sunnudagur, september 17, 2006

Syndin og sunnudagsgöngur

Fór í messu í morgun, efahyggjumanneskjan sjálf. Séra Bjarni Karlsson vildi heiðra skáksveit Laugalækjarskóla fyrir góðan árangur og var það auðsótt mál hjá okkur foreldrunum, en unglingspiltarnir stigu treglega upp úr volgum rúmum sínum "eldsnemma" á sunnudagsmorgni. Prédikun séra Bjarna var prýðileg, barn var skírt, skákdrengir heiðraðir og síðan var gengið til altaris. Innbyrti ég þar hvíta töflu bleytta í messuvíni. Ekki veitir af, ærnar eru yfirsjónir mínar.

Fór eftir messu í aðra göngu. Með gönguhópnum mínum, Gulu göfflunum. Þar á ég yndislegar vinkonur. Drógumst afturúr tvær og ræddum syndina af einurð og festu. Veltum fyrir okkur syndaaflausn, altarisgöngu og breyskleik mannanna. Spáðum í helmingunartíma oblátunnar, að teknu tilliti til hæðar, þyngdar og iðrunarþunga syndarans. Ég fann hvernig mér létti, en hvort var það vegna hvítu töflunnar við altarisgönguna eða játninga á göngu með vinkonu minni? Þetta leiðir hugann lóðbeint að áralöngu debatti um samtals- versus lyfjameðferð í heilbrigðiskerfinu. Það sést úr flugvél.

Eitt langar mig að vita. Er messuvín áfengt?

Engin ummæli: