miðvikudagur, maí 24, 2006

Ritað í rafeindir

Vefdagbók. Blogg. Þessi þörf. Þessi fíkn í að lesa um líf annarra og dreifa hugsunum á netið.

Ég byrjaði að blogga fyrir rúmu ári, hægt og hikandi. Mér hefur vaxið ásmegin á þessu stormasama ári. Held ég hafi jafnvel ánetjast netinu, þrái það, hugsa um það með (líkamlega) löngun í fingrum þegar ég er fjarri tölvu. Er ekki enn orðin msn-fíkill, en gæti hæglega orðið það. Ég sé ekki efnisleg skil lengur á milli dóttur minnar og fartölvunnar hennar - hún er í stöðugu sambandi við fólk á msn. Bíbb-bíbbið þegar einhver "talar" eða "sænar inn" orðið hluti af hljóðum heimilisins. Eins og hljóðið í þvottavélinni. Eins og dempaður ómurinn af þungarokkinu úr æpodd-eyrum eldri sonarins. Eins og skarkið í leirtauinu þegar ég þvæ upp. Og Hjalti minn sá eini sem nennir stundum að tala við mömmu sína. Þegar hann er ekki að salla niður skrímsli í Warcraft. Þegar mamma er ekki hangandi á netinu.

Drottinn blessi heimilið.

mánudagur, maí 22, 2006

Pipar og piparkerlan ég

Féll fyrir auvirðilegri brellu auðvaldsins í dag. Fór í Fylgifiska og keypti þar öndvegis fisk. Spurði lipra afgreiðslukonu um heilan pipar og lét pranga inn á mig lífrænum Maldon piparkornum (handtíndum sunnarlega í ekrunni). Þessi svarti pipar kostaði hvítuna úr augunum. Gæti trúað að stykkjaverðið væri um 100 kr. per korn.

Ó, ég er svo veiklunduð stundum...

sunnudagur, maí 21, 2006

Gúmmí halelúja

Ég á nú ekki krónu. Kántríbandið gúmmíhúðaða, Lordí, vann.

Samgleðst Finnum en verð að játa að ég hálfkvíði næsta Júróvisjón. Meiri líkur á að latexbylgja ríði yfir Evrópu að ári en fuglaflensa.

föstudagur, maí 19, 2006

Nú er sumar

og þá drekk ég stundum hvítvín. Langar að mæla með Franck Millet - Sancerre (2004). Yndislegt vín. Eðalfranskt.

(Þessi vínauglýsing kemur örugglega til með að gleðja frænku mína Miss Templar-Jones).

Og ég er ekkert súr yfir júróvisjón. Dáist að því hversu kjörkuð Ágústa er, að hafa haldið út/i svona erfiða/ri manneskju eins og Silvíu Nótt (og dag).

Hef einlæga samúð með fólki sem hefur húmor sem enginn fattar. Þetta er alltaf að koma fyrir mig.

miðvikudagur, maí 17, 2006

Ég er hrifin af fíflum


og fagna þeim á hverju vori.Í íslenskri samheitaorðabók er að finna 75 samheiti yfir heimskingja en aðeins eitt yfir gáfumenni.(örfá dæmi: drundi, glappi, golþorskur, trefill, gljáni, járnhaus)

mánudagur, maí 15, 2006

Hóplíkamar og hóstaköst

Sá aldeilis sérdeilis framúrskarandi dans um helgina, Grupo Corpo. Vissi ekki að dans gæti rifið mann svona rækilega uppúr hversdagslegum heiladoðanum.

Slæmt þótti mér að fá heiftarlegt hóstakast á sýningunni. Rækalli (svo ekki sé meira sagt) andstyggilegt. Ég reyndi að hósta í takt við kröftuga mússíkkina þegar færi gafst en þess á milli hristist bekkurinn af innibyrgðu hóstaskrímsli á stærð við Akrafjallið. Sem vildi frelsi til að svífa um í stóra sal Borgarleikhússins. Baun tók hraustlega á móti og glímdi við hryðjurnar af þekktri þrjósku. Á endanum hafði Baun betur og ríkti friður um hríð. Skrímslið fékk sér kríu (sem ég hafði verið svo séð að stinga oní tösku og það var líka ágætt því þá hætti hún að garga).

Ætti að banna hóstaköst á sýningum. Ætli sé ekki hægt að setja upp hóstaleitarhlið við innganginn?

föstudagur, maí 12, 2006

Allt sem er gult, gult, finnst mér vera fallegt...

Viðkvæmir lesi ekki lengra en hingað. Já, STOPP sagði ég.

Var að koma úr Bónus. Við frystinn fékk ég óstöðvandi nefrennsli, svona lapþunnt úr annarri nösinni. Hélt fyrir nefið og strunsaði að tissjú-rekka, reif þar upp pakkningu og svo gott sem kláraði hana á staðnum.

Rennslið var gult. Bónusgult. Getsvosvariða.

Beið lengi skelfd eftir að úr hinni nösinni færi að streyma líka. Bleikt.

(Skyldi hvefið vera að hefna sín af því að ég talaði illa um það?)

fimmtudagur, maí 11, 2006

Söööönnnudaaags-baunarblúúús...noooo mooore...

DADDADADAMM! Úrslit. Dómnefnd lá yfir fantagóðum tillögum og frábærum hugmyndum. Samtals bárust um 50 tillögur frá 10 keppendum - Útifríki, Kalla, Elínu, Ástu, Geir, Krúttu, Lindu, Hugskoti, Gesti og Bala. Hugmyndirnar báru hjartalagi ykkar fagurt vitni. We are impressed. We are moved. We are amused.

Vinningstillagan er skemmtileg, praktísk og algerlega framkvæmanleg. Hún hljóðar svo:

"Annars er mín tillaga að þú rífir einhverja(r) af þessum einhleypu bloggstelpum, sem þurfa greinilega stundum hressingar við, og farið saman á vel valið kaffihús síðdegis á sunnudegi. Þar getið þið talað t.d. bæði vel og illa um karlmenn og sötrað kaffi eða jafnvel léttvín. Svo ef þetta vekur blússandi lukku getið þið bara skellt þessu í kæruleysi og fengið ykkur kvöldmat til að þurfa ekki að elda."

Ég á reyndar eftir að fínpússa hugmyndina örlítið, en mun við næsta tækifæri tilkynna stað og stund fyrir bloggara, þ.e. þá sem hug hafa á að hittast og spjalla síðdegis á sunnudegi. Og ég held, sveimérþá, að það séu ekki bara bloggstelpur sem þurfi hressingar við, við og við;)

Vinningshafi er Kalli. Til hamingju Kalli! *klappklappklapp* Fyrsta skref til að vitja vinningsins er að senda mér póst í elisabetar@simnet.is

Þakka ykkur öllum fyrir frábærar hugmyndir - þið eruð best:)

þriðjudagur, maí 09, 2006

Þið, svona bráðvelgefið fólk,

hafið örugglega velt þessu fyrir ykkur. Af hverju byrjar allt þetta á H?

Hósti
Hálsbólga
Hor
Hnerri
Hausverkur
Hæsi

Ætti svona pest ekki að heita hvef?

Maður bara spyr. Í Heimsku sinni. Með sinn Herðakistil. Og Hælsæri. Og Háþrýsting.

mánudagur, maí 08, 2006

Ætti að banna það

þetta rækallans kvef að vori. Er heima, algerlega raddlaus og heilsulaus. Varð bara að fá að henda þessari kvörtun (já, nú kvarta ég) útí rafgeiminn.

Þakka þeim sem lásu.

Sunnudagsbaunarblúskeppnin - framhald

Dúndrandi fín viðbrögð við sunnudagsblúskeppninni. Úrslit verða tilkynnt á fimmtudaginn. Það má skila inn þangað til, leggið nú hausinn í bleyti (í vökva að eigin vali).

Til að forðast misskilning, þá er ég ekki beint einmana þegar börnin fara til pabba síns, þetta er meira eins og instant tómleiki. Og ég er ekki að kvarta yfir neinu, því ég er fádæma lánsöm kona. Veit líka að börnin eru í góðum höndum þessa viku sem ég sé þau ekki. En þetta er gríðarleg breyting á lífstaktinum, að vera með börnin sín bara aðra hverja viku. Og ekki nema hálft ár síðan ég skildi (eftir 22 ára hjónaband). Hvort sem þið eigið börn eða ekki, þá hljótið þið að geta ímyndað ykkur hversu stór breyting það er í lífinu. Góður vinur minn (fráskilinn) benti mér á að vera alltaf með eitthvað undirbúið daginn sem börnin fara til fyrrverandi. Það er einmitt annar hver sunnudagur, og ég hef ekki verið nógu dugleg að plana áhugaverða hluti síðdegis á sunnudögum. Tillögur ykkar geta pottþétt hjálpað mér að sjá eitthvað skemmtilegt við sunnudaga:)

Ef þið eruð feimin að kommenta hér, þá megið þið senda póst á elisabetar@simnet.is

Svo langar mig að óska henni Steinunni eðalfrænku minni hjartanlega til hamingju með afmælið (vona að hún lesi ekki að sonur hennar, nýfermdur, skilaði inn tillögu í keppni þar sem verðlaunin eru áfengi. Sussususss!)

sunnudagur, maí 07, 2006

Nú getið þið grætt á baunarblús elskurnar

Hvað á maður að gera á sunnudögum þegar börnin eru farin til pabba síns og mann langar bara að breiða sængina upp fyrir haus - yfir tómleikann og sjálfan sig? Allt svo hljótt í íbúðinni og maður þarf ekki einu sinni að rífast í krökkunum til að komast að í tölvunni. Heil barnlaus vika framundan...

Og deit-gaurinn farinn út í sveit. Ó mig arma.

Tillögur? Einhver?

Þar sem þetta eru aðstæður sem ég lendi í aðra hverja viku hef ég ákveðið að veita verðlaun fyrir bestu tillöguna. Svo þið leggið ykkur virkilega fram. Verðlaunin eru vegleg, eða eitt stykki rauðvínsflaska. Príma vín.

Hvað er hægt að gera skemmtilegt á sunnudögum til að hrinda frá sér blúsnum? Koma svo!

laugardagur, maí 06, 2006

Í kommentakerfum landsmanna

er ástin títt nefnd um þessar mundir. Eitthvað liggur í loftinu. Ég hangi inni og les um líf annars fólks. Veðrið er frábært, yndislegt, dásamlegt en ég er með massa kvef. Hef ekki kvefast að gagni í allan vetur. Talandi um tímasetningar (hver var að því?).

Í kvöld fer ég á deit. Hlakka ótrúlega mikið til. Vona bara að vorhorið frussist ekki oní forréttinn. Gæti aðeins slegið á rómó stemninguna. Ah-ah-ah-tsjú!

föstudagur, maí 05, 2006

Þykk eru augnlok hússins við hliðina á mér

Ég er búin að venjast því að hafa nær engin gluggatjöld. Finnst yndislegt að leyfa gömlu fallegu gluggunum mínum að njóta sín. Hleypa inn birtu og síbreytilegri umhverfislist. Nágrannar mínir, sem eiga eldhúsglugga gegnt mínum eldhúsglugga, eru ungt par með lítið barn (venjulega á bakinu). Held þau séu indjánar. En, sumsé, þegar ég flutti inn þá voru þau ekki með gardínur hjá sér, frekar en ég hjá mér. Ég og indjánafjölskyldan horfðumst í augu yfir sjéríosinu á morgnana. Við vöskuðum upp saman. Allt var í gúddí fílíng.

En...ég var ekki búin að búa hér lengi þegar indjánafjölskyldan hafði komið sér upp rammgerðum gluggatjöldum fyrir eldhúsgluggann. Gætu verið myrkvunartjöld (af þykkustu sort).

Hef velt því fyrir mér hvort nágrannarnir séu svona viðkvæmir fyrir nekt. Eða smekklegum fórnarathöfnum.

miðvikudagur, maí 03, 2006

Live long and prosper


Ég hef mjög gaman af vísinda-skáldskap. Datt algerlega inn í Star Trek þegar ég bjó í Bandaríkjunum. Finnst líka Babylon 5 einhverjir bestu þættir sem ég hef séð. Er ég nörd? Hugsanlega. Skammast ég mín fyrir það? Nei. Ætla ekki að bæla lúðann í mér lengur heldur æpa hér út í rafgeiminn: Hei, ég fór einu sinni á Star Trek ráðstefnu! Hún var haldin í Indianapolis og beið ég lengi í biðröð til að fá bók áritaða hjá Nichelle Nichols (sem eins og allir vita) lék Communications Officer Uhura í upprunalegu Star Trek seríunni. Ó, já. Þá er það komið út í loftið.


Lifið lengi og blómstrið.

þriðjudagur, maí 02, 2006

Það er nebbla það


Babe Exchanging Touches and Affection


(próf sem ég rakst á hjá mæ ex)

mánudagur, maí 01, 2006

Ríkir viðburðir

Síðan síðast er ég búin að:

- fljúga norður, á verði utanlandsferðar, án þess að sýna passa eða kaupa toblerone
- ganga berfætt í norðlenskri fjöru, í heitum mjúkum sandi...
- renna mér niður hæsta fjall Norðurlands á sleða sem var eins og risavaxið skærgult uppblásið dömubindi með vængjum og handföngum. Fór eins og elding niður fjallið, sá ekki neitt og hló svo mikið að ég gat ekki andað
- æfa mig í norðlensku, gengur bara vel að skilja og lesa hana, en er léleg að tala hana