laugardagur, september 30, 2006

Einhendi mér í orlofið

Hef heyrt fólk kvarta yfir hversu bjart myrkrið var í "myrkvuninni". Get alveg tekið undir það, enda leitaði ég uppi alvöru myrkur og fann það í Borgartúni. Þar var fullt af vanmetnu myrkri. Svo þykku að ég sá ekki háan kantinn og grjótið sem skildi að bílastæðin. Ég spurði á slysó, þegar hjúkkan var að múra handlegginn á mér inni, hvort fleiri hefðu slasast á þessum ljósdökka hálftíma. Hún vissi ekki til þess.

Eitt fannst mér óhuggulegt. Þar sem ég húkti hálfgrátandi af sársauka með mín brotnu bein, blóðug og vönkuð eftir slysið, búin að skríða upp á gangstétt (hjólið lá á miðju stæði þar hjá), komu gangandi hjón ca. um fimmtugt, sveigðu snyrtilega hjá, svona hálfan metra frá mér, litu á mig og sögðu ekki orð. Þeim virtist ekki detta í hug að hjálpa mér.

Annars er merkilegt að vera svona einhentur. Það er t.d. ótrúlega erfitt að opna krukkur og krækja að sér brjóstahaldara.

Ætla nú í húsmæðraorlof upp í Borgarfjörð með vinkonum mínum og vona að þær geri mikið grín að mér. Það er svo gaman að vera til. Þó maður finni soldið til.

föstudagur, september 29, 2006

Myrkur II, æsispennandi framhald

Passið ykkur á myrkrinu.

Eftir kertafleytingu á Tjörninni í gærkvöld (falleg athöfn) hentist ég heim á hjólinu, alltaf með æðiber í rassinum. Fannst lítið fútt í að hjóla á Laugaveginum (allt of bjart), fór Hverfisgötu og Borgartún. Þar var ærlegt myrkur. Í Borgartúni flaug ég fram af háum steyptum kanti. Braut olnbogabein (væntanlega í lendingu frekar en flugtaki), rifbein, og er auk þess allvíða hrufluð, tognuð, blá og marin. Pikka þessa færslu með vinstri, því hægri handleggur er gipsaður frá fingrum og upp í krika. Get ekki keyrt, vaskað upp, girt mig almennilega, farið í skaplegar flíkur (vegna gipsfeits handleggs), ekki farið í klifur eða leikfimi...nú er ég hætt þessu væli. Þetta grær áður en ég gifti mig. *hysterískur hlátur*

Passið ykkur á myrkrinu.

fimmtudagur, september 28, 2006

Myrkur
Þriðjudagskvöld fór ég í gönguna með Ómari. Stemningin var tregablandin og sterk. Og í dag var Jöklu þröngvað í Hálslón. Ómar hefur talað um að enn sé hægt að hætta við. Við getum hætt við að nota virkjunina í upprunalegum tilgangi, selt náttúruverndarsinnum um allan heim nafnspjöld til að hengja á stífluvegginn, gert risastórt minnismerki úr þessu heimskra manna ráði. Menn segja að þetta sé fáránleg hugmynd. Tek undir það, það væri jafn fáránlegt og að smíða skammbyssu sem aldrei væri notuð til að skjóta fólk.

Ég ætla út í manngert myrkur í kvöld.

miðvikudagur, september 27, 2006

Til hamingju Ásta
Þessi yndislega mannvera á afmæli í dag. Litla ljóðskáldið, klarínettuleikarinn, efnafræðiprófessorinn og stærðfræðiséníið mitt er 22 ára í dag. Og henni finnst ennþá gaman að leika sér og rífast við bræður sína (og hrekkja mömmu sína, t.d. með gervi-tattúum). Vona að hún vaxi aldrei upp úr því. Til hamingju Ásta!

þriðjudagur, september 26, 2006

Skrifaðu undir hérna góði

Í Kastljósi í gær var fjallað um unglinga sem gera skriflegan samning við foreldra sína um að ef þeir byrji hvorki að reykja né drekka, þá muni foreldrarnir borga bílprófið. Þetta þykir mér afskaplega sérkennileg uppeldisaðferð, svona talandi um meðalunglinginn (sem er vænsta skinn og vel traustsins verður). Held reyndar að samningur af þessu tagi geti ýtt undir ósannsögli, ef unglingurinn fellur í freistni, drekkur t.d. hálfan bjór, reykir eina sígarettu, þá er eins gott að segja ekki frá. Bílpróf í húfi. "Lögfræðingurinn minn talar við lögfræðinginn þinn."

Hvernig væri að ganga alla leið? Sting upp á eftirfarandi samningum í beinu framhaldi, að breyttu breytanda.

1. Ef þú rænir ekki vídeóleigu fyrir 16 ára aldur, þá færðu ipod.
2. Ef þú nauðgar ekki fyrir 19 ára aldur, þá færðu bíl.
3. Ef þú myrðir ekki mann fyrir 21 árs aldur, þá færðu hús.

laugardagur, september 23, 2006

Allt sem er príl, príl finnst mér vera fallegt

Var að koma úr Klifurhúsinu, helaum í lófunum. Var miklu betri nú en síðast, komst upp sjóræningjastigann (sem ég gat ekki síðast), og prílaði bara nokkuð vel. Verst að ég kann enga sjóræningjafrasa, þarf að spyrja sérfræðing. Eitthvað voða mikið ARRRR...minnir mig. Eru til íslenskir sjóræningjafrasar? Einu sjóræningjar sem ég man eftir í íslenskri lögsögu eru landhelgisbrjótar frá Hull og Grimsby. Úr þorskastríðinu. Lítið fútt í því.

Skil núna betur af hverju mér hefur alltaf fundist svona gaman í fjallgöngum að príla í klettum, þrátt fyrir lofthræðslu. Er greinilega klifurköttur í eðli mínu. Eða fjallaljón? Eða fjallageit? Eða fjallmyndarleg prílukona?

Alla vega er ljóst að vöðvarnir hrannast upp og ef fram heldur sem horfir fer ég að skora á fólk í sjómann í Kringlunni.

föstudagur, september 22, 2006

Orðin tóm

Orðin tóm

Loforðin orðin
orðin tóm

eins og ég


Hún Ásta mín labbaði með mömmu sinni í Elliðaárdalnum. Hún veit að mamma er lítil í sér og döpur þessa dagana.

Það var yndislegt að spásséra. Veðrið fallegt og trén í skrautklæðum. Upplifun að sjá laufblöðin falla hægt og tígulega til jarðar. Annað en venjulega, þegar slagviðriskafli lemur laufin af, hviss bæng, og trén standa nakin og skjálfandi á eftir. Betra fyrir þau að fá að tína af sér spjarirnar, eina og eina í einu. Reisn yfir því.

Og af því að ég er soddan höfðingi, langar mig að gauka að ykkur ókeypis ráðleggingu. Ef þið ætlið að enda ástarsamband, EKKI nota msn. Hafið manndóm í ykkur til að ræða við manneskjuna, þ.e. ef þið hafið nokkra taug til hennar.

Sundurlausir forhelgarþankar

Ég er svo heppin. Þarf ekkert að skilja alla hluti. Mikil blessun er það nú.

Veðrið er yndislegt, hver vill koma með mér í göngu?

Orð gærdagsins:
Unless commitment is made, there are only promises and hopes... but no plans. Peter Drucker
American (Austrian-born) management writer (1909 - 2005)

fimmtudagur, september 21, 2006

Sjúkleg jákvæðni

Lítill púki með vængi (veit ekki hvort hann er góður eða vondur, en það hékk gylltur baugur á hægri hnýfli) hvíslaði því að mér áðan að í raun og veru væri ég ekki meðvirk, heldur bara sjúklega bjartsýn að eðlisfari. Því ég held alltaf að hlutirnir fari vel, að fólk breytist og því muni það hegða sér öðruvísi en það hefur gert hingað til. Þetta er hluti af auðæfum mínum, þetta er reynslumillinn í bauninni.

En bjartsýni getur gengið út í öfgar.

Já, og svo kallaði ég vinkonu mína Mývetning, þessa sem kenndi mér tásunöfnin. Hún leiðrétti mig mjúklega og sagðist vera Reykdælingur. Ég bið hana innilega afsökunar og vona að hún virði mér það til vorkunnar að ég er fávíst borgarbarn.

miðvikudagur, september 20, 2006

Rauðu skórnir

Í dag var ég kölluð meðvirk marglytta. Djöfull átti ég það skilið. Það er hreinlega eins og ég geti ekki lært af mistökunum, er reynslunni ríkari, ó, já, orðin hálfgerður reynslumilli. En nú er Baun hætt í bullinu og ruglinu.

Fyrir 25 árum vann ég með frámunalega stórfættri konu. Hún hafði mikið dálæti á skóm og fannst ekki verra að þeir væru skrautlegir og áberandi, þó að þeir væru númer 46. Einu sinni vann vinkona mín heilmikið fyrir stórfætlu og bjóst að sjálfsögðu við borgun fyrir sín ritarastörf. Stórfætla tók við blaðabunkanum að verki loknu, leit djúpt í augu vinkonu minnar, andvarpaði þungt og sagði: "Helga mín, nú mundi ég gefa þér rauðu skóna mína...ef ég vissi ekki að þeir væru allt of stórir á þig." Og það var allt og sumt.

Hef ekki hugmynd um af hverju mér datt þessi saga í hug.

þriðjudagur, september 19, 2006

Spáum í tær

Hef löngum verið buguð yfir nafnleysi táa, enda haft sérstakt dálæti á þessum líkamspörtum. Skyldi engan undra þar sem ég er fádæma táfögur kona. Í samtölum mínum við þær (tær) hef ég (blíðlega) ávarpað þær stórutá, vísitá, löngutá, baugtá og litlutá.

En nú verður breyting á. Þekki góða konu úr Mývatnssveit sem hefur öruggar heimildir fyrir kórréttum nöfnum táa. Tær heita (farið úr sokknum á hægri fæti, horfið frá vinstri til hægri):

Vigga, Háa Þóra, Langa píka, Stutta Gerða og Lilla.
Strákar - þið eruð sumsé með líkamspart sem ykkur óraði ekki fyrir...

Hægri fótur heitir auðvitað Jón og sá vinstri Kolbeinn svarti.

Legg ekki meira á ykkur að sinni.

mánudagur, september 18, 2006

MSN - messuvín

Sem ég var að kommentera á bloggsíðu, spurði eldri sonur minn grafalvarlegur í bragði: "Mamma, er blogg MSN gamla fólksins?" Held honum hafi þótt þessi samskiptamáti álíka snar og bréfaskák.

Og enn hef ég ekki fengið úr því skorið hvort messuvín sé áfengt. Þegar maður gúgglar það, koma misvísandi upplýsingar. Bloggvinir mínir fagrir hafa komið með gagnlegar athugasemdir, en eru reyndar ekki á einu máli um svör við þessari knýjandi spurningu. Færi ég þeim bestu þakkir fyrir viturleg komment við síðustu færslu. Hef heimildir fyrir því að í kirkjum landsmanna sé boðið upp á púrtvín. En á vef lögreglunnar, líka frá árinu 2003, sá ég þessi tíðindi.

Held ég trúi söngelskum bloggvinum best og mun héðan í frá ímynda mér að dippið sé púrtvín. Jafnvel fara á ímyndunarfyllerí, eða e.t.v. ímyndunar-aflausnarí.

sunnudagur, september 17, 2006

Syndin og sunnudagsgöngur

Fór í messu í morgun, efahyggjumanneskjan sjálf. Séra Bjarni Karlsson vildi heiðra skáksveit Laugalækjarskóla fyrir góðan árangur og var það auðsótt mál hjá okkur foreldrunum, en unglingspiltarnir stigu treglega upp úr volgum rúmum sínum "eldsnemma" á sunnudagsmorgni. Prédikun séra Bjarna var prýðileg, barn var skírt, skákdrengir heiðraðir og síðan var gengið til altaris. Innbyrti ég þar hvíta töflu bleytta í messuvíni. Ekki veitir af, ærnar eru yfirsjónir mínar.

Fór eftir messu í aðra göngu. Með gönguhópnum mínum, Gulu göfflunum. Þar á ég yndislegar vinkonur. Drógumst afturúr tvær og ræddum syndina af einurð og festu. Veltum fyrir okkur syndaaflausn, altarisgöngu og breyskleik mannanna. Spáðum í helmingunartíma oblátunnar, að teknu tilliti til hæðar, þyngdar og iðrunarþunga syndarans. Ég fann hvernig mér létti, en hvort var það vegna hvítu töflunnar við altarisgönguna eða játninga á göngu með vinkonu minni? Þetta leiðir hugann lóðbeint að áralöngu debatti um samtals- versus lyfjameðferð í heilbrigðiskerfinu. Það sést úr flugvél.

Eitt langar mig að vita. Er messuvín áfengt?

fimmtudagur, september 14, 2006

Viðbjóðum...

Við bjóðum ekki syndinni í kaffi. Sagði Gunnar. Fékk góðfúslegt leyfi frá fyrrverandi til að hafa tengil á þetta lagsýni. Gjöriðisvovel.

Læt hér fljóta með þrjár skondnar fyrirsagnir úr blöðunum:

Gáfu Eistum smokka.

Sendir heim eftir krufningu.

Látnir þvo bíla á nóttunni.

miðvikudagur, september 13, 2006

Templeit tenglatjáning


Tenglarunan mín er önnur vídd. Á mörgum bloggsíðum er tenglum raðað eftir augljósu kerfi, t.d. stafrófsröð, orðbreidd, uppáhaldsbloggarinn-minn efst (þessi-sem-ég-nenni-aldrei-að-lesa-en-verð-að-hafa-með-afþví-Gaujafrænka-er-lögga neðst), öfugri stafrófsröð, BMI stuðli bloggara, nýjastir efst/neðst eða sjónrænu mynstri (t.d. feitt í miðju, mjótt til enda). Svo nokkur dæmi séu tekin. Mínir tenglar ráða sér hins vegar sjálfir. Þegar ég fell í templates trans, færir undirmeðvitundin til í röðinni. Þið haldið að það fari eftir einhverju sem hægt er að skilja en það er misskilningur. Tenglarnir tala til undirbaunarinnar og koma fram vilja sínum. Alveg sérstakt samband.

Reynið ekki að skilja þetta.

þriðjudagur, september 12, 2006

Margt og merkilegt

Litli bróðir minn var að stofna fyrirtæki ásamt spúsu sinni. Fyrirtækið heitir Margt og merkilegt. Endilega kíkið á það.

Ef þið smellið á "Sandblástursfilmur", þá getið þið séð eldhúsgluggann minn, hann er annar frá hægri. Langflottastur...

Til hamingju Jón Örn og Magga með Margt og merkilegt:o)

mánudagur, september 11, 2006

Enn eitt montbloggið


Sonur minn, Matthías, og félagar hans í Laugalækjarskóla eru Norðurlandameistarar í skólaskák, annað árið í röð:o)

Er svoooo stolt af stráknum. Ætla ekkert að biðjast afsökunar á því.

Legg ekki meira á ykkur að sinni.

sunnudagur, september 10, 2006

Hljómalind

Hljómalind á Laugavegi er notalegt kaffihús. Allir þar inni heimilislegir og lífrænir í fasi. Reyndar afslappaðra andrúmsloft en á flestum heimilum sem ég þekki. Átti þarna gott spjall við vinkonu mína um daginn. Var í nokkrum erfiðleikum með að borga tesopann sem ég fékk, því bústna konan í rósótta kjólnum (sem ég taldi vera að vinna þarna) lét ekki trufla sig við uppvaskið. Munaði engu að ég gripi viskustykki og færi að þurrka leirtau og spjalla um veðrið. Þegar ég fékk loksins að borga leit hún móðurlega á mig (ég fann hvernig hún klappaði mér á kinnina í huganum) og gaf mér köku.

Hljómalind. Fyrir alla sem vilja láta hunsa sig...hlýlega. Eins og mamma gerði.

föstudagur, september 08, 2006

Að ganga á vegg(jum)

- Málarinn setti upp vinnupalla til að geta hafist handa við að mála gluggana mína og þá fór að rigna.

- Rafvirkinn kemur stundum (held ég). Í gærkvöld fann ég allavega grænan vírbút í rúminu mínu.

- Um daginn fór ég í Klifurhúsið með Ástu og Hjalta, en dóttirin er afar fim lítil klifurmús og sonurinn efnilegur spædermann. Ég hékk á nibbum, teygði hendur og fætur í allar áttir, datt nokkrum sinnum, komst fram og til baka á barnavegg og byrjendavegg. Get ekki lýst harðsperrunum sem ég er með núna. En mikið rosalega var gaman. Ætla pottþétt aftur:o)

- Krækiberjasaft er góð í búst. Líka döðlur og engifer.

þriðjudagur, september 05, 2006

Þokur

Sagði frá því um daginn að ég hefði fest kaup á ljóðabók einni ágætri. "Og eins og allir sem gengið hafa menntaveginn vita er ágætt best" (2006, Ásta Pétursdóttir, dóttir mín).

Ljóðabókin verðmæta heitir "Þokur" og er eftir Jón Kára sem var dulnefni tveggja ungra háskólanema. Bókin var gefin út að undirlagi þáverandi ritstjóra Vikunnar, Gísla Jónssonar, en hann vildi með þessu sýna fram á að atómljóð væru ekki merkilegur kveðskapur. Ljóðin urðu til þannig að ungu mennirnir tveir sátu að sumbli heila nótt og ortu. Bókin kom út árið 1963 í 200 tölusettum eintökum, handarfar stimplað framan á hverja kápu (eftir annan höfundinn). Ljóðin hlutu lofsamlega dóma gagnrýnenda og varð uppi fótur og fit þegar upp komst að um prakkarastrik hefði verið að ræða. Þótti sumum sem þarna hefði verið sýnt fram á að nútímaljóðagerð væri ekki merkileg miðað við hina hefðbundnu.

Sjálfri finnst mér bókin þrælskemmtileg aflestrar og held að ungu mennirnir tveir hafi einfaldlega verið of vel gefnir til að yrkja algjört bull. Sumt kemst þó kannski ansi nálægt því.

Hér koma tvö sýnishorn úr ljóðabókinni Þokur eftir Jón Kára.

Gormur

Undarlegur keimur fjó
lublárra geisla svæfði samvizku mína
unz
enginn kom fyrir mig vitinu lengur
í hástemmdu kjarnfóðri
bombunnar
því allir vissu að þú varst gormur.


Tvö smáljóð um sýndarmennsku og hroka

I.
Mér þætti gaman
að vita
hvað orð-
ið hefur
af tann-
burstanum
- ?
- ?
- ?
mínum.

II.
Þetta
eru
ekki góðar..........tvíbökur.

mánudagur, september 04, 2006

Niðurstaða helgarinnar

Baun er meiri búkona en barkona.

Búin að tína ber, búa til saft, hlaup og sultu. Nú á ég rifsberjahlaup, sólberjahlaup, krækiberjasaft, krækiberjahlaup og bláberjasultu. Stökk út í gærkvöld að kaupa límmiða á krukkurnar, klædd stuttermabol, berleggjuð í pilsi og opnum skóm. Það var glápt á mig í bókabúðinni, en því er ég vön (maður er svo fallegur). Fattaði þegar ég kom heim að ég var öll í rauðum slettum eftir árás krækiberjanna þegar hakkavélin datt ofaní skál fulla af saft. Oh, well.

laugardagur, september 02, 2006

Heppni og hraðahindranir

Ljónheppin var ég í fyrradag. Var á hjólinu mínu og rétt nýbúin að loka munninum þegar oggulítil fluga skall á efri vörinni á mér.

Ákvað að breyta viðhorfi mínu gagnvart hraðahindrunum. Nú segi ég alltaf "víííí" og lyfti mér upp og hlæ þegar ég keyri yfir þær.

Í gær var gaman. Mæting var ekki 100% en þeir sem mættu voru 100%. Skoðuðum tvo bari, B5 (sem mér finnst notalegur staður) og Næsta bar. Þar voru margir sérkennilegir karlmenn.

Legg ekki meira á ykkur.

föstudagur, september 01, 2006

Bloggarar, borgarar, lesendur, félagar, vinir, samherjar

Minni á verklegan hluta vísindanámskeiðs í drykkjusiðum og ölæði. Æfingin hefst á knæpunni B5 kl. 21:30 í kvöld. Þið þekkið Baunina á brúnu fótlagaskónum og afar gæðalegu permanenti.