föstudagur, apríl 28, 2006

Blöndunartæki, bíltúr og 112

Dreymdi þetta í nótt.

Var á ferð í bíl, keyrði greitt, talaði við vin minn í farsíma. Hvar sem ég fór gerðist eitthvað hrikalegt, t.d. hrundi stórt bjarg úr kletti við veginn um leið og ég keyrði framhjá. Endaði með fjöldaárekstri á Vesturlandsveginum, ég dúndraðist inní bílakös. Svo var ég allt í einu komin heim. Dösuð. Leit í spegil. Sá þá að út úr höfði mínu, fyrir aftan hægra eyra, stóð krani. Ég dró hann út og neðan úr krananum var rör sem hafði gengið í gegnum hausinn á mér þveran (þverhausinn). Það blæddi.

Ég hringdi í 112, sagði að ég hefði dregið blöndunartæki út úr höfðinu á mér og að það blæddi mikið. Að ég væri doldið slöpp. Maðurinn í 112 varð reiður og sagði mér að vera ekki að trufla Neyðarlínuna út af smámunum. Skellti á. Ég hringdi aftur og bað þrjá pólska verkamenn (sem lágu á gólfinu heima hjá mér) um að segja manninum í 112 að ég væri að segja satt. Verkamennirnir neituðu að staðfesta sögu mína, þótt ég sýndi þeim sárið og blóðug blöndunartækin.

Þá ákvað ég að spyrja norn, sem var geðlæknir, hvort það væri í lagi með mig. Var stödd í matarboði með henni. Hún hló að mér. Nornahlátri.

Vaknaði þyrst.

fimmtudagur, apríl 27, 2006

Ósköp geta menn verið bitrir og fúlir

Var að lesa þessa umfjöllun um ljóðakeppnina.

Dregur þetta gall og beiskja lítt úr gleði minni yfir sigri Ástu í keppninni. Hún vann. Svo einfalt er það.

miðvikudagur, apríl 26, 2006

Til hamingju

Sigurskáld 2006 Ásta Heiðrún Elísabet. Litla ljóðræna raunvísindakona.

Ástarþakkir til ykkar sem kusuð sponsið mitt.

Stúlkan mín er orðin stór *angurvært andvarp*

mánudagur, apríl 24, 2006

Ég var buffuð

Lenti í slag við gulrótarbuff frá Grænum kosti. Þau voru fjögur, ég var ein.

Er barnlaus þessa vikuna og elda því sorglegan mat eins og frosin buff. Oh well.

Buffin stóðu þétt saman gegn mér. Ekki séns að losa þau í sundur. Þegar ég greip kassann úr frystinum (þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla), þá datt mér ekki í hug að ég væri að hleypa inn á heimili mitt forhertum buff-síamstvíburum.

Til að gera langa sögu stutta þá var ég komin með öll verkfæri heimilisins (m.a.s. hallamálið) í viðureign minni við gaddfreðnu síamsbuffin, sem spýttu sjóðheitum olíudropum af snarkandi pönnunni og harðneituðu að láta stía sér í sundur. Fari þau bölvuð. Á endanum gat ég kroppað lag og lag utan af buff-samsærinu og borðað eins og kebab.

Var að fleygja tveimur frosnum klumpum í ruslið. Þeir vildu heldur deyja.

sunnudagur, apríl 23, 2006

Vúhúúú tú


Matti var að koma heim eftir erfitt skákeinvígi við sveit Rimaskóla. Keppt var um Íslandsmeistaratitilinn. Laugalækjarskóla tókst með harðfylgi að verja titil sinn og eru því Íslandsmeistarar í skólaskák. Norðurlandameistarar líka reyndar.


Þetta er montblogg. Ég er stolt, montin, hreykin, upp með mér, ánægð, gortin. Tíhí!

Vúhú!


Ásta komst áfram í ljóðakeppninni *DB*

Fréttablaðið klúðrar að vísu uppsetningu og kosningaupplýsingum algerlega. Aulalega. Veit ekki hvernig þeir munu klóra sig framúr því. En...ef þið viljið kjósa ljóðið hennar Ástu þá á að senda sms í 1900 með skilaboðunum JA L2

Baunin er hress á hliðarlínunni. Áfram Ásta!

laugardagur, apríl 22, 2006

Skammstafanahorn Baunar - fyrsti hluti

Stundum spjalla ég við meint fólk á MSN. Fer í panik ef fleiri en einn hefur samband við mig í einu. Dóttirin hlær að aldraðri móður sinni. Oft sé ég skammstafanir sem ég skil ekki. Hvað þýðir ROFL?

Til hægðarauka (allbran) höfum við Ásta búið til þénugar skammstafanir og ætla ég í framtíðinni að nota þær til að hefna mín á þessum meintu manneskjum sem ég tala stundum við á MSN. Bara þeim sem skammrita mikið.

ML=mér leiðist
MLSB=mér leiðist, segðu brandara
RÚH=rifna úr hlátri
ÚG=(er að) útsetja gimbilinn
DB=(er að) dansa ballet (smá hlé)
KAVS=kem að vörmu spori (brb)
VV=við veginn (btw)
ÞEK=þú ert kjáni
MÞEK=mamma þín er kjáni
VAP=varstu að prumpa?

(Sáuð þið myndina af Ástu í Fréttablaðinu í dag? Ég setti stelpuna á stóran rauðan bolta og smellti af).

Asnalega orðahorn Baunar

Orð dagsins er vífilengjur. Hvurslags orð er þetta eiginlega? Pælið í því.

föstudagur, apríl 21, 2006

Ligga ligga lá

ég á ljóð dagsins á ljod.is

fimmtudagur, apríl 20, 2006

Gleði gleði

Þið farið nú kannski að verða þreytt á allri þessari gleði, en ég ætla samt að bauna á ykkur nokkrum ástæðum fyrir kraumandi lífsþorstanum.

1. Ítalska eldrauða kaffivélin mín, Café Retro frá Ariete. Dásamlegt kaffi.
2. Göngutúrinn sem ég fór í áðan með mömmu og strákunum mínum. Ísköld mjólk og kleinur á eftir og svo hlógum við að því hvað Bolla, kisan hennar ömmu, er vitlaus.
3. Lagið She með Elvis Costello. Kertaljós, maður sem elskar mig og ég hann, vangadans. Læt mig dreyma um slíkt og það er harla gott.
4. Börnin mín. Þau eru yndisleg.

Ef ykkur finnst öll þessi gleði þreytandi þá get ég glatt ykkur (!) með því að ég keypti mér áðan óvart apalegan disk. Keypti í misgripum disk með...panflautulögum. Komið með æluskálina, pronto!

Sumar - komdu fagnandi

Hið ótrúlega hefur gerst, þessum erfiðasta vetri lífs míns lauk - eins og öllum öðrum vetrum. Og alltaf er maður jafn hissa. Megi sumarið færa ykkur gleði og gæfu elskurnar mínar.


Æska
Andvarinn vekur
vatnið um ljósa óttu,

eins vekur ástin
öldur í þínu blóði:

nýjar á hverri nóttu.
Einar Bragi (Í ljósmálinu, 1970)


Mynd án veggs
Ó í sumar þá ætlum við að synda í bláasta vatninu á Íslandi
og við skulum láta sólina þurrka okkur
og ég á að horfa á þig
en þú átt að horfa á vatnið

Jöklar
Á sumrin fagna jöklarnir heiðríkjunni
skína glaðbeittir heita sólskinsdaga
og ljúga okkur full.

Á veturna segja þeir satt
þá þurfa þeir ekki að látast
þeir falla inn í tíðarfarið.
Stefán Hörður Grímsson (Farvegir, 1981)

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Vetur - far vel

Langar að kveðja þennan vetur með tveimur verkum Dags Sigurðarsonar, úr ljóðabókinni Níðstöng hin meiri (Rvík 1965). Mér finnst gaman að lesa Dagsverkin.

VEI ÞEIM
Vei þeim sem lendir í klandri og á ekki hreinar nærbuxur!


IN MEMORIAM
I
Þegar ég er orðinn gamall
og búinn að vinna
öll mín snilldarverk
og glapræði
ætla ég að setjast útí sólskinið
hlusta á suðið í flugunum
(ef ég held heyrn)

og minnast þess hve ilmurinn
af jörðinni var góður
þegar ég var úngur
og ástfánginn

Hve öllu hrakar
ætla ég að tuldra

og glotta tannlaust að því
hvað ég er orðinn gamall og vitlaus

II
Stundum verður rigning

Þá ætla ég að hýrast inni
á kvennapalli þamba kaffi
og segja lygasögur

Ég verð orðinn skrambi
flínkur að ljúga sögum

Það léttir manni brjóstþyngslin

III
Ég ætla alltaf að luma
á kandísmola og koníakslögg

og svo ætla ég að deyja

IV
Einhver kellíng einhversstaðar

til dæmis á Elliheimilinu
eða uppi í sveit
eða þá í útlöndum

ein af þessum seigu kellíngum

sem eru léttar á sér
alltframí andlátið
og lifna allar við
þegar kallmaður birtist í gættinni

ein af þessum gömlu skrukkum

sem hættu aldrei alveg
að hreyfa sig einsog úngar stúlkur
þótt þær barmafylltust lífsreynslu

mun segja:

Svoað hann var að fara garmurinn
Það er kanski best

Hann var orðinn svoddan ræfill
svo lúinn og gatslitinn

og kalkaður var hann líka
en þið hefðuð átt að sjá

hvað hann var myndarlegur í gamladaga

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Munið að kjósa

Ef ykkur líkar ljóðið hennar Ástu minnar, sendið þá sms í síma 1900. Skrifið: JA L2

Númerið ykkar fer við þetta í pott - þið gætuð unnið til verðlauna fyrir atkvæðið. Ekki ónýtt það.

Góðar stundir elskurnar. Lifi ljóðið.

mánudagur, apríl 17, 2006

Leti og vellíðan

Gerði nákvæmlega ekkert um páskana annað en að láta mér líða vel. Bestu páskar sem ég man eftir.

Loksins er ég að læra þetta sem allir hafa verið að tala um, allt mitt líf. Þetta sem mér hefur alltaf verið sagt að ég næði aldrei tökum á. Að slappa af.

Að slaka á getur verið góð skemmtun. Leti er vanmetin.


Munið eftir að lesa ljóðið hennar Ástu minnar í Fréttablaðinu á morgun. Ef þið nennið.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Fór í fermingarveislu

og hitti þar ágætan frænda minn sem iðulega segir skemmtilegar sögur. Ég hló mikið í veislunni en man bara eina. Hún er stutt.

Frændi sagði frá manni einum, grafara í dönskum kirkjugarði, sem sagði oft og tíðum "Paul MacCartney" (hörð áhersla á KARTNEI-ið). Hallaði sér að fólki sem honum leist á og sagði þetta í samsærislegum tóni. Fátt annað af viti kom uppúr grafaranum. Góður fyrir sinn hatt.

Ykkur finnst þetta e.t.v. ekki ýkja fyndin saga. Það er nokkuð til í því. En þið hefðuð bara þurft að vera á staðnum.

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Lífið getur verið skrítið

segi það og skrifa. En mér hefur sjaldan liðið betur. Hef hitt í bloggheimum og jafnvel í eigin persónu nokkrar fráskildar konur sem eru frábærar. Frábærar - fráskildar. Hmmm....frá sér numdar. Fráar á fæti. Ófráteknar. Frámunalega sætar. Frádráttarbærar...nei, fjandakornið.


For a while we pondered whether to take a vacation or get a divorce. We decided that a trip to Bermuda is over in two weeks, but a divorce is something you always have.
Woody Allen
US movie actor, comedian, & director (1935 - )

mánudagur, apríl 10, 2006

Litli lífskúnstnerinn minn

Sigurskáldið 2006 er ljóðasamkeppni ungs fólks á vegum Eddu útgáfu.

Dóttir mín, Ásta Heiðrún, var að fá upphringingu núna rétt áðan um að hennar ljóð hefði komist áfram í samkeppninni. Aðeins 8 ljóð af 400 voru valin.

Ljóðið verður birt 18. apríl í Fréttablaðinu, ásamt mynd af stúlkunni. Síðar verður svo símakosning um besta ljóðið.

Félagar. Bræður mínir og systur. Skora á ykkur að gefa stelpukorninu atkvæði...fyrir kvæðið.

sunnudagur, apríl 09, 2006

Vorið í París


stefndi í að verða horið í París en ég hló kvefið úr mér. Af því að Ásta er skemmtilegasti ferðafélagi í heimi. Dásamlega dóttirin mín.


fimmtudagur, apríl 06, 2006

Talandi um appelsínur

Í þriðja eða fjórða kaffitímanum í dag skutlaði ég appelsínuberki í alvörugefinn lækni. Lenti börkurinn í andliti hans svo af féllu gleraugun. Tvennt kom á óvart, hittni mín og slagkraftur barkarins. Við höggið brá læknirinn varla svip en stóð upp og hellti kaffi yfir appelsínuna mína.

Kinkí að borða kaffibleytta appelsínu. Finnst það betra en greip.

miðvikudagur, apríl 05, 2006

Greip greip í misgripum

Veit þetta hljómar doldið eins og ég vinni með tómum Hobbitum, en í seinna morgunkaffinu (elevensies) borðaði ég greip í misgripum. Ég sumsé greip greip í Bónus, hélt það væri appelsína. Finnst appelsínur betri.

Manngerðar manngerðir

Fjörugar umræður í morgunkaffinu. Ræddum hnakka, trefla, hnakkahórur og fleira. Reyndum að skilja þennan merka kúltúr. Skiljum nörda. Komumst að því að þessi sortering er ekki fullnægjandi. Betrumbættum kerfið. Körlum má skipta í:
Hnakka, nörda, trefla og tissjú.

þriðjudagur, apríl 04, 2006

Næstum of glöð núna

svei mér þá. Mér er svo létt að ég gæti:

1. Farið í rótarfyllingu ódeyfð
2. Borðað selshendur
3. Sleikt hundsrass
4. Kyngt þremur tommulöngum tréskrúfum með Tork-haus
5. Dansað línudans allsber í kúrekastígvélum í Kringlunni
6. Kysst Hannes Hólmstein (nei annars, engum líður svo vel)

Lífið er fullt af möguleikum og góðu fólki. Lífið er fallegt. Lífið er yndislegt.

Háskakvendi

Vorum að ræða bíómyndir um háskakvendi. Fatal attraction, Basic instinct og myndina sem Demi Moore lék tálkvendi í og ég man ekki hvað heitir. Getur verið að Michael Douglas hafi verið "leading man" í öllum þessum myndum?

Hvað segja þeir félagar Kirk og höku-koppurinn um það?

sunnudagur, apríl 02, 2006

Faxi, kanínur og flöskustútar

Helgin var róleg. Eiginlega ekkert gerðist hjá mér, en þó þetta:

1. Varð vitni að athyglisverðri vínsmökkun (við sögu kom kokkurinn, þjónnin, flöskustúturinn og Faxi)
2. Hitti sérstakt fólk sem brast í háværan, tilfinningaþrunginn söng annað veifið (án atrennu)
3. Ég næstum dó úr óbeinum reykingum
4. Ók ókunnri fegurðardís á djammið, og þegar hún var spurð hvert hún ætlaði sagði hún: "keyrðu bara í Tjörnina"
5. Sá svarta kanínu fara af alefli úr hárum yfir eiganda sinn sem var í hvítum bol - töff töff töff
6. Lét mér líða vel
7. Naut gestrisni alvöru Sama og át hjá honum lamb (en ekki hreindýr)