sunnudagur, mars 15, 2009

Lifað og taktfast

Var að grúska í gömlum nótnablöðum heima hjá mömmu og rakst á þetta ágæta sönglagahefti frá árinu 1949. Tvennt vakti athygli mína, annars vegar unaðsleg þjóðremba og hins vegar allsérstæðar tilfinningaleiðbeiningar til listamanna.

Í inngangsorðum heftisins segir m.a.:
Við eigum ekki að setja útlend lög við íslensk kvæði. Við eigum að semja lögin sjálfir....Í fyrsta sinni birtist hér raunveruleg tilraun til að verða við sjálfsagðri áskorun Helga Helgasonar. Þjóðlegur metnaður hans er eggjandi fyrirmynd öllum íslenzkum tónlistarmönnum: Ísland á að verða sjálfbjarga í sönglegum efnum.....Enginn söngur þjóðar þrífst án nægilegs forða af eigin lögum. Lög, tekin að láni frá öðrum þjóðum, verða ávallt stjúpbörn. Þau tjá gleði og sorg með öðrum hætti en oss er eiginlegt og verða því hálfvegis utan gátta, hversu oft sem þau annars eru yfir höfð. Vegur þeirra er vænstur til mannfagnaðar við hlaðið borð og dýra skál.
Æskilegum tilfinningastíl við spilun og söng laganna er lýst á fjölbreytta vegu.
Innilega.
Með látleysi.
Í frásögutón.
Rösklega.
Þjóðlega.
Örvandi.
Streymandi.
Þunglega.
Kveðandi.
Barnslega.
Með mildum en miklum hljóm.
Létt og svífandi.
Kvikt og hressilega.
Með þjóðlegum einfaldleik.
Með þjóðsagnablæ.
Með góðri orðagrein.
Lifað og taktfast.
Af eggjandi krafti.
Af einskærri hugarkæti.
Með sefandi styrk.
Ljúft og dreymandi.

Fátt veit ég skemmtilegra en að grúska í gömlu dóti. Hlýt að vera andlegur fornleifafræðingur. Eða fornlegur andfræðingur.

Með góðri orðagrein.

Engin ummæli: