Lenti í slag við gulrótarbuff frá Grænum kosti. Þau voru fjögur, ég var ein.
Er barnlaus þessa vikuna og elda því sorglegan mat eins og frosin buff. Oh well.
Buffin stóðu þétt saman gegn mér. Ekki séns að losa þau í sundur. Þegar ég greip kassann úr frystinum (þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla), þá datt mér ekki í hug að ég væri að hleypa inn á heimili mitt forhertum buff-síamstvíburum.
Til að gera langa sögu stutta þá var ég komin með öll verkfæri heimilisins (m.a.s. hallamálið) í viðureign minni við gaddfreðnu síamsbuffin, sem spýttu sjóðheitum olíudropum af snarkandi pönnunni og harðneituðu að láta stía sér í sundur. Fari þau bölvuð. Á endanum gat ég kroppað lag og lag utan af buff-samsærinu og borðað eins og kebab.
Var að fleygja tveimur frosnum klumpum í ruslið. Þeir vildu heldur deyja.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli