Var að koma úr Klifurhúsinu, helaum í lófunum. Var miklu betri nú en síðast, komst upp sjóræningjastigann (sem ég gat ekki síðast), og prílaði bara nokkuð vel. Verst að ég kann enga sjóræningjafrasa, þarf að spyrja sérfræðing. Eitthvað voða mikið ARRRR...minnir mig. Eru til íslenskir sjóræningjafrasar? Einu sjóræningjar sem ég man eftir í íslenskri lögsögu eru landhelgisbrjótar frá Hull og Grimsby. Úr þorskastríðinu. Lítið fútt í því.
Skil núna betur af hverju mér hefur alltaf fundist svona gaman í fjallgöngum að príla í klettum, þrátt fyrir lofthræðslu. Er greinilega klifurköttur í eðli mínu. Eða fjallaljón? Eða fjallageit? Eða fjallmyndarleg prílukona?
Alla vega er ljóst að vöðvarnir hrannast upp og ef fram heldur sem horfir fer ég að skora á fólk í sjómann í Kringlunni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli