föstudagur, febrúar 29, 2008

Tíkin og ljóti kallinn

Politics is supposed to be the second oldest profession. I have come to realize that it bears a very close resemblance to the first.
Ronald Reagan (1911-2004)

Níu. Níu prósent. Níu prósent styðja núverandi borgarstjórn. Það þýðir að 91% styðja hana ekki, ef mér reiknast rétt, en ég er svo sem enginn sérfræðingur.

In politics you must always keep running with the pack. The moment that you falter and they sense that you are injured, the rest will turn on you like wolves.
R.A. Butler (1902-1982)

Og mikið hroðalega er hann ljótur þessi Lordí-kall sem er að tala við hið ljósa man.

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

baun reið kalkúnanum..

eða þannig. Þvílíkt ruglatriði.

miðvikudagur, febrúar 27, 2008

All kinds of everything...

"Dana reið kalkúnanum"*



*fyrirsögn í Fréttablaðinu í dag

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Kögglum hlaðin

Við erum ábyrg gerða okkar. Við erum ábyrg orða okkar.

Vona samt að við göngum ekki svona langt.

Er með böggum hildar þessa daga, allir í kringum mig þrúgaðir af kreppuspádómum og verðbólgurausi. Og bölvaður króníski mínusinn í skítabankanum glottir við tönn. Stóð mig að því að hnussa yfir fréttum af listahátíð og tuða "hvað er verið að spandéra stórfé í uppskrúfaða list, helberan úþarfa". Til að æra óstöðugan er svo slengt framan í mann að geðdeyfðarlyf verki ekki á (ó)lundina. Mér er þá óhætt að halda áfram að taka lýsi og láta þar við sitja, þrátt fyrir stöku tímabil þar sem ég bugast af lúxusprobblemum.

Gæti kannski látið dáleiða bjartsýnis- og orkuköggul í brjóstið á mér?

mánudagur, febrúar 25, 2008

LI-merki

Vakna á hverjum morgni við það að ég stend í sturtu. Hef áhyggjur af einu. Það kemur æ oftar fyrir að ég hafi ekki græna glóru um hvort ég sé búin að þvo hárið eða ekki.

Gladdi mig að heyra í fréttunum áðan að einhver eldgamall dúddi er farinn að skera fólk upp við alshæmer. Játa hér með semingi að ég er farin að drekka grábland, silfurte, ljósavatn...svona stundum. Og setja af og til upp kisuleg gleraugu vegna "aldurstengdrar fjarsýni". Ekki samt komin með áhuga á ættfræði. Sennilega tímaspursmál.

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Gult stolt

Gula gúmmíhanskaþemað í Dr. Spock, hvar ertu nú?, fannst mér býsna fyndið, þótt lagið hafi í mínum eyrum verið lítið annað en óþægilegur hávaði. Það skal upplýst hér og nú að um búninga og sviðslúkk sáu bróðir minn og kona hans, þau Jón Örn og Magga. Brósi bjó m.a. til akandi gúmmíhanskann og stýrði um sviðið í gærkvöld. Þótt hann sé litli bróðir minn, var hann ekki inni í hanskanum, heldur baksviðs með fjarstýringu (skýring fyrir ykkur ótæknilega fólkið). Ég er að sjálfsögðu afar stolt af bróður mínum, enda var þarna á ferð flottasti fjarstýrði gúmmíhanski sem ég hef séð lengi.

Hér má sjá útsendingu frá úrslitakvöldinu, Dr. Spock birtast á sviðinu 1:04.

Svo er lag að plögga fyrirtæki litla bróður, en það heitir Margt og merkilegt. Tékkið á því!

Baunerwisserdraumur

Í morgun vaknaði ég með leifar af draumi í haus. Í draumnum gat fyrrverandi tengdamóðir mín ekki myndað hljóðið "d" og fyrrverandi tengdapabbi og sonur hans voru að rembast við að kenna henni "d" með því að láta hana segja "p" í sífellu. Þetta fór svo í taugarnar á mér að ég heimtaði að fá að kenna þeirri gömlu "d" á réttan hátt og fór með lærða tölu fyrir feðgana um tannbergsmælt hljóð, teiknaði skýringarmyndir á eldhússkápana heima hjá þeim og sýndi á pedagógískan hátt hvernig maður bæri sig að við slíka framburðarkennslu.

Þeir horfðu á mig dálitla stund og héldu síðan áfram að láta fyrrverandi tengdamóður mína endurtaka "pépépé".

laugardagur, febrúar 23, 2008

Hækkandi óráðsíuvísitala

Hafið þið gert ykkur grein fyrir því hversu mjög óráðsía og flottræfilsháttur landans kostar okkur? Þetta lið sem kaupir rándýra montéppa og lætur laga hverja smárispu og beyglu veldur stórfelldri hækkun iðgjalda tryggingafélaga. Fór yfir málin um daginn hjá mínu félagi og komst að því að á aðeins tveimur árum höfðu ársiðgjöld mín hækkað um 40 þúsund krónur, og munaði þar mestu um hækkun bifreiðatrygginga og keyri ég þó alltaf um á sömu gömlu druslunni. Einn dúddi sem ég vinn með ræðir reglulega við sitt félag, hótar að fara annað með tryggingapakkann sinn og við það bjóðast honum undantekningalaust betri kjör. Þessu hef ég aldrei nennt að standa í, þoli ekki svona rugl, fáránlegt að þurfa að prútta eins og arabi um alla skapaða hluti. Veit að lífið er tík og táradalur og ekkert réttlæti í heiminum en hví, ó hví, þarf þetta að vera svona? Heilagur skítur hvað fjármál eru leiðinleg.

Hvort sem þið trúið því eða ekki þá er ég í massa góðu stuði að glápa á laugardagslögin. Held ég haldi með Ragnheiði Gröndal. Rosa flott hjá henni.

föstudagur, febrúar 22, 2008

Heillandi málhelti

Já, já. Alltaf gaman að gera grín að fólki sem getur ekki talað alminlega. Eða þannig.

Mér finnst þetta reyndar mjög fyndin mamma.

fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Mér finnst Össur leiðinlegur við Gísla Martein*

Fékk nettan hroll þegar ég heyrði í útvarpinu að Kaupþing væri í útlöndum álitinn svo lélegur banki að hann gæti farið á hausinn, væri metinn eins og lummó ítalskur sveitalarfabanki. Og ef hann verður gjaldþrota þá þarf hver Íslendingur að greiða 13 milljónir, til að standa undir ábyrgð ríkisins á bankanum. Hvað verður um skuldirnar mínar og börnin?

Auk þess bíð ég spennt eftir að fá tilboð um að þjálfa landsliðið í handknattleik.



*þessi fyrirsögn kemur djúpvitrum vangaveltum mínum í hagfræði ekki rassgat við

miðvikudagur, febrúar 20, 2008

Steikið okkur

Splatterblogg
Uppskrift:
Skerið smátt helling af grænmeti og setjið í skál. Sturtið á sjóðheita pönnu, helst þannig að það hlunkist í einum klumpi ofan í snarkandi feiti. Æpið. Kælið smástund og haldið síðan áfram að elda.

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Húsflúr og húðflúr

Mér var svo létt þegar nýi borgarstjórinn tók við völdum. Loksins borgarstjórn með skýra stefnu, t.d. um flugvöllinn. Hún ætlaði að bretta upp ermar og láta hann vera. Nóg að gera á stóru heimili.

Og nú er aftur gengið vasklega til verks. Borgarstjórn ætlar að leyfa húseigendum að bera ábyrgð á veggjakroti sjálfir, borgin hyggst sumsé hætta að þrífa það af húsum nema gegn greiðslu. Það er í sjálfu sér ágætt að skattpeningarnir fari ekki allir í þvætti, en ofrausn hjá Gísla Marteini að presentera þetta sem algjört æði og stórkostlegar framfarir eins og ég heyrði hann gera í útvarpinu áðan.

Þekki mann sem var tattúveraður sofandi. Er það ekki næsti bær við veggjakrot?

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Fíflamjólk er beisk á bragðið

Þar sem biturð mín hefur verið langt undir viðurkenndum Evrópustöðlum undanfarið ætla ég, ykkar vegna, að telja upp nokkra hluti sem fara í taugarnar á mér. Tilgangur: (ófjármálatengd) útrás.
  1. Allar auglýsingar um kraftaverkakennd hreinsunarefni, sérstaklega vanisoxí.
  2. Þegar maður sker sig á pappír. Er svo asnalegt og vont.
  3. Flest ilmkerti og óhófleg notkun ilmvatns. Fuss!
  4. Þegar fólki er fyrirmunað að líta í eigin barm, tekur ekki ábyrgð á eigin hegðun og eyðir allri sinni orku í að kenna öðrum um það sem aflaga fer.
  5. Reykingar.
  6. Þegar fólk gefur gjafir en ætlast til einhvers í staðinn (án þess að taka það fram) og heimtar jafnvel gjöfina til baka þegar það telur sig ekki hafa fengið kaup kaups.
  7. Slökunartónlist (fær hárin til að rísa á höfði mér).
  8. Flottræfilsháttur og snobb, t.d. frétti ég að setja eigi nautshúð á 1000 fm gólfflöt nýs húsnæðis Baugs.
  9. Húmorsleysi.
  10. Þegar fólk í sjálflægni ofles á milli lína og uppáhaldið mitt: er sko alveg með á hreinu hvað aðrir eru að hugsa.
  11. Gervivísindablaður í snyrtivöruauglýsingum, "húðin verður 89% fallegri/mýkri/sléttari/", "rannsóknir sýna að Q6 minnkar appelsínuhúð um 78,9%", "í Xanadú kreminu eru fjölróttækir nanókvarkmiðlar sem hvatrímast á gegndræpan hátt við kjarnsýrðar frumulausnir ysta lags húðarinnar".
Verum spök og munum eftir kartöflunum.

Fjórir gulir plastpokar

Hér kemur hugmynd (áhrifaríkast er að velja kaldan, gráan rigningardag).

Kveddu ástvin sem þú veist ekki hvenær þú færð að hitta aftur. Harkaðu af þér, sjúgðu upp í nefið og gleymdu tárunum. Farðu ein/n í Bónus, leggðu bílnum langt frá inngangi svo hráslaginn nái að kæla þig inn að beini. Tíndu matvöru handahófskennt upp í rangskreiða kerru, skildu hjarta þitt eftir í kjötinu og finndu lífsþróttinn molna í kexdeildinni. Sjúgðu aftur upp í nefið. Veldu biðröð fulla af kverúlöntum sem finna sig knúna til að deila um verðlagningu á þriðja hverjum hlut við náföla afgreiðslustúlku sem skilur hvorki íslensku né ensku. Leiddu hjá þér blaðsölurekka uppstilltra skælbrosa og hlaðborð harma og ógæfu. Upplifðu djúpstæðan leiðann í augum samferðamanna þinna. Í biðröðinni í Bónus. Sjúgðu upp í nefið, þú ert ábyggilega að fá kvef.

Æ, sunnudagar.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Ekki án efa í óvissu sinni

Ég er svo lélegur trúleysingi. Lin í ekkitrúnni. Hálföfunda fólk sem lifir í vissu um að til sé guð og framhaldslíf og búttaðir englar á skýi. Get ekki trúað á guð almáttugan skapara himins og jarðar þótt það væri býsna notalegt að gera sér vonir um svífandi sálarbaun um eilífðarsali. En ég á svo erfitt með að trúa á hluti sem mér finnast ekki í takt við heilbrigða skynsemi. Trúi reyndar ekki á heilbrigða skynsemi, en reyni að beita henni. Þegar ég nenni.

Valentínusardagur í gær. Trúði ég á hann? Nei. En á Íslandi eru, skv. Hagstofunni, sjö karlmenn sem bera nafnið Valentínus. Hallast að því að þeir séu til og vona að þeir eigi sér fagurt líf, fullt af ást.

Letin liggur í hengirúmi og efast. Það getur hún.

þriðjudagur, febrúar 12, 2008

Afmælistáningur

Hjalti Elías er 13 ára í dag. Yngsta barnið mitt sumsé orðið táningur *dæs*.

Hjalti er mikill sögumaður og teiknari og borðar aldrei kartöflur.

mánudagur, febrúar 11, 2008

Björt eru stellin stjarnanna

Þegar amma var ung voru næstum allar tönnurnar rifnar úr henni (án deyfingar). Ein eða tvær voru skemmdar og fyrst búið var að sækja tannlækni, þótti við hæfi að nýta ferðina og láta kippa rest og fá alminlegar gervitennur. Þær þóttu bæði fallegri og vandræðaminni til brúks en þessar rótföstu.

Er að horfa á þátt í sjónvarpinu þar sem hópur vel snyrtra karla og kvenna með áhyggjusvip leysir subbulega morðgátu. Þetta laglega og bráðvel gefna fólk er með ofurhvítar tennur, reyndar svo hvítar að það gæti hæglega beitt sínu bjarta brosi í stað yfirheyrslulampans góðkunna úr gömlu stríðsmyndunum.

Bláhvítar tennur gera voða lítið fyrir mig. Sjáið þið Erlend fyrir ykkur leysa málið - í lopapeysu og með hvíttaðar tennur?

sunnudagur, febrúar 10, 2008

Síróp, wasabínöfnur og ljóð

Í gær bjó ég til enn eina lögunina af vanillusírópi. Búin að gera nokkra vinnufélaga mína háða þessu stöffi og fólk farið að kvarta yfir sírópsleysi í kaffihorninu. Fyrst tuðaði mannskapurinn, "hnuss, síróp í kaffi!" og svo fór fólk að spyrja "Beta, hvar er sírópið?"

Takið eftir skálinni með fagurgrænum nöfnum mínum. Þetta eru wasabi baunir. Dúndurgóðar og sprikla í munninum eins og sjö samúræjar.

Fékk frábæra ljóðabók í afmælisgjöf. Hún heitir Blótgælur og er eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur. Á skalanum vanillusíróp - wasabi baunir er bókin nær wasabíinu.

laugardagur, febrúar 09, 2008

Þessi maður

Þessi maður líkti höfðinu á mér við félagsheimili úti á landi. Þessi maður kann að smíða, rafvirkjast og elda guðdómlegan mat. Þessi maður er með stóran haus, fullan af sögum. Þessi maður er með blíðustu og bestu hendur í heimi. Þessi maður er búinn að jóðla fyrir mig og syngja valin lög úr Sound of music, án augljósra hæfileika til söngs. Þessi maður kemur mér alltaf til að hlæja.

Þessi maður er fallegur yst sem innst.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Skaflar

Eftir að hafa eytt 40 mínútum í spól og snjómokstur í morgun og skrensað til og frá á veginum á leið til vinnu, kveikti ég á útvarpinu. Þar heyrði ég tilkynningu um að fólk á vanbúnum bílum ætti ekki að vera í umferðinni. Mér fannst nokkuð til í því.

Mamma sagði við mig í dag að það væri aldrei of mikið af ást og hamingju í heiminum og gleðiefni að bættist í það púkk. Svona í kosmísku samhengi. Sammála mömmu. Og hamingja er smitandi. Nema sumir eru reyndar fjölónæmir og láta bros og gleði fara óskaplega í taugarnar á sér, telja á einhvern hátt að sér vegið ef aðrir eru að meðaltali glaðari en þeir. Svei mér ef sumum líður ekki best illa.

Ég ætla að brosa í fyrramálið. Þótt ég þurfi að skafa og moka. Þetta er ákvörðun og val.

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Harka

Í gær sprakk ofn í geymslunni minni. Það olli miklu flóði hjá fólkinu á neðstu hæðinni, reyndar svo miklu að öll gólfefni eru ónýt hjá þeim.

Gamli pottofninn minn frostsprakk á limminu, hreinlega klofnaði í herðar niður.

Veturinn aldeilis með attítjúdd þetta árið.

mánudagur, febrúar 04, 2008

Útsala útsala

Á gufunni glymja um þessar mundir auglýsingar um tilboð á legsteinum.

Mér og börnunum finnst þetta dálítið sérkennilegt og ræddum yfir kvöldmatnum ýmsa vinkla á svona tilboðum. Spáðum í sölumennsku í þessum geira, hvort heppilegt væri að selja legsteina í síma (ég sagðist mundu hrökkva í kút ef einhver hringdi og spyrði hvort ég hefði hugsað út í kaup á legsteini). Sáum líka fyrir okkur sölumenn sem gengju í hús og seldu legsteina. Hjalti minn sá fyrir sér teiknimyndaauglýsingar, t.d. þar sem fyrir kæmu tvenn öldruð hjón, hroðalegir dauðdagar gömlu kallanna og tvær miskátar ekkjur (önnur forsjál í steinamálum en hin ekki). Spáðum í "tveir fyrir einn" tilboð, eða "kauptu tvo og fáðu þriðja ókeypis". Okkur fannst þetta drepfyndið þótt eðli málsins samkvæmt sé málefnið grafalvarlegt.

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Flugstöðvarmas

Enn er ég að blogga á flugstöð. Er á leiðinni heim á skerið sem mér skilst að hafi frosið til andskotans á meðan ég var að spranga um í Köben.

Þessi ferð hefur um margt verið athyglisverð. Var boðið út að borða á afmælinu mínu - á veitingastaðinn Noma, sem skartar tveimur Michelinstjörnum. Þar er norræn matarhefð rifin upp úr hversdagsleika hrökkbrauðs svo um munar. Hef aldrei á ævinni séð jafn frumlega rétti fram borna. Á borðum voru m.a. næfurþunnar hnetuflísar með rúgbrauðsmylsnu og karsa, skorsonrót með "mjólkurhúð" (seig skán af flóaðri mjólk held ég), brauðbollur með skyrsmjöri og margt fleira. Eftirrétturinn var kúmenís með kartöflum, brúnuðum í sykri og ákavíti.

Mér var einnig boðið í leikhús. Fórum á Blóðbrúðkaup eftir Lorca. Frábær sýning, sérstaklega tónlistin. Ástríður og blóðhiti, grimmd og illgirni, fáviska og hefndarþorsti. Allt bara eins og í raunveruleikanum.

Og nú er að takast á við hversdaginn. Sem betur fer er hann iðulega ágætur í mínum ranni.

föstudagur, febrúar 01, 2008

Skór við hvert fótmál

Í útlöndum kaupir maður skó. Þetta veit hvert mannsbarn.

Fann þessi þrjú pör á Nørrebro og þar gengum við í heilagt fótaband (sk. fjölskókvæni). Fór líka á Laundromat Café, sem er í eigu Íslendinga, og mikið asskoti er það huggulegt og fínt. Þjóðremba er góð með kaffinu.

Kaupmannahöfn rokkar.