Jæja, þá er maður kominn heim í blessaða nepjuna og fréttir um 900 milljóna starfslokasamning til eins karlmanns á baráttudegi verkalýðsins. Djöfull hvað mér gremst þessi síbreikkandi gjá milli fólks hér á landi.
Á leiðinni heim sat ég, eins og illa gerð eyja, innan um haf fólks í fjármálageiranum. Fólkið var upp til hópa áferðarfallegt, vel klætt og snyrt, flest um þrítugt; enginn feitur, ólaglegur, með bólur eða skakkar tennur. Örugglega enginn með gat á sokknum. Sá alveg fyrir mér hvað blessaðar manneskjurnar eru duglegar í ræktinni og passa vel upp á sig. Peningahirðarnir fóru mikinn í vélinni, klofuðu yfir mig eins og ég væri ekki á staðnum, ræddu um árshátíðir í þessari og hinni stórborginni, drukku kampavín og keyptu drjúgt af sögu-bútíkk. Sá eina unga konu kaupa ogguponsulitla dollu af fegrunarkremi á 7000 krónur, án þess að blikna. Setningar eins og þessar flugu í kringum (og gegnum) hausinn á mér: "Nei, ég er nú meira svona start-up manneskja", "þessi er ógeðslega góð, svona um economics meina ég", "þú ert geðveikt sniðug í strategíu og resources og svoleiðis".
Fari það í grábröndóttan kolabing hvað mér leiðist fjármála- og markaðshjal.
Englandsförin var ánægjuleg og margt skondið dreif á daga mína. Á hótelinu í Nottingham lenti ég t.d. í harðvítugum bardaga við blöndunartæki. Hallaði heldur á mig í þeirri viðureign. Hef aldrei séð jafn flókna krana og skífur og takka. Bestum árangri í heildrænni baðlausn náði ég þegar ískalt vatn fossaði úr krananum á fæturna á mér og sjóðheitt úr sturtunni á hausinn. Ekki tók betra við þegar ég afréð að hætta þessu gríni, blá og rauð, enda orðin of sein á fyrirlestur. Þá gat ég ekki, hvernig sem ég reyndi, skrúfað fyrir vatnið og þurfti að hringja niður í móttöku, "I´ll send a maid up, right away", var mér tjáð af starfsmanni hótelsins. Skömmu síðar er bankað og ég rykki upp hurðinni, í handklæði einu fata. Stendur þá ekki nema karlmaður í gráum samfestingi þarna, heldur vandræðalegur þegar hann sér mig. Ég býð honum að koma inn og skrúfa fyrir vatnið. Hann gerir það með því að snúa einhverju skífudrasli og segir si svona (í kurteislegum tón): "See? Clockwise, turn the water off, counterclockwise, turn the water on. Complicated really, lúv".
Hata þegar þetta kemur fyrir mig. Tæknin og ég, við bara dönsum ekki í takt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli