miðvikudagur, maí 24, 2006

Ritað í rafeindir

Vefdagbók. Blogg. Þessi þörf. Þessi fíkn í að lesa um líf annarra og dreifa hugsunum á netið.

Ég byrjaði að blogga fyrir rúmu ári, hægt og hikandi. Mér hefur vaxið ásmegin á þessu stormasama ári. Held ég hafi jafnvel ánetjast netinu, þrái það, hugsa um það með (líkamlega) löngun í fingrum þegar ég er fjarri tölvu. Er ekki enn orðin msn-fíkill, en gæti hæglega orðið það. Ég sé ekki efnisleg skil lengur á milli dóttur minnar og fartölvunnar hennar - hún er í stöðugu sambandi við fólk á msn. Bíbb-bíbbið þegar einhver "talar" eða "sænar inn" orðið hluti af hljóðum heimilisins. Eins og hljóðið í þvottavélinni. Eins og dempaður ómurinn af þungarokkinu úr æpodd-eyrum eldri sonarins. Eins og skarkið í leirtauinu þegar ég þvæ upp. Og Hjalti minn sá eini sem nennir stundum að tala við mömmu sína. Þegar hann er ekki að salla niður skrímsli í Warcraft. Þegar mamma er ekki hangandi á netinu.

Drottinn blessi heimilið.

Engin ummæli: