þriðjudagur, september 05, 2006

Þokur

Sagði frá því um daginn að ég hefði fest kaup á ljóðabók einni ágætri. "Og eins og allir sem gengið hafa menntaveginn vita er ágætt best" (2006, Ásta Pétursdóttir, dóttir mín).

Ljóðabókin verðmæta heitir "Þokur" og er eftir Jón Kára sem var dulnefni tveggja ungra háskólanema. Bókin var gefin út að undirlagi þáverandi ritstjóra Vikunnar, Gísla Jónssonar, en hann vildi með þessu sýna fram á að atómljóð væru ekki merkilegur kveðskapur. Ljóðin urðu til þannig að ungu mennirnir tveir sátu að sumbli heila nótt og ortu. Bókin kom út árið 1963 í 200 tölusettum eintökum, handarfar stimplað framan á hverja kápu (eftir annan höfundinn). Ljóðin hlutu lofsamlega dóma gagnrýnenda og varð uppi fótur og fit þegar upp komst að um prakkarastrik hefði verið að ræða. Þótti sumum sem þarna hefði verið sýnt fram á að nútímaljóðagerð væri ekki merkileg miðað við hina hefðbundnu.

Sjálfri finnst mér bókin þrælskemmtileg aflestrar og held að ungu mennirnir tveir hafi einfaldlega verið of vel gefnir til að yrkja algjört bull. Sumt kemst þó kannski ansi nálægt því.

Hér koma tvö sýnishorn úr ljóðabókinni Þokur eftir Jón Kára.

Gormur

Undarlegur keimur fjó
lublárra geisla svæfði samvizku mína
unz
enginn kom fyrir mig vitinu lengur
í hástemmdu kjarnfóðri
bombunnar
því allir vissu að þú varst gormur.


Tvö smáljóð um sýndarmennsku og hroka

I.
Mér þætti gaman
að vita
hvað orð-
ið hefur
af tann-
burstanum
- ?
- ?
- ?
mínum.

II.
Þetta
eru
ekki góðar..........tvíbökur.

Engin ummæli: