mánudagur, mars 31, 2008

Magnleysi

Í morgun sat ég í reiðisamloku vörubílstjóra í Ártúnsbrekkunni og var fremur þægt álegg. Finnst innst inni (segið þetta hratt upphátt) fínt að vörubílstjórar mótmæli ranglæti, þótt ég sé ekki alveg með á hreinu hverju þeir eru að mótmæla. En þjóðin er auðvitað arfavond yfir dýrtíðinni og þessu vonleysistuði sem fréttastofurnar gubba yfir okkur með endalausum kreppu- og verðbólgulýsingum, niðurdregnum línuritum og vondum kökuritum. Gott að einhver er að gera eitthvað í málunum, mig langar alveg að brjálast en megna það ekki.

Mætti til vinnu og fljótlega eftir það fór rafmagnið. Undarlegt hversu háður maður er þessari ósýnilegu orku, gat varla einu sinni pissað. Sá ekki læra minna skil inni á klósetti, en reyndi að bera mig að eftir gömlum vana.

Svo var hinn vanalegi miðdepill tilverunnar (tölvan) bara ljótt skraut á borðinu. Rafmagnsleysi er ekkert grín.

Engin ummæli: