sunnudagur, júlí 26, 2009

Mynd sjálfsins

Slangur er af táningum í kringum mig, upp til hópa öndvegis manneskjur. Þegar ég var unglingur var heimurinn flókinn staður fyrir gelgjaða amöbu sem snerist um sjálfa sig í litlum polli. Flóknast var annað fólk, hugsanir þess, hegðun og skoðanir. Ég er nefnilega ekki viss um að sjálfhverfa unglinga snúist um þá sjálfa, heldur það sem þeir halda að aðrir haldi um þá sjálfa. Unglingar reyna að spegla sig í öllu umhverfis þá, en móttakan fyrir það sem maður sér í spegli er jú alltaf í eigin höfði.

Pollurinn er stærri í dag og lífið ábyggilega flóknara, mun fleiri fletir til speglunar. Nútíma unglingurinn er t.d. býsna iðinn við að teygja út handlegginn, setja upp stút og smella af. Reyndar á þetta svo til eingöngu við um stelpur, en þær hef ég séð taka endalausar myndir af sér, í aðskiljanlegustu pósum (þeir strákar sem ég umgengst eru flestir niðursokknir í tölvuleiki og nenna varla að skipta um nærbuxur).

Var að velta vöngum yfir þessu, þ.e. áhrifum sjálfmyndatökuæðis stúlkna á sjálfsmynd og stað þeirra í úníversunni. Held þetta sé ekki endilega slæmt, því stúlka/kona getur smellt af sér hundrað myndum og fengið allavega eina þokkalega og þá er hún valin og hinum eytt. Gott er að eiga sæta mynd í fésbók.

Spurning hvort við verðum hégómlegri (og ráðvilltari) tegund með hverri kynslóð, í réttu hlutfalli við fjölgun spegla. Og skyldi Darwin hafa verið duglegur að skipta um nærbuxur?

Engin ummæli: