föstudagur, desember 29, 2006

Kjúlli á samvisku- og ofgnóttarbeði

Bjó til tvö tonn af ris a la mande um jólin, 100 g voru etin á aðfangadagskvöld. Í gær vann ég á rísfjallinu á afar snjallan hátt. Steikti kjúklingabringur í ólívuolíu, einnig lauk, muldi vel af svörtum pipar yfir. Smurði eldfast mót með vænu lagi af risalamande, setti bringur, lauk og olíu á rísdýnuna, stráði dulitlu maldon salti þar yfir og skellti þessu svo í ofn í u.þ.b. 15 mínútur. Borðuðum tagliatelle pasta með.

Rétturinn var sérlega bragóður, grauturinn (sem nb var alls ekki sætur, setti engan sykur í hann, bara örlítið síróp) bakaðist svo skemmtilega í ofninum með kjúllanum og lauknum. Mmmmm.....

Óska ykkur gleði og gæfu á nýju ári með þökk fyrir allt og allt.

miðvikudagur, desember 27, 2006

Sveinn Pálsson..er nýi besti vinur minn. Fékk hann í kassa (bear in a box) frá Hjalta syni mínum. Sveinn er mjúkur og hlýr bólfélagi, einn sá allra besti sem ég hef kynnst.

Jólin voru frábær. Fyrrverandi eiginmaður minn elskulegur og eldri börnin tvö gáfu mér Sony myndavél, dúndurflotta græju, og er myndin af Sveini Pálssyni frumraun mín í stafrænu bjástri - frá tökusmelli til tölvu.

Lífið er fallegt. Og við Sveinn erum rétt að hefja samlífið. Fyrsta skipti sem ég eignast vin sem má þvo á 40.

föstudagur, desember 22, 2006

Glædelig jul!Gleðileg jól, elskulegu vinir nær og fjær.

Hjartans þökk fyrir góða samveru, rafveru, bloggveru og tilveru á árinu.

þriðjudagur, desember 19, 2006

Mitt líf: Ég er kona ársins

Var að koma úr jarðarför. Fer ekki svo á jarðarför, tónleika eða aðrar samkomur en að farsími hringi í miðjum klíðum. Hvað eru klíðir annars?

Sá minningargrein um konu sem hét Tala. Hún var saumakona.

Loftur er flugumferðarstjóri. Vörður Traustason öryggisvörður. Sigurjón Bláfeld feldskeri. Logi Eldon smíðar arna. Skondin tilviljun með nöfn og iðju manna.

Var annars hársbreidd frá því að vera kosin kona ársins. Í nýjasta Nýju lífi er haft eftir Guðmundi Steingrímssyni, undir liðnum partí ársins, þetta:
"Þegar slökkt var á götuljósunum og stjörnurnar létu ekki sjá sig. Ein kona datt á hjólinu sínu og lá lengi úti í vegarkanti í myrkri. Enginn sá hana. Þetta var partí ársins. Miklar væntingar en lummó niðurstaða. Týpískt."

Með tóma tóna í höfðinu


Nýbúin að læra á ipúðann minn og enduruppgötva þennan snilling. Fer í leiðslu þegar ég hef hann í höfðinu. Hvað heitir maðurinn?

Fann líka yndislegt lag hjá Huga. Tregafullt. Angurvært. Mögnuð rödd.

mánudagur, desember 18, 2006

Stundum á maður ekki orð en segir samt að maður eigi ekki orð

Alltaf gott að fá staðfestingu á því að fé okkar skattborgaranna er vel varið. Þvílíkur subbuskapur. Og þessi Kompásþáttur var svo ógeðfelldur að ég gat ekki horft til enda.

Æi. Nú ætla ég að hugsa um eitthvað fallegt. Börnin mín, snjókalla, jólaljós, góðvild og fyrirgefningu, heilbrigðar sálir, gott konfekt, hugljúfa tónlist, kaffiilm á sunnudagsmorgni, vini mína, himininn og nýbakað brauð.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Brostnar vonir í lágvöruverslun

Ég er stödd í Hagkaupum með 15 ára unglinginn í eftirdragi. Markmið fararinnar: að festa kaup á skyrtu. Það ber að nefna að sonur minn vex svo hratt að ég heyri brak á nóttunni. Og hann var vaxinn upp úr fermingarfötunum sínum áður en rjómaterturnar kláruðust í veislunni. En nú er hann sem sagt staddur í einskismannslandi fatanúmera, orðinn of stór fyrir barnastærðir og ekki kominn með nógu digran svíra fyrir karlaskyrtur.

Núnú. Af kvenlegri þefvísi finn ég fljótlega í herradeildinni skyrtu sem unglingurinn telur ekki alvonlausa. Hún er samanbrotin og innpökkuð í plast. Finn bara medium og large en veit ekki hversu stórt medium er, því hvað er medium þegar maður fer að velta því fyrir sér? Ég skima í kringum mig eftir aðstoð. Kem auga á lágvaxinn, fíngerðan karlmann um sextugt í svartri og appelsínugulri litasjatteringu búðarinnar (þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla). Unglingurinn hálfliggur ofan á innkaupakerrunni, áhugalítill um framvindu mála.

baun: Já, góðan dag, geturðu aðeins aðstoðað mig?
(afgrm. nálgast, pirringsviprur fara um munnvik hans)
baun: Hvaða stærð af skyrtu heldurðu að strákurinn þurfi? (bendi á unglinginn)
afgrm: Hann fær ekkert hér, þetta er herradeildin.
baun: Matti minn, réttu úr þér (við þetta rumskar unglingurinn, réttir úr bakinu - og gnæfir yfir manninn)
baun: Heldurðu að medium passi?
afgrm: Það er hugsanlegt.
baun: Getum við fengið að sjá skyrtuna?
afgrm: Það má ekki taka hana úr plastinu.
baun: Hvernig er þá hægt að máta?
afgrm: Það er ekki hægt að máta. Þetta er lágvöruverslun.
(baun reynir þarna að leiða hjá sér samband yfirlýsingar afgreiðslumanns og hæðar hans)
baun: Já. Einmitt. En hvernig á maður þá að vita hvort fötin passi?
afgrm: Þetta er engin herrafataverslun, ef þú værir í herrafataverslun væri hægt að máta. (svei mér ef ég heyrði ekki bitran tón þarna hjá manninum)

Eftir tvö jöpl, eitt jam og þrjú fuður fóru mál þannig að allar skyrtur fengu að vera áfram í sínu plasti og engin var keypt. Og enn vantar unglinginn minn jólaföt.

miðvikudagur, desember 13, 2006

Aldurstengd starsýni


Ætli Nigella sé í kjörþyngd? Mér verður starsýnt á línurnar, ýkt stundaglas. HALLÓ brjóst, bæði tvö! Kitlandi er að sjá Nigellu sulla í pottum og sleikja á sér puttana. Orðflúrið á henni pirrar mig ögn stundum, en maturinn og hún eru vaðandi girnileg saman.

Matur. Mjaðmir. Eldhús. Brjóst. Angan. Krydd. Hiti. Mmmmm....held ég sé, fyrir utan að vera tákynhneigð, sjálfkynhneigð og gagnkynhneigð...líka....(Ni)gellukynhneigð?

Aldurstengd bjartsýni

Gömul kona sagði þetta við mig um daginn, með mæðulegu andvarpi:

Ekkert er eins gott og það var...og hefur aldrei verið.

þriðjudagur, desember 12, 2006

Aldurstengd fjarsýni

Talandi um augu. Var að skrifa á fyrsta jólakortið, sá ekki rassgat. Ellisjónin aldeilis farin að baga miðaldra baunina.

Oh, well. Get þó haldið áfram að blogga, þarf ekki sjón til þess. Blessuð sé tæknin og öll hennar börn (nema vopn og vondir hlutir).

Bláu augun þín...

Þegar kunningjakona mín var nýflutt til Danmerkur spurði hún vinnufélaga sinn, sem mætti í vinnuna með ný gleraugu: "Er du nærsynet eller fjernsynet?"

Mér finnst þetta fyndið.

Frekja og yfirgangur

Er alveg gáttuð á fréttum um framkomu fólks á vettvangi slysa. Las þetta um málið, dálítið stóryrt grein en margt til í þessu.

Finn það líka á umferðinni að fólk virðist hreinlega andsetið af óþolinmæði og pirringi.

mánudagur, desember 11, 2006

Ljóð dagsins..

í dag er hér. Lesist hægt og rólega.

Svo brilleraði Matti minn á skákmóti nýlega, hann er unglingameistari TR.

Auk þess langar mig að benda á flottan pistil hjá Þráni Bertelssyni í Fréttablaðinu í dag.

sunnudagur, desember 10, 2006

Nazeem gengur aftur

aftur og aftur?

Það að karakterar deyi í Erninum er engin trygging fyrir því að þeir hætti að vera með í þættinum.

Danskir handritshöfundar hafa Hallgrím, sem sósíaliserar jafnt við lifendur og dauða, sérvitran og doldið þurran á manninn. Þeir telja sig vafalaust vera að draga upp raunsanna mynd af Íslendingi.

Litli klósetthreinsirinn

Undanfarna daga hefur óheppnin elt mig á röndum. Ég er búin að eyðileggja tvær uppáhaldsflíkur, yndislega nýja peysu úr Whistles sem ég hélt svo mikið upp á að ég svaf með hana í fanginu, og gallabuxur sem voru búnar að vera í langri og dyggri þjónustu baunar. Yfir peysuna sullaði ég rauðvíni, yfir gallabuxurnar gubbaðist sjóðheitur kaffikorgur sem fer bara ekki úr. Og ég brenndi mig á lærinu.

Svo er ég búin að týna flottum eyrnalokkum (þ.e. tveimur stökum úr jafnmörgum pörum) og kvittun fyrir kostnaði sem ég hefði fengið endurgreiddan ef kvittunin hefði ekki týnst.

Þetta er smámunir og áfram er bloggið mitt sjálfhverft. En af hverju talar auglýsingin um litla klósetthreinsinn til mín þessa daga?

laugardagur, desember 09, 2006

Vísindi byggð á ölraunumÉg hef aldrei drukkið bjór að gagni. Nú veit ég af hverju. Mér þykir hann vondur. Var í frábærum félagsskap í gærkvöld að raða í mig öli og lager og hvað þetta heitir allt saman, undir leiðsögn færustu bjórmanna. Farið var eftir litasjatteringum, þ.e. byrjað á ljósum tónum og endað í dökkum (bjór er fallegur á litinn). Smökkuðum á Hoegaarden, Franziskaner, Duvel (vibbi!), Samuel Adams (lager og winterlager), Orval, gömlum Orval og eldgömlum Chimay. Jamm.

Gaman var að hengja orð á bragð og ilm ölsins, t.d. fundum við apótekaralakkrís, kjallara, rúgbrauð, súkkulaði, banana og alls kyns krydd. Ég glósaði í gríð og erg mína gúrmei-dóma um bjórinn, en þeir voru gjarnan á þessa leið: Vondur. Hundvondur. Ekki eins vondur og sá sem var á undan. Einn fékk dóminn "ekki vondur" (Samuel Adams, lager).

En kvöldið flaug hjá á ótrúlegum hraða. Enda félagsskapurinn framúrskarandi. Kann þeim Kalla, Hildigunni, Jóni Lárusi, Finnboga (efnafræðingur sem hafður var með af öryggisástæðum) og Dísu, bestu þakkir fyrir að ganga með mér þessa humluðu og beisku leið að óhjákvæmilegri niðurstöðu. Bjór er ekki tebolli baunar.

föstudagur, desember 08, 2006

Löður

Ætla að vona að ég lendi ekki í þessu í nýja kjólnum...

Er annars að fara að læra svolítið nýtt í kvöld, hann Kalli ætlar að kenna mér og nokkrum fleiri að drekka bjór. Maður skyldi ætla að það væri létt verk og löðurmannlegt, en svo er víst ekki.

Bloggið mitt er ótrúlega sjálfhverft. Ég veit það. Stefni á að skrifa eitthvað göfugt og mannbætandi við fyrsta tækifæri.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Svart er rauði liturinn í ár

Fór út á land í gær, í Kópavoginn, og skoðaði m.a. nýju búðina Egg. Fullt af jólaskrauti þar, næstum allt svart. Hvað eru menn að pæla?

Skondraði svo yfir í Smáralind og sá ótrúlega fallegan kjól í Söru. Mig langar svo í hann. Lét taka hann frá, er að hugsa. Á ég að kaupa hann? Kostar 10 þúsund kall, en hann er svo flottur....reyndar er ég svo gorgeous í honum að mig langar að sofa hjá sjálfri mér.

miðvikudagur, desember 06, 2006

Kaffistofuhjal

Ónafngreind kona lét út úr sér þessa ágætu setningu: "Nú, þau sátu bara þarna í friði og sperrt."

Búin að borða yfir mig af nammi, margir vinnufélagar að koma frá útlöndum um þessar mundir...og þeir koma allir með gotterí fyrir okkur eymingjana sem aldrei bregða sér af bæ.

þriðjudagur, desember 05, 2006

Viðbragðsfræði og tíhíhí

Mikið assgoti sá ég athyglisvert starfsheiti í Fréttablaðinu í dag. Svæða- og viðbragðsfræðingur.

Mér datt strax í hug manneskja sem felur sig bakvið hurð, stekkur fram, segir BAH! og gaumgæfir viðbrögð þolanda, skráir hjá sér niðurstöður og prófar síðan aftur að bregða viðkomandi við aðrar aðstæður (á öðrum svæðum).

Var annars í úbarpinu áðan, í þættinum Samfélagið í nærmynd. Ég hló soldið mikið, en það er normalt fyrir mig. Segi og skrifa. Árans glaðlyndið.

mánudagur, desember 04, 2006

laugardagur, desember 02, 2006

Hálfnað er verk...

þá hafið er. Þvílíkt kjaftæði.

Ég er búin að þrífa einn eldhússkáp, þvo einn glugga, hengja upp eina seríu, kaupa eina jólagjöf. Veð úr einu í annað, en geri þó mest af því að stara út í loftið.

Nenni þessu ekki. Finn pressuna. Jólin. Langar að böggla þessu rækallans óyndi saman og troða því oní kassa, loka fast, labba með það út í Laugarnes og kasta í sjóinn. Langt út. Eða fara niður að Tjörn og gefa öndunum eirðarleysið úr mér. Held þeim sé það ekki ofgott.

Bull, ergelsi og firra.

föstudagur, desember 01, 2006

Þetta finnst mér fyndiðLitli drengurinn á myndinni heitir Leonardo di Caprio. Og líkust er ég Emmu Watson sem leikur Hermione í Harry Potter myndunum. O sei sei.

Notaði aðra mynd um daginn og þá var ég lík Condoleezzu Rice (omg stafsetningin á þessu nafni), Pamelu Anderson og einhverjum gaur (sem ég man ekki hvað heitir).

Þetta er nú meira bullið. Tölvur eru vitlausar, það hef ég alltaf sagt.