laugardagur, mars 26, 2005

Það er sá tími ársins...

að sérstakt andrúmsloft skapast á heimilinu. Eiginmaðurinn er búinn að hlaða háum stöflum af alls kyns nótum, sneplum, bréfsnuddum og kvittunum á borðstofuborðið. Maður rétt sér glitta í þjáningarfullt andlitið milli Manhattanlandslags pappírshauganna. Það heyrast stunur, andvörp og stöku bölv og ragn. Ég og börnin göngum um húsið, hnípin og hljóð og pössum okkur á að vera ekki með þessa venjulegu heimtufrekju. Ég reyni að réttlæta gagnsleysi mitt í skattskýrslumálum með því að hugsa bljúg hugsanir eins og: En elsku Pétur minn, ég gekk nú með þessi þrjú börn okkar í marga marga mánuði, ældi samanlagt í eitt ár og fæddi þau svo í heiminn (og það var ekki þægilegt), það hlýtur að jafnast á við nokkrar skattskýrslur, ha? Svona segi ég auðvitað aldrei upphátt, skárra væri það nú. Það er örugglega mjög erfitt að gera skattskýrslu.

Engin ummæli: