miðvikudagur, janúar 18, 2006

Úrslit.

Dómnefnd hefur lokið störfum. Ekki var auðvelt að velja úr vönduðum og upplyftandi athugasemdum, en eftir allnokkra yfirlegu koma hér úrslitin.

Upprisukomment janúarmánaðar 2006 er:

Einki er so ringt, at tað ikki er gott fyri okkurt.

Samdóma álit dómnefndar var að þarna væri á ferð speki sem væri eins og lífið sjálft, torræð, hljómfögur, jarðbundin - en lyfti þó jafnframt anda (lesanda) í hæstu hæðir.

Vinningshafi er Ásta. Hún er vel gjörð stúlka sem lærir löngum stundum stærðfræði og blæs þess á milli í lúður. Annað fæst hún lítið við. Verðlaun hennar eru þetta gagaraljóð:

Til Ástu
Þá nístir andann nóttin svört,
narta í sálu beittar klær,
lýsir af þér, ljómar björt
og lífið aftur við mér hlær.

Sérstaka viðurkenningu fá Pétur fyrir framlag sitt "Rammvillt er hamingjuhjólið" og Ásta fyrir "Dúglig móðir elur lata dóttur".

Ef einhverjum þykir dómnefnd hygla ættingjum og fyrrum eiginmönnum úr hófi, þá vil ég segja að hann gæti haft nokkuð til síns máls.

Að lokum eru hér skítaverðlaun fyrir fáránlegustu uppörvun aldarinnar (Jenný frænka sagði mér að vakna kl. 5 og horfa á Formúlu).

Jenný þó sveitt í mig stálinu stappi
stanslaust af heitri elju og kappi
er úti að aka
eins og bíbí og blaka
og bjáninn Alonso formúlu-tappi.

Legg ekki meira á ykkur að sinni, en vil af öllu hjarta þakka keppendum fyrir kommentin. Allar innsendar tillögur lyftu anda mínum og margar líka munnvikunum.

Engin ummæli: