Sá aldeilis sérdeilis framúrskarandi dans um helgina, Grupo Corpo. Vissi ekki að dans gæti rifið mann svona rækilega uppúr hversdagslegum heiladoðanum.
Slæmt þótti mér að fá heiftarlegt hóstakast á sýningunni. Rækalli (svo ekki sé meira sagt) andstyggilegt. Ég reyndi að hósta í takt við kröftuga mússíkkina þegar færi gafst en þess á milli hristist bekkurinn af innibyrgðu hóstaskrímsli á stærð við Akrafjallið. Sem vildi frelsi til að svífa um í stóra sal Borgarleikhússins. Baun tók hraustlega á móti og glímdi við hryðjurnar af þekktri þrjósku. Á endanum hafði Baun betur og ríkti friður um hríð. Skrímslið fékk sér kríu (sem ég hafði verið svo séð að stinga oní tösku og það var líka ágætt því þá hætti hún að garga).
Ætti að banna hóstaköst á sýningum. Ætli sé ekki hægt að setja upp hóstaleitarhlið við innganginn?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli