laugardagur, desember 29, 2007

Bloggvettlingi valdið

Klukkan slær hest. Klukkan slær geit. Skiptir ekki öllu máli, því flest dýrahljóðin hljóma eins og stunginn grís (klukkan tólf). Nýja eldhúsklukkan mín er æði, mér dauðbregður í hvert sinn er hún rýtir, hneggjar, geltir, galar, mjálmar eða gargar.Hér gefur að líta blogghanska, eða bloggvettlinga eins og þeir eru stundum kallaðir í Trékyllisvík. Fyrir utan augljósa fegurð eru bloggvettlingar þarfaþing. Nú hlæ ég við hverjum hríðarbyl, get bloggað í hvaða veðri sem er. Magnað!

Jólin eru búin að vera yndisleg. Lukkan hossar mér. Mig langar að vera væmin en held aftur af mér af því að ég er svo lúthersk.

miðvikudagur, desember 26, 2007

Tíminn er dýr-mætur

Lofaði Parísardömunni snjóengli. Engilgerðin var óleiðinlegt verk.

Jólin eru best. Sérstaklega jólagjafirnar. Ég fékk m.a. bækur, blogghanska, eldhúsamboð, te, tvö flott úr, Ninu Simone dvd disk (afar eigulegan), viskustykki, jólatré úr kóktöppum, hnotubrjót, karöflu, myndavélartösku, Múgíbúgí og þénuga eldhúsklukku sem er með mynd af dýrum í stað tölustafa. Í klukkunni heyrist viðeigandi dýrahljóð á heila tímanum. Klukkan tólf er svín, klukkan sex er hani, klukkan þrjú er belja, klukkan tvö er kalkúnn. Þannig getur klukkuna vantað þrjár mínútur í hest, eða verið 22 mínútur gengin í kött. Tíminn er hvort sem er kjánaleg uppfinning og ekkert síðra að henda reiður á honum í skepnum.

Mér finnst mjög gott að vera til. Megi jólasæla umvefja ykkur í tíma og rúmi.
laugardagur, desember 22, 2007

Upp náðar rennur sól

Elskulega fólk nær og fjær.

Megi jólin færa ykkur gleði, kossa, hlýja faðma, hangikjöt, rjóma, góðar bækur, leti, hlátur, ljós, greni- og eplailm, samveru við ástvini, súkkulaði, frið í hjarta og brauð.

Jólastússið er að yfirtaka líf mitt og er það harla gott.

Gleðileg jól!

fimmtudagur, desember 20, 2007

Iðna baunin

Síðan ég fór í jólafrí (kl. fjögur í dag) hef ég:
 1. Farið í Húsasmiðjuna, Kringluna, Ikea og í búðir við Laugaveginn.
 2. Klúðrað osso bucco matreiðslu svo fruntalega að ég varð að kaupa tilbúinn mat handa gestinum mínum.
 3. Ruðst í biðröð framfyrir hrikalega frægan bloggara. Óvart.
 4. Verið föðmuð. Mikið.
 5. Komist að því að ég er ostasafnari, ísskápurinn minn er fullur af osti, m.a. geitaosti.
 6. Hugleitt hvort hinir nýmóðins takkalausu frímerkjalímmiðar geti nokkurn tímann orðið tilefni þessarar spurningar: "Viltu koma upp og skoða frímerkjasafnið mitt?" Eru þetta frímerki?
 7. Kysst húðflúr.
 8. Orðið svo rækilega hissa að ég stamaði.
Jólafrí. Yndislegt.

þriðjudagur, desember 18, 2007

Tilreiðir sér eilífðar gleði depurðar samastað syninum hjá

Það er svo margt sem ég skil ekki. Sérstaklega í geistlegum skáldskap. Skil ekki "eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár sem tilbiður guð sinn og deyr". Skil ekki heimsumból. Heyrði nýlega að jólasálmurinn "Í dag er glatt í döprum hjörtum" væri sunginn við aríu úr Töfraflautunni, sem Íslendingar hefðu ákveðið fyrir margt löngu að væri ljómandi jólaleg. Enda angurvært stef og hátíðlegt að syngja um jólagleði í jarðarfarartakti. Jú, víst er þetta fallegt, ekki móðgast, þið sem farið í kirkju á jólunum. En hvursu glatt getur verið í döprum hjörtum?

Ég veit, ég veit. Maður þarf ekki að skilja allt og ef allt væri skiljanlegt væri lítið fútt í því.

sunnudagur, desember 16, 2007

Íslenska geitin....heitin?

Ég vil geta keypt geitaost (án þess að þurfa að veðsetja ömmu). Og mér finnst að það eigi að vera hægt að kaupa geitamjólk á Íslandi, miðað við sögur af hollustu hennar.

Væri ekki leiðinlegt ef íslenski geitastofninn dæi út?

Annars er ég svolítið hlaðstiklandi þegar kemur að landbúnaði, mér þykja niðurgreiðslur ærnar í þeim geira, en er samt svo skelfilega íhaldssöm að mér finnst að við eigum að halda í íslenska hundinn, hænuna, geitina, kúna, hestinn og jafnvel íslenska bóndann.

Við Pétur og börnin bjuggum til laufabrauð í dag, auðvitað alveg frá grunni. Fengum 37 kökur (plús slatta af skönkum) úr 700 g af hveiti, sem telst þokkalegt bara. Kaupum aldrei tilbúið deig eða kökur, laufabrauð skal gert af natni, gleði og þolinmæði. Maður maular ekki búðarbrauð á jólunum (ok, þetta var doldið drýgindaleg staðhæfing).

Lifið heil og blómstrið.

laugardagur, desember 15, 2007

Nokkrar misathyglisverðar staðreyndir

 • Mig dreymir iðulega um þessar mundir að ég hágráti og stundum lem ég fólk.
 • Dóttir mín blés Brahms í klarinettið eins og básúnuengill á tónleikum í gærkvöld. Tónleikarnir voru í Sigurjónssafni og utan dagskrár spiluðu haglél og vindur ómstríða fúgu. Hélt að húsið mundi fjúka á haf út og hefði það verið mikill skaði (svona rétt fyrir jólin).
 • Drakk Tuborg jólabjór í fínu boði í gær og varð pöddufull.
 • Ég vaknaði kl. 5 í morgun með hrikalega tannpínu. Blessaður sé sá sem fann upp verkjalyfin.
 • Smakkaði piparkökur með chili, ferskum engifer og súkkkulaði og þær eru...unaðslegar. Hugi er ekki bara rauðhærður nörd, hann er líka da Vinci deigsins.
 • Skil ekkert í ykkur að hanga á netinu. Farið að jólast!

fimmtudagur, desember 13, 2007

Kanans land

Ég bjó í nokkur ár í Bandaríkjunum og líkaði það ágætlega. Var í námi í litlum námsmannabæ sem heitir Bloomington og er í Indianaríki. Reyndar var ég í allstórum háskóla, en samnemendur mínir voru um 30 þúsund talsins. Ég kynntist þeim ekki alveg öllum. Mér hefur verið fremur hlýtt til Bandaríkjanna síðan ég dvaldi þar, en eftir næníleven held ég svei mér þá að Kaninn sé að missa sýn á réttlæti, frelsi og heilbrigða skynsemi.

Lagði einu sinni ólöglega í Bloomington. Hvernig móttökur ætli ég fengi, ef mig fýsti westur um haf? Ekki beint hægt að halda því fram að Bandaríkjamenn taki hlýlega á móti stórglæpamönnum.

Aftur er veðurspáin ógurleg. Bý mig undir svefnlausa nótt.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Heilt yfir biturð

Baun er bara skensuð á bloggsíðum út um allar koppagrundir fyrir að hafa álpast inn á femin.is og fyrir að hafa sagt að femin.is hefði nú verið rakið lén fyrir Feministafélag Íslands. Skynja ólgandi fordóma gagnvart ímynd konunnar sem gluggar í sjálfshjálparbækur, er óaðfinnanlega förðuð, vel búin hjálpartækjum ástarlífsins og ávallt í drellfínum nærklæðum. Getur þessi kona ekki verið femin.isti?

Er annars í súru skapi. Svaf illa í nótt, veðrið lamdi húsið mitt af fáheyrðri vonsku. Svo sat ég í stofunni áðan og innlit/útlit rúllaði á skjánum án þess ég væri beint að horfa, en þessi þáttur nær að fara óskaplega í taugarnar á mér. Örugglega öfundsjúk út í allt þetta fallega fólk sem virðist eiga skítnóg af peningum og eyðir þeim svona glimrandi smekklega.

Djöfull er ég bitur í dag.

mánudagur, desember 10, 2007

Forskalað piparhús með osthúð

Heyrði í vinnunni í dag að Svíar smyrji gráðosti á piparkökurnar sínar. Ekki galin hugmynd, ætla að prófa það við fyrsta tækifæri.

Reyndi einu sinni að baka piparkökuhús, stakk út veggi og þak eftir auganu og bakaði. Þegar húshlutarnir komu úr ofninum voru þeir svo misstórir og skakkir að húsið leit út fyrir að vera viljandi ljótt. Nei, ok, það leit út eins og þokkalega hlaðin áramótabrenna. Hefði nú ekki verið ónýtt að geta smurt þykku lagi af gráðosti á það hrófatildur.

Börnin mín rifja upp misheppnaða kökuhúsið um hver jól og hlæja dátt að því hvað mamma var léleg í húsagerðinni. Af þessum piparkökukofaræfli hefur því spunnist meiri gleði og kátína en af nokkrum öðrum bakstri sem ég hef staðið fyrir. Svei mér þá.

sunnudagur, desember 09, 2007

föstudagur, desember 07, 2007

Bleikar eru þarfir þínar kjelling

Hef verið að spá í jólagjafir eins og títt er meðal húsmæðra í desember. Veit ekki alveg hvernig ég þvældist inn á femin.is en það gerðist. Fann þar eitt og annað uppfræðandi stöff, t.d. grein um ágæti eldri ástkvenna. Einnig rakst ég á þessa þénugu hirslu. Hvern langar í bleikan verkfærkassa í jólagjöf? Líka hægt að fá bleika neyðartösku í bílinn og margt fleira prýðilegt dót.

Hvað er ekki framleitt í bleiku? Ísaxir? Loftpressur? Fjarstýringar? Pungbindi?

fimmtudagur, desember 06, 2007

Bítur bók fés visku sama

Bið elskulega fésbókarvini mína nær og fjær og fyrirgefa mér. Ég var að bugast yfir grasserandi félagslífi sem átti sína eigin tilveru á síðunni Facebook og skráði mig því úr klúbbnum. Náði aldrei konseptinu, fannst ég bara ekki standa mig. Enn eitt til að íþyngja samvisku minni sem komin er hættulega yfir kjörþyngd.
Ég er með samviskubit yfir öllum blöðunum sem ég les ekki. Er með samviskubit yfir öllum matnum sem ég hendi, öllum vinum og ættingjum sem ég sinni ekki nógu vel. Er með samviskubit yfir því að hafa ekki sett upp jólaljósin, er með samviskubit yfir því að vera ekki byrjuð að kaupa jólagjafir, er með samviskubit yfir börnunum í Bíafra, er með samviskubit yfir þvottinum sem á eftir að brjóta saman, er með samviskubit yfir öllum fundunum sem ég missi af í skóla barna minna, er með samviskubit yfir hvað ég er fáfróð um Íslendingasögurnar, landafræði og sögu, er með samviskubit yfir fátækt í heiminum og getuleysi mínu til að mótmæla bullinu og ruglinu sem umvefur okkur. Í nánd og firð.

Legg ekki meira á ykkur.

miðvikudagur, desember 05, 2007

Hinir góðu, slæmu, ljótu og vængjuðu

Á æskuheimili mínu hékk þessi mynd uppi á vegg í þröngum svefnherbergisgangi. Mér stóð alltaf stuggur af myndinni, forðaðist að líta á hana þegar ég gekk framhjá. Sá ýmist vonda indjánakellingu eða vanskapaða uglu. Þegar ég fór að búa bað ég sérstaklega um að fá að eiga hana og hún fylgir mér enn. Ég er ennþá skíthrædd við kellingarugluna (eða karlugluna, ómögulegt að segja) en sæki í ógnina. Eins og þegar ég var barn.
Svo á ég líka þessa. Frá henni ömmu minni.

Skyldu englar vera kyngreindir? Þessi er brjóstalaus í bleikum galla. Held að englar lifi öngvu kynlífi, enda óþarfa baggi að burðast með kyn þegar maður situr á skýi og spilar á hörpu.

mánudagur, desember 03, 2007

Tíminn í flösku

Sú var tíð að ég hlustaði töluvert á nefstóran söngvara sem hét Jim Croce.

Sú var tíð að ég horfði á Prúðuleikarana og hló dátt. Fann iðulega fyrir andlegum skyldleika við Kermit (það er ekki auðvelt að vera grænn), þótt einn og einn úr vinahópnum benti nú á að brussa eins og ég líktist meira Miss Piggy en froskinum dagfarsprúða.

Viljum við geyma tímann í flösku? Þurfum við meiri tíma? Í desember tala allir um tímaskort, en aðventan er um það bil jafnlöng nú og hún hefur alltaf verið. Breytum því tæplega.

laugardagur, desember 01, 2007

Útsprungnar rósir og haus, tjillísúkkulaði og hlaup

Hef nánast ekkert hreyft mig í þrjár vikur, m.a. af því ég fór til útlanda og lagðist svo í pest. Drattaðist loks af stað áðan skokkhringinn minn góða, gekk ágætlega, fór þetta rólega. Vel klædd í hlaupaskóm útötuðum í vanillusírópi (löng saga).

En...þegar heim kom hafði hausinn á mér breyst í of lítið og þéttbýlt svæði, augun þrýstust út úr tóttunum og slím spýttist í allar áttir. Þessu fylgdi mikill sársauki, m.a. svæsin tannpína.

Hvaða ályktanir má af þessu draga?
 1. Skokk er óhollt.
 2. Skokk í frosti er óhollt.
 3. Hreyfing minnkar á manni hausinn.
 4. Vanillusíróp í skóm fer upp í iljarnar og leysist upp í blóðinu. Það veldur bólgum í höfði, klístruðu latmæli og hækkandi olíuverði.
 5. Skokk veldur tannskemmdum.
Annars er mér sama. Ég á besta súkkulaði í heimi, dökkt með kirsuberjum og chili. Svo fékk ég sendar 12 yndislegar rósir. Sprunginn haus? Who bloody cares....einhverjum þykir vænt um mig:)

Átján barna baun í rafheimum kallar kútinn

Ættum við að koma okkur upp Keisara Bloggheima? Koma skikkan á liðið, ordnúng múss sæn.

Mínar reglur í blogglestri og tenglamálum eru tilviljanakenndar, svo ekki sé meira sagt. Letibloggarar eru inni í "leshringnum" ef ég hef sentimental rísons of mæ ón til að halda þeim. Nafnleysingar eru allt of margir í bloggheimum, hef þá inni ef mér líkar það sem þeir skrifa, en er almennt á móti anóním skrifum. Hendi út fólki sem læsir síðunni sinni, sé ekki tilgang með því að tengja á það. Sumir fara út í gjörningablogg, bara smart. Svo er ein af mínum uppáhaldssíðum alltaf í skralli þessa dagana, vil leggja fram sára kvörtun yfir því. Hugi?

Spurning hvort ég ætti ekki að jólast eitthvað, er ein að potast í kotinu, strákarnir farnir til pabba síns og barnlaus vika framundan. Ætti aldeilis að hafa tíma til að skúra og skrúbba og skreyta um helgina. *Geisp* - fyrst fæ ég mér kaffi og kíki í bók.

Biturð mín þessa dagana nægir ekki til að fylla fingurbjörg.