fimmtudagur, janúar 26, 2006

Að skilja og læra.

Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt um sjálfa mig. Skilnaður er ekki alvondur. Hélt ég yrði óróleg, hrædd eða ómöguleg við að vera ein. Svo kemur bara í ljós að mér líður vel einni og hræðist það ekki baun. Finnst það m.a.s. undurgott stundum. Set bara stút á varir og ligg uppi í rúmi með bók. Þá er ég Beta Garbó.

miðvikudagur, janúar 25, 2006

Eilíbbð.

Fór fyrir allnokkru í jarðarför, eða "gróðursetningu" eins og fjögra ára frændi minn kallar það, og þá varð til þessi pæling. Finnst ykkur ekki annars fallegra að vera gróðursett en jarðsett? Það finnst mér að minnsta kosti.

Jarðarför
hvít kista utan um
hvíthærðan mann
blómsveigar
brak í hörðum bekkjum

presturinn lofar
niðurlútum kirkjugestum
að hinn látni muni aftur upp rísa

sé útundan mér
eitt grátt hár
liggja grafkyrrt og stíft
á lúinni fjöl

í þessu eina hári
lykill að manni
lokaður inni

í gráu hári
á kirkjubekk

mánudagur, janúar 23, 2006

Merkilegt...

að breskur fræðimaður hafi fundið út að dagurinn í dag sé ömurlegasti dagur ársins. Vísindalega sannað. Reglan er sú að "ömurlegasti dagur ársins" sé sá mánudagur sem næstur er 24.janúar. Ég þekki snilling sem á afmæli þennan dag - hana Vilborgu. Hún er reyndar pínu seinheppin, ljóshærð og lágvaxin, en ekkert ömurlegt tengi ég við hana og hennar ágæta afmælisdag 24.janúar. Hún er bara frábær! Til hamingju með afmælið Vilborg mín:-)

sunnudagur, janúar 22, 2006

Tíminn og börnin.

Tempóið er sérstakt þegar maður er ekki með börnin. Dreif mig ekki einu sinni í uppvask í gær, þótt nægan hefði ég tímann. Ég tók bara tímann, fyrst hann var minn, og sóaði honum. Honum var alveg sama.

Skellti mér svo í bíó seint í gærkvöldi. Sá franska mynd sem var - tímasóun.

Það skiptast á vikur þar sem ég hef tíma og börn. Þetta venst og mér er farið að finnast lífið harla gott. Svei mér þá.

Einu upprisukommenti hafði ég fastlega reiknað með í keppninni (frá ákveðnum aðila). Það er svona, "lífið er ekki bara leikur, heldur líka dans á rósum."

Góðar stundir.

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Úrslit.

Dómnefnd hefur lokið störfum. Ekki var auðvelt að velja úr vönduðum og upplyftandi athugasemdum, en eftir allnokkra yfirlegu koma hér úrslitin.

Upprisukomment janúarmánaðar 2006 er:

Einki er so ringt, at tað ikki er gott fyri okkurt.

Samdóma álit dómnefndar var að þarna væri á ferð speki sem væri eins og lífið sjálft, torræð, hljómfögur, jarðbundin - en lyfti þó jafnframt anda (lesanda) í hæstu hæðir.

Vinningshafi er Ásta. Hún er vel gjörð stúlka sem lærir löngum stundum stærðfræði og blæs þess á milli í lúður. Annað fæst hún lítið við. Verðlaun hennar eru þetta gagaraljóð:

Til Ástu
Þá nístir andann nóttin svört,
narta í sálu beittar klær,
lýsir af þér, ljómar björt
og lífið aftur við mér hlær.

Sérstaka viðurkenningu fá Pétur fyrir framlag sitt "Rammvillt er hamingjuhjólið" og Ásta fyrir "Dúglig móðir elur lata dóttur".

Ef einhverjum þykir dómnefnd hygla ættingjum og fyrrum eiginmönnum úr hófi, þá vil ég segja að hann gæti haft nokkuð til síns máls.

Að lokum eru hér skítaverðlaun fyrir fáránlegustu uppörvun aldarinnar (Jenný frænka sagði mér að vakna kl. 5 og horfa á Formúlu).

Jenný þó sveitt í mig stálinu stappi
stanslaust af heitri elju og kappi
er úti að aka
eins og bíbí og blaka
og bjáninn Alonso formúlu-tappi.

Legg ekki meira á ykkur að sinni, en vil af öllu hjarta þakka keppendum fyrir kommentin. Allar innsendar tillögur lyftu anda mínum og margar líka munnvikunum.

sunnudagur, janúar 15, 2006

Upprisukomment mánaðarins.

Frestur til að skila inn tillögum um upprisukomment janúarmánaðar hefur verið framlengdur um einn sólarhring. Dómnefnd þarf meiri tíma til að ígrunda þær vönduðu athugasemdir sem inn hafa streymt. Andi baunar er upplyftur og jafnvel upprisinn.

Það skal hér með upplýst að verðlaun fyrir upprisukomment mánaðarins er kvæði um sendandann, bragarháttur sniðinn að persónuleika og útlitseinkennum verðlaunahafa.

Spennan magnast. Enn er hægt að senda inn gleðivekjandi athugasemdir. Bræður mínir og systur - finnum nú enn fleiri ástæður til að fara framúr á morgnana. Hversu erfitt getur það verið?

föstudagur, janúar 13, 2006

Fullt tungl,

föstudagurinn 13.´

ÖMURLEGUR dagur. Þori ekki að taka dýpra í árinni, því lengi getur vont versnað. Og ef þessi vondi dagur versnar þá get ég nú bara farið að pakka saman.

En...
nú verður nýstárlegum leik hrundið af stað. Upplífgunarsamkeppni. Í fyrsta sinn á Íslandi. Leikreglur eru einfaldar. Þið eigið að segja (eða gera) eitthvað sem lyftir anda mínum og jafnvel munnvikum. Glæsileg verðlaun í boði.

Úrslit verða gerð heyrinkunn á sunnudag. Endilega spreytið ykkur á að finna eitthvað sem baun getur glaðst yfir.

Áfram félagar, koma svo!

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Velviljaður hroki?

Þegar ég skrifaði undir kaupsamning að íbúðinni minni, nýorðin sjálfstæð kona, þá lenti ég í því að þurfa að greiða stóra upphæð við undirritun, sem ég vissi ekki fyrirfram að ég þyrfti að greiða, enda hafði þjónustufulltrúi minn í bankanum fullvissað mig um að peningar myndu ganga beint á milli banka og fasteignasölu, án minnar milligöngu. Hvað um það, ég þurfti að leita á náðir fyrrverandi eiginmanns, kyngja stoltinu og byrja okkar fráskilda líf á því að biðja hann að lána mér stóra fjárupphæð. Hann brást ljúfmannlega við þessu, eins og hans er von og vísa. En...þegar fasteignasalinn heyrði nafn míns fyrrverandi eiginmanns missti hann kúlið og æpti upp yfir sig: Þú ert þó ekki að skilja við hannn PÉTUR? Þennan SÓMAMANN? Áfram hélt hann óðamála: Pabbi hans og mamma, þetta er svo mikið sómafólk, og pabbi hans heldur svo skemmtilegar ræður!

Og fasteignasalinn jós drykklanga stund úr sér yfir þessu magnaða óréttlæti. Kom á daginn að hann var fyrrverandi sveitungi fyrrverandi tengdaforeldra minna og varla málkunnugur fyrrverandi eiginmanni mínum. Vonlegt að honum hafi brugðið.

Í dag lenti ég síðan í því að vinnufélagi minn (þið megið geta hvors kyns hann er) sagði að ég "ætti" að taka aftur saman við minn fyrrverandi. Ekki veit ég af hverju þessi vinnufélagi minn telur sig vera þess umkominn að deila út slíkum ráðum, enda er hann sjálfur í yfirgengilegu basli með sitt einkalíf. En það hindrar fólk sko ekki í að "vita hvað er öðrum fyrir bestu", greinilega auðveldara að segja öðrum hvað þeir eigi að gera en að fara eftir eigin ráðleggingum. Þetta minnir mig á setningu sem Ragga Gísla sagði einu sinni í ódauðlegri mynd, hún var einhvern veginn svona: Þú einblínir bara á flísina hjá nágrannanum en tekur ekkert nótis af bjálkanum í þér!

Fékk fyrir mörgum árum uppskrift að hjónabandssælu hjá konu sem skildi við manninn sinn 3 vikum síðar. Ég bakaði aldrei köku eftir þessari uppskrift.

Og hvaða lærdóm má svo draga af þessu öllu saman? Bíð spennt eftir svörum.

mánudagur, janúar 09, 2006

Himnatár.

Mætti halda að himnarnir séu að ganga í gegnum skilnað, svo mikið hafa þeir grátið undanfarið.

Fína íbúðin mín heldur heldur ekki vatni. Vatn drýpur úr lofti og flæðir úr gluggum í stofunni. Málningin bólgin og krumpuð á víxl, pottar, vaskaföt og skálar úti um öll gólf. Og dripp-dropp heldur vöku fyrir dótturinni viðkvæmu (sem setti sokkavöndul upp á rönd í eina skálina til að dempa hljóðið).

Minnir mig á vísu sem ég lærði sem barn - allt sem í henni kemur fram hef ég nú upplifað:

Dropar detta á minn koll
dropar detta oní poll
dropar detta allt í kring
og dinga-linga-ling.

Ég hef ekkert grátið enn af þessum sökum, bara bölvað soldið. Ekki á flóðið bætandi.

sunnudagur, janúar 08, 2006

Á djamminu...

í gær fann ég sanna ást. Reyndar eignaðist ég tvo góða vini. Þeir heita Gin og Tóník. Bestir saman, báðir í einu.

laugardagur, janúar 07, 2006

Margt býr í þokunni...

í hausnum á mér.

Ópalskotin sem ég fékk í frábærum félagsskap í gærkvöldi hreinsuðu aðeins til. Verst hvað ég hnerraði mikið.

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Nú ætlar kerlan...

hún Beta aldeilis út á lífið. Matarboð og þrettándagleði hjá Steinunni bestufrænku og á laugardaginn djammkvöld með sómakærri giftri vinkonu, sem dregin verður á "singles barina". Mér skilst að Thorvaldsens bar sé vænlegasti veiðistaðurinn. Tvíeykið frækna, Þóra þrusugella og Beta beib, ætlar aldeilis að sletta úr klaufunum.

Legg ekki meira á ykkur.

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Mamma

gaf mér brún leðurstígvél. Ótrúlega flott. Fór á útsölur með henni og það var svo gaman. Svo fór ég heim til foreldrasettsins og fékk kjúkling sem pabbi eldaði af snilld. Mamma og pabbi eru frábær.

Keypti annars ýmis fataplögg á útsölunum, já og alveg sjálf. Fátt var orðið eftir í skápunum mínum sem passaði (lesist réttlæting fyrir eyðslu) vegna áhrifaríkasta megrúnarkúrs í heimi. Skilnaðarkúrnum. Mæli samt ekki sérstaklega með þessum kúr, hann er harkalegur.

En nú ætla ég út á lífið í nýju fötunum. Leikhúsferð plönuð, búið að bjóða mér í partí um helgina og bara stuð og stemning. Það er líka tími til kominn að ég hunskist út úr húsi.

mánudagur, janúar 02, 2006

Hvort er...

ástin þráhyggja eða fíkn?

Eða er hún kannski eitthvað allt annað? Fólk rembist við að skilgreina þetta fyrirbæri, en ég held að ekki sé hægt að skilja ást, frekar en það er hægt að skilja ilmandi birki, flauelsmjúkan barnsvanga eða hverfult andartak djúprar gleði. Skiljum við betur hvað rós er ef við lesum 200 síðna úttekt á efnafræðilegri samsetnigu hennar? Nei, má ég þá heldur biðja um Gertrude Stein.

Vís húsvörður sem ég þekkti einu sinni, hann Víglundur sálugi, sagði oft: maður þarf ekki að skilja allt.

Það er bara alveg rétt hjá honum.