miðvikudagur, maí 30, 2007

Fallegt hár í landi Marmite og gólfteppaÞrátt fyrir eilífðar stormbeljanda og ekkert skjól skemmti ég mér býsna vel í útlöndum. Bróðir minn hugsaði vel um litlu systur sína, keyrði um allt eins og herforingi, reyndar alltaf vinstra megin á veginum og fór öfugt inn í hringtorgin, en ég var ekkert að argviðrast út af smámunum. Hann steikti handa mér egg og beikon á morgnana og það fannst mér snjöll byrjun á deginum.

Í Lundúnum var þetta helst.

  1. Í húsinu hans brósa eru teppi á öllum gólfum. Gólfteppi á baðherbergjum- pissa Bretar ekki útfyrir? Hvurslags bjánaskapur er þetta eiginlega?

  2. Hárið á mér var svo fallegt í Bretlandi. Hér er það annað hvort klesst eða allt út í loftið og engin tvö hár vinir.

  3. Ég kyssti tollvörð. Hef áður kysst fangavörð en þetta var fyrsti tollvörðurinn minn. Í búningi og allt.

  4. Fór á frábæra sýningu í The Gielgud Theatre. Equus. Aðalleikararnir ekki af verri endanum, Daniel Radcliffe og Richard Griffiths. Þekkið þið þá? Þetta eru mennirnir sem leika Harry Potter og Mr. Dursley í hinum stórgóðu myndum um töfradrenginn með örið.

  5. Sá Harry Potter hlaupa um sviðið á sprellanum. Magnað.
  6. Á Tate safninu er hellingur af listaverkum.

Nú legg ég sko ekki meira á ykkur.

sunnudagur, maí 27, 2007

Blogglausi dagurinn

Fór á netkaffihús í gær og reyndi að kíkja á bloggsíðuna mína en þá kom svona melding: U-level filter. This site is blocked due to pornographic content.

Við frekari tilraunir sá ég að allar blogspot síður eru síaðar út, það létti örlítið á paranojunni.

Þegar ég kem heim ætla ég á fund Ólafs Ragnars Grímssonar með erindi. Ætla að stinga upp á 26. maí sem blogglausa deginum. Þá getum við öll notið þess að lifa einn dag án bloggs. Sé að ég þyrfti á slíku umönnunarofbeldi að halda, netfíknin er sterk. Í andartaks veiklyndi reyndi ég m.a.s. að komast á netið í símanum mínum, en það gekk ekki.

Horfði í gær á þátt í sjónvarpinu sem heitir How to find a husband. Þar var talað við ýmsa sérfræðinga sem ég hingað til vissi ekki að væru til, t.d. "date doctor", en hann greinir vanda sem viðkomandi á við að etja á stefnumótum. Síðan var rætt við "relationship psychologist" en hún greindi sambanda-vanda. Ég er búin að læra margt. Ég er hafsjór af fróðleik.

Og hvar haldið þið að ég sé núna? Jú, ég er í vinnunni hjá stóra bróður og á skrifstofunni er risa gluggi og hinum megin eru menn að bóna einkaþotu.

föstudagur, maí 25, 2007

Góðvild í punktum og kvefaður sími

Ef þú ert með annan fótinn í fortíðinni og hinn í framtíðinni þá pissaru á núið.*

Er að fara til útlanda að hitta stóra bróður. Fyrrverandi eiginmaður minn gaf mér vildarpunktana sína, þannig að flugmiðinn kostaði mig bara skattinn, 9000 kall (rútuferð á Blönduós?) og síðan ætla ég að gista hjá brósa, en hann býr í London. Ótrúlegt (og dásamlegt) hvað ég er heppin og umkringd góðu fólki.

Smá ergelsi samt, ég á Sony Ericsson síma sem tók upp á því að bjalla fimm mínútum yfir heila tímann í alla nótt. Engin ljós birtust, bara hljóð (svona reminder hljóð). Ég sé ekki neinar stillingar í símanum sem skýra þessa ósvinnu og þetta hefur aldrei gerst áður. Geta símar fengið vírus og hnerrað á klukkutíma fresti? Þyrfti að hringja í Dr. House.*heyrt í menningarmálaþættinum Rachel Ray

miðvikudagur, maí 23, 2007

Öldin sem leið

"Farðu nú að sofa í hausinn á þér", sagði pabbi við okkur systkinin á öldinni sem leið. Þegar ég var barn. Man að þá þótti mér allt svo sjálfsagt. Sjálfsagt að allir væru hræddir við Strýtu af hælinu, enda átti hún til að hlaupa öskrandi á eftir okkur krökkunum. Sjálfsagt að bréfberinn gæfi börnunum teygjur og reyndi stundum að þreifa á þeim í staðinn. Sjálfsagt að Valli vitlausi væri kallaður Valli vitlausi eftir að hann lenti í bílslysi og varð ruglaður í höfðinu. Sjálfsagt að Sigga pissufýla væri kölluð Sigga pissufýla, enda var vond lykt af henni. Sjálfsagt að fá að leika sér úti langt fram á kvöld, hlaupa, sippa, ólmast með hlaupasting og járnbragð í munni. Sjálfsagt að Róninn keypti sér Pierre Robert rakspíra í KRON og pilsner í bland. Sjálfsagt að fá hrygg og ávaxtagraut á sunnudögum.

Á þessum árum var greinilega engin velferðarstjórn.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Til hamingju Ísland, ný stjórn fæddist þér

Geir var stuttur í spuna, hreytti molum í fréttamenn eins og þetta kæmi þjóðinni ekki við.

Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra. Segi nú ekki margt. Kannski okkur verði ætlað að lifa á heilsukexi. Minna mál?

mánudagur, maí 21, 2007

Gátan um ÞAÐ

Þegar ég flutti inn í íbúðina mína þurfti ég afskaplega mikið á iðnaðarmönnum að halda, hér voru smiðir, rafvirkjar, píparar og menn sem ég kann ekki deili á en þeir voru oft eitthvað að sýsla með snúrur og tól.

Einhvern daginn var hringt og mér boðið *****, þeir ætluðu að senda fólk til mín (ef ég samþykkti) og setja það upp. Ókeypis.

Nú. Skömmu síðar bönkuðu hér á dyr tveir menn. Man að þetta voru ungir og laglegir piltar, útlendingar. Ég skildi ekki hvað þeir sögðu og þeir ekki mig, en hugsanlega skildu þeir hvor annan. Mennirnir gengu rösklega til verks og settu þennan kassa (sjá mynd) á skorsteininn í litla eldhúsinu mínu.

Það hefur hangið þarna ósköp vært í 1 1/2 ár. Engin hljóð koma úr kassanum, engin ljós, engar verur, engin lykt. Ekki er ég að kvarta yfir mínum hljóðláta sambýlingi. En, fólk bendir stundum á það og spyr, "baun, hvað er þetta?", og ég svara "hef ekki hugmynd, lét setja þetta upp hjá mér".

Nú spyr ég, hvað hangir á skorsteininum í eldhúsinu mínu?

sunnudagur, maí 20, 2007

Pönnukökur með sykri og sjálfsvorkunn


Bakið hefðbundnar pönnukökur, berið fram sjóðheitar. Yfir hverja pönnuköku stráið þið sykri (magn í réttu hlutfalli við sjálfsvorkunn). Kreistið sítrónu- og appelsínusafa yfir sykurlagið og þar á ofan skóflið þið papæja í smekklegar hrúgur. Brjótið og njótið.

föstudagur, maí 18, 2007

Heilabrot og andlát

Troðið æpodd í eyrun og hálfri Bastogne Lu kexköku í munninn. Tyggið. Brjótið heilann. Lofa líflegum sándeffektum.

Gráupplagt þegar hausinn er fullur af erfiðum hugsunum.

Fljótlega mun ég birta hér gátu með tæknilegu ívafi. Hlakkið til en gleymið samt ekki smáfuglunum. Sem minnir mig á sögu sem ég heyrði í morgun. Vinnufélagi minn var í ráðhúsinu í gær á tónleikum, í hléi stóð hann upp og horfði út um gluggann. Hann sá önd koma kjagandi með fimm litla dúnmjúka hnoðra í halarófu á eftir mömmu sinni. Svo krúttleg sjón. Skyndilega steypti hvítt mávager sér yfir fjölskylduna, vargurinn réðist á ungana og sleit þá í sundur þar til ekkert var eftir nema blóðugur dúnn á stangli. Hviss bæng.

miðvikudagur, maí 16, 2007

Íþróttaálfurinn í Latabæ*

Hárgreiðslukonan mín var að klippa 84 ára gamla konu um daginn. Sú gamla vildi endilega segja brandara, "en hann er svolítið vafasamur". "Allt í lagi," sagði hárgreiðslukonan ýmsu vön, enda klippir hún alls konar fólk (t.d. mig). "Veistu hvað vinur minn sagði við mig um daginn?" (alveg sérstakur tónn í vinur, enda slegist um allt karlkyns í þjónustuíbúðunum og sú gamla í algjörum sérflokki að eiga vin). "Nei", sagði hárgreiðslukonan og hristi höfuðið. "Hann sagði: Má íþróttaálfurinn koma inn í Latabæ?" Þessu fylgdi hraustlegt fliss með tilheyrandi skrölti í gervitönnum, bæði í efri og neðri.*Afsakið klámið

mánudagur, maí 14, 2007

Lúi

Ég fann manninn sem skilur kosningakerfið á Íslandi. Hann bjó það til sjálfur. Þetta er glaðlegur stærðfræðingur, nokkuð við aldur. Skemmtilegt er að heyra hann útskýra ferlið sem veldur því að tvö atkvæði í Nyrðri Þrasasýslu koma inn þremur þingmönnum úr Suðurkjördæmi, jú, það eru 7/8 af hálfu pí, sinnum kvaðratrótin af ummáli súrheysturns, deilt með meðalfjölda neftóbakskorna í skagfirskri nös.

Finn fyrir óskaplegri þreytu. Hvar er þyrlan?

sunnudagur, maí 13, 2007

Það er stand á Goddastöðum

Ég er í þjóðarsorg.

föstudagur, maí 11, 2007

Réttlætismál

Fyrst Eiríkur komst ekki áfram þá verðum við að fá nýja stjórn. Þetta sér hvert mannsbarn.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Það er enn blóð í kúnni

Fyrir þúarann sem góði rauði bankinn gaf þeim hluta þjóðarinnar sem er ég, keypti ég bókina Mergur málsins, íslensk orðatiltæki. Þurfti reyndar að bæta við um 8 þúurum í viðbót, en hvað er það milli vina?

Þið munuð aldeilis ekki lifa á moðunum hjá mér, enda ætla ég að fá sem mest fyrir pénínginn og flúra mál mitt og skreyta ótæpilega. Uppúr bókinni. Ef til vill verð ég fyrsta konan til að skrifa blogg með orðskýringum. Kjörið námsefni í grunnskólana.

Hafið þið tekið eftir því undanfarið hvursu mjög menn láta ganga leppinn og þvöguna? Sumir hafa jafnvel haft stjórnmálamenn okkar að skimpi, en ætli gárungarnir gefist ekki upp á gamburmosanum eftir helgina, þegar við blasir stjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknar. Þá munu kommarnir, fjallagrasafólkið og annað uppsóp hætta að kássast upp á annarra manna jússur. Ó, já.

þriðjudagur, maí 08, 2007

Bara stóðst ekki mátið..

Rakst á þessa hjá Jenný frænku. Smart búningar.

Minnir mig á að ég verð að fara að grafa upp hjólið mitt, hef ekki stigið á bak síðan ég braut í mér beinin í september sem leið. Ætti maður að fá sér svona galla?

mánudagur, maí 07, 2007

Bros dagsins er í boði Hjalta

Hjalti minn tók myndir af mömmu sinni, margar margar. Ég held mest upp á þessar tvær. Ætla að nota þá efri sem passamynd - fer bara alltaf í keng og sýni prófílinn ef farísear og tollheimtumenn reyna að bera saman mynd og konu.

Legg ekki meira á ykkur.

sunnudagur, maí 06, 2007

Ertu heppin/n í framan?

Ég á enga almennilega passamynd. Veit að það er krípí en hugsa stundum um minningargreinarnar í Mogganum (tvær opnur) með ómögulegri mynd af mér. Það gengur náttúrlega ekki.

Vinkona dóttur minnar lýsti rauðhærðum vini sínum með þessum orðum, "æ, hann er svona óheppinn í framan". Það furðulega var að ég skildi nákvæmlega hvað hún átti við. Stundum segja þúsund orð meira en ein mynd.

laugardagur, maí 05, 2007

Ekki flottur greiddur

Sagt er frá því í Fréttablaðinu í gær að Svavar Örn "hárgreiðslumeistarinn knái" fari með Evróvisjón hópnum til Helsinki. Yfirskrift fréttarinnar er Þorir ekki að breyta Eiríki neitt.

Hárgreiðslumeistaranum hefur verið úthlutað verðugt verkefni, að sjá um að rauði makkinn verði á sínum stað......"Ég held að fólk þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af öðru, Eiríkur Hauksson er ekki flottur greiddur," segir hann. Svavar Örn segir að ekki komi til greina að breyta stíl Eiríks..."Það kemur ekki til greina að setja lit í hárið á honum. Eiríkur er bara með fallegan hárlit sem hægt er að skerpa á með næringu," segir Svavar.

Nú spyr ég, eins og fávís kona: Þarf RÚV að leggja í ærinn kostnað við að senda þennan fagmann með til Helsinki...bara til að setja næringu í hárið á Eiríki?

föstudagur, maí 04, 2007

Nútíminn er gull og glóir á tungu

Gullkorn (ef ekki hreinlega gullaldarmál) af ónefndri netsíðu, þar sem fjallað er um ýmis málefni sem eiga sérstaklega að höfða til kvenna:

Um notkun varalits:

Bara svona til að láta ykkur vita er rauður varalitur stór skuldbinding við snyrtiveskið þannig að geymdu með að nota rauða litinn þangað til þú ert á tilefnum þegar þú hefur nægan tíma til að laga hann reglulega.

Um sagnalist:

Ég verð meiri líflegri og aðlaðandi sögusegjari þegar einhver sem mér finnst aðlaðandi er að hlusta.

Um nudd:

Krjúptu á stól og hafðu fæturnar á lærum þér. Bleyttu fæturnar og strjúktu létt svampinum með sturtusápunni í á milli tánna. Þvoðu síðan og nuddaðu fæturna og ökkla með svampinum löðrandi í sturtusápu. Byrjaðu á ristinni, síðan tærnar og endaðu á iljunum. Notaðu þéttingsföst handtök ef henni/honum kitlar (ef hún/hann er mjög kitlin(n) notarðu hendurnar og heldur fast um fæturnar) (sic)

Um gildi þess að einfalda hlutina:

Til þess að einfalda hlutina tala ég almennt um kolvetni, prótein og fitu en útskýri ekki hvað einföld eða flókin kolvetni eru eða hörð og mjúk fita. Ég ákvað því að skrifa grein um einföld og flókin kolvetni og harða og mjúka fitu á einfaldan hátt.

miðvikudagur, maí 02, 2007

Tíminn, vatnið og féð sem rennur út nema þegar það flýgur

Jæja, þá er maður kominn heim í blessaða nepjuna og fréttir um 900 milljóna starfslokasamning til eins karlmanns á baráttudegi verkalýðsins. Djöfull hvað mér gremst þessi síbreikkandi gjá milli fólks hér á landi.

Á leiðinni heim sat ég, eins og illa gerð eyja, innan um haf fólks í fjármálageiranum. Fólkið var upp til hópa áferðarfallegt, vel klætt og snyrt, flest um þrítugt; enginn feitur, ólaglegur, með bólur eða skakkar tennur. Örugglega enginn með gat á sokknum. Sá alveg fyrir mér hvað blessaðar manneskjurnar eru duglegar í ræktinni og passa vel upp á sig. Peningahirðarnir fóru mikinn í vélinni, klofuðu yfir mig eins og ég væri ekki á staðnum, ræddu um árshátíðir í þessari og hinni stórborginni, drukku kampavín og keyptu drjúgt af sögu-bútíkk. Sá eina unga konu kaupa ogguponsulitla dollu af fegrunarkremi á 7000 krónur, án þess að blikna. Setningar eins og þessar flugu í kringum (og gegnum) hausinn á mér: "Nei, ég er nú meira svona start-up manneskja", "þessi er ógeðslega góð, svona um economics meina ég", "þú ert geðveikt sniðug í strategíu og resources og svoleiðis".

Fari það í grábröndóttan kolabing hvað mér leiðist fjármála- og markaðshjal.

Englandsförin var ánægjuleg og margt skondið dreif á daga mína. Á hótelinu í Nottingham lenti ég t.d. í harðvítugum bardaga við blöndunartæki. Hallaði heldur á mig í þeirri viðureign. Hef aldrei séð jafn flókna krana og skífur og takka. Bestum árangri í heildrænni baðlausn náði ég þegar ískalt vatn fossaði úr krananum á fæturna á mér og sjóðheitt úr sturtunni á hausinn. Ekki tók betra við þegar ég afréð að hætta þessu gríni, blá og rauð, enda orðin of sein á fyrirlestur. Þá gat ég ekki, hvernig sem ég reyndi, skrúfað fyrir vatnið og þurfti að hringja niður í móttöku, "I´ll send a maid up, right away", var mér tjáð af starfsmanni hótelsins. Skömmu síðar er bankað og ég rykki upp hurðinni, í handklæði einu fata. Stendur þá ekki nema karlmaður í gráum samfestingi þarna, heldur vandræðalegur þegar hann sér mig. Ég býð honum að koma inn og skrúfa fyrir vatnið. Hann gerir það með því að snúa einhverju skífudrasli og segir si svona (í kurteislegum tón): "See? Clockwise, turn the water off, counterclockwise, turn the water on. Complicated really, lúv".

Hata þegar þetta kemur fyrir mig. Tæknin og ég, við bara dönsum ekki í takt.