föstudagur, júlí 14, 2006

Allt er best í hófi...líka skynsemin

Löngum hef ég verið lítil fjármálakona. Skynsemi minni hefur þar verið í hóf stillt, en þó ekki um of. Það hefur borið við að ég "lendi" í fjárfestingum, sem sumir myndu kalla "sérstakar". Ætla að nefna ykkur þrjú dæmi.

1. Þegar ég var nýbyrjuð að búa með mínum fyrrverandi bankaði uppá, í litlu kjallaraholunni okkar, sölumaður einn brosmildur. Við hjónin áttum bara okkur sjálf, skuldir og eitt lítið barn. Sölumanninum tókst á yfirnáttúrulegan hátt að selja okkur heildarútgáfu Laxness með vænum afborgunum sem náðu, að mig minnir, yfir tvö ár.

2. Skömmu síðar fluttum við til Amríku og drógum þar fram lífið á einu námsláni til að byrja með, lifðum á hormónahakki og öðrum vibba, áttum ekki einu sinni sjónvarp eða húsgögn. Ákváðum einn daginn að skoða stórborgina Indianapolis og rákumst þar á herrafataverslun. Þar úti í glugga sáum við smókingföt á tilboði. Asskoti góðu hreint. Áður en við höfðum velt vöngum yfir almennri gagnsemi smókingfata, skelltum við okkur á tilboðið. Þessi ágætu föt voru aldrei notuð, utan einu sinni á furðufataballi. Smókingfötin eru ljómandi góð enn þann dag í dag, en þar sem þau voru keypt á sultarárunum óx eigandinn furðu fljótt uppúr og útúr þeim. Hafið þið velt því fyrir ykkur hve sárgrætilega fá tækifæri eru fyrir fólk að skella sér í smóking?

3. Dagurinn í dag. Ég skítblönk, rekst inn í fornbókaverslun. Slíkar búðir ætti ég að forðast eins og heitan eldinn (og skóbúðir). Ég nota reyndar smá trix í skókaupum - tala um stykkjaverð, sumsé ef ég kaupi skó á 8000 krónur, þá segi ég að þeir hafi kostað 4000 (stykkið...segi ég svo lágt). En þetta var nú smá útúrdúr. Ég er stödd í fornbókabúð. Blasir þá ekki við mér bók sem ég er búin að vera að leita að í ljóðabókasafnið mitt - í mörg ár! Og þarna sat hún á syllu. Fyrir framan nefið á mér. Ég varð að eignast hana. Greiddi fyrir hana bílverð, þ.e. sama og ég fengi fyrir minn, eða 15 000 krónur (prangaði verði niður úr 20 000 og fékk gamalt eintak af Passíusálmum í kaupbæti). Nú ætla ég að reikna verðið út. Með minni hóflegu skynsemi. Bókin kostaði ekki nema 416 krónur - per blaðsíðu.

Engin ummæli: