miðvikudagur, desember 31, 2008

Góðar gæftir

Mikið vona ég að síldin jafni sig.

Ótalmargt fleira gáfulegt gæti ég sagt, en þessi kona er búin að því öllu og ef hún fer í pólitík þá hef ég eitthvað að kjósa.

Megi árið 2009 færa okkur miklar og góðar breytingar, minna rugl og meira réttlæti.

mánudagur, desember 29, 2008

Glyðruleg óþægindi á uppsprengdu verði

Í dag fór ég í búð á Laugaveginum að skipta mjög fallegum undirfötum sem ég fékk í jólagjöf, en hlýrar brjóstahaldarans voru mjóir og svolítið óþægilegir. Í umræddri búðarholu gaf að líta nærklæðnað, ilmvötn, blúnduverk, sjiffonsloppa, titrara og ágætt úrval fjaðraskrauts á geirvörtur en ekki eina einustu flík sem flokkast gæti sem ærleg brók. Engin brjóstahöld voru þarna undir 13 þúsund krónum og náttkjólgopa einn sá ég á 54 þúsund. Afgreiðslukonan var kuldaleg í framkomu, tattóveruð og þvengmjó. Hún leit á mig fyrirlitningaraugum þegar ég spurði hvort hún ætti ekki einhver "þægileg" undirföt. Djöfull leið mér eins og mest púkó konu í heimi.

Mig langaði að benda þessari hortugu horrenglu á að ekki væri gaddavír sem skerst inn í holdið hugmynd allra kvenna um góð undirföt, en mat aðstæður svo að það hefði ekki skilað neinu í þjóðarbúið.

Ef þessi okurbúlla verður ekki farin á hausinn eftir mánuð, þá skal ég hundur heita og éta köttinn minn í kaupbæti.

sunnudagur, desember 28, 2008

Gullbrúðkaup og jólaamstur

Vaðið hef ek fjölskylduboð upp í handarkrika þessi jól, varla getað litið í bók fyrir annríki. Er að kynnast ættingjum Hjálmars, þar er vænn meiður, en allflókinn. Mér finnst gaman í svona samkomum að stúdera ættarsvip, bera saman nef, rödd, vaxtarlag, augabrúnir og eyru. En auðvitað ætti ég frekar að fókusera á að læra nöfnin.

Í mínu tré bar það helst til tíðinda á annan í jólum að pabbi og mamma fögnuðu gullbrúðkaupi. Fimmtíu ár eru ærinn tími í ektaskap. Foreldrar mínir eru býsna sprækir, eiga 16 beina afkomendur, fjölmörg viðhengi og einn kött. Haldin var stórveisla í tilefni dagsins, þar sem boðið var upp á sauðalæri af Barðaströndinni og forláta marsipantertu í eftirmat. Brúðkaupsmyndin var "prentuð" á tertuna miðja, en þótt afi og amma séu góð vildi enginn borða þau. Eða, jú, forvitna litla systir mín beit aðeins í myndina og kom þá í ljós að hún var óæt. Tertan var að öðru leyti gómsæt, get heilshugar mælt með Mosfellsbakarí. Og mér finnst brúðkaupsmyndin af mömmu og pabba falleg, enda eru þau vandaðar manneskjur.

En nú ætla ég að lesa um morð og löggur mér til andlegrar upplyftingar.

fimmtudagur, desember 25, 2008

Börnin, bækur og hlýjar tær, best í heimi

Börn eru stórmerkileg og undurgóð fyrirbæri. Bara ef þið skylduð ekki vita það.

Vænst þótti mér um gjafirnar frá afkvæmunum þessi jól. Ásta gaf mér yndislegar bækur, þar af eina um menntamann með bláar tilfinningar. Matti gaf mér Engar smá sögur og Hjalti minn gaf mér skóna sína. Bókstaflega. Hann bjó til þæfða lopainniskó í vetur og hafði ég dáðst ákaflega að þessum skæðum, enda vönduð og hlý smíð. Haldiði að þeir hafi svo ekki dúkkað upp í jólapakkanum til mín?

Auk þess fékk ég stórskemmtilega myndasyrpu af systkinunum í jólagjöf, sem tengdadóttirin, hún María Anna, tók fyrir skömmu.

Meira hvað ég er stolt af þessum krökkum. Meira hvað ég er heppin.

mánudagur, desember 22, 2008

Kærleikskveðjan

319.733 Íslendingar voru svo óheppnir að fá ekki jólakort frá mér í ár. Skil að þeir séu sárir. Ég er sjálf í þessum hópi og finn höfnunina hlaðast upp.

En...öllu vænu og góðviljuðu fólki óska ég gleðilegra jóla. Hinir mega eiga sig, t.d. skítalabbinn sem keyrði á stórum jeppa á fantahraða framhjá mér í dag og skvetti yfir mig flóðbylgju af drullu, krapi og bleytu þannig að ég stóð gegndrepa á gangstéttinni, sótbölvandi.

Borðum, drekkum og gleðjumst... þó ekki sé nema yfir því að þetta skítaár er að verða búið. Næsta ár verður vafalaust verra, men den tid, den sorg.

