miðvikudagur, september 20, 2006

Rauðu skórnir

Í dag var ég kölluð meðvirk marglytta. Djöfull átti ég það skilið. Það er hreinlega eins og ég geti ekki lært af mistökunum, er reynslunni ríkari, ó, já, orðin hálfgerður reynslumilli. En nú er Baun hætt í bullinu og ruglinu.

Fyrir 25 árum vann ég með frámunalega stórfættri konu. Hún hafði mikið dálæti á skóm og fannst ekki verra að þeir væru skrautlegir og áberandi, þó að þeir væru númer 46. Einu sinni vann vinkona mín heilmikið fyrir stórfætlu og bjóst að sjálfsögðu við borgun fyrir sín ritarastörf. Stórfætla tók við blaðabunkanum að verki loknu, leit djúpt í augu vinkonu minnar, andvarpaði þungt og sagði: "Helga mín, nú mundi ég gefa þér rauðu skóna mína...ef ég vissi ekki að þeir væru allt of stórir á þig." Og það var allt og sumt.

Hef ekki hugmynd um af hverju mér datt þessi saga í hug.

Engin ummæli: