þriðjudagur, júlí 28, 2009

Minningarkorn

Einbeitt bý ég mig undir inngöngu föðurlandsins í ESB, kaupi Euroshopper vörur hægri-vinstri og hef mynd af Össuri á náttborðinu (fyrir utan stytturnar af honum í garðinum). Ein er sú tegund morgunkorns sem ég hef fengið sérstakt dálæti á, en það eru hunangshúðuð uppblásin hveitifræ. Með gepofte tarwe á tungu standa minningar ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, minningar um áhyggjulausan stelpukjána sem ólst upp á allt öðru Íslandi fyrir mörgum áratugum.
Og þegar ég hnerraði áðan, kröftuglega, með munninn fullan af þessu dísæta evrópska loftgæti, hrutu gullkorn af vörum mér.

sunnudagur, júlí 26, 2009

Mynd sjálfsins

Slangur er af táningum í kringum mig, upp til hópa öndvegis manneskjur. Þegar ég var unglingur var heimurinn flókinn staður fyrir gelgjaða amöbu sem snerist um sjálfa sig í litlum polli. Flóknast var annað fólk, hugsanir þess, hegðun og skoðanir. Ég er nefnilega ekki viss um að sjálfhverfa unglinga snúist um þá sjálfa, heldur það sem þeir halda að aðrir haldi um þá sjálfa. Unglingar reyna að spegla sig í öllu umhverfis þá, en móttakan fyrir það sem maður sér í spegli er jú alltaf í eigin höfði.

Pollurinn er stærri í dag og lífið ábyggilega flóknara, mun fleiri fletir til speglunar. Nútíma unglingurinn er t.d. býsna iðinn við að teygja út handlegginn, setja upp stút og smella af. Reyndar á þetta svo til eingöngu við um stelpur, en þær hef ég séð taka endalausar myndir af sér, í aðskiljanlegustu pósum (þeir strákar sem ég umgengst eru flestir niðursokknir í tölvuleiki og nenna varla að skipta um nærbuxur).

Var að velta vöngum yfir þessu, þ.e. áhrifum sjálfmyndatökuæðis stúlkna á sjálfsmynd og stað þeirra í úníversunni. Held þetta sé ekki endilega slæmt, því stúlka/kona getur smellt af sér hundrað myndum og fengið allavega eina þokkalega og þá er hún valin og hinum eytt. Gott er að eiga sæta mynd í fésbók.

Spurning hvort við verðum hégómlegri (og ráðvilltari) tegund með hverri kynslóð, í réttu hlutfalli við fjölgun spegla. Og skyldi Darwin hafa verið duglegur að skipta um nærbuxur?

föstudagur, júlí 24, 2009

Um ferð

Það var fínt að vera á Akureyri, þrátt fyrir að þar væri vart þverfótað fyrir andstöðu við Evrópubandalagið.
Mér finnst Eyjafjörðurinn fallegur. Norðlendingar virðast furðu líkir öðru fólki, sem voru auðvitað viss vonbrigði. Við kynntumst vingjarnlegum ketti, sáum branduglu, borðuðum frábæran indverskan mat, fórum í Smámunasafnið og horfðum á hafnfirska víkinga skylmast í miðaldaþorpi að Gásum. Ég missti af hvalaskoðun, veiðiferð o.fl. skemmtilegheitum vegna leiðindapestar sem ég ákvað að taka með mér suður. Aaahhhtsjú!
Þokan sem lá yfir (einhverju) fjalli við Húnaflóann minnti á draugalega hárkollu. Þetta var á leiðinni norður. Á leiðinni suður munaði hársbreidd að við dræpumst vegna gáleysislegs framúraksturs manneskju sem var með hárkollu yfir augunum, hvað veit ég, hún keyrði allavega ekki eins og hún sæi umhverfið. Bíllinn var rauður og hjartað mitt brjálaðist úr hræðslu.

Ég er fegin að vera komin heim. Og mér þótti gott að faðma börnin mín áðan.

miðvikudagur, júlí 15, 2009

Nytfegurð

Brugðum okkur nú síðdegis á Nytjamarkað ABC hjálparstarfs og þar var gaman að gramsa. Rakst á þennan platta (sem hlýtur að vera þýfi - slíkt gæfi enginn frá sér), en hann ber karlmönnum fortíðar fagurt vitni. Árið 1978 kunnu menn sko að tríta konur.*
Get síðan varla lýst ósvikinni og botnlausri gleði minni er ég fann þessa eigulegu styttu. Það yljar manni um hjartarætur að sjá hversu fallega listfengir aðilar hafa heiðrað minningu Ingólfs Guðbrandssonar.


