miðvikudagur, september 23, 2009

sunnudagur, september 13, 2009

Baun flytur

Hef ákveðið að hætta að leika tveimur bloggskjöldum og er flutt hingað. Ef þið yfirgefið mig öll við þennan gjörning, þá mun ég gráta í sjö vikur samfleytt.

Er ekki alveg viss um að ég kunni við mig á nýja staðnum og ef mér líkar vistin illa, þá kem ég aftur hingað. Maður er jú sæmilega færanlegur í rafheimum og þarf ekki að bera sína rafrænu búslóð í gulum fötum.

Haustið er tími breytinga.

laugardagur, september 12, 2009

Tossalisti

Þar sem ég vinn alla virka daga mér til húðar og get lítið sinnt öðru, hef ég ætíð stór plön um helgar. Ég meina, tveir heilir dagar til að gera allt sem þarf að gera og eitthvað pínulítið af því sem mig langar að gera. Áætlun helgarinnar er þéttpökkuð og lítur svona út:

1. Þvo og merkja sultukrukkur.

2. Hafa miklar og stöðugar áhyggjur af húsnæðismálum dóttur minnar sem hélt til náms í Skotlandi og var svikin af forhertum klækjakvendum. Aldrei að treysta fólki sem heitir Bond.

3. Ígrunda sláturgerð.

4. Brjóta niður stromp (annað hvort fer hann eða ég).

5. Vera víðsfjarri sjónvarpinu annað kvöld, ef vera skyldi að enn ein hunda-hestamyndin dúkkaði upp á RÚV. Afber ekki fleiri.

6. Reyna að gleyma þeirri bitru staðreynd að ég veit aldrei svarið við spurningunum í Popppunkti.

7. Forðast fréttir af fjármálum, nema féð segi me.

8. Sýna af mér flysjungshátt.

9. Taka til, fara í búð, ráða sunnudagskrossgátuna.

10. Móta framsækna framtíðaráætlun (eða ekki, ég heyrði þetta bara sagt svo gáfulega í sjónvarpsfréttum).

þriðjudagur, september 08, 2009

Bakkelsisblús

Hjónabandssæla er kjánalegt nafn á köku, en gæti verið verra (t.d. ef maður sleppti öðru essinu). Ég bakaði hjónabandssælu í kvöld. Hún brann. Ætlaði að færa fyrrverandi vinnufélögum mínum sæluna á morgun í kveðjuskyni, en hef mig ómögulega í að baka aðra. Hver nennir að baka sömu kökuna tvisvar sinnum?

Einu sinni fékk ég uppskrift að hjónabandssælu frá konu sem skildi við mann sinn tveimur vikum síðar. Þrátt fyrir að hafa aldrei þorað að nota þá uppskrift skildi ég líka einn góðan veðurdag.

Af þessu má draga þann lærdóm að hjónabandssæla er hafrakaka með rabbarbarasultu.

föstudagur, september 04, 2009

Út í aldraðan buskann

Get ekki mælt með heilsubótargöngu um Sundahöfn að kvöldlagi. Rölti þetta ein um daginn og varð lafhrædd, enda hverfið ógvuliga ljótt og skuggalegt. Brá smá þegar ég mætti varúlfi með þungbúinn gjaldeyrisafleiðumiðlara í bandi. Hann beraði tennurnar og urraði á mig.
Með hjartað í buxunum hljóp ég eina mílu þar til ég kom inn á lóð Hrafnistu og fann þar, í grösugri lautu, þarfa áminningu til reykingamanna.


Steinsnar frá Camelpakkanum lágu síðan þessir félagar og höfðu það notalegt.


Maður veltir fyrir sér hvert landið stefnir, sennilega verður það bara kjurt.

laugardagur, ágúst 29, 2009

Ber í fötum

Þakin rauðum slettum og með æðisglampa í augum hef ég verið að berjast til síðasta berjadropa. Áðan reif Hjálmar af mér dalla, sleifar, ausur og uppþvottabursta og skipaði mér að setjast, enda var hann farinn að horfa á mig með óvenjumiklum áhyggjusvip.

Þetta byrjaði allt með ferð norður á Dalvík, en þar býr stór og góður föðurleggur minn. Á Dalvík veiddum við í soðið og tíndum ber. Fórum líka á Byggðasafnið, en það finnst mér skemmtilegt og gott safn.

Hér má sjá pabba og Birni bróður hans á leið á miðin. Fínir kallar.
Mávarnir slógust um slógið, fannst það greinilega ekkert slor.
Baun var býsna fiskin, dró ýsur og stundum þorsk. Eitt sinn kom upp úr kafinu þöngulhaus ægifagur, hann hefði maður átt að hirða. Hausinn hefði sómt sér vel sem borðskreyting, klósettbursti eða órói í svefnherberginu.
Í Ólafsfjarðarmúla kom leyndur fæðingargalli baunar sér vel, nefnilega baklægar sogskálar á þremur aukaörmum sem gerðu henni kleift að hanga í snarbrattri hlíðinni og tína ber ofan í tíu lítra fötur.
Fyrir utan krækiber, eru fyrir norðan bláber, aðalbláber og aðalber (þau eru kolsvört eins og sjá má á myndinni). Dalvíkingum þykja aðalberin best. Mér þykja öll berin best.

Baun himnasæl í ilmandi berjalyngi.

Hjálmar og min berjamor (mamma heitir það í berjamó) í Böggvistaðafjalli.
Þetta er hann Depill. Þótt Depill sé bara lítill kanínustrákur er hann stór upp á sig og leggur sér skrautjurtir til munns. Hann leit ekki við gulrótum og káli, en kjamsaði á stjúpum sem hún Dísa skáfrænka mín gaf honum úr garðinum.

Já, það er ekki ljótara en það. Nú er ég búin að frysta, sulta og safta sleitulaust í tvo daga. Brá á það ráð að baka risastóra hjónabandssælu til að losna við rabbarbarasultu sem til er í bunkum á heimilinu (þar losnuðu tvær krukkur). Búsældin ríður ekki við einteyming hér á Kirkjuteignum.

Held ég leggi ekki meira á ykkur að sinni, enda kappnóg.

mánudagur, ágúst 24, 2009

Vegna fjölda áskorana...

...þar sem fjöldinn var einn, kemur hér uppskriftin að Elvis-pelvis:

u.þ.b. kíló "butt pork roast"
olía til steikingar
1 dós tómatsósa (eða hakkaðir tómatar í dós)
1/4 bolli eplaedik
1/4 bolli Worcestershire sósa
1/4 bolli púðursykur (má vera aðeins meira, fer eftir hvað edikið er sterkt)
salt og pipar
1/2 tsk sellerífræ (ég notaði sellerísalt og sleppti þessu)
1/2 tsk chiliduft
smá slurkur af sterkri sósu (red hot pepper sauce)

Stingið offorslega í pöruna með beittum hníf (veitir holla útrás). Brúnið ketið á öllum hliðum. Setjið allt sem á að fara í sósuna í pott/pönnu og látið suðuna koma upp. Ágætt að setja kjötið og sósuna svo í svartan pottofn eða hvað það nú heitir og hægelda í ofni í a.m.k. 2 tíma, eða þar til kjötið er alveg meyrt. Það þarf að ausa yfir Elvis af og til. Látið kjötið standa í 10 mínútur áður en þið skerið það niður.

Ég hef gert þetta áður og þá tók ég pöruna af fyrir eldun, ég er ekki frá því að það sé betra. Það kemur mikil fita af pörunni og hún er ekkert góð þegar hún er elduð á þennan hátt, verður bara gúmmí. Ólseiga Elvishúð vill enginn snæða.

Með þessu er borið fram franskbrauð, kartöflu-sætkartöflustappa og "cole slaw" (hvítkál, gulrætur, mæjó, sýrður rjómi og ananas). Nauðsynlegt er að drekka pepsi með og leyfa Elvis að raula á fóninum. En það má líka drekka rauðvín eða bjór eða rótarbjór eða mjólk.

Uppskriftina fékk ég hjá Ásdísi Viggósdóttur, sem er mesti aðdáandi kóngsins í öllum heiminum og þótt víðar væri leitað. Takk Ásdís:)

Rifs og Elvis

Get svo svarið að ég er búin að vera gal-mega-ofur-spídígonsales dugleg undanfarið. Tíndi ber, sultaði, græddi péning fyrir Hollvinasamtök Grensásdeildar, hét á hlaupagarpinn minn í hálfmaraþoni, lagaði bílskúrshurðaopnara hjá mömmu og pabba (nei, það var nú Hjálmar), bakaði fagra rifsberjatertu og hélt matarboð þar sem eldaður var Elvis-pelvis.*

Á sunnudaginn fórum við Hjalti litli í bókabúð að kaupa skóladót og þar mætti okkur brennivíns-þynnkustækja svo römm að ég hélt eitt andartak að við hefðum villst inn á Keisarann sáluga. Það var greinilega gaman á Menningarnótt, og greinilega ekki eins gaman daginn eftir að olnboga sig áfram í troðfullri ritfangaverslun. Blessað fólkið.

Og nú verður stefnan tekin norður á bóginn til móts við ótínd ber og óveiddan fisk. Búbaunin lætur ekki að sér hæða og má ekkert vera að þessu rafgaufi.

Elvis rokkar í kjötinu.


*Hægeldaður svínabógur í heimalagaðri bbq-sósu, uppskriftin er úr bókinni Are you hungry tonight?

miðvikudagur, ágúst 19, 2009

Ekki gleypa tyggjó

Hræðilegar aukaverkanir!

Þessa myndskreyttu viðvörun fékk ég senda í pósti í dag og kannski er ég síðasta mannveran á Íslandi til að sjá hana, en get samt ekki annað en deilt þessu með ykkur. Af því að þið eruð þið.

Var að horfa á fréttir Stöðvar tvö, þar sem beðist var afsökunar á vægast sagt ömurlegum fréttaflutningi í gær. Lágmarks kurteisi. Fannst annars spaugileg fréttin um mýsnar tvær sem fundust á svölum fjölbýlishúss í bænum, sérstaklega þegar fréttakona Stöðvar tvö leit þungbrýnd inn í myndavélina, lagði hönd á húsvegginn og sagði alvöruþrungnum róm: Hér á bakvið þessa klæðningu gæti allt verið iðandi af músum.

föstudagur, ágúst 14, 2009

Áhættuhegðun húsmæðra

Held að ástand þjóðmála sé að leiða mig út í áhættuhegðun. Fór um daginn í leiðangur til að pumpa lofti í dekkið á hjólinu mínu og valdi blákalt til þess vafasama bensínstöð, þessa þarna rétt hjá Umferðarmiðstöðinni, en þar skilst mér dópsalar iðki sitt díl í öðrum hverjum bíl (gott ef hvíti bletturinn á myndinni er ekki niðursullað amfetamín).

Reyndar komst ég svo að því að ég get hvergi pumpað í hjólið, því ventlarnir passa ekki við neinar loftslöngur. Prófaði eitthvert millistykki sem gekk ekki heldur. Neyddist því til að notast við gamaldags pumpu og sterka upphandleggsvöðva kærastans *andvarp*.

Ég er búin að vera lasin og hálflasin í heilan mánuð, hóstandi og snörlandi. Fékk sýklalyf um daginn, kláraði þann (10 daga) skammt og svo skrifaði doksi upp á annan kúr fyrir mig í morgun. Ég ákvað að leysa það sýklalyf ekki út, átti að borga 10 þúsund kall fyrir töflur og sprei. Sleppti töflunum og er sannfærð um að kroppurinn lemur á þessari pest. Fyrir rest.

Mig langar í berjamó.

miðvikudagur, ágúst 12, 2009

Netkeröld

Mér þykir býsna gaman að skoða gamlar auglýsingar, sem e.t.v. ber lágmenningarlegu upplagi mínu vitni. Rakst á þessar í tímaritinu Konan og heimilið, handbók heimilisins 1969 og finnst þær báðar svo fallegar og aðlaðandi.
Einu hef ég velt fyrir mér, talandi um horfna tíma og fagureygðar ýsur. Hvað verður um Facebook-síðu manneskju sem deyr, þ.e. þegar aðstandendur komast ekki inn til að eyða síðunni (lykilorð farin yfir í sælli veröld)? Er fullt af dánu fólki á fésbók? FB er erlent og fjarlægt apparat og varla tengt þjóðskrá. Það hlýtur að sama skapi að vera til hellingur af bloggsíðum látinna. Undarleg tilhugsun að menn haldi áfram að sveima um netheima þótt þeir séu komnir undir græna torfu.

Held þetta komist næst martröð minni um eilíft líf.

laugardagur, ágúst 08, 2009

Glaðir, stoltir og allir hinir sem eru eins og þeir eru
Hér eru nokkrar myndir úr gleðigöngunni. Mín staðfasta og vel ígrundaða skoðun er sú, að gleði sé góð og það sé alls ekki of mikið af henni í lífinu.


Margir í bænum, og þeir sem voru ekki þar hljóta að hafa verið að éta fisk á Dalvík.
Til hamingju með daginn hommar og lesbíur!

fimmtudagur, ágúst 06, 2009

Skaupmáttarrýrnun

Nú er ég búin að semja marga pistla í huganum sem náðu að villast inn í myrkrakompu. Hugsanlega rekst ég á slökkvarann (kveikjarann?) einhvern daginn þegar ég er að leita að stjörnuskrúfjárni.

Eftir örstutt og snýtingasamt sumarfrí náði vinnan að gleypa mig, það er nú meira annríkið alltaf á Lansanum. Vill til að mér finnst gaman í vinnunni, dagurinn hleypur hviss-bæng-búinn. Best gæti ég trúað, að þegar allir hólarnir í Vatnsdal, eyjarnar á Breiðafirði og vötnin á Tvídægru hafa verið talin, teljist ég heppin að starfa við það að gera gagn. Ekki öfunda ég stropaða dúdda með stórar tölur í gráðugu höfði, þótt þeir eigi böns of monní sem þeir hamast við að borga ekki skatt af. Það verður hver að lifa með sínum gjörðum.

Auk þess óttast ég ekki klípuna. Hagvöxtur er fyribæri úr endaþarmi andskotans sem étur upp auðlindir jarðarinnar og traðkar á valdalausum manneskjum. Stríð, slys og aðrar hörmungar auka hagvöxt. Ég lýsi frati á heim sem getur ekki hugsað um neitt gáfulegra en hagvöxt. Og er ekki óþarfi að láta væl um einhverja "kaupmáttarrýrnun" draga úr sér kjarkinn? Hvað með það þótt við getum ekki keypt allt þetta drasl sem hvort sem er endar inni í geymslu/bílskúr/á haugunum? Pfft! Svartagall og dómsdagsraus er prýðilegt í hófi, en í óheftu magni dregur það allan mátt úr fólki. Er ekki kominn tími til að lyfta umræðunni á örlítið hærra plan? Er mögulegt að leggja frá sér bitra heykvíslina og tala um eitthvað annað en peninga? Ég sé í hillingum einn fréttatíma án lögfræðinga, hagfræðinga og formanns Framsóknarflokksins.

Hitti í dag mann með ýtuvaxinn fót en ákvað að hafa ekki orð á því við hann. Fannst óþarfi að núa honum upp úr hinu augljósa.

mánudagur, ágúst 03, 2009

Sumarmatur

Stend á blístri eftir máltíð kvöldsins. Sjávarréttapítsa með rúkola, nýrifnum parmesan og hvítlauksolíu.
Í eftirrétt voru ábrystir með kanilsykri og mjólk. Ég er, að eigin mati, miklu flottari kokkur en Rachel Ray (efast um að hún hafi fengið brodd í Kolaportinu).
Sumarfríið mitt er búið að vera leti, át, lestur, hangs, át og hjólatúrar í blessaðri blíðunni. Ekki yfir neinu að kvarta.* Myndin hér að neðan var tekin í Nauthólsvík í dag, svona er veðrið alltaf á Íslandi.
Ég hef frá svo mörgu að segja. Ó, já. Hafið þið smakkað salat með grænsápubragði?


*Nema útrásardrulluháleistunum, þáttum um bresku konungsfjölskylduna, kvefinu, bönkunum, því að ég komst ekki á tónleika Ljótu hálfvitanna í gærkvöld (uppselt), eigin skavönkum og annarra, reykingum og óréttlæti heimsins.