Friður, ást, feitir ostar og réttlæti!

fimmtudagur, desember 18, 2008

Sól, jól, kjól, ról, ból, skjól, fól

Ég er farin að hlakka svolítið til jólanna. Keypti þrjú kíló af makkintosi, margar jólagjafir og pezkall. Líka pipp, púkahlaup og pepsí og við Hjalti erum í kósí fílíngi að horfa á frekjudolluna House.

Snjórinn er fallegur og ég ætla að vera góð stúlka út árið.

þriðjudagur, desember 16, 2008

Skröggsbaun

Piparkökurnar eru eins og þær eru. Aldrei fyrr hefur jólaskapið verið skreytendum fjær, svo nærri jólum.

Hér gefur að líta skapvonda offitusjúklinga, sundursagaðan auðmann, bankafulltrúa illskunnar, fjölmiðlavesaling, anarkistakellingu, Svölu Bjö (veit ekki af hverju hún kom, sénsinn að ég nenni að skilja það), afhausaðan kalkún, jólasvein sem heyrir raddir, gallblöðru Geirs Hilmars og rassinn á Ingibjörgu Sólrúnu í g-streng. Hjalti skreytti svo eina hjartakökuna með stóru, feitu dollaramerki og sagði að það væri tákn jólanna. Gat skeð að barninu dytti ekki fokkings IKR í hug.

Ég er ekki búin að kaupa eina einustu jólagjöf, ekki skrifa á eitt einasta jólakort, ekki extra einn einasta skáp (ég er svo fyndin), ekki kaupa eitt einasta jólatré og ekki finna fyrir einni einustu furunál af hátíðarspenningi.

Annars er það helst að frétta að ég á einstaklega góða að og fyrir það skal ég vera þakklát og hleypa örlítilli birtu inn í brjóstholið. Skárra væri það nú.

mánudagur, desember 15, 2008

Horst allur


Nei, fyrirsögnin er ekki horstallur (efrivör?). Horst Tappert er dáinn, aðeins 85 ára gamall. Í huga mér ómar Aus der Reihe Derrick - stefið ástsæla, í moll.


Allar myndir sem ég fann af stórmenninu voru litlar. Því setti ég fjórar inn og á einni sést Klein, hliðardúddinn skondni, tilberi Tapperts.

Ó, að heimurinn væri uppskrúfaður, stífur, velmegandi og fyrirsjáanlegur eins og Derrick þáttur. Ó, að hetjan næði alltaf vondu köllunum og réttlætið sigraði. Ó, að tásíðir augnpokar kæmust aftur í tísku.

Ó, að mér liði ekki eins og Horst Tappert leit út.

laugardagur, desember 13, 2008

Þögn er sama og þykkjuþung

Á leiðinni á mótmælin mættum við nokkrum glaðlegum manneskjum. Þær voru allar útlendingar. Með troðfulla innkaupapoka. Djöfulsins skítaland, hugsaði ég og arkaði snjóinn þung á brún. Svo þögðum við Hjálmar í 17 mínútur og störðum á Alþingishúsið. Mér fannst þetta snotur hugmynd, en ekki gátu allir þagað. Nokkrir sauðdrukknir vesalingar öskruðu nær stanslaust eitthvað um að þeir ætluðu sko ekki að borga meira og ýmislegt annað ekki sérlega áheyrilegt. Rónarnir eru sjálfsagt orðnir leiðir á að leggja til samfélagsins.

Fyrir framan okkur stóð ungur maður í úlpu og svaraði í farsímann hátt og snjallt: "Nei, nei, ég er bara hérna á þöglum mótmælafundi."

Get ég gefist upp á þjóðinni minni? Held að það sé ekki í boði.

þriðjudagur, desember 09, 2008

Hrokapína, siðblinda, spillingarverkur og dáðleysisdofi

Frá blautu barnsbeini hef ég undrast stórum hvers vegna fólk borgar hvítuna úr augunum fyrir vanlíðan steypta í postulín, einhverjar Bing og Crosby* snobbstyttur af ómálga börnum sem engjast um af sársauka. Verkin um verkinn bera dúlluleg nöfn: tannpína, magapína, höfuðverkur, eyrnaverkur. Já, hver hefur ekki lent í því að hlæja góðlátlega að eyrnaverk barnsins síns?

Væri sjálf spenntari fyrir svona styttum af ráðherralufsum, auðmannavesalingum og teinóttum smjörkúkum.
















*jájájá, ég veit alveg að þetta er ekki Bing og Crosby, heldur Bang & Olufsen, eða var það Hviss & Bæng?

mánudagur, desember 08, 2008

Boys and their ljós

Minn elskulegi sambýlismaður kom með fremur fátt veraldlegra muna í búið; skrifborð, allnokkurt bókasafn, gamalt útvarp og magnað safn sækadelískra dúka og sængurfata. Nú nýlega dró hann úr pússi sínu grip sem vakið hefur ómælda aðdáun hjá öllum áhugamönnum um jólaskreytingar: ljósaseríu með átta, ég endurtek ÁTTA stillingar- og blikkmöguleikum. Dýrðin, dýrðin.

laugardagur, desember 06, 2008

Fallegar konur. Vont land.

Enn færri mættu í dag á mótmælin, ekki er hægt að kenna kuldanum um í þetta sinn. Fólk er trúlega farið að finna fyrir tilgangsleysi allra hluta, yfir okkur er valtað án þess við getum rönd við reist. Enginn tekur eftir því þótt heyrist lítið kvein. Hryllilega er þetta vond tilfinning. Held að engin þjóð eigi jafn þumbaralega, skilningsvana og ráðþrota ráðamenn og við. Hvert er andheiti orðsins næmur?

Ólygin sagði mér að Davíð Oddsson ætlaði framvegis að lesa fréttirnar á RÚV. Þið heyrðuð það fyrst hér.

föstudagur, desember 05, 2008

Hangilopasteypa

Hangi læri á að gera stinningaræfingar frá nára og niður. Hangi frampartur er upplagt að leita á náðir lífstykkja. Hangi kjöt má ráðfæra sig við lækni. Hangi stjórnin áfram ber að gera byltingu.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Uppgögvun

Í dag spjallaði ég við hálfníræðan kall sem hafði frá mörgum "uppgögvunum" að segja. Í miðri setningu reif hann út úr sér tennurnar og hló hásum róm. Svo blikkaði hann mig.

Ég hef uppgögvað að gamalt fólk getur verið afar spaugsamt.

miðvikudagur, desember 03, 2008

Riðuveikt fé

Eitt andartak hélt ég að hér væri á ferð enn ein fréttin um krónuna sem riðar til falls.

Tryggingarnar mínar hækka um 45 þúsund kall milli ára, er það eðlilegt? Er eitthvert tryggingafélag öðru betra - á ég að tala við elisabet.is, hefur einhver reynslu af því? Hvaða banki er minnst djöfullegur? Á maður að reyna að láta Íbúðalánasjóð yfirtaka helvítis bankalánið?

Legg til að einhverjir af þessum teinóttu, vatnsgreiddu (atvinnulausu) bankamönnum og peningaundrabörnum setji upp fjármálaráðgjöf fyrir sauði eins og mig. Fjárhirðarnir mega mín vegna vera í gulum bol, hvítum íþróttasokkum og grænum apaskinnsbuxum við vinnuna. Svona er ég umburðarlynd.

En að skrimta á þessu skítaskeri verður ekki auðveld skemmtun á næstunni. Vitna mér til hugarhægðar í Þórdísi: Fokk, fokk, fokk.

þriðjudagur, desember 02, 2008

Menning klapp klapp klapp

Menningin ríður ekki við einteyming um þessar mundir, Hjálmar bauð mér í jólahlaðborð á föstudaginn, í Hagkaup um miðnætti á laugardaginn, í leikhús á sunnudaginn að sjá Skugga Svein í skemmtilegri uppfærslu Leikfélags Kópavogs, og svo röltum við á útgáfutónleika kórs Áskirkju áðan. Eitt skildi ég ekki, það var ekkert klappað fyrr en í lokin, mig langaði svo að klappa, en sat á mér. Kór Áskirkju er firnaflottur. Og þótt það hefði verið asnalegt að ég klappaði ein, þá hefði það ekki náð bjánaskapnum þegar Nokia-hringing dauðans ómaði hjá einum sauð í salnum, eða þegar eirðarlaus kjánakall marghnoðaði skránni sinni saman. Skrjáf getur verið ærandi. Og það ætti að banna þessa diririri-diririri-diririri-ding hringingu.

Merkilegt með Skugga Svein, mér skilst að ekkert leikverk hafi verið sett jafnoft á svið hér á landi, en samt hefur mér einhvern veginn tekist að lifa næstum fimm áratugi án þess sjá það. Eða...reyndar rámar mig í einhverja svart-hvíta Grasa Guddu í sjónvarpinu þegar ég var lítil. En það er ekkert að marka minnið, það man ekki neitt og svo er líka óralangt síðan ég var lítil.

Áfram á menningarlegu nótunum, á ég að hringja í RÚV og kvarta út af bindinu sem fréttaþulurinn er með um hálsinn? Það er allt of bleikt við þessa skyrtu.

mánudagur, desember 01, 2008

Þjóðin sem úti frýs

Á ó-óskalistanum mínum er bókin Saga af forseta. Gefðu mér hana og ég veit að þú hatar mig.

Ég er svo pirruð á forréttindapakki þessa lands að mig langar að öskra. Stóð í skítakulda á Arnarhóli áðan og hlustaði enn eina ferðina á fínar ræður en það breytist ekki neitt, gerist ekki neitt, stjórnvöld hlusta ekki á þjóðina, þeim er sama um þjóðina. Valdhafar sitja í hlýjunni á meðan við frjósum og gölum á útifundum sem engu skila.

Á meðan Kvennalistinn var og hét kaus ég hann, það var áður en Ingibjörg Sólrún breyttist á skuggalegan hátt í Davíð. Nú eygi ég þá lausn að við fáum neyðarstjórn kvenna. Er vit í öðru?

Ég verð að trúa á eitthvað.