fimmtudagur, janúar 12, 2006

Velviljaður hroki?

Þegar ég skrifaði undir kaupsamning að íbúðinni minni, nýorðin sjálfstæð kona, þá lenti ég í því að þurfa að greiða stóra upphæð við undirritun, sem ég vissi ekki fyrirfram að ég þyrfti að greiða, enda hafði þjónustufulltrúi minn í bankanum fullvissað mig um að peningar myndu ganga beint á milli banka og fasteignasölu, án minnar milligöngu. Hvað um það, ég þurfti að leita á náðir fyrrverandi eiginmanns, kyngja stoltinu og byrja okkar fráskilda líf á því að biðja hann að lána mér stóra fjárupphæð. Hann brást ljúfmannlega við þessu, eins og hans er von og vísa. En...þegar fasteignasalinn heyrði nafn míns fyrrverandi eiginmanns missti hann kúlið og æpti upp yfir sig: Þú ert þó ekki að skilja við hannn PÉTUR? Þennan SÓMAMANN? Áfram hélt hann óðamála: Pabbi hans og mamma, þetta er svo mikið sómafólk, og pabbi hans heldur svo skemmtilegar ræður!

Og fasteignasalinn jós drykklanga stund úr sér yfir þessu magnaða óréttlæti. Kom á daginn að hann var fyrrverandi sveitungi fyrrverandi tengdaforeldra minna og varla málkunnugur fyrrverandi eiginmanni mínum. Vonlegt að honum hafi brugðið.

Í dag lenti ég síðan í því að vinnufélagi minn (þið megið geta hvors kyns hann er) sagði að ég "ætti" að taka aftur saman við minn fyrrverandi. Ekki veit ég af hverju þessi vinnufélagi minn telur sig vera þess umkominn að deila út slíkum ráðum, enda er hann sjálfur í yfirgengilegu basli með sitt einkalíf. En það hindrar fólk sko ekki í að "vita hvað er öðrum fyrir bestu", greinilega auðveldara að segja öðrum hvað þeir eigi að gera en að fara eftir eigin ráðleggingum. Þetta minnir mig á setningu sem Ragga Gísla sagði einu sinni í ódauðlegri mynd, hún var einhvern veginn svona: Þú einblínir bara á flísina hjá nágrannanum en tekur ekkert nótis af bjálkanum í þér!

Fékk fyrir mörgum árum uppskrift að hjónabandssælu hjá konu sem skildi við manninn sinn 3 vikum síðar. Ég bakaði aldrei köku eftir þessari uppskrift.

Og hvaða lærdóm má svo draga af þessu öllu saman? Bíð spennt eftir svörum.

Engin ummæli: