miðvikudagur, september 23, 2009

sunnudagur, september 13, 2009

Baun flytur

Hef ákveðið að hætta að leika tveimur bloggskjöldum og er flutt hingað. Ef þið yfirgefið mig öll við þennan gjörning, þá mun ég gráta í sjö vikur samfleytt.

Er ekki alveg viss um að ég kunni við mig á nýja staðnum og ef mér líkar vistin illa, þá kem ég aftur hingað. Maður er jú sæmilega færanlegur í rafheimum og þarf ekki að bera sína rafrænu búslóð í gulum fötum.

Haustið er tími breytinga.

laugardagur, september 12, 2009

Tossalisti

Þar sem ég vinn alla virka daga mér til húðar og get lítið sinnt öðru, hef ég ætíð stór plön um helgar. Ég meina, tveir heilir dagar til að gera allt sem þarf að gera og eitthvað pínulítið af því sem mig langar að gera. Áætlun helgarinnar er þéttpökkuð og lítur svona út:

1. Þvo og merkja sultukrukkur.

2. Hafa miklar og stöðugar áhyggjur af húsnæðismálum dóttur minnar sem hélt til náms í Skotlandi og var svikin af forhertum klækjakvendum. Aldrei að treysta fólki sem heitir Bond.

3. Ígrunda sláturgerð.

4. Brjóta niður stromp (annað hvort fer hann eða ég).

5. Vera víðsfjarri sjónvarpinu annað kvöld, ef vera skyldi að enn ein hunda-hestamyndin dúkkaði upp á RÚV. Afber ekki fleiri.

6. Reyna að gleyma þeirri bitru staðreynd að ég veit aldrei svarið við spurningunum í Popppunkti.

7. Forðast fréttir af fjármálum, nema féð segi me.

8. Sýna af mér flysjungshátt.

9. Taka til, fara í búð, ráða sunnudagskrossgátuna.

10. Móta framsækna framtíðaráætlun (eða ekki, ég heyrði þetta bara sagt svo gáfulega í sjónvarpsfréttum).

þriðjudagur, september 08, 2009

Bakkelsisblús

Hjónabandssæla er kjánalegt nafn á köku, en gæti verið verra (t.d. ef maður sleppti öðru essinu). Ég bakaði hjónabandssælu í kvöld. Hún brann. Ætlaði að færa fyrrverandi vinnufélögum mínum sæluna á morgun í kveðjuskyni, en hef mig ómögulega í að baka aðra. Hver nennir að baka sömu kökuna tvisvar sinnum?

Einu sinni fékk ég uppskrift að hjónabandssælu frá konu sem skildi við mann sinn tveimur vikum síðar. Þrátt fyrir að hafa aldrei þorað að nota þá uppskrift skildi ég líka einn góðan veðurdag.

Af þessu má draga þann lærdóm að hjónabandssæla er hafrakaka með rabbarbarasultu.

föstudagur, september 04, 2009

Út í aldraðan buskann

Get ekki mælt með heilsubótargöngu um Sundahöfn að kvöldlagi. Rölti þetta ein um daginn og varð lafhrædd, enda hverfið ógvuliga ljótt og skuggalegt. Brá smá þegar ég mætti varúlfi með þungbúinn gjaldeyrisafleiðumiðlara í bandi. Hann beraði tennurnar og urraði á mig.
Með hjartað í buxunum hljóp ég eina mílu þar til ég kom inn á lóð Hrafnistu og fann þar, í grösugri lautu, þarfa áminningu til reykingamanna.


Steinsnar frá Camelpakkanum lágu síðan þessir félagar og höfðu það notalegt.


Maður veltir fyrir sér hvert landið stefnir, sennilega verður það bara kjurt.