvel túrkísbláar totur (á milli tæminga).

Nú er bara að finna kjölfestufjárfesta, hönnuð og framleiðanda. Þekki mann sem á súkkulaðifabrikku. Það gæti hjálpað mér að komast í réttu kreðsana í atvinnulífinu.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Að gefa upp öndina

Agndofa var ég yfir frétt um (líf)seigasta fugl í heimi, en þar segir frá önd sem fannst í ísskáp á Flórída. Ljótur byssukall hafði skotið önd þessa en samt var hún á lífi þegar eiginkona byssukallsins ætlaði að hafa hana í matinn.

Í Fréttablaðinu í dag segir: "Önd sem lifði af tveggja daga ísskápsvist eftir að hafa verið skotin af veiðimanni var við dauðans dyr á skurðarborði dýralæknis í Flórída...Hún hætti að anda í miðri aðgerð þar sem átti að gera við skotsár á væng hennar, en náði andanum á ný eftir lífgunartilraunir.." Sé fyrir mér svona stressaða ER senu, þar sem menn æpa skipanir, "stat!" og "clear!" og "bag her!"

Öndin heitir Perky. Og heimurinn er galinn.

mánudagur, janúar 29, 2007

Þartilgerðar fretbrækur

Er búin að hanga soldið á netinu, enda lasin. Reyndar hangi ég oft á netinu, ólasin. En sumsé, rakst á hagnýta uppfinningu hjá honum GHrafni, nefnilega prumpubuxur. Ekki oft sem maður sér nærklæðnað úr kolum, filti og glerull.

Hvað segir Kapteinn Ofurbrók um málið?

Hor-íbúl

Hélt ég slyppi, en nei. Er komin með svæsna hálsbólgu- og hitapest með yfirnáttúrulegri framleiðslu á slímjukki sem þrýstir á alla punkta innan kúpu minnar og gusast út þar sem göt eru fyrir. Vona bara að kúpan standist pressuna svo ekki myndist ný op.

Jú, það væri kannski ágætt að fá þriðju nösina, smekklega plasseraða fyrir miðju enni.

sunnudagur, janúar 28, 2007

Eigi skal blogga!

Þegar maður er fullur.

Svið, rófustappa og rækallans núið

Er að koma úr partíi, soldið full, mikið kvefuð og ræfilsleg.

Á bágt og enginn til að hugsa um mig.

Sorglegt? Nei, ég á þetta fyllilega skilið. Enda fráskilin og á þjóðbúning sem aldrei er notaður. Upphlutur er ekki fatnaður við hæfi á krossgötum.

föstudagur, janúar 26, 2007

Skikkja lyganna á herðum morgunkornsins

Fór í klippingu og fékk þar mitt reglulega fix af slúðri, glansmyndum og rassvasasálfræði. Las þetta m.a.:

- Fólk með skuldbindingarfælni hefur lélega sjálfsmynd og telur sig ekki eiga félagann skilið

- Fólk með skuldbindingarfælni hræðist tilfinningalega nánd og er haldið sjálfseyðingarhvöt í sambandinu

- "Venjuleg manneskja" hugsar 50 þúsund hugsanir á dag (ekki tekið fram hvernig slíkt er talið). Bent er á að maður eigi að hætta að hugsa neikvætt um sjálfan sig, maður eigi að taka ábyrgð á eigin lífi og hætta að hræðast breytingar



O sei sei. Get tekið undir sumt af þessu. Annars erum við hárgreiðslukonan mín á barmi stórmerkilegrar vísindalegrar uppgötvunar. Þannig er mál með vexti að ég er með ákaflega sterkan sveip í hárinu, sem lætur hálfan toppinn standa beint upp í loftið. Róttækar aðgerðir duga ekki til að halda honum niðri. Við höllumst að því að þarna sé á ferð svokallaður "viagratoppur", sem beri að rannsaka. Hver veit nema í hársekkjum mínum leynist gullnáma?

Já, og fyrirsögnin er setning sem sonur minn, Matthías, lét út úr sér rétt áðan eftir að hafa tekið til í morgunkorns-skápnum og uppgötvað að þar voru sex tómir pakkar. Hann kvaðst hafa fjarlægt skikkju lyganna af herðum morgunkornsins. Ég hummaði bara og bað hann um að fara út með ruslið.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

Pólskí vinnskí

Æ, æ, tap gegn Pólverjum. Gaman samt að sjá hvað pólskí voru glaðir en þjálfarinn okkar reiður. Alvöru tilfinningar, sveittir vöðvastæltir karlmenn að berjast, faðmast, fagna, gráta, hlæja.

Ég hef lífræna óbeit á boltaíþróttum en varð samt fyrir áhugaverðri reynslu í leikfimi um daginn. Skoraði mark, reyndar með stórum Nivea bolta í upphitun, en samt...tilfinningin að sjá boltann í marki, framhjá vörninni. Fyrsta sinn á ævinni sem ég skora mark. Djúp hamingja. Enda var ég hás af ópum og öskrum eftir spriklið. Öflug raddbandaleikfimi, bankandi hjarta og yndisleg mæði.

Livet er ikke det værste man har...

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Liberae sunt nostrae cogitationes

Var að enda við uppvaskið eftir ljúfa átveislu. Gestir mínir í kvöld voru sérlega vel af guði gerðir, enda allir bráðskyldir mér. Heyrði sögu af manni sem leigði herbergi af bróður mínum í Vesturbænum. Voru af leigjanda þessum nokkur vandræði þar sem trúarbrögð hans og siðir kölluðu á sálnaflakk með grænmetisívafi. Til að ná æðri tilverustigum þurfti karlinn að sjóða kynstrin öll af spergilkáli sem ku víst gefa af sér réttu gufurnar til að slengja sálinni út úr líkamanum. Íbúar blokkarinnar voru lítt hrifnir af stöðugri brokkolílykt og komst bróðir minn vart um húsið óáreittur, því fólk lét reiði sína yfir grænmetisgufum og sálnaflakki stöðugt bitna á honum. Svona getum við Íslendingar verið þröngsýnir og auðpirraðir...

Fann undraskemmtilega síðu fyrir fólk sem vill slá um sig á latínu, en til þess neyddist ég vegna athugasemda sem ég fékk frá óþekktri manneskju að handan (sem talar dautt tungumál).

Læt hér fylgja nokkrar þénugar tilvitnanir. Þýðingar fylgja á eftir, en í ruglaðri röð - þið megið giska hvaða merking liggur í latínunni.

1. Potestatem obscuri lateris nescis
2. Omnes lagani pistrinae gelate male sapiunt
3. Obesa cantavit
4. Estne tibi forte magna feles fulva et planissima?

a) All frozen pizzas taste lousy
b) Do you by chance happen to own a large, yellowish, very flat cat?
c) You don't know the power of the dark side
d) The fat lady has sung

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Lífið er táradalur og mig vantar bát

Nú ætla ég að fá að vera barnaleg, bölsýn, óþroskuð og kjáni. Þið sem ekki þolið slíkt, hættið að lesa HÉR.

Ergelsi baunar.
1. HATA verðtryggð húsnæðislán á okurvöxtum - það er ekki heilbrigt að við skulum láta bjóða okkur þetta, já, sápulaust í rassgatið.

2. HATA heimsk stjórnvöld sem leyfa erlendri stóriðju að vaða hér uppi og eyðileggja landið í vafasamri gróðahyggju og skammsýni.

3. Ergi mig botnlaust yfir misskiptingu auðs hér á landi. Hvaðan kemur allt þetta fólk sem veður í peningum? Hvaða peningar eru þetta? Hvernig stendur á því að sumir eiga svona fáránlega mikið af peningum og ég, sem vinn allan daginn, með mastersgráðu (og tilheyrandi námslánaafborganir) á aldrei aur? Sé aldrei pening? Rétt mer þetta um hver mánaðamót í nettum mínus. Langt frá því auðvitað að ég og börnin mín svelti, á nóg þannig séð, en utanlandsferðir eða bruðl af nokkru tagi eru ekki möguleiki nema ég sendi alla skynsemi í frí. Já, og ég veit að ég á drullugott miðað við marga. En, fjandinn hafi það að maður sé ánægður með óréttlætið.

4. Þoli ekki þegar ég fæ bölsýniskast yfir einhleypustandi mínu, finnst stundum að ég muni aldrei koma til með að kynnast ærlegum manni. Sálufélaga og vini. Heiðarlegum, laghentum, blíðlyndum manni, ókvæntum takk. Má vera kiðfættur, sköllóttur, litblindur, örvhentur, laglaus, þybbinn, loðinn, nefstór og hvaðeina. Bara ekki húmorslaus. Og ekki heimskur.

5. Hata svimandi hátt matarverð. Býst þó við að ég ætti að vera þakklát fyrir að stjórnvöld stefni að því að fella niður tolla af innfluttu hrossaketi og vatni.

Aahh...nú líður mér pínkuponsulítið betur. Samt ennþá reið. Vona að engar viðkvæmar sálir hafi borið skaða af lesningunni.

My nipples explode with delight

Var að horfa á enn eina Monty Python myndina með sonum mínum, þessi heitir "And now for something completely different". Mér finnst tvær senur fyndnastar, önnur snýst um ensk-ungversk/ungversk-enska orðabók fyrir túrista og hin um skógarhöggsmann með óhefðbundinn lífsstíl.

Það er greinilega hægur vandi að finna heilu handritin að þessum þáttum á netinu.

mánudagur, janúar 22, 2007

Ekki sem verst?

Allt er nú hægt að reikna út fyrir heilu þjóðirnar.

Ef dagurinn í dag reynist ekki svo slæmur, þá verður árið harla gott.

Er annars að spá í að bjóða The Bay City Rollers að skemmta í afmælinu mínu sem nálgast hraðbyri.

laugardagur, janúar 20, 2007

Evrópuvol

Evróvisjón *geisp*.

Sá ekki betur en Guðmundur í Byrginu væri meðal keppenda. Og Hreimur tók nafn sitt alvarlega og söng "ég hafði..." með hrækmæltu hái. Æ, þvílík lög.

föstudagur, janúar 19, 2007

Gamalt spaug

Fyrr í kvöld, þegar ég og strákarnir mínir röðuðum í okkur pítsunni, þá léku þeir fyrir mig heilu kaflana úr Tvíhöfðagríni, af plötu sem kom út fyrir ábyggilega 10 árum. Atriðin sem þeir tóku voru: Fernandó pylsa, snjalli mongólítinn, öfuguggi og viðbjóður og kindin Einar. Akkúrat engin vandræði hjá Matta og Hjalta að læra langar senur utanað, maður veltir fyrir sér hvað gæti orðið úr þeim ef þeir einbeittu sér svona að náminu. Kannski væri ráð að fá þá Sigurjón og Jón Gnarr í vinnu hjá Námsgagnastofnun?



Núna sitja gaurarnir hérna hjá mér og glápa á Monty Python´s Holy Grail. Í þúsundmilljónasta skipti. Kunna þetta fram og til baka og hlæja alltaf. Og ég með. Og við erum að tala um mynd sem var búin til árið 1974.

Sumt grín eldist lygilega vel.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

Efinn og þvottekta vinir

"Það að velja efann sem lífsskoðun er náskylt því að velja hreyfingarleysi sem samgöngutæki." (bls.39)

Þessi málsgrein er úr bókinni Sagan af Pí eftir Yann Martel (Bjartur, 2005). Stórskemmtileg bók um trúarbrögð og dýragarða og mann sem er skírður eftir sundlaug. Mæli með henni.

Mikið assgoti er notalegt að liggja í rúminu með góða bók og Svein Pálsson hvítabjörn sér við hlið. Svo hef ég komist að því að ullarsokkar gera næstum sama gagn og karlmaður í rúminu. Og já, þessir vinir mínir, Sveinn og sokkarnir, eiga það sameiginlegt að þá má þvo í þvottavél.

miðvikudagur, janúar 17, 2007

Teljari sem telur ekki og selspiksógeð

Bévítans teljarinn minn er farinn í verkfall og halló´skan komin með rugluna. Hvaða meinbugir eru þetta eiginlega í kerfinu?

Mikið er saltfiskur góður, sérstaklega steiktur með lauk, ananas, hvítlauk og balsamediki. Og banananammi frá Freyju. Namm. Pabbi minn er kominn með æði fyrir söltuðu selspiki, en þar dönsum við feðginin ekki í takt. Selspik er ógeð. Borða ekki glær-gul-brúnan mat með þráabragði. Held að mamma ætli í mál við fiskbúðina sem sér pabba fyrir þessum hroða.

Samfélagsremba

Ég er afar óhress með að vera meinaður aðgangur að þorrablóti í Bolungarvík.

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Hold Your Wee

Þessi frétt birtist í Blaðinu í dag, bls. 2. Ætli þetta sé flökkusaga?

Lést eftir pisskeppni
Jennifer Strange, 28 ára þriggja barna móðir frá Kaliforníu í Bandaríkjunum, lést úr vatnseitrun eftir að hafa drukkið of mikið af vatni án þess að fara á salernið.
Strange var þátttakandi í útvarpssamkeppninni "Hold Your Wee for a Wii", þar sem keppendur áttu að drekka 225 ml af vatni á 15 mínútna fresti. Sá sem færi síðastur á salernið myndi standa uppi sem sigurvegari, en í verðlaun var ný Nintendo Wii-leikjatölva.


Veit ekki hvar á að byrja. Vatnseitrun? Útvarpssamkeppni?? Og þessi setning: "Sá sem færi síðastur á salernið myndi standa uppi sem sigurvegari". Jamm og já.

Nefnið mér fleira svona sniðugt sem hægt er að keppa í (í útvarpi).

mánudagur, janúar 15, 2007

Fyrsta daman



Já, mér fannst Dorrit ljómandi fín í Kastljósinu. Kom vel fyrir, sýnist hún vera einlæg, vel gefin og ákveðin manneskja. Reyndar leiddist mér örlítið hvursu ákaflega hún mærði land og þjóð, en skjall er auðvitað flauel á tungu og hnökrast seint í eyrum.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Dömuboð

Í gærkvöld komu til mín fimm fræknar fráskildar og fyndnar dömur. Í dömuboð. Við gerðum ekkert sem dömur gera ekki og allt sem dömur gera þegar vel liggur á þeim.

Þar sem ég sat, umkringd þessum stórglæsilegu og skemmtilegu konum, hefði mér getað flogið í hug, "nú væri ekki ónýtt að vera kall eða lesbía". En mér flaug það ekkert í hug. Minnir mig.

Sé á myndunum að ég skemmti mér mjög vel.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Hjalti


Þetta er litli vatnsberinn minn hann Hjalti. Fjölhæfur eins og baunin, kann að "múltítaska" (fjölverkavinna skv. orðabók). Hér má t.d. sjá piltinn borða tvo sleikjóa í einu. Svo er hann afskaplega flinkur að teikna og skrifa sögur, baka pítsusnúða og hjálpa aldraðri móður sinni við heimilisstörfin.

Maður má nú vera stoltur af að eiga svona glimrandi fín börn.

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Bein í bleiku holdi



Var með góðan gest í mat í kvöld, vinkonu dóttur minnar. Eldaði eftir uppskrift úr Gestgjafanum, balsamgljáðan lax með gulrótum, engifer, sítrónu og sellerí. Eftir matinn kom í ljós að vinkonan hefur ofnæmi fyrir bæði gulrótum og sítrusávöxtum. Og dóttir mín þolir ekki engifer (ég vissi það nú reyndar fyrirfram, finnst hún þurfa að venja sig af því). En laxinn var góður og vinkonan er enn á lífi (var að gá).

Þegar ég var að undirbúa matinn, pilla beinin úr laxinum, hugsaði ég: "hei, baun, þig vantar beinatöng." Eða kannski maður geti notað augnabrúnaplokkara í djobbið? Prófa það næst. Alltaf að spara.

mánudagur, janúar 08, 2007

Heilaslettur og skítakuldi

Blogg er skrítið. Svo margt sem maður má ekki segja. Dálítið eins og að vera í fermingarveislu og svara spurningum fjarskyldra ættingja um hvað sé að frétta, "bara, allt gott". Hvernig hefurðu það? "Bara fínt." Ekki erfitt að gera sér upp kæti í rafheimum og fermingarveislum.

Get þó sagt ykkur að ég hef ákveðið nýjan kúrs í lífinu - og ekki vonum fyrr. Því þegar maður lemur hausnum við steininn trekk í trekk þá munar um heilasletturnar sem voru áður í vinnu í höfðinu á manni. En nú er ég sumsé búin að skafa greyin upp og sjúga upp í nefið og vona að allt rati á sinn rétta stað. Jú, þetta er hægt. Víst!

Mér leiðist janúar.

sunnudagur, janúar 07, 2007

Lífsins polki

Í dag er ég í skapi fyrir þakkargjörð (Barbí, haltu fyrir augun). Ég er þakklát fyrir svo margt sem vekur mér kæti og kitlar hamingjutaugina. Nefni hér örlítið brot gleðiefna baunar, röð er tilviljunarkennd:

1. Súkkulaði.
2. Ásta, Matti og Hjalti.
3. Að ég skuli ekki leysast upp í baði.
4. Himinninn.
5. Vinir mínir og fjölskylda.
6. Góð sápulykt.
7. Mosi.
8. Ullarbolurinn minn með sætu blúndunni.
9. Tærnar á mér.
10. Þetta lag.

