Rámar í ritgerð sem ég skrifaði í skóla, 12-13 ára gömul. Í ritgerðinni fjallaði ég um árið 1918 og minnir að á titilsíðu hafi staðið "1918- ár fullveldis og fagnaðar, hallæris og hörmunga", eða eitthvað í þá veruna (já, dramadrottning frá blautu barnsbeini). Margt má tína til fyrir árið 1918: spánsku veikina, "frostaveturinn mikla", Kötlugos, hrikalegan hafís, og svo auðvitað fullveldið með sambandslagasamningi Íslands og Danmerkur.
Í sögulegu samhengi getur árið 2006 seint talist jafn afdrifaríkt fyrir þjóðina og 1918. En hjá þeim hluta þjóðarinnar sem er ég (óstytt útgáfa) verður það skráð sem "2006 - ár sjálfstæðis og sigurbrosa, átaka og axarskafta". Voða lítið um pastelliti í litaboxi baunar þetta ár.
Svo vil ég segja þetta: mér fannst skaupið fyndið.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli