þriðjudagur, mars 31, 2009

Applæaðu þetta

Álpaðist til að horfa ofurlitla stund á Nýtt útlit og slapp því miður ekki við að heyra í stjórnanda þáttarins. Er að spá í að taka málsýni úr manninum og senda í ræktun.

Þegar ég er búin að jafna mig.

sunnudagur, mars 29, 2009

Íslenski strumpurinn

Hvenær skyldi strumpatískan koma aftur? Ég er strax farin að hlakka til, einstaklega klæðilegur höfuðbúnaður (en ábyggilega martröð fyrir tollverði svona heilt yfir).

Viti og analýsa

Í sól og vetraryl, við gengum út í Gróttu.
Þar rákumst við á "the dark side of the lighthouse".

Og hér kemur úttekt mín á landsfundum helgarinnar: Betri er álfur með hvítt hár en orki með krullað hár.

Prinsipp og mjólkurafurðir

Í gær urðum við fyrir Howard-Bealískri reynslu. Ýmislegt hefur gengið á undanfarið, bankarnir hrundu og sonna, þarf ekki að fara nánar út í það. Hrunið er þó hjóm eitt miðað við það að vera rukkaður um klementínur þegar maður kaupir sér appelsínur á tilboði. Við urðum þess áskynja eftir Bónusferð (bölvaður sé bónus og allt hans hyski) að afgreiðslustúlkan, sem þekkti ekki hvítkál frá sjampóbrúsa, hafði haft af okkur nokkur hundruð krónur. Slík var klementínsk fákænskan. Oftast nennir maður ekki að ergja sig mikið, rennir yfir strimilinn og sér einhverja tíkalla svindlaða út hér og þar, en finnst ekki taka því að gera eitthvað í málinu. Klementínurnar voru kornið sem fyllti mælinn, við brunuðum í Bónus, uppfull af réttlátri reiði: I´m as mad as hell, and I´m not gonna take it anymore!

Án teljandi blóðsúthellinga fengum við endurgreiddar 560 krónur.

Að öðru. Ég er svo ánægð með að stjórnvöldum hafi ekki tekist að rústa öllu, þrátt fyrir kappsemi í kolrangri stefnu. Þegar við héldum að við værum rík þjóð, voru uppi háværar raddir um að hætta matvælaiðnaði, mun hagstæðara væri að flytja inn allt fóður. Eins gott að landbúnaðurinn var ekki þurrkaður út, og allar rollur og hænur sendar til himna. Tala nú ekki um blessaðar beljurnar. Ómælda gleði vakti í brjósti mínu ný framleiðsla, íslensk "grísk" jógúrt, fjarskalega góð. Á meðan til er fólk á skerinu sem nennir að framleiða hnossgæti af þessu tagi, þá er hlíðin fríð og ég fer ekki rassgat.

Þar að auki verður einhver að borga skuldirnar, það geta ekki allir flúið land.

miðvikudagur, mars 25, 2009

Erfi

Var í erfidrykkju áðan að spjalla við ættingja mína, sem ég sé eiginlega aldrei nema í erfidrykkjum. Hrunið kom til tals og í því samhengi var nefndur einhver í fjölskyldunni sem var nýbúinn að stofna fyrirtæki í byggingabransanum þegar kreppan skall á. Voru menn sammála um að hann hefði verið óheppinn sá. Ég vildi ekki skera mig úr og dæsti gáfulega: Já, það er voða erfitt að tímasetja kreppu þannig að öllum líki.

Annars mátti engu muna að ég færi í vitlausa jarðarför og reyndar lenti bróðir minn í því fyrir misskilning. Vandræðalegt.

þriðjudagur, mars 24, 2009

Leikvöllur aldinna

Hér er framúrskarandi hugmynd að hreyfingu fyrir eldri borgara, sérsniðinn leikvöllur. Eða eiginlega aldinna-garður. Vitaskuld þarf að vera gaman að rækta kroppinn.

Og já, ég var að horfa á RÚV-þáttinn um gamla fólkið og líkamsþjálfun. Mér er alveg sama þótt ykkur þyki það púkó. Maður getur ekki alltaf verið hipp og kúl.

sunnudagur, mars 22, 2009

Kókosbollur, klifur og auðvitað Mozart

Þessi helgi er búin að vera alveg hreint óslæm. Fór í partí með gömlum vinnufélögum á föstudaginn, fengum góða gesti í mat í gærkvöld og í dag lágum við Hjálmar í leti í fleti þar til við drifum okkur upp á Helgafell, aðallega í þeim tilgangi að borða kókosbollur. Kókosbollur eru vanmetinn skrínukostur.

Við skötuhjúin komum áðan sæl og glöð af tónleikum í Langholtskirkju, þar hlýddum við á tónlist sem var uppáhalds skúringamússíkkin mín í mörg ár. Requiem Mozarts.

Já, og Ásta dóttir mín vann til fyrstu verðlauna í klifri í dag, bara varð að deila því með ykkur.

Auk þess vil ég leggja þetta til málanna: bankar spankar skítarankar.

föstudagur, mars 20, 2009

Fliss nöktu konunnar

Ég fer stundum í sund. Um daginn varð ég vitni að hófstilltri sjálfsfróun í búningsklefanum, segi ykkur frá því seinna ef ég nenni.

Í sundferð minni í gærkvöld, stóðu tvær stúlkur um tvítugt í sturtu gegnt mér. Þær voru klæddar tígurmynstruðum bíkinípjötlum og ég heyrði að þær töluðu saman á ensku. Stígvéluð sturtukona arkaði þungbrýnd að stúlkunum, og skipaði þeim að baða sig án sundfata. Þær urðu kindarlegar og tístu óöruggar "don´t look" og toguðu svo brækurnar varlega niður um sig. Senuna hljóðskreyttu þær með flissi og píkuskrækjum, "oh, I´m naked, I´m naked, don´t look, I´m NAKED, OMG, I´m naked!" Eftir á að giska 20 sekúndna steypibað (sápa kom þar hvergi nærri) toguðu þær brækurnar upp aftur. Ekki fóru þær úr bikinítoppnum, heldur drógu hann aðeins fram og létu vatnið buna stutta stund milli bringu og bikinís.

Vandræðagangur hinna enskumælandi stúlkna yfir nekt fékk mig til að hugsa. Margt spaklegt.

Segi ykkur frá því seinna. Ef ég nenni.

þriðjudagur, mars 17, 2009

Brjáldeyfa

Hef verið vondauf undanfarið, smælandi stjórnmálamenn yfir og allt um kring, ljúgandi smjúgandi. Held ég sé ekki ein. Lesið þennan pistil, eða heitið hundar.

Eitt af því sem kröftuglega hefur dregið úr mér lífsviljann eru skoðanakannanir sem sýna ótrúlega útbreiddan stuðning við Sjálfstæðisflokkinn. Hvað er að? Er fólk strax búið að gleyma afrekum íhaldsins? Eigum við að fá sama fjárans bullið yfir okkur aftur? Hvað er það við lygina sem er svona heillandi?

Var búin að skrifa langan og armæðufullan pistil en ætla ekki að leggja hann á ykkur. Þið megið senda mér þurrkuð blóm eða pening í pósti í þakklætisskyni.

Kæru landar. Réttum um kúknum.

sunnudagur, mars 15, 2009

Lifað og taktfast

Var að grúska í gömlum nótnablöðum heima hjá mömmu og rakst á þetta ágæta sönglagahefti frá árinu 1949. Tvennt vakti athygli mína, annars vegar unaðsleg þjóðremba og hins vegar allsérstæðar tilfinningaleiðbeiningar til listamanna.

Í inngangsorðum heftisins segir m.a.:
Við eigum ekki að setja útlend lög við íslensk kvæði. Við eigum að semja lögin sjálfir....Í fyrsta sinni birtist hér raunveruleg tilraun til að verða við sjálfsagðri áskorun Helga Helgasonar. Þjóðlegur metnaður hans er eggjandi fyrirmynd öllum íslenzkum tónlistarmönnum: Ísland á að verða sjálfbjarga í sönglegum efnum.....Enginn söngur þjóðar þrífst án nægilegs forða af eigin lögum. Lög, tekin að láni frá öðrum þjóðum, verða ávallt stjúpbörn. Þau tjá gleði og sorg með öðrum hætti en oss er eiginlegt og verða því hálfvegis utan gátta, hversu oft sem þau annars eru yfir höfð. Vegur þeirra er vænstur til mannfagnaðar við hlaðið borð og dýra skál.
Æskilegum tilfinningastíl við spilun og söng laganna er lýst á fjölbreytta vegu.
Innilega.
Með látleysi.
Í frásögutón.
Rösklega.
Þjóðlega.
Örvandi.
Streymandi.
Þunglega.
Kveðandi.
Barnslega.
Með mildum en miklum hljóm.
Létt og svífandi.
Kvikt og hressilega.
Með þjóðlegum einfaldleik.
Með þjóðsagnablæ.
Með góðri orðagrein.
Lifað og taktfast.
Af eggjandi krafti.
Af einskærri hugarkæti.
Með sefandi styrk.
Ljúft og dreymandi.

Fátt veit ég skemmtilegra en að grúska í gömlu dóti. Hlýt að vera andlegur fornleifafræðingur. Eða fornlegur andfræðingur.

Með góðri orðagrein.

fimmtudagur, mars 12, 2009

Fjölmiðlasmiðja

Gráni minn er í góðu skapi. Hann fór á bílaspítala um daginn og líður miklu betur í startbotninum. Greyskinnið er hætt að sótbölva og skynjar súrefni eins og vindurinn. Til að taka svart af gráu splæsti ég svo í þrif hjá Fjölsmiðjunni.

Mæli með Fjölsmiðjunni. Öndvegisfyrirtæki.

Veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta undarlega kvennarifrildi í Kastljósinu, en það snýst um tísku og þá er ekki von að ég skilji baun.

Eftir að fluguplantan kom inn fyrir hússins dyr fylltist heimilið af úlföldum.

þriðjudagur, mars 10, 2009

Af meintu suðleysi

Ég frestaði ellinni og fór í klippingu. Eina ferðina enn.

Talandi um skordýr. Um daginn keyptum við steinselju í potti. Hún er ágæt en flugnagerið sem fylgir plöntunni er óþolandi. Rækallans mor um alla íbúð, þvælast utan í manni uppáþrengjandi suðlausar örsmáar flugur. Ég er örugglega búin að gleypa 29 stykki í dag. Og nei, ég er ekki kamelbaun.

Samt er ég tungulipur.

sunnudagur, mars 08, 2009

Fataspeki

Loksins tók ég til í fataskápnum. Það var intressant, ég komst að því að ég á 19 brjóstahaldara, 36 pör af nærbuxum og óteljandi sokka. Marga staka. Nokkra einstaka. Svo á ég fullan kassa (30x30x35) af sokkabuxum, háum nælonsokkum og leggings.

Minnir mig á sögu af vinkonu minni, en hún var einhverju sinni að vandræðast yfir því að hún ætti ekkert til að fara í þegar hún og kallinn voru á leið í leikhús. Eftir nokkurt þóf svipti eiginmaðurinn upp hurðinni að fataskápnum og sagði: Sjáðu, hér er fullur skápur af engu til að vera í.

Góðar stundir.

fimmtudagur, mars 05, 2009

Vasakynjafræði I

Skondið hvað strákar á öllum aldri troða buxnavasa sína út af alls kyns dóti. Sjálfri þykir mér óþægilegt að hafa skrúfjárn og sponsbor í vasanum og geng því með veski.

Það vekur mér ómælda gleði hvað kynin eru ólík.

þriðjudagur, mars 03, 2009

Raflífsgæði

Makalaust er þetta með mann. Í vinnunni er yfirleitt kolbrjálað að gera og þótt ég fái agnarpásur endrum og sinnum, þá kemst ég ekki á netið þar. Vinnustaðurinn minn lokar nefnilega fyrir aðgang að öllum "félagslegum síðum", en undir slíkt flokka þeir m.a. blogg, fésbók, ljóð.is og skak.is. Ekki orð meira um það.

Nú er ég búin að vera lasin heima í nokkra daga og hef haft ærinn tíma til að hanga á netinu, og lítinn kraft til annarra verka. Nýbúin að læra á fésbók og eins og allir vita margfjörudrukkinn og hæruskotinn bloggari. Óheft nethangsið skilar mér hins vegar heldur minni lífsgæðum en ég hefði búist við fyrirfram.

Held ég sé bara vanþakklátt frekjurassgat.

mánudagur, mars 02, 2009

Ein angur

Mig langar að lifa á fiskinum í sjónum, blessuðu lambaketinu, skunda um völl í íslensku vaðmáli og rækta skessujurt og rabbarbara. Ganga á milli bæja og kenna horgemlingum að lesa og segja err, og bæta hvers kyns málhelti fyrir nokkrar paprikur, skreið og kótilettur.

Ég nenni ekki umheiminum.

Nöp

Ég vildi að mér væri vel við allar manneskjur, sérstaklega þær sem ég þekki ekki. Þeim mun ég aldrei kynnast, því mér er ekki vel við þær.

sunnudagur, mars 01, 2009

Aðeins meiri Lína, takk

Stundum get ég ekki útskýrt hvernig mér líður og þá skoða ég myndir.

Það gerir yfirleitt ekkert gagn.