mánudagur, mars 31, 2008

Magnleysi

Í morgun sat ég í reiðisamloku vörubílstjóra í Ártúnsbrekkunni og var fremur þægt álegg. Finnst innst inni (segið þetta hratt upphátt) fínt að vörubílstjórar mótmæli ranglæti, þótt ég sé ekki alveg með á hreinu hverju þeir eru að mótmæla. En þjóðin er auðvitað arfavond yfir dýrtíðinni og þessu vonleysistuði sem fréttastofurnar gubba yfir okkur með endalausum kreppu- og verðbólgulýsingum, niðurdregnum línuritum og vondum kökuritum. Gott að einhver er að gera eitthvað í málunum, mig langar alveg að brjálast en megna það ekki.

Mætti til vinnu og fljótlega eftir það fór rafmagnið. Undarlegt hversu háður maður er þessari ósýnilegu orku, gat varla einu sinni pissað. Sá ekki læra minna skil inni á klósetti, en reyndi að bera mig að eftir gömlum vana.

Svo var hinn vanalegi miðdepill tilverunnar (tölvan) bara ljótt skraut á borðinu. Rafmagnsleysi er ekkert grín.

sunnudagur, mars 30, 2008

Ófeitir tímar

Las um sumartímann hjá konu sem býr í borg elskenda. Fátt sem sýnir betur en þetta útlenda pennastrik hve tíminn er absúrd fyrirbæri. Á Íslandi ríkir stöðugleiki í tímanum, okkur varðar ekkert um árstíðir. Hér drýpur smjör af hverju strái, með tilheyrandi hálkuvandamálum.

Velti vöngum yfir því af hverju ungt fólk klígjar við feitu keti.

föstudagur, mars 28, 2008

Passið

Heiftarleg löngun kom yfir mig að bregða greiðu í hár Davíðs þar sem hann stóð í pontu og lýsti hinum nýju óvinum ríkisins, "óprúttnu miðlurunum".

Pössum okkur á myrkrinu. Pössum okkur á verðbólgunni. Pössum okkur á transfitusýrunum. Pössum okkur á óprúttnu miðlurunum.

Meira af Keatonskri kvikmyndagerð

Hann hlýtur að hafa slasast við þetta brölt maðurinn. En þvílík snilld!

Buster Keaton

Búin að sökkva mér tímunum saman ofan í myndbrot Busters. Þessi alvörugefni tímaþjófur má stela mér hvenær sem er...

fimmtudagur, mars 27, 2008

Afsakið, er þessi hola upptekin?

Félagslyfjafræðingur?? Lyfjafalsanir? Hrokafullur ráðherra? Verðhækkanir á mjólk? Það er enginn endir á efni til að næra angistina.

Týnd bros og ný

Aðeins eitt gott við svona veikindi. Get lesið af og til, þegar hausinn er ekki alveg að klofna. Lauk langri og ágætri bók, Óreiðu á striga eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Var yfir mig hrifin af Karitas á sínum tíma, en finnst framhaldið aðeins síðra, þótt þetta sé fyrirtaks lesning. Reyndar fer Karitas sjálf oft í taugarnar á mér í Óreiðunni, hún er svo snefsin og leiðinleg í umgengni við fólk. Þurfa "miklir listamenn" að vera óalandi og óferjandi í samfélagi manna? Kannski er svarið "já" þegar samfélag manna er fjandsamlegt þeim sem sker sig úr svo um munar.

Kláraði svo Harðskafa núna rétt áðan og er ánægð með hana. Þægileg bók, snyrtilega myrk og býsna áhugaverð. Lítið um óreiðu hjá Arnaldi, vísindalega stefnuföst sköpun. Mér finnst honum takast að láta mann fá örlitla samúð með fyrrverandi eiginkonu aðalsöguhetjunnar, þessari beisku og hatursfullu konu sem eyðir orku sinni í að kenna Erlendi um allt sem miður hefur farið í hennar auma lífi. Það er ekki auðvelt að vinna úr höfnun og óendurgoldin ást getur sennilega gert næstum hvern sem er að drulluspólara í fortíðinni.

Hlakka svo til þegar ég verð frísk. Mín bíður haugur af verkefnum sem ég hef ekki haft heilsu til að sinna, staflar af óhreinum þvotti, tveggja daga uppvask, óleyst gáta um rotnunarlykt í eldhúsi, þvæld rúmföt, skattaskýrsla, ófrágengið dót í ferðatösku, vinnan mín í vinnunni og svo er brosið mitt týnt.

Börnin koma á morgun og þá kemur brosið mitt í leitirnar.

þriðjudagur, mars 25, 2008

Nördar fá líka kvef

Skynja mikinn pirring bæði í ket- og netheimum. Held að efnahagsástandið narti í sálirnar, kroppi og erti þær undir yfirborðinu. Kvíði og spenna, spenna sultarólar, attbú góðærið sem flaug reyndar framhjá mér eins og teinótt prump.

Hef fyllstu ástæðu til að vera örg, þar sem búið er að breyta mér í hor- og slímspúandi fabrikku, hóstandi og hnerrandi. Ég er mengun og mér er illt í haus. Gott samt að eiga góða að, fékk þetta fína myndbrot sent og við það snörlaði ég og hló þannig að útfrymi spýttist í allar áttir, enda gegnheill trekkari með MP duld.

Sóttarsængurbaun

Jæja. Undanfarið hef ég lesið veikindablogg í löngum bunum og krumpast af meðaumkun vegna þjáninga sambloggara minna. Hef verið heppin sjálf, sloppið svo til alveg í allan vetur, aðeins fengið ómerkileg smáskot af kvefi en nú, já, núna, er ég komin með fullorðinsútgáfuna, the Beta version straight from hell.

Sem minnir mig á að að Danir vilja leggja Helvíti niður og það er ábyggilega ekki versta hugmynd á sveimi í þessum heimi. Niður hlýtur að vera í rétta átt í öllu falli. Það bölv sem ég man best úr æsku kom frá pabba mínum þegar hann var að gera við þvottavélina eða annað sem bilaði á heimilinu (mig grunar að honum hafi þótt það grútleiðinlegt). Hann tvinnaði grimmt og ég man þennan bút: Djöfullinn danskur!

Atsjú!

mánudagur, mars 24, 2008

Höfuðmál

Komin heim með hausinn fullan af kvefi og smá áhyggjur en samt fullan skilning á því að landinn hneykslist á útlensku hyski, enda ekki eins og hér á landi þrífist hjólhýsapakk sem notar hauskúpur sem öskubakka.

sunnudagur, mars 23, 2008

Fótur fyrir kornabarni í potti

Búin að gera eitt og annað menningarlegt hér í útlöndum. Til að nefna eitthvað nefnanlegt mætti nefna:

- Fór á tvo geggjaða flóamarkaði, veit fátt skemmtilegra. Langaði að kaupa hundrað hluti, endaði samt bara með nokkur handskorin púrtvínsglös og gríðarlega fallegan gamlan myndaramma.
- Skokkaði eftir götum borgarinnar, meðfram Eyrarsundinu sjálfu, sneiddi fimlega fram hjá fólki og hundaskít. Langaði rosalega að skokka inn í kirkjugarð með mjúkum stígum, en það er víst ekki til siðs hér.
- Sótti Bakken heim í brunagaddi og staðurinn var eins og draugabæli í kuldanum. Vorkenndi fólkinu helling sem var að vinna þarna, krókloppið.
- Andaði að mér helíum og las upphátt úr bloggi Ármanns Jakobssonar.
- Maturinn í Danmörku er syndsamlega góður, úrvalið, vínið í kjörbúðunum, ostarnir, kjötið, ávextirnir, grænmetið, gríska jógúrtið.....mig langar að búa hérna.
- Hringdi í mömmu, rabbaði við hana, fannst hún eitthvað kvefuð í röddinni. Kom í ljós að þetta var skakkt númer og ég hafði spjallað drjúga stund við ósköp notalega eldri konu sem virtist alveg til í að vera mamma mín.
- Dreymdi í nótt að mér var gefin kjötkássa, í henni var mikið grænmeti og hálft kornabarn. Einnig nokkrir bitar af sterklegum karlmannsfæti.

Hafði með mér að heiman Ora grænar baunir fyrir kærastann (undarleg sérviska), en hann ætlar að elda írskt lambalæri handa mér í kvöld. Legg ekki meira á ykkur í bili.

föstudagur, mars 21, 2008

Kveðja

Magnað hvað maður finnur sterkt fyrir ást sinni þegar maður fer í ferðalag. Kvaddi börnin mín, knúsaði stelpuskottið og Matta minn fast og lengi en varð að láta símtal duga til að kveðja þann yngsta, enda er Hjalti í sumarbústað með vini sínum og hljómaði rogginn og sæll. Finnst svo mikilvægt að kveðja ástvini almennilega, einhver tregapúki í maganum sem hvíslar því að manni.

Börnin eru gleði mín, og gleði mín börnin.

Svo á kærastinn auðvitað smá part í hjartanu en það ætla ég að segja honum sjálf.

fimmtudagur, mars 20, 2008

Fermingarfélagsskítsbaun

Fermingarveislur eru undarleg fyrirbæri. Verð að játa að yfirleitt er ég ekkert ofsa glöð þegar mér er boðið í slíkar veislur. Fyrstu viðbrögðin jafnvel svona "ooohhh". Það er svo margt ómögulegt við mig, get verið mikill félagsskítur, finnst yfirborðslegt snakk fremur treg skemmtun, er lítið fyrir fjölmenni og pottþétt engin veisludrottning.

Hins vegar finnst mér oftast ágætt í veislunni sjálfri, svona þegar ég er mætt á svæðið. Held mig þá gjarnan með "mínu fólki", enda ættingjar mínir upp til hópa fallegt og gott fólk. Finnst líka sérstaklega gaman að sjá hvað börnin spretta og blómstra. Og það er eitthvað við það að sitja þröngt með ættmennum sínum og raða í sig rjómatertum og kransakökubitum.

Af hverju er ég þá að mikla þetta fyrir mér? Þjáist trúlega af veislukvíðaþroskaröskun.

miðvikudagur, mars 19, 2008

Gleðilega páska

Bloggið mitt les bókhneigt og gáfað fólk. Þetta veit ég. Því leita ég til ykkar nú, þegar mig vantar sárlega að vita deili á þjóðsögu sem ég heyrði sem barn. Það sem ég man er að hún fjallaði um masgjarna konu og í sögunni kemur þessi setning fyrir, "át ég keppinn, Jóhannes?"

Svo verð ég að játa eitt hræðilegt. Í gærkvöld þegar íslensku tónlistarverðlaunin voru okkur almúganum til sýnis, þá rann fjarstýringarfingurinn stundum (oft) til, að Skjá einum þar sem rúllaði þáttur um Spice Girls.

Ég er plebbi.

þriðjudagur, mars 18, 2008

Vorlundin(n)


mánudagur, mars 17, 2008

Hin ábyrgðarfulla rödd heimsendis

Frá því ég var stelpuspons hefur verið spáð örgu á vandaðan hátt hjá RÚV. Er þetta alltaf sami þulurinn sem boðar endalok jarðar í náttúrulífsþáttunum?

Drusla

Manni finnst það lágmarkskurteisi af himninum að hætta að gráta þegar maður er með bilaðar rúðuþurrkur.

sunnudagur, mars 16, 2008

Sól og kannski kemur vor

Netið er búið að vera handsnúið, ef ekki beinlínis andsnúið í dag. En mikið er ég búin að karpa díemminn. Fór í gönguferð í Heiðmörk með Matta mínum í brakandi demantasnjó og sól. Pissaði í skóginum í álfabirtu á nálarnar sem höfðu fallið á jörðina og enginn heyrt þær detta. Saumaði fóðrið í vösunum á svarta pæjufrakkanum, saumaði tölur á fallegu bláu blússuna mína, eldaði lambaskanka í fjóra tíma, horfði á tvær bíómyndir með börnunum, horfði á dóttur mína raða upp á nýtt í eldhússkápana, fussandi blíðlega yfir skipulagsskertri móður sinni.

Gæfa að lifa svona góðan dag.

föstudagur, mars 14, 2008

Kúkur piss og ræpana

Linda systir er þremur árum yngri en ég og telst því ævinlega vera litla systir mín. Hún tók því starfsheiti af slíkum þunga að hún þorði ekki að teygja fullorðinshæð sína nema rétt upp í handarkrika á mér. Þótt hún sé lítil, er hún ekkert lítil. Hún er nefnilega stór karakter og kjörkuð. Þegar við vorum (báðar) litlar, þá var það hún sem þorði. Þorði allt.

Ég var ekki alltaf góð við hana litlu systur mína, laug t.d. að henni að hún væri ekki systir mín, heldur hefði mamma heyrt væl eitthvert kvöldið þegar hún var að fara út með ruslið og þegar hún opnaði tunnuna þá lá þessi skítugi krakki þar, organdi. "Það varst þú, Linda mín", sagði ég. Þetta fannst henni ákaflega miður. Svo fannst mér hún grenja allt of oft og vera of frek og þreytandi. Sagði henni einu sinni að ef hún gréti svona mikið, þá mundi hún klára öll tárin sín og það gæti orðið bagalegt í framtíðinni. "Sko, t.d. ef þú giftist og maðurinn þinn deyr og svo ertu í jarðarförinni og ætlar að gráta og þá eru bara öll tárin uppurin. Þá segir fólk að þú sért vond kona, grátir ekki einu sinni þótt maðurinn þinn liggi í kistunni."

Svona var ég slæm stóra systir. En yngri systkini geta nú tekið á taugarnar. Það hef ég sannarlega séð í samskiptum minna barna. Ég er líka alveg hætt að vera vond við hana, mér þykir nefnilega ósköp vænt um þessa litlu systur mína. Bara þegar ég segi "systir", þá hitnar mér allri að innan. Samt höfum við aldrei verið neitt sérlega samrýmdar, enda ólíkar að skapgerð. En mikið er gott að eiga systur. Eiginlega bara nauðsynlegt, svei mér þá.

Af hverju er ég að þvaðra þetta? Jú, ég er nefnilega ekki í sem bestu skapi og áðan varð mér að orði dálítið sem við Linda systir sögðum í gamla daga þegar við vorum fúlar:

Kúkur piss og ræpana.

Prófið bara að segja þetta. Það hjálpar.

fimmtudagur, mars 13, 2008

Orð, hlaup, mysuostur

Sat á námskeiði í allan dag og inn um hlustir mínar streymdu orð eins og anhedonismi, priapismi, locus coerulus, subcortical dementia, substantia nigra, lewy bodies...

Kom heim, alveg búin á því. Hellti úr eyrunum, smellti mér í hlaupaskóna og hljóp frá mér allt vit. Úðaði svo í mig ristuðu brauði og norskum mysuosti, sem ég trúi að bæti böl og gleðileysi heims.

Mér finnst þessi dómur góðar fréttir. Það er ljótt að stela. Líka orðum.

þriðjudagur, mars 11, 2008

Apaungar í stuði

Ein af þeim hugmyndum sem ég hef haft um sjálfa mig er að ég sé þokkalega læs. Rakst þó á orð í dagblaði í dag sem ég þurfti að stauta mig fram úr. Stuðarapungar.

Stuðarapungar tengjast annarri hugmynd. Mér hafa stundum þótt dráttarkrókar á bílum undarlega heillandi.

laugardagur, mars 08, 2008

Þáskildagafokkingtíð

Hvað sem um karlmenn má segja (og það er alltaf verið að segja eitthvað um þá), þá eru ekki eins margar bitrar og gallsúrar fortíðarrúnkandi kerlingar meðal þeirra og kvenna.*


*mikill andskoti hvað ég er ópólítískt korrekt á þessum ágæta degi

miðvikudagur, mars 05, 2008

Þung í sjón

Fór um daginn með eldri syninum í gleraugnabúð að velja umgjörð. Fyrir utan fegurð og gáfur erfði hann ofurnærsýni frá móður sinni. Fundum ágætar brillur sem hann bíður nú eftir að tylla á sitt menntskælingsnef. Mikið hefur jarðarbúum farið fram í gleraugnagerð frá því ég var ung. Gramsaði í gleraugnasafninu mínu og fann æði mörg ósmekkleg, óþénug, níðþung og forljót pör.
Þar sem ég er huguð í meira lagi ákvað ég að sýna ykkur eitt parið á mynd. Já, ég gekk með þessi gleraugu í fornöld og ekki léttist nokkuð þungt mannshöfuð við slíkt.

Leiseraðgerðin var gæfuspor.

mánudagur, mars 03, 2008

Hvítt hyski

Taktu slatta af afbrýðisemi, helling af öfund, eina lélega sjálfsmynd, tvö tonn af reiði, þrjá bolla af illgirni, átta sneiðar af yfirgangi og 10 af frekju, botnfylli af þráhyggju og vænan skammt af paranoju. Hrærðu sjö matskeiðar af sorpkjafti saman við. Kryddaðu með hömluleysi og rugli. Gættu þess vel að blandan komist hvergi í snertingu við innsæi, sanngirni, dómgreind eða heilbrigða skynsemi. Hlauptu.

sunnudagur, mars 02, 2008

Sonur minn..

sagði, þar sem hann sat í kremju með bróður sínum áðan:

Sátt mega þröngir sitja.

Æðruleysisbaunin

Einu sinni var ég stök bindindismanneskja á kamillute. Ekki lengur.

Vona heitt og innilega að ég leiðist ekki út í harðari efni eins og hveitigras.

Hef frá svo mörgu að segja að ég hef ákveðið að tala bara um það smáa

Við flugan erum sammála. Þetta var mjög gott vín. Bramoss!