þriðjudagur, ágúst 30, 2005

Konur í jöfnu.

Karlar dá stærðfræðilega nákvæmni. Sá þessa skotheldu rökleiðslu á ágætri heimasíðu vísindamanns:
Þá vitum við það. Að minnsta kosti helmingur mannkynsins er til vandræða.

mánudagur, ágúst 29, 2005

Nammi namm.

Sólkoli er snilldarfiskur. Keypti slíkan furðufisk hjá Fylgifiskum, steikti eftir leiðbeiningum brosmilds afgreiðslumanns; bakaði Betubrauð og bar þetta fram með hrísgrjónum og salati (beint frá bóndanum á Reykjum). Toppmáltíð. Mér fannst roðið best....stökkt og gómsætt. Börnin mín átu þetta m.a.s. með þokkalegri lyst, en þau eru svo matgrönn að mér hefur stundum dottið í hug að þau ljóstillífi. Sumsé. Prófið sólkola og fáið uppskrift að Betubaunabrauði hjá mér. Bara nefna það elsku vinir og vandamenn nær og fjær.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Í nótt...

var ég vændiskona í bleikum kjól með japönsku sniði að aftan og eitís-lúkki að framan og í svörtum, mjög hælaháum skóm. Nýja djobbið lagðist bara vel í mig og ég gekk glöð til verka. Í draumnum.

Ef einhver segir við mig að hann eigi sjálfshjálparbók einmitt fyrir fólk með þessi einkenni og að þau séu típísk birting miðlífskrísu ("middle-aged women who dream of dressing in pink and wearing high heels while contemplating bold carrier moves") þá set ég viðkomandi út af sakramentinu. Ég þoli ekki sjálfshjálparbækur.

laugardagur, ágúst 27, 2005

Bee Gees og japönsk háttvísi.

Er að elda gúllas (sem sonum mínum finnst svo gott), dreypi á rauðvíni, unaðslegur matarilmur í nösunum og til að fullkomna stundina dúkka Bee Gees upp á Rás 2. Og mér líður bara dæmalaust dægilega.

Hins vegar voru strákarnir mínir elskulegir að leika sér í stofunni áðan með sínum venjulega hamagangi og í látunum brutu þeir glas sem ég keypti í París þegar ég var um tvítugt. Man svo glöggt þegar ég keypti þessi litlu, litríku staup og afgreiðslumaðurinn, lítill og sveittur, útskýrði fyrir mér með miklu handapati og fransk-ensku blandimáli, hvernig karlastaupin og kvenstaupin væru frábrugðin. Kvenstaupin eru þannig að þegar konan drekkur þá heyrist flaut (hún á að vera að lokka til sína karlinn). Karlastaupin eru þannig að þegar glærum vökva (Sakí) er hellt í þau þá birtist á botni staupsins allsber kona (uppúr þurru, nei ég meina blautu) sem pósar glyðrulega en þó af háttvísi. Ætli karlinn eigi þá að hugsa um aðrar konur en þá sem hann er með? Eða eru þetta staup fyrir piparsveina og jómfrúr? Hreinlega veit það ekki en....mér fannst þetta allt ákaflega merkilegt í denn og keypti 6 staup, þrjú fyrir konur og þrjú fyrir karla. Hef nú lítið brúkað þau og aldrei á hefðbundinn japanskan hátt, verð að játa það. En ég held að strákarnir mínir séu komnir á þann aldur að þykja svona lagað voða fyndið og forvitnilegt. Nema hvað.

föstudagur, ágúst 26, 2005

Leðurstígvél.

Hamingja konunnar liggur í nýjum leðurstígvélum. Hvaða konu spyrjið þið? Auðvitað baunakonunnar. Rándýr svört leðurstígvél. Það var nú allt og sumt sem ég þurfti til að brosa út að eyrum. Hugsanlega hefði ég fengið meira út úr því að fara á Mímisbar og pikka upp kallræfil, mér til skemmtunar (og útrásar fyrir feita púkann), en ný leðurstígvél duga. Duga bara skrambi vel. Maður er soddan gangandi klisjukvendi og kaupir sér til kæti. En kommon, há svört leðurstígvél, oohhh...

Gæti náttla farið í þeim á barinn. Einmitt.

miðvikudagur, ágúst 24, 2005

Ætla ekki...

í göngu um helgina. Ætla að vera heima og gera sem minnst. Kannski ég drekki mig fulla og fari á bar og pikki upp einhverja karluglu. Æ, mér líður bara þannig.

Var að keyra áðan í myrku skapi er ég sá 3-4 ára gutta í megaflottum súperman búningi standa kotroskinn á gangstétt. Hann var ljóshærður og andlitið litla var svo uppfullt af gleði og prakkaraskap að ég brosti til hans og veifaði. Við það tókst hann næstum á flug af gleði, enda flaksaði rauða skikkjan kröftuglega í köldum norðanvindinum. Þetta bætti obbulítið verkinn í hjartanu mínu. Af hverju hættum við að gera það sem okkur langar til þegar við verðum fullorðin?

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Ég var nú aldeilis hlessa...

þegar mér var boðið í tveggja daga gönguferð í Kerlingarfjöllum um helgina. Mig dreplangar með, en er hægt að bjóða fjölskyldunni upp á svona sígaunamömmu sem er á stöðugu flakki? Svei mér þá, ég veit það ekki. Hef ekki verið heima margar helgar í röð og ryklagið í stofunni er orðið hnausþykkt og myndarlegt. Ef manni verður á að hnerra þá þyrlast upp gráhvít ský og liðast um stofuna (á þokkafullan hátt). Jamm, ég ætla að hugsa málið.

Vorum að koma fjölskyldan úr gönguferð á Þorbjörn (rétt hjá Grindavík) með vinnufélögunum. Alveg frábær gönguleið, fjölbreytt og skemmtileg. Sáum kalkúna, úlfalda og risaeðlusteina. Og svo hellirigndi alls staðar í heiminum nema á okkur. Hjá okkur var glaðasólskin. Ég legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Veit ekki...

hvar ég á að byrja. Það var svo gaman í fjórumsinnumfjórir-ferðinni. Hálendið er bara óviðjafnanlegt og mig langar að berja alla þá í hausinn sem vilja skemma það. Það bara má ekki. Geta þessir andskotar sem vilja sökkva hálendinu til að útvega Pólverjum og Kínverjum vinnu ekki fundið sér eitthvað annað til dundurs? Ég meina það. Hvers virði er hálendið? Hvers virði er ónumið land í þessum brjálaða heimi sem við lifum í? Eiga börnin okkar skilið að fá landið sitt í hendur í tætlum, sundurklippt og virkjað í hel?

Svo vil ég bara segja eitt. Gott fólk - hættið að kjósa þennan vitleysingaflokk sem nefnist Framsóknarflokkurinn. Þeir ráða allt of miklu og hafa gert of lengi. Þið megið kjósa hvaða fávita sem er, bara ef það er ekki Framsókn.


Þessi undragóði kamar stendur við fjallið Klakk (undir Hofsjökli).

föstudagur, ágúst 19, 2005

Óbyggðirnar...

kalla. Er farin í hálendisreisu með fjórumsinnumfjórum klúbbnum. Keyrum yfir Kerlingarfjöll, undir þau, gegnum, til hliðar við þau eða hvað það nú heitir. Verðum síðan í Setrinu undir Hofsjökli í tvær nætur. Hlakka mikið til, vona að í þessum klúbbi séu ekki tómir aular og kúkalabbar. Kemur í ljós. Við (Hjalti, Pétur og ég) förum með vinum okkar Auði og Hauki, ásamt dóttur þeirra Völu (öndvegisfólk, ekki kúkalabbar). Svo bið ég ykkur að hafa engar áhyggjur af mér og mínum - Auður er dýralæknir. Adíós amígós.

miðvikudagur, ágúst 17, 2005

Er komin með Firefox...

og ætla af því tilefni að fara á smá myndafyllerí. Hér má sjá nokkrar myndir úr Fimmvörðuhálsgöngunni góðu þar sem fæddist ástríðufull löngun mín í jeppa. Sú löngun hefur þegar leitt af sér ákafa leit að heppilegum fjórhjóladrifnum farkosti og ýmis plön eru að gerjast. Svo var okkur bara boðið í hálendisferð með 4x4 klúbbnum, sama dag og ég viðraði nýfæddan jeppaáhuga minn við vinnufélagana (er þetta tákn af himnum ofan eða hvað?). Vinnufélagarnir voru ákaflega hjálplegir og einn góður Land Cruiser eigandi leyfði mér m.a.s. að prófa eðalbifreið sína (það æsti enn frekar upp í mér jeppasótthitann). Aðrir vinnufélagar vildu óðir og uppvægir selja mér jeppana sína. Ætla að spá í þetta og gaumgæfa málið, ígrunda það og spökulera djúpt.


mánudagur, ágúst 15, 2005

Karlmennska.

Nú er tími játninga (viðkvæmir haldi fyrir augun). Í óbyggðaferðum bæra á sér ýmsar kenndir sem giftri konu væri sæmst að bæla. En...hér er listi yfir það sem mér finnst karlmannlegt:

1. Sterklegir (og berir) kálfavöðvar upp úr gönguskóm, helst vel hærðir.
2. Skeggbroddar.
3. Karlar sem keyra á öflugum jeppum út í beljandi stórfljót (úúúaaaahhh-þessi er bara killer).
4. Karlmenn sem sýna börnum umhyggju án þess að gera sér upp gervilegt "barnafas".
5. Karlmenn sem horfa í augun á manni á alveg sérstakan hátt.

Og nú langar mig í fyrsta sinn á ævinni í jeppa. Grái fiðringurinn? Erfitt að segja.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Ætla bara...


að láta ykkur vita að ég er dauðuppgefin. Var að koma úr Þórsmörk. Búin að vera tvær nætur í tjaldi; fyrst í Skógum, svo inni í Mörk. Labbaði 5-vörðuháls á laugardaginn með góðu fólki og það var rosa gaman. En nú er ég þreytt og búin og lúin. Hjalti minn var eina barnið í ferðinni og stóð sig frábærlega. Gekk þessa tæpu 23 km einbeittur og glaður, ekkert vesen eða kvartanir. Hann er svo duglegur og ég er svoooo montin af litla fjallagarpinum mínum. Síðhærða undrið á myndinni er einmitt Hjalti í smá pásu.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Gengum saman nokkrir vinnufélagar...

á Nesjavöllum í gær, frá Nesbúð að Nesbúð í hring sem merktur er með dökkgrænum stikum. Mæli innilega með
þessari gönguleið, þetta er tveggja tíma labb og maður sér fjölbreytt landslag og alla heimsins liti (m.a. blá bláber). Mér tókst að draga drengina mína tvo með í gönguna, gegn loforði um Mcdonalds hamborgara að leiðarlokum (þessi uppeldisaðferð (mútur) hefur reynst bauninni afar vel í áranna rás).

Okkur göngugörpum var sagt eitt og annað um virkjunina og það var nú býsna fróðlegt en ég er búin að gleyma því næstum öllu af því að tæknilega heilastöðin í mér er teflon-húðuð.

Í dag borða ég mikið grænmeti af því að það er svo gott. Keypti nýuppteknar gulrætur og alls kyns kálmeti hjá bóndanum á Reykjum, en þar er grænmetið selt svo glænýtt og gott að maður á ekki orð (af því að maður étur bara stanslaust).

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Ég er ekki með veiðidellu.

En, það var rosa gaman í veiðiferð með fjölskyldunni. Gamla settið bauð okkur systkinunum einn dag í Stóru Laxá í Hreppum, með öllu okkar hyski og viðhengjum. Veðrið lék við okkur en laxinn lét lítið sjá sig. Pétur veiddi reyndar einn og kom honum á land en laxinn ákvað að skella sér aftur út í, sleit línuna og tók spúninn með sér. Nú er hann svalasti pönkarinn í ánni, með svartan tóbí í munnvikinu. Ég sá einn vænan lax stökkva upp úr ánni (hann beit á hjá Pétri en slapp) og það var næstum nóg til að ég fengi veiðidellu. Ég ræktaði frummanninn í mér á fleiri vígstöðvum, gróf holu og moð-grillaði þrjú væn læri. Maturinn var óviðjafnanlegur mmmm..smjatt og við skemmtum okkur öll frábærlega, börn og fullorðnir. Og ég sem hélt að fjölskyldan mín væri ekkert svo skemmtileg. En hún er það bara. Kannski við ættum alltaf að vera í veiðiferð.

föstudagur, ágúst 05, 2005

Er að fara í ...

veiðiferð. Eina sem ég hef hingað til veitt á ævinni eru flugur sem hafa álpast uppí mig þegar ég hjóla. Þá er ég náttla meira fiskurinn í jöfnunni. Kannski dæmið snúist við um helgina, læt ykkur vita.

mánudagur, ágúst 01, 2005

Mér finnst mjög dularfullt...

já, bara algerlega óskiljanlegt, að strákarnir mínir skuli ekki nenna að taka til. Það sést ekki í gólf í herbergjunum þeirra fyrir drasli (dóttir mín er reyndar líka svona en ég er löngu hætt að býsnast yfir því). Dæmigerð samtöl á heimilinu er svona:

Baun: Matti minn, taktu nú til í herberginu þínu.
Matti: Æ, ég nenni því ekki núna.
Baun: Jú, þú veist að þú þarft að gera það hvort sem er.
Matti: Ég geri það kannski á morgun.

Baun: Hjalti minn, taktu nú til í herberginu þínu.
Hjalti: Nei.

Ég hef komist að því að "núna" er aldrei rétti tíminn til að taka til. Eins er því farið þegar ég rek drengina í bað. Þá er "á morgun" alltaf heppilegri tímasetning. Merkilegt. Ætla að finna lausn á þessu athyglisverða vandamáli. Á morgun.