þriðjudagur, júlí 28, 2009

Minningarkorn

Einbeitt bý ég mig undir inngöngu föðurlandsins í ESB, kaupi Euroshopper vörur hægri-vinstri og hef mynd af Össuri á náttborðinu (fyrir utan stytturnar af honum í garðinum). Ein er sú tegund morgunkorns sem ég hef fengið sérstakt dálæti á, en það eru hunangshúðuð uppblásin hveitifræ. Með gepofte tarwe á tungu standa minningar ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, minningar um áhyggjulausan stelpukjána sem ólst upp á allt öðru Íslandi fyrir mörgum áratugum.
Og þegar ég hnerraði áðan, kröftuglega, með munninn fullan af þessu dísæta evrópska loftgæti, hrutu gullkorn af vörum mér.

sunnudagur, júlí 26, 2009

Mynd sjálfsins

Slangur er af táningum í kringum mig, upp til hópa öndvegis manneskjur. Þegar ég var unglingur var heimurinn flókinn staður fyrir gelgjaða amöbu sem snerist um sjálfa sig í litlum polli. Flóknast var annað fólk, hugsanir þess, hegðun og skoðanir. Ég er nefnilega ekki viss um að sjálfhverfa unglinga snúist um þá sjálfa, heldur það sem þeir halda að aðrir haldi um þá sjálfa. Unglingar reyna að spegla sig í öllu umhverfis þá, en móttakan fyrir það sem maður sér í spegli er jú alltaf í eigin höfði.

Pollurinn er stærri í dag og lífið ábyggilega flóknara, mun fleiri fletir til speglunar. Nútíma unglingurinn er t.d. býsna iðinn við að teygja út handlegginn, setja upp stút og smella af. Reyndar á þetta svo til eingöngu við um stelpur, en þær hef ég séð taka endalausar myndir af sér, í aðskiljanlegustu pósum (þeir strákar sem ég umgengst eru flestir niðursokknir í tölvuleiki og nenna varla að skipta um nærbuxur).

Var að velta vöngum yfir þessu, þ.e. áhrifum sjálfmyndatökuæðis stúlkna á sjálfsmynd og stað þeirra í úníversunni. Held þetta sé ekki endilega slæmt, því stúlka/kona getur smellt af sér hundrað myndum og fengið allavega eina þokkalega og þá er hún valin og hinum eytt. Gott er að eiga sæta mynd í fésbók.

Spurning hvort við verðum hégómlegri (og ráðvilltari) tegund með hverri kynslóð, í réttu hlutfalli við fjölgun spegla. Og skyldi Darwin hafa verið duglegur að skipta um nærbuxur?

föstudagur, júlí 24, 2009

Um ferð

Það var fínt að vera á Akureyri, þrátt fyrir að þar væri vart þverfótað fyrir andstöðu við Evrópubandalagið.
Mér finnst Eyjafjörðurinn fallegur. Norðlendingar virðast furðu líkir öðru fólki, sem voru auðvitað viss vonbrigði. Við kynntumst vingjarnlegum ketti, sáum branduglu, borðuðum frábæran indverskan mat, fórum í Smámunasafnið og horfðum á hafnfirska víkinga skylmast í miðaldaþorpi að Gásum. Ég missti af hvalaskoðun, veiðiferð o.fl. skemmtilegheitum vegna leiðindapestar sem ég ákvað að taka með mér suður. Aaahhhtsjú!
Þokan sem lá yfir (einhverju) fjalli við Húnaflóann minnti á draugalega hárkollu. Þetta var á leiðinni norður. Á leiðinni suður munaði hársbreidd að við dræpumst vegna gáleysislegs framúraksturs manneskju sem var með hárkollu yfir augunum, hvað veit ég, hún keyrði allavega ekki eins og hún sæi umhverfið. Bíllinn var rauður og hjartað mitt brjálaðist úr hræðslu.

Ég er fegin að vera komin heim. Og mér þótti gott að faðma börnin mín áðan.

miðvikudagur, júlí 15, 2009

Nytfegurð

Brugðum okkur nú síðdegis á Nytjamarkað ABC hjálparstarfs og þar var gaman að gramsa. Rakst á þennan platta (sem hlýtur að vera þýfi - slíkt gæfi enginn frá sér), en hann ber karlmönnum fortíðar fagurt vitni. Árið 1978 kunnu menn sko að tríta konur.*
Get síðan varla lýst ósvikinni og botnlausri gleði minni er ég fann þessa eigulegu styttu. Það yljar manni um hjartarætur að sjá hversu fallega listfengir aðilar hafa heiðrað minningu Ingólfs Guðbrandssonar.


*Eins og glöggir vita er hér vísun í góðrasiðahöfðingjann Kleópötru Kristbjörgu

mánudagur, júlí 13, 2009

Sagan um pústfólkið

Enn þjáist ég af ísfíkn. Sem hefur þær aukaverkanir að ég er alltaf að kaupa ís. Ég hef komist að því, eftir nákvæmar vettvangsrannsóknir, að ísbúðir eru undantekningalítið á ókræsilegum stöðum. Ísbúðir eru á bílastæðum. Ef maður ætlar að borða ísinn sinn úti, þá er ekki annað í boði en að sitja í pústfnyk, umkringdur bílum. Í um helmingi þessara kyrrstæðu bíla situr fólk kjamsandi á ís. Fólkið hefur bílinn í gangi við ísneysluna, ekki spyrja mig af hverju, þannig að senan óvistlega mengast kröftuglega af hávaða og skítabílafýlu. Rækalli undarlegt.

Vona að ég fyllist aldrei pylsufíkn, því þá biðu mín langdvalir á öðrum vinsælum matsölustað í huggulegu umhverfi. Bæjarins bestu.

laugardagur, júlí 11, 2009

Andtrú

Ég trúi ekki á stjörnuspá, ég trúi ekki á miðla, ég trúi ekki á andaglas, ég trúi ekki á drauma, ég trúi ekki á spákonur, ég trúi ekki á galdra, ég trúi ekki á forlög, ég trúi ekki á heilun, ég trúi ekki á drauga, ég trúi ekki á ofurhetjur, ég trúi ekki á guð, ég trúi ekki á líf eftir dauðann, ég trúi ekki á hráfæði, dítox eða árunudd.

Ég er myrkfælin og hrædd við trúða. Og mig dreymdi skæri í nótt.

fimmtudagur, júlí 09, 2009

Gellur

Miklar mótbárur bárust frá börnunum á heimilinu þegar þessi réttur var borinn fram í kvöld.

mánudagur, júlí 06, 2009

Límonaði sítrónufólksins (gjaldeyrisskapandi skapandi þáttagerð raunveruleikans)

Á Skjáeinum er annar hver þáttur svokallaður "raunveruleikaþáttur". Slíkir þættir virðast mér gjarnan snúast um einhverja keppni (eða keppi, sbr. "The biggest loser"). Sjá má lið leysa raunveruleg sakamál (Murder), ungar stúlkur keppa í tíkarskap og fyrirsætufærni (ANTM), lið elda mat, vinna við glanstímaritagerð, þrauka í nábýli við snáka, eitraða froska og lygara, svo fátt eitt sé nefnt. Það þykir sem sagt spennandi að sjá "venjulegt fólk" í óvenjulegum aðstæðum.

Íslenska þjóðin (guð blessi hana) er ekki stór. Hún er lítil og sæt, ótrúlega mikið rassgat. Ég legg til að við bjóðum okkur fram til að vera eitt stykki raunveruleikaþáttur, heiminum til skemmtunar. Og fá borgað fyrir. *

Ætti að vera létt verk og löðurmannlegt að grafa upp lið hér á landi. Ekkert þarf að breytast, bara finna grípandi nafn á krógann, útjaskað selebb til að stjórna, og koma með kamerukrúið.

Action!


*í hvaða gjaldmiðli sem er nema íslenskum krónum

föstudagur, júlí 03, 2009

Þjóðmál, menning og lús

Á forsíðu blaðsins Grapevine gefur að líta afar upplýsandi mynd um æseifhelvítisandkotanshelvítið.Einu verð ég að fá að kvarta yfir. Ekki nóg með að ég sé beygð yfir ástandi þjóðar minnar, heldur er komin blaðlús í klettasalatið mitt úti á svölum. Blaðlús er útsendari kölska og eina vopn mitt gegn henni er grænsápa. Skíman að það dugi.

En þrátt fyrir lúsina vil ég efla menningarstig lands og lýðs. Bendi ykkur hér með á öndvegis fínt tímarit. Það heitir Tíu þúsund tregawött, ritstjóri er Hildur Lilliendahl.

Guð blessi Ísland.

miðvikudagur, júlí 01, 2009

Clint óskast, má hafa með sér byssu

Sit hér með nokkrum unglingum og horfi á The good, the bad and the ugly. Merkileg ræma og stórundarleg tónlist. Og Clint er alltaf...*sæluhrollur*.
Strákarnir mínir eru dottnir í gamlar myndir, í gær horfðum við á Psycho. Þeir hlógu dátt að sturtuatriðinu, fannst það óborganlega fyndið. Mér var ekki hlátur í hug þegar ég sá þessa mynd í gamla daga, gat varla farið í sturtu lengi á eftir. Meira hvað bíómyndir brenndu sig inn í vitund manns, eftir að ég sá Jaws, gat ég varla farið í bað (þetta fer að hljóma eins og ég hafi oft verið óhreint ungmenni).

Ísland vantar Clint. Hann mundi ganga hreint til verks og skjóta verðbólguna.

sunnudagur, júní 28, 2009

Afstæði háranna

Nútímamaðurinn er umkringdur sjálfsögðum hlutum. Hugmyndir okkar um fegurð eru í sjálfu sér jafn furðulegar og hjá "frumstæðu" fólki, sá t.d. um daginn fræðsluþátt um þjóðflokk í Afríku þar sem tíðkast að skera neðri vörina frá andliti kvenna og setja leirdisk í gatið. Dyan Cannon (í bíómyndinni á Rúv í gær) var með svo úttútnaðar varir af kollageni, eða hvað það nú heitir, að hún mátti vart mæla, hvað þá sýna svipbrigði með ofstrekktri andlitshúðinni. Sumum gæti þótt það ókostur fyrir leikkonu, en um það má deila í hennar tilfelli.

Mig langar ekki í varir á stærð við Hummer, mig langar ekki í brjóst á stærð við Perluna og mig langar ekki í bótox, dítox eða kickbox. Mér finnst heimurinn fullur af gerviþörfum og bábiljum og langar ekkert að elta dillur og tísku. Eftir því sem ég kemst næst þjást konur í Finnlandi og Þýskalandi ekki eins harkalega af höfnuðum líkamshárum ("unwanted hair"), og í BNA og víðast hvar í Evrópu, þar sem liggja haugar af kroppsloðnu sem enginn vill fóstra. Ég skal játa að mér þykir sjálfsagt að raka á mér leggi og krika (þótt í prinsippinu sé það bjánalegt) og til þess hef ég notað fokdýrar rakvélar og borgað hvítuna úr augunum fyrir eitthvert kvenlegt rakkrem. Eftir að klípan skall á, hefur verð á þessum varningi, sem dýr var fyrir, rokið upp úr öllu valdi. Í sturtunni í morgun uppgötvaði ég að svona rakkrem er algjör óþarfi, það er fullt eins gott að nota venjulega sápu. Hann afi minn rakaði sig alltaf þannig að hann lét fasta sápu freyða með rakbursta, bar hana á sig og skóf svo á sér kjammana. Segið mér, af hverju notar enginn fasta sápu lengur við rakstur? Raksápa í álbrúsa er hroðalega slæm fyrir umhverfið, fyrir utan hvað verðið á þessu drasli er fáránlega hátt. Rakstursbransinn, eins og reyndar allur útlitsiðnaðurinn, er uppfullur af gerviþörfum á uppsprengdu verði.
Spörum gjaldeyri og verum loðin. Eða notum umhverfisvæna og ódýra sápu. Eða gefum kallinum rafmagnsrakvél (ég keypti eina slíka handa mínum um daginn). Sem minnir mig á að dóttir mín sagði mér frá ógnvekjandi rafmagnstæki sem togar hár úr slíðri, eitt og eitt í einu. Sérhannað fyrir konur til að berjast við hárin sem þær hafna. Kvenmenn eru masókistar upp til hópa.

Guð blessi Ísland.

föstudagur, júní 26, 2009

Stórborgarbaunin

Sit á skuggsælum bar og drekk g & t, borða hnetur og bíð eftir að Elstabet og Yngstabet snúi aftur úr Oxfordstræti. Ég er sjerpi ferðarinnar, rogaðist með mýmarga poka upp á hótel. Velti fyrir mér hver kaupir í gegnum dóttur mína og hvað hafi orðið af henni Ástu, þessari búðarfælnu og listhneigðu ungu stúlku.

Hljóta að teljast tíðindi að mér var boðið í BNTM partí fyrsta daginn hér. Það var verið að undirbúa töku ("fashion shoot") fyrir þáttinn í næsta húsi við hótelið, ég var eitthvað að forvitnast og glaðhlakkalegur dyravörður bannaði mér að taka myndir en bauð mér þess í stað í partí sem haldið var um kvöldið.
Verkamannaþéttni er býsna mikil í Lundúnum (þarna voru um hundrað gulir menn á smábletti, hef ekki hugmynd hvað þeir voru að bedríva og ákvað að sleppa því að spyrja, vegna yfirvofandi hættu á að vera boðið í enn eitt partíið).
Drakk kaffi úr bolla sem var stærri en hausinn á mér og mun verra á bragðið.
Afmælisbarnið sjötuga, Elísabet Ásta, og Ásta mín Heiðrún Elísabet í undirgrundinni.

London er hávaðasöm. Umferðin, mannmergðin, mengunin. Fjölbreytileiki mannlífsins yfirþyrmandi. Alveg klárt að ég er meira fyrir fjöll en stórborgir svona heilt yfir.

Já, og mamma mín er sjötug í dag. Hún er yndisleg kona og fyndin og skemmtileg og sjaldan skömmótt. Ég er að spá í að kenna henni tunglgöngusporið á eftir, svona í minningu Michaels Jackson.

Sjerpinn kveður að sinni. Veriði stillt elskurnar.

sunnudagur, júní 21, 2009

"Við"

Kunningjakona mín býr með fjölskyldu sinni í pínulítilli íbúð í "fínni götu" í 101. Þau búa þröngt og hafa úr litlum efnislegum gæðum að moða. Í næsta nágrenni, við sömu götu, stendur reisulegt sprilljón fermetra hús, glæsikerrur í heimkeyrslunni, m.a. silfurlitur reinsróver éppi. Í þessu stóra húsi býr fólk sem kennt hefur verið við útrásina.

Núnú. Umrædd kunningjakona lenti á kurteislegu spjalli við útrásareiginkonuna um daginn, en sú var nýkomin úr langri siglingu um Karabíska hafið, kaffibrún og sælleg, klædd silfurlitum leðurjakka í stíl við éppann. Eitthvað barst talið að ástandi þjóðarbúsins og þá setti útrásarkvendið upp þjáningarsvip og dæsti þunglega, svo glamraði í gútsískartinu: "Æ, já. Vonandi lærum við eitthvað af þessu."

laugardagur, júní 20, 2009

Sætt og súrt

Mikið dæmalaust er nú skemmtilegt að ferðast. Fór með hressum Skýrrurum í sólstöðugöngu á Skessuhornið, það var hrikalega gaman og erfitt líka. Ég ætla að vera góð stúlka og sleppa hástemmdum lýsingum á því hvernig það er að standa á fjallstindi í miðnætursól.
Margt ber til tíðinda á ferðalögum hérlendis. Má nefna að við rákumst á verðmiða einn ágætan í ónefndri vegasjoppu. Miðinn prýddi hanka sem á héngu sælgætispokar af erlendum uppruna, einhvers konar súrt hlaup. Hér er mynd af miðanum:Guð blessi Ísland.

miðvikudagur, júní 17, 2009

Hvalkjöt og kandífloss

Dagurinn í dag hefur verið með miklum ágætum, algerlega laus við skrúðgöngur, rellur, kandífloss og klístruð risasnuð. Það er djúpt á þjóðrembunni í mér þessa dagana, get varla farið í lopasokka eða sagt "mysingur". Hvað þá "tólg".

Fyrir ykkur sem viljið lesa um æsispennandi lífsstíl blanka og ófræga fólksins (sem fær aldrei orður eða verðlaunastyttur), þá get ég ljóstrað upp að ég fór í Bónus (alls staðar opið, af sem áður var), síðan í fjallgöngu á Vífilsfell, því næst þreif ég klósett og þvoði þvott og núna rétt áðan var ég að ljúka við fyrirtaks máltíð. Hrefnukjöt og bakaðar kartöflur. Salat, mynta og graslaukur af svölunum. Rækta nefnilega eitt og annað í svalakössum, en, nei, ekkert kannabis.

Svo var ég að spá í að fara ómáluð út á bensínstöð. Og kannski maður bregði sér í brjóstaminnkun líka.
Grýla sagði mér í óspurðum fréttum að ástandið væri gott. Hún er náttúrlega annáluð bjartsýnismanneskja og á í kvöld stefnumót við feitan útrásarvíking á harmónikkuballi á Ingólfstorgi. Allir þekkja smekk Grýlu á karlmönnum, verði henni að góðu.

Sumar.