*Eins og glöggir vita er hér vísun í góðrasiðahöfðingjann Kleópötru Kristbjörgu

mánudagur, júlí 13, 2009

Sagan um pústfólkið

Enn þjáist ég af ísfíkn. Sem hefur þær aukaverkanir að ég er alltaf að kaupa ís. Ég hef komist að því, eftir nákvæmar vettvangsrannsóknir, að ísbúðir eru undantekningalítið á ókræsilegum stöðum. Ísbúðir eru á bílastæðum. Ef maður ætlar að borða ísinn sinn úti, þá er ekki annað í boði en að sitja í pústfnyk, umkringdur bílum. Í um helmingi þessara kyrrstæðu bíla situr fólk kjamsandi á ís. Fólkið hefur bílinn í gangi við ísneysluna, ekki spyrja mig af hverju, þannig að senan óvistlega mengast kröftuglega af hávaða og skítabílafýlu. Rækalli undarlegt.

Vona að ég fyllist aldrei pylsufíkn, því þá biðu mín langdvalir á öðrum vinsælum matsölustað í huggulegu umhverfi. Bæjarins bestu.

laugardagur, júlí 11, 2009

Andtrú

Ég trúi ekki á stjörnuspá, ég trúi ekki á miðla, ég trúi ekki á andaglas, ég trúi ekki á drauma, ég trúi ekki á spákonur, ég trúi ekki á galdra, ég trúi ekki á forlög, ég trúi ekki á heilun, ég trúi ekki á drauga, ég trúi ekki á ofurhetjur, ég trúi ekki á guð, ég trúi ekki á líf eftir dauðann, ég trúi ekki á hráfæði, dítox eða árunudd.

Ég er myrkfælin og hrædd við trúða. Og mig dreymdi skæri í nótt.

fimmtudagur, júlí 09, 2009

Gellur

Miklar mótbárur bárust frá börnunum á heimilinu þegar þessi réttur var borinn fram í kvöld.

mánudagur, júlí 06, 2009

Límonaði sítrónufólksins (gjaldeyrisskapandi skapandi þáttagerð raunveruleikans)

Á Skjáeinum er annar hver þáttur svokallaður "raunveruleikaþáttur". Slíkir þættir virðast mér gjarnan snúast um einhverja keppni (eða keppi, sbr. "The biggest loser"). Sjá má lið leysa raunveruleg sakamál (Murder), ungar stúlkur keppa í tíkarskap og fyrirsætufærni (ANTM), lið elda mat, vinna við glanstímaritagerð, þrauka í nábýli við snáka, eitraða froska og lygara, svo fátt eitt sé nefnt. Það þykir sem sagt spennandi að sjá "venjulegt fólk" í óvenjulegum aðstæðum.

Íslenska þjóðin (guð blessi hana) er ekki stór. Hún er lítil og sæt, ótrúlega mikið rassgat. Ég legg til að við bjóðum okkur fram til að vera eitt stykki raunveruleikaþáttur, heiminum til skemmtunar. Og fá borgað fyrir. *

Ætti að vera létt verk og löðurmannlegt að grafa upp lið hér á landi. Ekkert þarf að breytast, bara finna grípandi nafn á krógann, útjaskað selebb til að stjórna, og koma með kamerukrúið.

Action!


*í hvaða gjaldmiðli sem er nema íslenskum krónum

föstudagur, júlí 03, 2009

Þjóðmál, menning og lús

Á forsíðu blaðsins Grapevine gefur að líta afar upplýsandi mynd um æseifhelvítisandkotanshelvítið.Einu verð ég að fá að kvarta yfir. Ekki nóg með að ég sé beygð yfir ástandi þjóðar minnar, heldur er komin blaðlús í klettasalatið mitt úti á svölum. Blaðlús er útsendari kölska og eina vopn mitt gegn henni er grænsápa. Skíman að það dugi.

En þrátt fyrir lúsina vil ég efla menningarstig lands og lýðs. Bendi ykkur hér með á öndvegis fínt tímarit. Það heitir Tíu þúsund tregawött, ritstjóri er Hildur Lilliendahl.

Guð blessi Ísland.

miðvikudagur, júlí 01, 2009

Clint óskast, má hafa með sér byssu

Sit hér með nokkrum unglingum og horfi á The good, the bad and the ugly. Merkileg ræma og stórundarleg tónlist. Og Clint er alltaf...*sæluhrollur*.
Strákarnir mínir eru dottnir í gamlar myndir, í gær horfðum við á Psycho. Þeir hlógu dátt að sturtuatriðinu, fannst það óborganlega fyndið. Mér var ekki hlátur í hug þegar ég sá þessa mynd í gamla daga, gat varla farið í sturtu lengi á eftir. Meira hvað bíómyndir brenndu sig inn í vitund manns, eftir að ég sá Jaws, gat ég varla farið í bað (þetta fer að hljóma eins og ég hafi oft verið óhreint ungmenni).

Ísland vantar Clint. Hann mundi ganga hreint til verks og skjóta verðbólguna.