þriðjudagur, mars 29, 2011

At kerfi semda huga

Hér þarf að taka til. Það þýðir ekki að yfirgefa Eyjuna í fússi og fara svo ekki lengra en inn í ruslakompu. Er ekki viss hvort ég nenni að halda úti tveimur bloggum en langar samt að pimpa þetta gamla hró upp. Það er ekki hægt án þess að tapa öllum athugasemdum, sem eru mörg þúsund talsins og hver annarri betri (af því að lesendur mínir eru svo gáfaðir).

Kommentajálkurinn gamli, Haloscan, varð fyrir fjandsamlegri yfirtöku viðrinis sem kallast Js-Kit Echo (alveg vonlaust fyrirbæri). Til að bæta gráu ofan á svart heimta þessir Echobjánar pening fyrir "þjónustuna". Bölvaðir kapitalistar sem kunna ekki að skammast sín.

Svoleiðis er það nú. Úr fyrsta spenanum kemur undanrenna.

sunnudagur, mars 27, 2011

Sáð

Í gær var fyrsti í vori. Ásta mín kom heim í frí. Og svo er ég byrjuð að sá, ekki vonum fyrr.

Keypti 6 lítil páskaegg frá Nóa-Síríus í gær til að borða eftir fagnaðarmálsverðinn sem ég hélt Ástu minni. Í dag uppgötvaði ég að plastumbúðirnar eru fyrirtaks sáðbakki, geri maður lítil göt á hólfin. M.a.s. áfast lok sem leggst yfir helming hólfanna.

Nú ætla ég út í búð að kaupa fleiri svona páskaegg, það er nefnilega ódýrara að kaupa þau en sáðbakka í Blómavali.

föstudagur, mars 25, 2011

Músík og tilraunir

Fór á Músíktilraunir í kvöld, það var upplifun. Kraftur og sprúðlandi sköpunargleði, mikill hávaði. Rosalega gaman. Speedmetall, Sigurrósarflauel, popp, paunk, elektrópopp, hljóðbrandaramúsík, þungarokk, krúttmetall og djassmetall. Afar fjölbreytt tónlist.

Eitt vakti furðu mína. Tíu hljómsveitir tróðu upp í kvöld, 3-4 krakkar í hverju bandi, sumsé 30-40 manns. Hvað haldið þið að hafi verið margar stelpur þarna?

Þrjár.

Maður veltir fyrir sér hver útdeili sjálfstrausti meðal ungs fólks á tónlistarbraut. Sá gefur lítið fyrir ályktanir jafnréttisráðs.

Spes. En allavega. Hljómsveit sonar míns komst áfram, klapp klapp.

miðvikudagur, mars 23, 2011

FA

Augnabliks veikleiki og fésbúkskrattinn stekkur til. Í gærkvöld féllu varnir og ég bað Hjálmar um að lesa fyrir mig girnilegan kommentahala hjá henni Þórdísi. Ölvun snjallyrðanna dugði halann á enda, en svo steyptist skömmin yfir eins og flögrandi kalkúnn.

Ég mun verða staðföst. Ég skal.

Það versta var að Hjálmar skrifaði status um að ég hefði fallið í freistni.

mánudagur, mars 21, 2011

Einræningjahjal

Ég á mínar veiku stundir. Langar aftur á fésbúksófétið. Sakna góðra vina minna þar. En það er svo margt flókið á fésbúknum. Maður á til að láta þvaðrið í sumum fara í taugarnar á sér, þótt viti borin manneskja ætti að vera yfir það hafin.

Í gegnum blogg, og síðan fésbúk, hef ég kynnst skínandi mannverum. Þær eru til í alvöru, allavega sumar. Það verður hver að svara fyrir sig hvort hann sé til í alvöru. Sumar týpur eru auðvitað lyginni líkastar.

En nú er ég sumsé í mánaðarbindindi frá FB og vona að ég lifi það af. Af hverju bindindi? Af því að ég var farin að hanga allt of mikið í tölvunni og vanrækja annað athæfi, t.d. bóklestur, bróderingar og stefnulausan slæping. Það er ekki gott fyrir einræning eins og mig að vera of mikið í tölvunni.

Og svona fyrst ég er hætt á Eyjunni, fannst mér liggja beint við að fara aftur á gamla staðinn. Á eftir eitthvert dúllerí við að uppfæra tenglalista og annað. Það er ósköp stirt þetta "template", get ekki lagað það án þess að tapa öllum kommentum. Færslurnar hér eru orðnar tæplega 1200 talsins og að viðbættum þeim sem birtust á Eyjunni og á hinu blogginu hef ég puðrað út í loftið um 1300 færslum - maður er enginn nýgræðingur í bransanum. Spekin yfirgengileg (og öllum aðgengileg).

Blogg spogg gogg rogg mogg fogg klogg.

sunnudagur, mars 20, 2011

Fínörtuð

Sonur minn segir að ég eigi til að vera bitur. Sem minnir mig á félagið Bitrar en boðlegar, fínt kompaní fráskilinna kvenna (það lagði upp laupana fyrir nokkrum árum en lifir í minningunni).
En fari það í mórauðan mykjuhaug, ég kýs að krydda líf mitt útvalinni biturð fremur en lifa í kjánalegum barnaskap.Þar sem ég stend á ákveðnum tímamótum (sem eru í hausnum á mér og kallast höfuðmót), hef ég hætt á fésbúknum. Í bili eða lengur. Skarð fésbúks hefur verið fyllt af Guðrúnu frá Lundi. Var að enda við bók hennar Svíður sárt brenndum, þar sem segir af Köllu Jóelsdóttur frá Mýrarkoti og dálaglega monthananum og búskussanum Birni Ísakssyni. Mikil öndvegis skáldkona var Guðrún frá Lundi og synd að hún skuli ekki vera uppi í dag svo hún gæti notið þess að vera hunsuð af stjórnanda Kiljunnar.

Eiginlega eftirskrift: Puttinn á mér hlýtur að vera límdur á púlsinn, var rétt í þessu að frétta að flutt hafi verið tvö erindi um Guðrúnu frá Lundi við afhendingu Fjöruverðlaunanna. Og mikið er ég ánægð með að Kristín Steinsdóttir skyldi fá verðlaun fyrir Ljósu, það átti hún sannarlega skilið.

laugardagur, mars 19, 2011

Kreppuráð Betó gamla

Auk þess legg ég til að illa nýtt hráefni Árnastofnunar verði seld til matargerðar á næstu Food and fun hátíð. Hagnaður renni í ríkissjóð.

Matseðill

Marineruð AM 149 fol Ceviche og ostafrauð

Jónsbókarsúpa með ristuðum leturhumri og sólseljurjóma


Salad Ni
çoise með Galdrakverstartar

Blandaður handritabakki með spennandi og fersku hráefni: AM 116 fol, áll, lax, Grágás og stökkar Ketilsbókarrúllur


Postulasögur með karmeluðum skinnverkum og lífrænu súkkulaði


Fyrir börnin

Djúpsteiktir Eddukvæðaborgarar með tómatsósu

sunnudagur, mars 13, 2011

Genetíska

Í sumar sem leið varð ég fyrir barðinu á bragðskynsbrenglun sem nefnist furuhvoftur. Það var óskemmtileg lífsreynsla sem fær mig til að forðast furuhnetur eins og pestina. En ekki var nóg á mína tungu lagt, onei. Eftir skæða flensu fyrir u.þ.b. mánuði gerðist tvennt: ég hætti að geta drukkið kaffi og kúgaðist ef ég fann lykt eða bragð af agúrkum.

Sem betur fer lagaðist kaffióþolið, einhverja miskunn á guð tungunnar til. En agúrkur eru ennþá limur andskotans.

Nú vill svo til að móðir mín hefur alltaf sagt að gúrkur væru viðbjóður. Ég hef hlegið góðlátlega að þessari vitleysu í henni, enda gúrkur eiginlega næsti bær við vatn sem þarf að tyggja.

Á gúrkuhatrinu finnst skýring. Hún er genetísk og vel þekkt. Þetta er allt mömmu að kenna. Það er bara eitt sem ég ekki skil: Af hverju tók sig upp þetta gen hérna megin við fimmtugt?