sunnudagur, ágúst 26, 2012

Misskilið múslí


Átti von á góðum gestum og ákvað að nota ferðina og nýta fyrningar af gamalli sólberjasultu. Þá bakar maður hjónabandssælu. Fann ekki uppskriftina hennar mömmu og tók séns á að nota handskrifaða uppskrift frá konu sem ég þekkti einu sinni. Hún skildi skömmu eftir að ég fékk uppskriftina í hendur, og einhvern veginn langaði mig aldrei að láta reyna á hjónabandssæluna hennar. Ekki fyrr en í gær, í huguðu letikasti.

Ég skellti innihaldsefnum kökunnar í gömlu hrærivélina mína, en þau vildu  ekki loða saman, þau vildu skilja. Gat skeð. Þegar hjónabandssælan kom síðan úr ofninum var hún eins og malarkambur með einu mjúku jarðlagi. Hún náði næstum að vera þolanlegt bakkelsi ef maður jós á hana haug af vanilluís. Gestirnir voru kurteisir.

Í morgun skildi ég óhamingju og innra eðli kökunnar þegar ég borðaði hana út á súrmjólk.  Það verður hver að fá að njóta sín eins og hann er gjörður. Þessi hjónabandssæla var múslí. Fyrirtaks múslí.