sunnudagur, mars 20, 2011

Fínörtuð

Sonur minn segir að ég eigi til að vera bitur. Sem minnir mig á félagið Bitrar en boðlegar, fínt kompaní fráskilinna kvenna (það lagði upp laupana fyrir nokkrum árum en lifir í minningunni).
En fari það í mórauðan mykjuhaug, ég kýs að krydda líf mitt útvalinni biturð fremur en lifa í kjánalegum barnaskap.Þar sem ég stend á ákveðnum tímamótum (sem eru í hausnum á mér og kallast höfuðmót), hef ég hætt á fésbúknum. Í bili eða lengur. Skarð fésbúks hefur verið fyllt af Guðrúnu frá Lundi. Var að enda við bók hennar Svíður sárt brenndum, þar sem segir af Köllu Jóelsdóttur frá Mýrarkoti og dálaglega monthananum og búskussanum Birni Ísakssyni. Mikil öndvegis skáldkona var Guðrún frá Lundi og synd að hún skuli ekki vera uppi í dag svo hún gæti notið þess að vera hunsuð af stjórnanda Kiljunnar.

Eiginlega eftirskrift: Puttinn á mér hlýtur að vera límdur á púlsinn, var rétt í þessu að frétta að flutt hafi verið tvö erindi um Guðrúnu frá Lundi við afhendingu Fjöruverðlaunanna. Og mikið er ég ánægð með að Kristín Steinsdóttir skyldi fá verðlaun fyrir Ljósu, það átti hún sannarlega skilið.

1 ummæli:

Matthías Pétursson sagði...

"Mikil öndvegis skáldkona var Guðrún frá Lundi og synd að hún skuli ekki vera uppi í dag svo hún gæti notið þess að vera hunsuð af stjórnanda Kiljunnar."
XD