laugardagur, september 30, 2006

Einhendi mér í orlofið

Hef heyrt fólk kvarta yfir hversu bjart myrkrið var í "myrkvuninni". Get alveg tekið undir það, enda leitaði ég uppi alvöru myrkur og fann það í Borgartúni. Þar var fullt af vanmetnu myrkri. Svo þykku að ég sá ekki háan kantinn og grjótið sem skildi að bílastæðin. Ég spurði á slysó, þegar hjúkkan var að múra handlegginn á mér inni, hvort fleiri hefðu slasast á þessum ljósdökka hálftíma. Hún vissi ekki til þess.

Eitt fannst mér óhuggulegt. Þar sem ég húkti hálfgrátandi af sársauka með mín brotnu bein, blóðug og vönkuð eftir slysið, búin að skríða upp á gangstétt (hjólið lá á miðju stæði þar hjá), komu gangandi hjón ca. um fimmtugt, sveigðu snyrtilega hjá, svona hálfan metra frá mér, litu á mig og sögðu ekki orð. Þeim virtist ekki detta í hug að hjálpa mér.

Annars er merkilegt að vera svona einhentur. Það er t.d. ótrúlega erfitt að opna krukkur og krækja að sér brjóstahaldara.

Ætla nú í húsmæðraorlof upp í Borgarfjörð með vinkonum mínum og vona að þær geri mikið grín að mér. Það er svo gaman að vera til. Þó maður finni soldið til.

Engin ummæli: