laugardagur, ágúst 27, 2005

Bee Gees og japönsk háttvísi.

Er að elda gúllas (sem sonum mínum finnst svo gott), dreypi á rauðvíni, unaðslegur matarilmur í nösunum og til að fullkomna stundina dúkka Bee Gees upp á Rás 2. Og mér líður bara dæmalaust dægilega.

Hins vegar voru strákarnir mínir elskulegir að leika sér í stofunni áðan með sínum venjulega hamagangi og í látunum brutu þeir glas sem ég keypti í París þegar ég var um tvítugt. Man svo glöggt þegar ég keypti þessi litlu, litríku staup og afgreiðslumaðurinn, lítill og sveittur, útskýrði fyrir mér með miklu handapati og fransk-ensku blandimáli, hvernig karlastaupin og kvenstaupin væru frábrugðin. Kvenstaupin eru þannig að þegar konan drekkur þá heyrist flaut (hún á að vera að lokka til sína karlinn). Karlastaupin eru þannig að þegar glærum vökva (Sakí) er hellt í þau þá birtist á botni staupsins allsber kona (uppúr þurru, nei ég meina blautu) sem pósar glyðrulega en þó af háttvísi. Ætli karlinn eigi þá að hugsa um aðrar konur en þá sem hann er með? Eða eru þetta staup fyrir piparsveina og jómfrúr? Hreinlega veit það ekki en....mér fannst þetta allt ákaflega merkilegt í denn og keypti 6 staup, þrjú fyrir konur og þrjú fyrir karla. Hef nú lítið brúkað þau og aldrei á hefðbundinn japanskan hátt, verð að játa það. En ég held að strákarnir mínir séu komnir á þann aldur að þykja svona lagað voða fyndið og forvitnilegt. Nema hvað.

Engin ummæli: