miðvikudagur, maí 23, 2007

Öldin sem leið

"Farðu nú að sofa í hausinn á þér", sagði pabbi við okkur systkinin á öldinni sem leið. Þegar ég var barn. Man að þá þótti mér allt svo sjálfsagt. Sjálfsagt að allir væru hræddir við Strýtu af hælinu, enda átti hún til að hlaupa öskrandi á eftir okkur krökkunum. Sjálfsagt að bréfberinn gæfi börnunum teygjur og reyndi stundum að þreifa á þeim í staðinn. Sjálfsagt að Valli vitlausi væri kallaður Valli vitlausi eftir að hann lenti í bílslysi og varð ruglaður í höfðinu. Sjálfsagt að Sigga pissufýla væri kölluð Sigga pissufýla, enda var vond lykt af henni. Sjálfsagt að fá að leika sér úti langt fram á kvöld, hlaupa, sippa, ólmast með hlaupasting og járnbragð í munni. Sjálfsagt að Róninn keypti sér Pierre Robert rakspíra í KRON og pilsner í bland. Sjálfsagt að fá hrygg og ávaxtagraut á sunnudögum.

Á þessum árum var greinilega engin velferðarstjórn.

Engin ummæli: