miðvikudagur, mars 30, 2005

Það var erfitt..

að fara í vinnuna í dag. Eftir langt og gott páskafrí var ég ekki í stuði til að kljást við þetta dags daglega vinnudæmi. Það er líka svo margt að gerast í kringum mig sem ég get ekki sagt frá hér af því að þetta blogg er ekki bleik dagbók með litlum hjartalaga lás sem maður stingur oní í náttborðsskúffu. Ég átti svoleiðis þegar ég var 12 ára og fyllti hana af barnalegum pælingum um lífið og tilveruna og byrjaði hverja færslu á "kæra Dagga". En þessar barnalegu pælingar mínar komu nú til af því að ég var barn, hugsaði eins og barn og skrifaði eins og barn. Það er afsökun í sjálfu sér. Nú hugsa ég eins og fullorðin og haga mér eins og barn. Eða er það öfugt? Æ, ég veit það ekki. Góða nótt kæra Dagga.

þriðjudagur, mars 29, 2005

Hvað er svona..

merkilegt við orðið RAKSÁPUPÁSKAR? Pælið í því.

Sonur minn situr hér í næsta herbergi með vini sínum og þeir tala mál sem ég skil ekki baun í - þeir eru að tala um Yu-Gi-Oh spil. Hvað er eiginlega málið með þessi spjöld? Þeir tala um defense og attack og "armed dragon" og "vampire lord" og "dragon´s rage" og "zombie effect". Svo heyrir maður setningar eins og "þetta eru sjaldgæfir gaurar", "þessi kall meiðir þúsund meira". Og peningar koma við sögu. Það er prúttað og býttað og samningar eru harðir, svo harðir að Jón Ásgeir mundi fölna af öfund ef hann heyrði samningatækni þessara 10 ára gutta (og sennilega ráða þá í vinnu).

Heyrði þessa óborganlegu setningu um daginn: Það var fermt mig í morgun.

Auk þess var ég að fá nýtt netfang og langar að upplýsa það hér: betaa@simnet.is
It´s MINE, my own, my precioussss...

mánudagur, mars 28, 2005

Búin að...

gera tvennt í dag. 1. Fara í fermingarveislu hjá bróðursyni mínum. 2. Draga fram hjólið mitt eftir langt vetrarhlé, stíga á bak fáknum og hvílík sæla. Það er svooo gaman að hjóla. Prófið bara sjálf.

sunnudagur, mars 27, 2005

Ég er hógvær...

kona, já örugglega hógværasta konan á landinu (haha), en verð að fá að skýra frá því að ég á tvo frábæra syni. Annar þeirra er seigur skákmaður, 13 ára að aldri. Um nýjustu afrek hans má lesa hér . Hann heitir Matthías (eins og afi).
Í gær fórum við fjölskyldan í matarboð í sveitina, að Þurá í Ölfusi. Þar búa öðlingar og miklir vinir okkar hjóna, Rúna, Ari og Eggert (sem er heimasætastur á bænum). Þau gáfu okkur Pernod flamberaðan humar í forrétt, hreindýrafillet (besta kjöt sem ég hef smakkað, svei mér þá) og döðlutertu með karamellusósu í eftirmat. Ég hef skilyrðislausa matarást á Rúnu og Ara.

laugardagur, mars 26, 2005

Það er sá tími ársins...

að sérstakt andrúmsloft skapast á heimilinu. Eiginmaðurinn er búinn að hlaða háum stöflum af alls kyns nótum, sneplum, bréfsnuddum og kvittunum á borðstofuborðið. Maður rétt sér glitta í þjáningarfullt andlitið milli Manhattanlandslags pappírshauganna. Það heyrast stunur, andvörp og stöku bölv og ragn. Ég og börnin göngum um húsið, hnípin og hljóð og pössum okkur á að vera ekki með þessa venjulegu heimtufrekju. Ég reyni að réttlæta gagnsleysi mitt í skattskýrslumálum með því að hugsa bljúg hugsanir eins og: En elsku Pétur minn, ég gekk nú með þessi þrjú börn okkar í marga marga mánuði, ældi samanlagt í eitt ár og fæddi þau svo í heiminn (og það var ekki þægilegt), það hlýtur að jafnast á við nokkrar skattskýrslur, ha? Svona segi ég auðvitað aldrei upphátt, skárra væri það nú. Það er örugglega mjög erfitt að gera skattskýrslu.

föstudagur, mars 25, 2005

Föstudagurinn langi...

er dagurinn í dag. Heilsan er komin í lag og ég ætla að drífa kallinn út að labba. Læt hér fljóta með ljóð sem ég orti endur fyrir löngu á þessum árstíma.

Leiðin

við sitjum hér öll í strætó
fálátir baksvipir
fyrir augunum

við sitjum hér öll í strætó
hráblaut
ókunnugramannalykt
í nösunum

við sitjum hér öll í strætó
angurblítt suð
gamallar dægurflugu
í eyrunum

við sitjum hér öll í strætó
með mismiklar áhyggjur
af þjáningum frelsarans

við sitjum hér öll í strætó
hoss hoss hoss
ding

fimmtudagur, mars 24, 2005

Öl er böl...

og ég ætla aldrei að drekka aftur. Ó, gleði, ógleði. Við hjónakornin vorum í dásamlegu matarboði í gær hjá vinum okkar. Og matarboð hjá Sigga Flosa og Villu eru ekki bara matarboð. Þau eru listræn upplifun, guðdómleg veisla fyrir öll skynfæri. Forréttur, ferskur aspas með valhnetum, fennel og geitaosti. Aðalréttur, nautasteik (sem þau kveiktu í á saltstráðri pönnu, hei, ég er að fatta núna að það hlýtur að vanta batterí í reykskynjarann hjá þeim). Eftirréttur, súkkulaðimúss með himneskum berjum. Kaffi. Og svo: VÍN, hvítt og rautt og nóg af því. Ég kunni mér ekki hóf í gleðinni, og það var svooo gaman (hikk). Siggi og Villa eru höfðingjar. En ég og hausverkurinn ætlum að leggja okkur núna.

þriðjudagur, mars 22, 2005

Allt að koma...

Ég er búin að reyna í 3 mínútur að skilja hvernig þetta blogg virkar og þar með er þolinmæði mín á þrotum. Reyndi í 4 mínútur að finna út úr myndakerfi, en fékk ekkert út úr því nema einhvern skrítinn fæl sem vill síðan ekki fara út úr tölvunni minni (ekki hægt að eyða). Kannski er ég búin að selja sál mína fyrir túkall. Reyni ekki einu sinni að finna út úr kommentakerfi. Eftirlæt svo tæknilegar pælingar Ástu dóttur minni, sem er snillingur, en ekkert endilega TÖLVUsnillingur.

mánudagur, mars 21, 2005

Óhamin hamingja

Nú er ég byrjuð að blogga að áeggjan dóttur minnar og óska ég sjálfri mér og heppnum lesendum innilega til hamingju með þennan gleðilega viðburð.