laugardagur, júlí 29, 2006

Súlur, hjálpartæki og heimilistæki

Botnsúlur. Gekk á þær í dag frá Hvalfjarðarbotni. Hvílíkur dýrðardagur, sól og logn. Ég endurtek: Sól og LOGN. Labbaði þetta með Simma og tveimur vöskum vinkonum hans. Lærði ýmislegt af ungu konunum (ég var aldursforseti, gamla hróið), t.d. um ofboðslega frægð Magna, smekk sumra kvenna fyrir hrottum og mikilvægi vandaðra efna í hjálpartækjum.

Þegar heim var komið barst mér hvítur plastpoki frá manneskju sem vill halda nafni sínu leyndu. Skil það vel, því þetta er einhver sem les reglulega bloggið mitt (óþarfi að flagga því). Í pokanum var þessi fína matvinnsluvél. Skrif mín eru semsagt farin að borga sig í beinhörðum...heimilistækjum. Takk óþekkti lesari, vélin kemur sér frábærlega:)

Já, og ég sá bæjarnafn sem vakti hljóðlátan innri fögnuð. Litli-Botn.

fimmtudagur, júlí 27, 2006

Vinir gefa manni vitaskuld...vel að éta

Varúð - afvelta baun í borginni!

Fór með hvolpana mína austur fyrir fjall í heimsókn að Þurá. Þar hittumst við 14 góðir vinir (stórir og smáir) og borðuðum himneskan lax sem hann Ari hafði strokið blíðlega, talað við, kryddað og grillað. Ég hef djúpa matarást á Ara. Hann er snillingur í eldamennsku og almennri mennsku. Almennsku?

Töluðum fram á nótt. Vígðum nýja göngubrú sem dúaði. Fórum svo í morgun fjórar vinkonur í gönguferð í Hveragerði, sáum nokkra hveri sem bulluðu í kapp við okkur, skoðuðum færeyska list og dónalegt marsipanverk í bakaríinu. Toppdagar í sveitinni:)

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Á sjó (dadddararamm)

Fór með strolluna á sjó í gær, tími til kominn að leyfa börnunum að upplifa eitthvað "raunverulegt". Vökvuðum genetískar rætur okkar með söltum sjó. Mokuðum upp ufsa, lýsu, ýsu og þorski. Þess ber að geta að ég var í galla af rússneskum sjómanni, held það hafi hjálpað. Tók skyndikúrs í að gera að fiski og var að í marga klukkutíma. Þúsund þorskar á færibandi...

Í dag á svo að búa til fiskbollur úr megninu af aflanum, eftir uppskrift frá ættingjum á Dalvík. Úff, þetta er puð...og stuð:-)

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Matvinnsluvél bíður þess að verða keypt

Getur einhver bent mér á réttu græjuna til að búa til búst-drykki? Þarf að kaupa mér almennilega matvinnsluvél og þið græjufíklar, endilega leiðbeinið mér um frumskóga vörumerkjanna.

mánudagur, júlí 24, 2006

Prinsessan vaknaði við koss frá sólinni

Komin úr sól og sælu af Suðurlandinu. Tjölduðum á Flúðum, ég og strákhvolparnir mínir, og vorum þar í magnaðri blíðu. Erum sólbrennd, glöð og sæt. Ekki lítið sem góða veðrið yljar sálinni. Og prinsessan í bauninni eflist og dafnar, held ég þurfi að vökva hana reglulega með Sancerre hvítvíni og baða í sól. Hún er nú glaðvöknuð blessunin, enda búin að sofa nógu lengi. Hvað þykist hún vera? Þyrnirós, eða hvað?

laugardagur, júlí 22, 2006

Prinsessan í bauninni

Nú á að leggjast í ferðalög til suðrænni landshluta til að verma og rækta prinsessuna í bauninni. Prinsessuna sem er stolt og stórlát og lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Prinsessuna sem fellur ekki fyrir neinum.

föstudagur, júlí 21, 2006

Hjartabank bank bank

Var að koma frá tannlækni þvoglumælt með hálfan hausinn dofinn, tannlækni sem ég hef aldrei áður farið til. Það kom ekki til af góðu, svaf lítið vegna tannpínu í nótt og var í neyð (minn tannsi í fríi). En sumsé, þegar tannsi deyfði mig, fékk ég dúndrandi hjartabrjálæði og yfirliðstilfinningu. Hélt ég væri að farast úr óþekktum sjúkdómi eða hræðslu. Tannsi setti kalt á ennið á mér og babblaði eitthvað um að lyfið hefði óvart farið í æð og blabla nýrnahetturnar í banastuði, og blabla nú liði mér eins og nauðgari væri á eftir mér og blabla adrenalín og blabla nú gæti ég hlaupið hratt (ef nauðgari væri á eftir mér). Svo hló hann hjartanlega. Sniðugur kall.

fimmtudagur, júlí 20, 2006

Rassblaut

Hnakkurinn á hjólinu mínu er undur veraldar. Hann er úr efni sem aldrei þornar. Hélt kannski að hnakkurinn yrði þurr eftir að hafa staðið heilan vetur inni í skúr, en, nei, það var ennþá vatn í honum. Ótrúlegt stöff í þessum hnakki, sogar til sín raka úr andrúmsloftinu og sleppir ekki dropa frá sér - nema á minn rass. Hef ákveðið að senda hann (hnakkinn, ekki rassinn) til Iðntæknistofnunar. Bind vonir við að hægt verði að leysa ýmis vandamál á þurrkasvæðum Afríku eftir ítarlegar rannsóknir færustu vísindamanna. Efni sem heldur vatni hvað sem á dynur hlýtur að geta nýst einhvers staðar í heiminum, þótt Ísland sé ekki endilega kjörlendi sídrukkinna hnakka.

Sumarið kom í gær

Ég dró stóra bróður minn upp á Móskarðshnjúka í gær til að fagna sumarkomunni. Yndislegt. Útsýni til allra átta og geislandi bjartsýni yfir fjöllum, dölum og bæjum.

Nú langar mig svo að skoða Kringilsárrana - veit einhver eitthvað um ferðir þangað? Ég gúgglaði aðeins og fékk lítið út úr því. Svo langar mig í aðra fjallgöngu. Hver vill koma með?

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Kýr í peysu

Sá rétt í þessu viðtal í Sjónvarpinu við kotroskinn kúabónda í lopa-belju-peysu eða belju-lopapeysu (stór brún kýr framaná með rauða tungu). Mér varð svo starsýnt á peysuna að ég gleymdi að hlusta á hvað bóndinn sagði.

mánudagur, júlí 17, 2006

Þar sem stærðin skiptir máli

Daginn eftir að ég skrifaði um Al-samsærið sá ég "landsbyggðarbílinn" Al-Erotica í eigin persónu. I kid you not - hann er RISASTÓR. Hvaða stórvöxnu hjálpartæki ástarlífsins eru þarna eiginlega á ferð? Pyntingarklefar fyrir Patreksfjörð? Rólur fyrir Raufarhöfn? Girndargámar fyrir Grindavík?

Kannski er það bara magnið. Kannski þarf fólk bara svona mikið af hjálpartækjum. En hvernig ætli stemningin sé í bænum þegar Al rennir í hlað?

sunnudagur, júlí 16, 2006

Desperate housewifes in Mixrivertown, close to Tittievalley

Jamm. Margt merkilegt hefur á daga mína drifið síðan síðast.

1. Keyrði norður á Blönduós með Lúðrasveit verkalýðsins í líki ljóshærðrar konu með liprar trompetvarir og fjölhæf raddbönd.
2. Uppgötvaði að það er ekki hægt að tjalda í Blönduósísku roki. Rokið blés svo fruntalega á tjaldið mitt að það rifnaði og súla brotnaði og svo skyrptu himnarnir á það í ofanálag.
3. Sem betur fer fann ég hjartahlýja skemmtilega konu sem skaut yfir mig og hvolpa mína skjólshúsi.
4. Hitti konu sem mig hefur lengi langað að hitta í Hörpukoti. Einnig ljóðavinkonu mína kæra.
5. Rétt missti af Ken, hann var í permanenti og strípum og svo fór hann á körling æfingu. Heyrði þó á því hvernig talað er um hann að þetta er vænn piltur og gjörsamlega laus við stjörnustæla.
6. Singstar. Ég var hópfúl (ráðlagt að halda í mína daglaunavinnu)
7. Stuðmannaball. Geggjað!

föstudagur, júlí 14, 2006

Allt er best í hófi...líka skynsemin

Löngum hef ég verið lítil fjármálakona. Skynsemi minni hefur þar verið í hóf stillt, en þó ekki um of. Það hefur borið við að ég "lendi" í fjárfestingum, sem sumir myndu kalla "sérstakar". Ætla að nefna ykkur þrjú dæmi.

1. Þegar ég var nýbyrjuð að búa með mínum fyrrverandi bankaði uppá, í litlu kjallaraholunni okkar, sölumaður einn brosmildur. Við hjónin áttum bara okkur sjálf, skuldir og eitt lítið barn. Sölumanninum tókst á yfirnáttúrulegan hátt að selja okkur heildarútgáfu Laxness með vænum afborgunum sem náðu, að mig minnir, yfir tvö ár.

2. Skömmu síðar fluttum við til Amríku og drógum þar fram lífið á einu námsláni til að byrja með, lifðum á hormónahakki og öðrum vibba, áttum ekki einu sinni sjónvarp eða húsgögn. Ákváðum einn daginn að skoða stórborgina Indianapolis og rákumst þar á herrafataverslun. Þar úti í glugga sáum við smókingföt á tilboði. Asskoti góðu hreint. Áður en við höfðum velt vöngum yfir almennri gagnsemi smókingfata, skelltum við okkur á tilboðið. Þessi ágætu föt voru aldrei notuð, utan einu sinni á furðufataballi. Smókingfötin eru ljómandi góð enn þann dag í dag, en þar sem þau voru keypt á sultarárunum óx eigandinn furðu fljótt uppúr og útúr þeim. Hafið þið velt því fyrir ykkur hve sárgrætilega fá tækifæri eru fyrir fólk að skella sér í smóking?

3. Dagurinn í dag. Ég skítblönk, rekst inn í fornbókaverslun. Slíkar búðir ætti ég að forðast eins og heitan eldinn (og skóbúðir). Ég nota reyndar smá trix í skókaupum - tala um stykkjaverð, sumsé ef ég kaupi skó á 8000 krónur, þá segi ég að þeir hafi kostað 4000 (stykkið...segi ég svo lágt). En þetta var nú smá útúrdúr. Ég er stödd í fornbókabúð. Blasir þá ekki við mér bók sem ég er búin að vera að leita að í ljóðabókasafnið mitt - í mörg ár! Og þarna sat hún á syllu. Fyrir framan nefið á mér. Ég varð að eignast hana. Greiddi fyrir hana bílverð, þ.e. sama og ég fengi fyrir minn, eða 15 000 krónur (prangaði verði niður úr 20 000 og fékk gamalt eintak af Passíusálmum í kaupbæti). Nú ætla ég að reikna verðið út. Með minni hóflegu skynsemi. Bókin kostaði ekki nema 416 krónur - per blaðsíðu.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Al - við sjáum í gegnum þig

Smáauglýsingar dagblaðanna eru skemmtilegar skúffur að róta í. Búin að vera heima lasin og lagðist í lestur smáauglýsinga, út úr leiðindum býst ég við. Fann reyndar ýmislegt forvitnilegt, t.d. sílíkonfyllta brjóstahaldara, silunganet, 8 vikna persneskt fress og túnþökur. Sérstaka athygli mína vöktu tvær auglýsingar, önnur frá Al-spá, en þar er hægt að kaupa "miðlun, drauma, ráðgjöf, heilun, fyrirbænir, NLP (???), símaspá, einkatíma" og síðast en ekki síst þjónustu sem örugglega kemur mörgum vel, en Al-spá finnur "týnda muni". Hin auglýsingin sem vakti forvitni mína var frá fyrirtæki sem heitir Al-Erotica og á henni er mynd af voldugum flutningabíl. Al-Erotica er "landsbyggðarbíllinn" sem færir fólki í hinum dreifðu byggðum hjálpartæki ástarlífsins...til sölu (sérstaklega tekið fram). Fyrir áhugasama er rétt að benda á að "landsbyggðarbíllinn" verður í Grindavík 11.-14.7. Jamm og já.

Skyldi vera tilviljun að bæði fyrirtækin heita Al-eitthvað? Er hér komin falin tenging við Al-can? Al-coa? Al-freð?

sunnudagur, júlí 09, 2006

Hjartans vol og væl

Nú ætla ég að ganga í klaustur. Karlmenn eru ekkert nema vandræði.

Ætli það eyðileggi fyrir mér að ég fór á heiðingjaráðstefnu? Æ, svo fór ég líka í eitt heiðingjagrill (þar sem grillaðir voru kristnir menn). Jæja. Þá ætla ég bara að halda áfram að hugsa um Dressman auglýsinguna. Bara ponsulítið.

(Er að grínast í ykkur, það er önnur auglýsing sem ýtir á mína takka).

fimmtudagur, júlí 06, 2006

Gúggílígú, gúggílígí, híhíhí

Í dag er sól. Í dag er ég glöð. Í kvöld ætla ég að bjóða góðum vinum í mat.

Finnst ykkur að ég ætti að kíkja á útsölur? Vantar mig föt? Tjáið ykkur um þetta þjóðþrifamál.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

Ný sýn

Það tekur á að skilja. Skyldi vera tilviljun að sögnin "að skilja" getur haft nokkrar merkingar? Það að skilja hefur breytt mér. Í kjölfar skilnaðarins gerði ég stór mistök og lenti í ýmsum hremmingum og kom ekki vel út úr þeim. Það sem verra var, ég missti að vissu leyti sýn á hvað var raunverulegt. Skilnaður snýr lífi manns á hvolf og maður er ekki í góðu jafnvægi eftir slíka reynslu. Þetta skilja þeir sem hafa skilið, eða ættu að skilja það alla vega. Séu þeir almennilegt fólk.

Ég missti líka að vissu leyti sýn á hverjir vilja mér vel og hverjir ekki. Dómgreind mín á fólk bjagaðist. Manneskja sem ég hélt að vildi mér illt, vildi mér ekkert illt. Manneskja sem ég hélt að vildi mér gott, vildi mér ekkert gott, heldur sigldi undir fölsku flaggi.

Nú er ég reynslunni ríkari. Út úr hremmingunum mun ég koma varkárari, víðsýnni, þroskaðri, umburðarlyndari og betri manneskja. Því trúi ég og þakka þeim sem hjálpa mér á þessari grýttu leið. Ég þakka þeim sem vilja mér vel.

þriðjudagur, júlí 04, 2006

(Mis)lesið í konur og karla

Þátturinn á RÚV á mánudagskvöld fannst mér áhugaverður. Fyndnast fannst mér að sjá að allir þessir vísindamenn, allar þessar rannsóknir og mælingar - spáðu ekki fyrir um rassgat þegar á hólminn var komið. Kannski vísindamenn séu með dyslexíu þegar lesa á í konur og karla.

Lífið er flókið. Svo einfalt er það.

Lin og græn

Ég er enn á lífi, en er búin að vera lin ORA baun, ein úti í horni og búið að stíga á mig þannig að grænt innvolsið liggur úti. Og mér sem finnast Bonduelle baunir betri en ORA. Framandi og franskar. Ekki kramdar og íslenskar.

En ég næ mér. Verð stinn og fersk eins og eðalfín erta:)

sunnudagur, júlí 02, 2006

Stend sjálf

Í dag ætla ég að skúra íbúðina mína hátt og lágt og hefja nýtt líf. Er ekki hver dagur von um nýtt líf? Sjálfstæðið er í ræktun, ég mun næra það og hlú að því og gæta þess eins og sjáaldurs auga míns.