Hvað gleður ykkur greyin mín?

laugardagur, janúar 06, 2007

Verði snjókall







Drengirnir mínir sköpuðu í dag snjókall til þess eins að tortíma honum. Mér fannst það hálf sorglegt en hugsaði svo með sjálfri mér, ojæja, einhver skapaði okkur nú með þá einu vöggugjöf vísa að við munum deyja. Það er ekki ljótara en það.

(biðst afsökunar á hreyfðum myndum, ég er bara svona lélegur myndasmiður, þetta kemur allt...)

Svo verðið þið að skoða þessa skondnu færslu hjá dóttur minni listaspírunni sem var að vinna gigg fyrir Götuleikhúsið í dag.

föstudagur, janúar 05, 2007

Litla sólskinið

Verð bara að segja ykkur frá bíómynd sem heitir Little Miss Sunshine. Hún er svo hryllilega fyndin að ég náði varla andanum fyrir hlátri. Var reyndar oft sú eina sem hló og ég hlæ hátt. Mjög hátt. Sonum mínum þykir það alla vega.

Dásamleg mynd. Dásamleg.

Draumormur

Fyrir stuttu dreymdi mig draum. Í þessum draumi otaði frændi minn stórri eiturslöngu upp að andliti mínu, ég var mjög hrædd og færðist undan.

Fletti upp í draumráðningabók.

"Eiturslöngur": Það er ekkert sérstaklega gott að dreyma eiturslöngur. Þær eru tákn svikulla vina. Um "höggorma" segir m.a.: "Höggormar eru einnig taldir tákn um rifrildi sem koma dreymandanum til góða...Auk þess er full ástæða til að vera vel á verði gagnvart fölskum vinum dreymi menn höggorma."

Reyndar er nafn frænda míns ljómandi gott draumtákn, svo ég lít þannig á að þessi draumur sé mér alls ekki fyrir slæmu.

En mikið svakalega geta draumar verið sterk upplifun.

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Gáleysisleg notkun brjósta í yfirstærð

Langar að deila með ykkur þessari athyglisverðu grein sem ég las í nýjasta hefti Vikunnar:

Brúðgumi kafnar í brjóstum fatafellu
Villt steggjapartí fór heldur betur úr böndunum í Sviss nýlega þegar 32 ára gamall brúðgumi gaf upp öndina. Ólán þetta átti sér stað meðan brúðguminn naut þjónustu matrónulega vaxinnar fatafellu, sem vinir hans höfðu leigt í tilefni dagsins. Skálastærð stúlkunnar er 36DD. Stúlkan sat í kjöltu mannsins og hristi barminn framan í hann af hjartans lyst og segja vitni að maðurinn hafi virst kunna vel að meta trakteringarnar. Hann hafi þó eitthvað farið að baða út öllum öngum þegar leið á "dansinn", en viðstaddir hafi talið það til marks um mikla innlifun en ekki hjálparbeiðni. Að lokum varð þó öllum ljóst að maðurinn var látinn. Ættingjar mannsins hafa bæði höfðað mál gegn fatafellunni og lækninum sem kom sílíkonfyllingunum fyrir í brjóstum hennar. "Þetta er vítavert gáleysi", segir faðir mannsins. "Brjóst þessi eru banvæn vopn."

Látið ykkur þetta að kenningu verða strákar...

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Í sögulegu samhengi er þetta helst

Rámar í ritgerð sem ég skrifaði í skóla, 12-13 ára gömul. Í ritgerðinni fjallaði ég um árið 1918 og minnir að á titilsíðu hafi staðið "1918- ár fullveldis og fagnaðar, hallæris og hörmunga", eða eitthvað í þá veruna (já, dramadrottning frá blautu barnsbeini). Margt má tína til fyrir árið 1918: spánsku veikina, "frostaveturinn mikla", Kötlugos, hrikalegan hafís, og svo auðvitað fullveldið með sambandslagasamningi Íslands og Danmerkur.

Í sögulegu samhengi getur árið 2006 seint talist jafn afdrifaríkt fyrir þjóðina og 1918. En hjá þeim hluta þjóðarinnar sem er ég (óstytt útgáfa) verður það skráð sem "2006 - ár sjálfstæðis og sigurbrosa, átaka og axarskafta". Voða lítið um pastelliti í litaboxi baunar þetta ár.

Svo vil ég segja þetta: mér fannst skaupið fyndið.